Sunnudagurinn átjándi júlí nítjánhundruðáttatíuogtvö var í sjálfu sér ágætis dagur. Sólin skein einsog sólum ber að gera, og vindurinn, sem annars ríkir nánast stöðugt á Íslandi, lét ekki á sér kræla. Þennan dag var þjóðin hamingjusöm og lá í sólbaði á stuttbuxum og hlýrabolum.
Það var einmitt það sem Ilmur María Mikaelsdóttir var að gera í fyrstu. Hún lá á teppi í grasinu með óléttubumbuna útí loftið og drakk perucíder í gegnum bleikt rör. Að vísu var garðurinn hennar umkringdur fjölbýlishúsum svo hún hafði neyðst tilað baða sig í sólinni í Hljómskálagarðinum. En það var alveg jafngóð sól og í fínu einkagörðunum á Nesinu, svo Ilmur var sátt. Og þar lá hún í mestu friðsemd, og hlustaði á rifrildi áttundubekkinga í unglingavinnu við flokksstjórann, þegar hríðirnar komu. Og það voru sko aldeilis hríðir. Það var hreinlega einsog bumban væri að gera tilraun tilað líkja eftir Miðjarðarhafinu á hvassviðrisdegi. Af hræðslu og sársauka öskraði Ilmur uppyfir sig, og stuttu seinna hringdi samviskusöm stelpa með rautt hár og framstæðar tennur í sjúkrabíl úr Nokia 3310 símanum sínum.
Sextán klukkustundum síðar fæddust tvíburarnir hennar litlu. Aðeins annar þeirra lifði, þrettán merkur og fimmtíuogeinn sentímetri. Hann var nefndur Aron Alexander.

,,Aron! Tókst þú pakkann minn!?!”
,,Nei, ég gerði það ekki!”
,,Jú, víst gerðir þú það, helvítis krakkagemlingur! Hvað gerðirðu við’ann?”
,,Ég tók hann ekki, þú ljóti kall! Þú ert bara melludólgur og helvítis nikótínfíkill!”
Æfur af reiði hristi Gylfi litla strákinn með ljósa hárið og öskraði á hann:
,,Ljúgðu ekki einsog égveitekkihvað, stubbur! Ég er enginn helvítis fíkill, það er hún mamma þín sem er kaffifíkill og útsölufíkill og ég veit ekki hvað&hvað!! Það er ekki fíkn að reykja, það er bara gott!!! Og sýndu mér nú helvítis fokkin sígarettupakkann eða ég hristi úr þér líftóruna!!!!”
Og Gylfi hristi og hristi svo harkalega að litli snáðinn skall á endanum í parketlagt gólfið.
,,Áááiii,” skældi litla greyið og greip um hnakkann.
,,Farðekkjað væla útaf svona smámunum, krakkaandskoti!”
Aron hélt áfram að gráta.
,,Hlýddu pabba þínum, mongólítinn þinn!!!”
Aron hætti að gráta og horfði reiðilega á Gylfa.
,,Þú ert ekkert pabbi minn! Pabbi minn er ríkur og frægur og á fullt af systkinum handa mér og dóti og bara öllu! Og hann reykir ekki!!!”
,,Og hvar er þessi blessaði pabbi þinn svo?” spurði Gylfi hæðnislega, feginn að krakkinn var hættur að vola.
,,Hann býr kannski í útlöndum og kemur bráðum að sækja mig. Kannski er hann bara geimfari eða kafbátahermaður og þú verður þá öfundjúkur!” hvæsti Aron og ullaði á Gylfa. Gylfi hló að vitleysunni í krakkanum og kallaði á Ilmi Maríu.
,,Imma! Sonur þinn er að spinna upp eitthvað helvítis rugl um að hann eigi pabba í útlöndun!”
,,Ég sagði það ekkert,” hrópaði Aron mjórri röddu, ,,ég sagði bara kannski!”
Ilmur kom inní stofuna.
,,Ronni minn, ég veit ekki hver er pabbi þinn, og þú verður bara að láta einsog Gylfi sé pabbi þinn. Við ætlum að gifta okkur í ágúst, svo það er eins gott að þú farir að sætta þig við það.”
Aron horfði reiðilega á mömmu sína og gervipabbann og hljóp svo útúr húsinu.
,,Hvað gerðirðu við sígaretturnar mínar!?!” náði Gylfi að öskra áðuren hurðin skelltist kröftuglega á eftir brúneyga snáðanum.
Aron hljóp eins hratt og hann gat niðrá leikvöll þarsem nokkrir eldri strákar, kannski sjö eða átta ára, voru í fótbolta.
,,Má ég vera með?” spurði litli guttinn sakleysislega, og hafði nú skyndilega gleymt reiði sinni.
,,Nja, þú ert svo lítill. Ókei, þú mátt vera í marki,” sagði svartur strákur sem leit reyndar ekki útfyrir að vera deginum eldri en Aron.
Í fleiri, fleiri klukkutíma stóð Aron á milli stanganna og varði fullt af mörkum. En hann fékk nú líka fullt á sig. Svarti strákurinn hrósaði honum, og lofaði honum að spila smávegis úti. Aroni hafði aldrei liðið betur, og svona hamingjusamur hafði hann ekki lengi verið. Skælbrosandi skoraði hann hvert markið á fætur öðru, með hjálp einstakrar knattækni, sem aðeins fimm ára börn búa yfir (boltinn nær þeim í hné svo hún er mjög ólík knattækni fullorðins fólks,) og ótrúlegs hraða, sem aðeins þeir sem hafa hlaupið stanslaust frá fæðingu búa yfir.
,,Þú ert góður,” sagði svarti strákurinn brosandi við Aron þegar mömmur og pabbar fóru að kalla á börnin sín inn í matinn. ,,Ertu að æfa?”
Aron hristi hausinn.
,,Ég er að æfa hjá Val. Viltu ekki bara að byrja að æfa hjá mér? Það er rosagaman,” sagði svarti strákurinn brosandi.
,,Ha, jújú,” tautaði Aron. ,,En ég á ekki fótboltaskó.
,,Alltílæ, ég á fullt. Kemurðu aftur út eftir mat?”
Aron kinkaði kolli og kvaddi. Þegar hann var kominn nokkra metra í burtu kallaði strákurinn á eftir honum:
,,Ég heiti Jói!”
Aron sneri sér við og kallaði á móti:
,,Ég heiti Ronni!”

Og þannig hófst knattspyrnuferill Arons Alexanders Ilmarsonar. Á hverjum degi eftir þetta fór hann útí fótbolta með Jóa og nokkrum öðrum strákum, bæði fyirr og eftir kvöldmat, og jafnvel á veturna ösluðu þeir snjóinn með boltann á tánum. Og svo æfðu þeir auðvitað líka, hjá Val.

Fyrsta æfing Arons var á mánudegi. Jói hafði lánað honum takkaskó og svaka flotta fótboltasokka með valsmerkinu á sköflungnum. Hann fann því svolítið til sín þegar hann gekk á eftir öllum hinum strákunum inná völlinn.
,,Jæja, strákar, Jói var að segja mér að nýr strákur hefði bæst í hópinn. Hvar er hann?” spurði þjálfarinn og horfði leitandi í kringum sig. ,,Aa, þarna er hann,” sagði hann og benti á krullhærðan strák með gleraugu. ,,Og hvað heitir þú svo vinur?”
Strákurinn varð pirraður á svipinn og svaraði: ,,Ég heiti Emil og er búinn að æfa í heilt ár.”
,,Ó,” tautaði þjálfarinn hálfáhyggjufullur og hélt áfram að leita. Það var ekki fyrren Jói benti honum á Aron sem hann áttaði sig og byrjaði aftur að brosa.
,,Já, þarna er hann, og hvað heitir svo ungi maðurinn?”
Aroni fannst dálítið merkilegt að vera kallaður ungi maður, og svaraði hreykinn:
,,Ég heiti Aron Alexander og er kallaður Ronni.”
,,Já, einmitt, þá er það komið á hreint. Eigum við ekki að fara í smá nafnaleik svo Aron nái nú að kynnast okkur öllum?” Síðan útskýrði hann fyrir þeim leik sem var þannig að gefa átti boltann á milli og hrópa nafn þess sem gefið var á. (Svipar grunsamlega mikið til upphitunaræfingar sem margir yngri flokkar nota.) Þetta reyndist flestum auðvelt, en fyrir Aron sem þurfti að læra tuttuguogátta ný nöfn var þetta enginn leikur. Sjálfum fannst honum alveg nógu erfitt að læra nafnið á þjálfaranum, sem hét þó ekki flóknara nafni en Hjörleifur.
Eftir ýmiskonar hlaup og æfingar og tuttugu mínútna spil var æfingin búin. Þeir Aron og Jói ætluðu að flýta sér heim í meiri fótbolta, en voru stöðvaðir af þjálfaranum.
,,Jæja, strákar, á bara að æða í burtu ánþessað spjalla við þjálfa gamla?”
,,Já, eiginlega, sko, við erum nefninlega að fara út í fótbolta með strákunum í blokkinni hinumegin við leikvöllinn,” útskýrði Jói samviskusamlega.
,,Það er ekkert annað! Ég ætlaði nú bara að spyrja litla glókollinn hérna hvort hann hefði æft áður, kannski hjá KR eða Fram.”
,,Nei, hann hefur ekki æft áður,” svaraði Jói fyrir vin sinn.
,,Hvað er glókollur?” spurði Aron.
,,Glókollur er ljóshærð manneskja. Þú ert nefninlega með svakalega tækni miðað við það að þú ert bara fimm ára.”
,,Ég verð sex í júlí,” skaut Aron inní.
,,Alveg sama,” sagði Hjörleifur á innsoginu og gaut augunum útundan sér á annan flokk kvenna sem var að ganga útúr búningsklefanum. Síðan leit hann aftur á Aron. ,,Ertu nokkuð tilíað spenna vöðvana á hendinni fyrir mig?”
Aron gerði einsog honum var sagt og Hjörleifur potaði aðeins í hann.
,,Einsog ég segi, fimm ára vöðvabúnt. Lofar þetta góðu, ha? Lofar þetta ekki bara einhverju helvíti góðu?”
Aron og Jói föttuðu ekkert hvað Hjörleifur var að segja og litu hissa hvorn á annan. Þeir ypptu öxlum af skilningsleysi og blessuðu á þjálfarann sinn. Síðan fóru þeir heim og út í fótbolta með strákunum í blokkinni hinumegin við leikvöllinn.

Í mörg ár missti Aron ekki af einni einustu æfingu, og hann notaði hvert tækifæri tilað æfa sig. Hann spilaði fótbolta með félögunum, sparkaði í veggi, hélt á lofti undir þvottasnúrunni bakvið hús, rakti boltann fram og aftur um íbúðina þartil hinir margbreytilegu kærastar mömmu hans urðu brjálaðir og ýmist hótuðu að drepa hann (ekki í mikilli alvöru þó,) eða einfaldlega fóru, hann fór út að skokka einu sinni til tvisvar í viku og horfði á fótbolta í sjónvarpinu hvenær sem hann gat. Aron lifði fyrir fótboltann.

To be continued…