Hún settist upp og leit á úrið sem glampaði í tunglsljósinu. Tuttuguogtvær mínútur tvö. Hún lagðist aftur niður og reyndi að sofna en gat ómögulega lokað augunum. Einkennileg hljóð heyrðust af ganginum. Herbergið byrjaði að fyllast af hræðilegum skrímslum sem voru í laginu eins og fataskápurinn hennar og aðrir hlutir sem þar voru. Dökk, þykk þoka fyllti herbergið og skrímslin færðu sig rólega nær henni. Hún kallaði örvæntingafull á pabba sinn en ekkert heyrðist. Hún gat ekki hreyft sig né talað af hræðslu. Lítil tár byrjuðu að streyma niður kinnarnar og höfnuðu í mjúkum, hvítum koddanum. Hún reyndi að kalla á pabba sinn aftur en ekkert heyrðist. Skelfingin skein úr ljósbláu augunum sem voru full af tárum. Hræðilegar hugsanir þutu um hugann og tunglsljósið varpaði draugalegum geislum inn um gluggann og á veggina. Augnlokin byrjuðu að síga hægt. Síðustu tárin runnu niður kinnarnar og dökkir stuttir lokkarnir lágu í tárunum.
Nokkrum mínútum síðar hrökk hún við martröð. Stór dökkblár skuggi stóð í dyragættinni. Hjartað tók kipp og barðist um eins og það vildi komast burt. Það var stór og þrekinn maður sem gekk í átt að henni. Hún lokaði augunum og vonaði að þetta væri bara önnur martröð. Maðurinn kom nær og tók eitthvað upp úr vasanum. Lágt hviss heyrðist þegar hann opnaði vasahnífinn og beindi honum að litlu stúlkunni sem hnipraði sig saman og lokaði augunum…