Ímyndaðu þér skóg. Stóran og gamlan skóg rétt utan við gamalt og yfirgefið þorp með lauftrjám og barrtrjám. Þú stendur fyrir framan mjóan, silfraðan stíg sem hlykkist inn í þykknið. Þú byrjar að ganga meðfram stígnum, þú vilt ekki stíga á hann vegna hversu brothættur hann virðist. Skógurinn verður þrengri og þrengri svo að innan skamms ertu neyddur til að ganga á stígnum. Þú finnur að hann sígur létt undir fótum þínum, en er þó jafn spegil sléttur og áður. Þú gengur áfram og lítur upp. Skógurinn hefur myndað þak yfir höfði þér, svo að þú sérð ekki himininn og þú fyllist öryggistilfinningu. Skógurinn verður dimmari og dimmari, en stígurinn lýsir þér leið milli greinanna. Eftir örskamma stund ertu kominn inní stóra hvelfingu. Laufið yfir þér blístrar í rólegu logninu. Þú horfir fram fyrir þig og sérð gyllt vatn. Þó flokkast það eiginlega undir poll, svo lítið er það. Þú sérð pínu litla kristalsflösku standa á fallegum viðar bekk við pollinn. Þú gengur að bekknum og tekur flöskuna upp, sem hverfur í lófa þínum, og opnar hana. Hún er tóm. Þú berð stútinn að pollinum og fyllir hana. Þegar þú ert búinn að loka flöskunni snýrðu þér við, en þá er stígurinn horfinn. Þú leitar um alla hvelfinguna, en finnur ekki stíginn. Blístrið í laufinu er orðið svo hávært að þú þarft að taka um eyrun svo að þú ærist ekki. Þú opnar flöskuna í flýti og hellir vatninu aftur í pollinn. Blístrið þagnar og þú sérð stíginn opnast fyrir augum þínum. Þú fleygir flöskunni á jörðina og hleypur aftur til baka. Laufgreinarnar slást í andlit þitt svo að litlar rispur myndast á kinninni. Þú hleypur áfram, endalaust, gleymdur í skugga trjánna, fastur með minninguna í höfði þér. Aldrei að treysta því sem virðist fallegt til að gefa þér allt.

——————————

Þetta er fyrsta “sagan” mín, svo að verið góð við mig ;)