Maður sekkur dýpra og dýpra, og óskar þess að maður gæti sýnt ógeðslegum umheiminum að maður meinar vel, …af ókunnum óskiljanlegum ástæðum meinar maður alltaf vel. En allt kemur fyrir ekki, og ég stekk á bak við grímu andúðar og fyrirlitningar um leið. Alltaf.
Þannig er því allavega farið með þau.
Og hérna svífa þau á móti mér, í fimmta skiptið í dag.
-Sæll vinur. Hvernig líður þér núna? Spyr hún brosandi, hvítklædd og sárasaklaus með eplarauðar kinnar. En ofar því, þá er þetta með endæmum heimskulega spurt. Hún horfir ekki einu sinni á mig þegar hún spyr, vindur sér þess heldur beint að pokanum á stönginni, sem tengdur er við slönguna, sem tengd er við plástraða hendina á mér. Ég er tengdur.
Og ég sendi henni fingurinn ásamt nettum skammti af hatursfullu augnaráði. Hvað annað á ég að gera? Hún veit vel að ég get ekki svarað þessu, þó að ég glaður vildi, og svo lengi sem hún hefur einhverja prósentu heilastarfseminnar virka, ætti hún að geta giskað á svarið.
Mig langar að sparka í hana, en fæturnir neita. Læknirinn og neminn hans sveima í kringum mig, röflandi eitthvað sem ég nenni ekki að hlusta á. Það skiptir hvort sem er engu máli, þetta verður alltsaman gert við mig óháð núfylgjandi athygli minni. Ég get ekki mótmælt, svo mikið er víst. Og læknirinn svífur aftur út, hægar í þetta skiptið.
Og aftur fer heimurinn á flot… flýtur fyrir augunum á mér. Loftið nálgast mig, og ég er pínulítið hræddur um að það hrynji ofan á mig. En angurvært hvísl, lengst aftur í höfðinu á mér segir mér að þetta séu lyfin. Mér finnst eins og andrúmsloftið sé gert úr mörgum litlum kubbum, og í hvert skipti sem ég anda brotna kubbarnir niður í öndunarfæri mín og koma aftur út sem línur. Og línurnar mynda ferkantaða þrívíddarkassa… og svo kemur bíllinn á áttatíu kílómetra hraða og keyrir á kassann. Kassinn splundrast og bílstjórinn reynir að sveigja framhjá brotunum sem fljúga úr kassanum, en allt kemur fyrir ekki. Eitt brotanna flýgur inn í farþegasætið og fallega manneskjan sem situr þar umbreytist í eitthvað óraunverulegt. Bílstjórinn kastast út um hurð bílsins sem fyrir óskiljanlegar ástæður hefur opnast, og svo liggur hann í grasinu þegar brunalyktin læðist að vitum hans… síðan andar hann að sér kubbum af súrefni. Tengdur og plástraður hatar hann heiminn, einn.
I love Stan, Stan loves ham… ham I am!