Þessi smásaga er sú fyrsta sem ég sendi hér inn, svo vinsamlega gangrýnið hóflega.

Ég var búinn að vera atvinnulaus í rúman mánuð þegar ég fékk loks starf sem þjónn á veitingahúsi í bænum. Það var svolítið undarleg tilfinning að vera kominn á nýjan stað, þar að auki í fyrsta sinn sem þjónn.
Fyrsta daginn var ég aðallega að reyna að læra á hlutina. Í lok dagsins var ég búinn að ná öllm aðalatriðunum og var orðinn nokkuð öruggur með mig þarna.
Annan daginn gekk allt ennþá betur en fyrsta og svo kom líka nýr þjónn í vinnuna, nokkuð myndarleg stelpa á svipuðum aldri og ég. Ég var settur í að kenna henni á kerfið, hvernig allt virkaði.
Við náðum strax vel saman. Ég skynjaði eitthvað nýtt og ferskt við hana, það var eitthvað í fari hennar sem heillaði mig gjörsamlega upp úr skónum, ég var að verða ástfanginn af henni. Einnig var það stór plús að einn kokkanna hafði sagt mér að hún væri ekki með strák. Dagurinn varð alltaf betri og betri. Ég held að ég hafi átt jafn skemmtilegan dag á vinnustað.
Um kvöldið bauð ég henni far heim þar sem hún var ekki sjálf á bíl. Á leiðinni í bílnum höfðum við nægan tíma til að tala saman því hún átti heimá í hinum enda bæjarins. Þegar við vorum komin heim að húsinu hennar þakkaði hún mér fyrir daginn og sagðist, til að koma í veg fyrir allan misskilning, vilja að ég vissi að hún væri lesbísk.
Ég brosti og sagði:“Það er allt í fína, við sjáumst á morgun, bless.” og keyrði heim.
Ég fór inn í stofu, settist í sófann og starði á vegginn.