Þegar Bergur sagði við mig í símanum að honum seinkaði aðeins þá féllust mér alveg hendur. Ég gat ekkert sagt lagði tólið á símann og byrjaði að gráta. Ég horfði á litla barnið mitt í vöggunni sem ég kom heim með í hádeginu. Klukkan var half tólf og hann hafði farið út kl. tvö og sagðist verða að klára verkefni í vinnunni það myndi taka 1 – 2 tíma. Nú voru komnir níu og hálfur tími!
Alveg frá þvi að litla snúllan kom í heiminn var Bergur búinn að suða í mér að koma heim, það væri svo leiðinlegt að vera einn í kotinu með stelpurnar. Hann lofaði að taka viku frí til að vera heima á meðan ég jafnaði mig eftir keisarann og hann skyldi bera mig á höndum sér. Ég lét undan og kom heim. Í einfeldni minni hélt ég að hann myndi standa einu sinni við orð sín en svo var aldeilis ekki, ekki fremur venju.
Andlaus horfði ég á litla barnið mitt og hugsaði hvort ekki væri betra að ég yfirgæfi þennan heim strax á meðan barnið hefði ekkert vit á þvi eða hvort ég gæti lifað í nokkur ár til viðbótar. Ég vissi innst inni að ég hafði enga möguleika, Bergur var algjörlega óhæfur sem faðir og ekki var hægt láta hann einan um uppeldi barnanna. Þrauka varð ég hvernig sem ég færi að því.
Hugsanirnar voru í einum graut og fóru hring eftir hring í hausnum á mér; var þá nokkuð verra að ég léti verða af þessu og tæki börnin með mér í dauðann. Ekki gat beðið neitt verra fyrir þær hinum megin en það sem var í þessu eymdarlífi. Væri ekki einhver góður staður sem biði okkar allra, nú ef ekki þá fjárinn hafi það vissum við ekkert af því og okkur gæti því ekki liðið illa.
Reiðin var að ná tökum á mér. Mannfjandinn, mannfýlan, drullusokkurinn ……. Ég var orðin svo reið að ég gat ekki munað öll orðin yfir svona menn en vissi að þau væru örugglega öll smíðuð bara fyrir hann. Það væri réttast að hann stykki í sjóinn og léti sig hverfa. En nú hitti fjandinn ömmu sína, sá skyldi sko fá að finna fyrir því.
Yndislega litla veran í vöggunni byrjaði að ambra, ég tók hana upp og gekk í hægðum mínum upp á loft þar sem ég stóð í smá stund yfir rúmum telpnanna og þakkaði Guði fyrir þetta fjárans fífl, hann hefði þó getað gert eitthvað rétt í lífinu.