Með skringilegt bros á vörunum réttir afgreiðslustelpan mér kvittunina og afganginn. “Takk fyrir viðskiptin og vertu velkominn aftur.” Brosir áfram einsog hún sjái mig ekki, hún er vélmenni.
Ég tek við kvittuninni og afgangnum og labba útí kuldann. Vindhviða feykir húfunni af hausnum á mér og ég blóta einsog brjálaður banani. Svo hleyp ég á eftir húfunni, á móti vindinum, vindurinn á móti mér. Húfan liggur þarna grafkyrr og ég er fljótur að grípa hana áður en hún fýkur aftur frá mér. Einsog allt annað, allt annaðhvort á móti mér eða fer frá mér. Dusta snjóinn af húfunni og set hana á hausinn. Labba stefnulaust áfram. Mig langar ekki heim, þar er enginn til að taka á móti mér, enginn til að faðma, kyssa og deila lífi með. Ég er einn, einstæðingur, einhleypingur, einmana. Ég hata þessi orð; ein, ein, ein… Bara að það væru tveir, einhver annar einn og ég. 1+1=2. Tvö saman.
Ég labba áfram, í hringi, fer heim. Tek upp lykilinn með hálffrosnum puttunum og sting honum í skránna. Opna hurðina og fæ hitann í andlitið. Hann stingur mig í kinnarnar og ég fer úr úlpunni og hendi henni á gólfið. Ég sem er vanalega svo snyrtilegur. Kveiki ljósin, það er ekkert verra en slökkt ljósin þegar að maður kemur heim. Merki þess að maður sé einn. Ég sest á sófann og sit þar. Bíð eftir engu, bíð bara. Horfi á vegginn og í smástund er ég ekki til. Mig svimar og ég leggst útaf á sófann. Tárin byrja að renna; ég er svo einn. Það er kannski fólk þarna sem líður eins og mér. Bara að við værum saman. Allt einmana fólk heimsins að faðma hvort annað og veita félagsskap. Ég sest upp og teygi mig í fjarstýringuna. Það þýðir ekkert að hugsa svona.


Takk fyrir mig
Ibex

Ef þið viljið lesa fleiri sögur eftir mig þá bendi ég ykkur á kasmir síðuna mína.