‘Þú ert stödd í Barnalandi. Hér búa bara börn. Um leið og einhver í Fullorðinslandi verður óléttur kemur hún hingað, fæðir barnið og fer aftur. Börnin eru svo send á heimili fyrir litlu börnin þar sem elstu krakkarnir sjá um þau. Þegar þau eru orðin fjögurra ára fá þau að byggja sér hús og sækja um vinnu. Daginn sem barn verður átján er það flutt til Fullorðinslands. Elsta barnið er alltaf bæjarstjóri. Ef einhverjir er jafngamlir, til dæmis tvíburar, þá eru kosningar. Hér í bænum er allt eins og í Fullorðinslandi, nema að börnin sjá um vinnuna. Hér eru allir vinir. Jah, nema einn flokkur. Þau búa í úthverfi bæjarins og eru kölluð Villingarnir. Enginn vill hafa samskipti við þau…,’ Gumma talaði og talaði. Mattí hlustaði með öðru eyranu.
‘Eh… má ég segja eitt?’ spurði hún.
‘Gjörðu svo vel,’ svaraði Gumma.
‘Hvað er ég að gera hér?’. Gumma varð alvarleg á svip.
‘Utanríkisráðherrann okkar, Sjúbbi, kom með þær fréttir úr Fullorðinslandi að þar séu fullorðnir sem vilja verða börn aftur. Þau sendu okkur beiðni um að búa til lyf sem gerir þau að börnum, en ekkert okkar er nógu gott í lyfjafræðum til þess að gera svo hættulegar tilraunir,’ sagði Gumma.
‘Og þið náðuð í mig til að hjálpa ykkur? Því miður, ég er ein af lélegustu stelpunum í bekknum í efnafræði,’ sagði Mattí, ‘leitt að geta ekki hjálpað.’
‘En þú getur það. Sko, málið er að við erum búin að finna út efnaformúluna. Við þurfum bara eitt enn. Það er hár. Hár af fullorðinni manneskju. Elstu manneskjunni í Fullorðinslandi. Því miður er okkur ekki leyft að fara til Fullorðinslands, nema utanríkisráðherrann, hann má fara þangað. En bara hann. En þú þarft að gera þetta. Sjúbbi reyndi en hann fékk sýkingu þegar hann tók hár af elstu konunni. Þú, sem ert alveg mennsk, getur farið þangað! Viltu gera það, hjálpa okkur?’ Gumma leit á hana. Hún setti upp svip sem var ómögulegt að segja nei við.
‘Ókei,’ svaraði Mattí, ‘hvað á ég að gera nákvæmlega?’ Gumma útskýrði að hún yrði fyrst um sinn í Barnalandi. Þegar hún ætti að fara fengi hún að taka einn, eða tvo, með sér. Saman myndu þau gera áætlun.
‘En núna förum við og finnum þér heimili.’ Þær löbbuðu út í sólskinið. Mattí óskaði að hún væri með minnst eitt aukapar af augum. Það var svo margt að sjá. Þær byrjuðu á að fara í fatabúð. ‘Fötin þín eru of dökk,’ sagði Gumma. Mattí var í svörtu flauelsbuxunum sínum og dökkbláa DKNY bolnum. Svo var hún í dökkgrænni hneppupeysu með hettu.
‘Hér er besta fatabúðin í bænum, Gyllta beltið,’ sagði Gumma og benti á búð sem var gyllt að utan. Þegar þær gengu inn sá Mattí mesta úrval af ljósum fötum sem til var í heiminum. Hún fékk næstum ofbirtu í augun.
‘Velkomnar, velkomnar,’ sagði lítil vera. Þetta var lítil ljóshærð stelpa, kannski svona á aldrinum 7-9 ára. Hún leit á Mattí og fussaði. ‘Hvernig geturu gengið í svona dökkum fötum. Og aumingja þú að vera með svona svart hár,’ sagði stelpan á meðan hún gekk í kringum Mattí og mældi og skoðaði. Eitt af því sem Mattí var stoltust af í útliti sínu var svart hárið sem náði langt niður á bak. ‘Þú lítur út eins og Villingur.’ Hún fussaði meira. Mattí var næstum hrædd um að hún myndi frussa á hana.
‘Ehh… ljósir litir eiga ekki við mig,’ sagði Mattí vandræðalega.
‘Uss, vitleysa. Dökkir litir setja niðurdrepandi útlit á tilveruna. En ljósir litir, þeir eru svo skemmtilegir, maður getur leikið sér með þá,’ sagði stelpan um leið og hún skaust um búðina eins og raketta. Þegar hún kom til baka var hún með fullt fangið af fötum. Hún benti Mattí á mátunarklefann.
Tveim tímum seinna kom Mattí út með fangið fullt af gulum, rauðum, grænum, bláum, hvítum, lillabláum, bleikum og appelsínugulum fötum. ‘Ég hef engin not fyrir bleiku fötin. Ég þoli ekki bleikan,’ sagði Mattí ólundarlega.
‘Látt’ekki svona, þú venst þeim,’ sagði Gumma glaðlega, ‘farðu nú hér inn og gerðu þig tilbúna fyrir veisluna sem verður í kvöld. Hún er til heiðurs þér.’ Hún ýtti Mattí inn í hús sem Mattí bjóst við að ætti að vera hennar hús í bili.
Um kvöldið fór Gumma með hana í stóran sal. Hann var skreyttur gylltum blómum sem voru föst við loftið, við gólf og á veggi. ‘Vaá, til heiðurs mér?’ spurði Mattí. Salurinn var glæsilegur að öllu leyti. Hann var fullur af krökkum. Gumma gekk upp á svið og ræskti sig. Það kom Mattí á óvart hve vel heyrðist í henni um allan salinn þó að hún væri ekki með hljóðnema.
‘Leyfist mér að kynna heiðursgest kvöldsins og bjargvætt æskunnar, MATTÍ,’ sagði hún, mjög venjulega en það bergmálaði mjög um salinn. Allir klöppuðu. Mattí veifaði feimnislega. Gumma hélt áfram. ‘Þessa viku mun Mattí velja með sér einn eða tvo til að fara með sér til Fullorðinslands. Þar mun hún og einn eða tveir með henni ná hári af ungfrú… ef ungfrú skildi kalla, ná hári af Ellu gömlu. Þá getum við klárað töfradrykkinn.’ Gumma talaði eitthvað meira en Mattí nennti ekki að hlusta.
Hún leit yfir hópinn. Þarna voru krakkar, ekkert nema krakkar. Hún sá að allir voru annað hvort ljós- eða rauðhærðir, alveg eins og í draumnum. Hún sá þó einn hóp af krökkum sem höfðu öll svart hár. Það hlutu að vera villingarnir. Allt í einu sá hún strák á hennar reki. Hann var rauðhærður og mjög freknóttur. Þau horfðust í augu. Hún fann einhvern veginn á sér að hann ætti að koma með. Gumma hætti að tala og í því birtust um 20 litlar ljóshærðar stelpur í hvítum kjólum sem dönsuðu um og báru fram matinn.
‘Jæja, hvar viltu sitja?’ spurði Gumma. Mattí labbaði niður af sviðinu og í áttina að rauðhærða stráknum. Þær settust hjá honum og vinum hans.
‘Góða kvöldið,’ sagði hann, ‘ég er Snarf, Frans afturábak.’
‘Mattí,’ sagði Mattí og tók í höndina á honum. Hinir kynntu sig hver á fætur öðrum. Níli og tvíburasystir hans, Níla, Liem, Leó, Voffi, Gertur og Aggar.
‘Umm… af hverju heitið þið svona skrítnum nöfnum?’ spurði Mattí. Þau voru að borða. Hún fékk sér kjúkling og franskar í staðinn fyrir að smakka á skrítnu réttunum sem allir aðrir borðuðu með bestu lyst.
‘Hér fáum við að ráða nöfnunum okkar sjálf,’ sagði Snarf. Mattí leit yfir á Villingana.
‘Þú vilt ekki blanda geði við þau,’ sagði Gertur, ‘þau eru hættuleg.’ Mattí sá eina litla svarthærða stelpu. Hún minnti hana á hana sjálfa.
‘Mhmm,’ svaraði Mattí. Þegar hún var búin að borða stóð hún upp og fór í áttina að svarthærðu stelpunni.
‘Hvað?’ hreytti einn Villingurinn að henni. Hann var greinilega foringinn
‘Eh… mætti ég tala við… hana?’ Mattí benti á stelpuna.
‘Ókei, bara smá,’ svaraði Villingurinn. Hún leiddi stelpuna í burtu. Hvorug þeirra sagði nokkuð.
‘Hvað?’ sagði stelpan að lokum. ‘Viltu vita hvort ég komi kannski með þér?’
‘Jah, þú mættir byrja á að kynna þig,’ svaraði Mattí.
‘Alles,’ sagði stelpan. ‘Ég myndi vilja kynnast þér,’ sagði Mattí. Henni fannst fyndið að horfa á stelpuna. Það var eins og hún væri að horfa í spegil.