Ég er byrjandi, ekki skemma mig, þetta er fyrsta smásagan mín :)
————————————————— —————

Hvers vegna gat hann ekki bara hætt þessu? Af hverju öskraði hann ALLTAF á hana ef hún hafði eilítið of hátt, bylti sér of oft í rúminu eða las Moggann of hægt? Það var liðinn langur tími síðan hún byrjaði fyrst að hugsa um að gera þetta. Langur, langur tími. En litla, vanmáttuga sálin hennar fékk þetta ekki af sér. ,,Hvað mun fjölskyldan mín gera?” hugsaði hún og horfði fram af klettinum og niður í sjó.
Hún stóð á brúninni og vindurinn lék um hár hennar. Hún fann hvernig löngunin til þess að láta bara vaða náði nánast yfirhöndinni.

Maðurinn hennar hafði eyðilagt sálina, hann hafði barið hana svo oft, kallað hana svo mörgum hræðilegum nöfnum. Svona átti lífið ekki að vera, þau höfðu gifst fyrir tveim árum og þá gat hún ekki beðið eftir framtíðinni. Skilnaður var ekki nóg, hjarta hennar var uppgefið, hún var þreytt á að lifa svona, þetta gat ekki haldið áfram niður þessa braut.
Til þess að bæta gráu ofan á svart hafði hann farið á tugi fyllería á hennar kostnað, komið heim og þröngvað sér á hana. Nei, lífið var næstum ónýtt. Aðeins ein leið var fær til þess að binda enda á þennan sársauka. Hún dróg djúpt andann og safnaði öllum þeim krafti sem hún hafði í sínum litla og fíngerða líkama, og byrjaði að biðja ástvini sína afsökunar á framferði sínu í huganum. Kraftarnir voru orðnir á við vaxtarræktarkappa, hún tók sig saman í andlitinu og lét vaða……


Hún horfði á eftir þessum ljóta, gamla eldhússtól sem maðurinn hennar hafði setið emjandi í, allan þann tíma sem hún hafði notað til þess að hugleiða þrautagöngu sína. Hún hafði bundið hann við stólinn og loks fleygt helvítinu fram af klettinum. Hann féll niður þessa miklu hæð og hún heyrði öskur mannsins síns bergmála.

,,Hugur minn er loksins laus við alla þessa þjáningu, ég get lifað áfram, ein með sjálfri mér.” hugsaði hún á meðan hún horfði á síðustu sekúndur ævi þessa grimma manns eins og gamla, lélega bíómynd.
…….Henni var alveg sama.