Á sama tíma

„Viltu færa þig frá?“
Konan leit pirruð upp á piltinn sem hékk í kring um hana og gretti sig. Honum leiddist, hann hafði verið í tölvunni en nennti því ekki lengur og vissi ekki hvað hann ætti að gera. Einu vinir hans sem hann nennti að tala við núna voru annað hvort uppi í sveit eða úti í útlöndum og honum datt ekki einu sinni í hug að taka upp bók, svo að hann vafraði bara í kring um mömmu sína og var fyrir.
Hann hlunkaðist niður í stól við beiðninni en hélt áfram að stara á hana og stynja.
„Hvað viltu?“ sagði konan eftir stutta stund. „Nei, allt í lagi, ég veit að þú veist það ekki en getur þú ekki fundið þér eitthvað að gera? Þú ert orðinn tólf ára og átt að vera hættur að þurfa mig til að taka ákvarðanir fyrir þig!“
„Já, já, já. En hvað á ég að gera?“ svaraði hann og glotti svo við svipnum á mömmu sinni. „Æ, ég bara nenni ekki að gera neitt!“ vældi hann og velti sér í stólnum þannig að hann lá á bakinu með fæturna upp í loftið og horfði á mömmu sína á hvolfi.
„Þú getur gert þig gagnlegan og tekið til og þurrkað af…“ hún náði ekki einu sinni að klára uppástunguna þegar strákurinn neitaði þverlega. Hún hnussaði og brosti háðslega, „Datt mér ekki í hug! Þá gætir þú kannski farið út í göngutúr, það er svo gott veður!“
„Neih, það er bara gamlingjar sem fara í göngutúra og labba svo rosa hægt og taka hænuskref, eða eitthvað!“
Mamma hans flissaði sem varð til þess að hann brosti og snéri sér aftur við í stólnum og reyndi að finna eitthvað meira sniðugt að segja. En áður en hann kom upp með nokkuð kom móðir hans með nýja uppástungu, eða beiðni:
„Gætir þú ekki farið og gáð að systur þinni fyrst þú ert svona ólmur í að gera eitthvað? Hún er búin að vera dálítið lengi úti í sjoppu.“
„Æh nei! Það er bara mikið að gera eða eitthvað! Hún er hinu megin við götuna, það þarf ekkert að gá að henni.“ strákurinn settist á gólfið hjá móður sinni.
„Það er aldrei mikið að gera á þessum tíma dags,“ svaraði móðir hans, „en ég er bara að koma með einhverja uppástungu svo að þú farir og látir mig í friði! Þú mátt gera hvað sem þú vilt ef þú ferð bara og lætur mig vera fram að mat!“
„Oh!“ strákurinn stundi en reis þó þunglamalega á fætur og fór að klæða sig í skóna. Þeir voru dökkbláir eins og systur hans, en þó ekki eins, hans voru reimaðir undir tunguna en hennar voru með frönskum rennilás. Hann var í sumarsíðbuxum og í gráum stuttermabol og setti upp rauða derhúfu, eins og þá sem uppáhalds söngvarinn hans var alltaf með, áður enn hann fór út.
Hann lallaði niður tröppurnar og hugsaði um það afhverju systir hans væri svona lengi í sjoppunni. Hann gekk álútur en þegar útidyrnar lokuðust á eftir honum leit hann upp og yfir götuna á sjoppuna sem var beint á móti húsinu. Rétt í því kom systir hans hlaupandi út og hrópaði:
„Það vinnur álfur í sjoppunni!“