Hehe, ég var að finna gamlar sögur sem ég skrifaði í sjötta eða sjöunda bekk, algjör snilld… datt í hug að fleygja þessu sorpi í ykkur, vona að þið getið lesið þetta:)

SAGAN AF ÞVÍ ÞEGAR ÍSLENSKA MOLDVÖRPUKYNIÐ DÓ ÚT:
Gunnar var lítill og mjór, ljóshærður og gráeygur, ótrúlega venjulegur (nánast ósýnilegur) strákur. Besti vinur hans var afturámóti stórfurðulegur. Hann var með risastór og útstæð eyru sem hann gat blakað, eldrautt hár niðrá rass sem hann batt alltaf í tagl með leðurreim, pínulítil og næstum svört augu sem lásu myndasögur í tonnatali á dag, og hann var skotinn í feitustu stelpunni í bekknum. Og svo hét hann Gorgeir Gnýr Garibaldason. Gunnari fannst hann samtsemáður fínn vinur þó hann heimtaði að vera kallaður fullu nafni. Dag einn voru Gunnar og Gorgeir Gnýr að reikna í skólanum og biðu eftir að hringt væri út. Já, það var kannski það eina venjulega við Gorgeir Gný; einsog aðriðr strákar þoldi hann ekki að læra og beið alltaf spenntur eftir frímínútunum. Þegar bjallan hringdi loksins þutu allir í bekknum út. 48% útá fótboltavöll (12 strákar) og 52% í snúsnú (13 stelpur). Það eina pínulítið óvenjulega við Gunnar var að hann var alveg ægilega góður í fótbolta. Þegar hann var búinn að skora 34 mörk nennti Gorgeir Gnýr ekki að vera lengur í fótbolta og Gunnar fór með honum á leynistaðinn þeirra. Þennan stað vissi enginn um annar en þeir tveir. Og Bambúll, moldvarpan hans Gorgeirs Gnýs. Þarna var stór hola bakvið runna. Allir vissu af henni, en bara þeir tveir (og Bambúll) vissu um göngin sem lágu frá holunni og í aðra stærri. Þeir skriðu inní stærri holuna. Gorgeir Gnýr var eitthvað skrítinn á svipinn; svona einsog moldvarpa væri að bíta hann í lærið. Samt var næstum liðið yfir Gunnar þegar Gorgeir Gnýr dró moldvörpuna Bambúl uppúr vasanum. Gunnar mundi nefninlega eftir seinasta skiptinu sem Gorgeir Gnýr kom með Bambúl í skólann. Það þurfti að kalla á slökkviliðið og það tók tvo mánuði að koma skólanum í nothæft stand aftur. ,,Engar áhyggjur,” sagði Gorgeir Gnýr. ,,Ég passa uppá hann núna.” Það gekk alveg ágætlega þangaðtil í heimilisfræðitímanum sem var næstseinasta kennslustundin. Bambúll fann þessa líka dásamlegu lykt af viðbrenndri eggjaköku strákanna. Hann rak nefið uppúr buxnavasanum sem hann var í og þefaði dálítið útí loftið. Svo sveif hann eftir reyknum (svona einsog Jenni þegar Tommi hefur bakað köku tilað lokka hann útúr holunni sinni) og lenti hliðiná eldavélinni. Sem betur fer, því það var kveikt á henni. Gunnar og Gorgeir Gnýr voru að rýna í uppskriftinaog reyna að finna út hvað þeir hefðu gert vitlaust, svo þeir tóku ekki eftir Bambúli. Bambúll færði sig varlega nær pönnunni. Þegar hann átti svona tvo sentimetra eftir af þessari 37cm vegalengd frá eldavélinni að eggjakökunni á pönnunni, tók frú Kristín heimilisfræðikennari eftir aumingja Bambúli. Og þarsem frú Kristín var bæði afskaplega hrædd við rottur og afskaplega nærsýn, öskraði hún. Og þarsem Bambúll var afskaplega hræddur við öskrandi heimilisfræðikennara hrökk hann afturábak, beint oná eldavélina. Þá fyrst tóku Gorgeir Gnýr og Gunnar eftir því að Bambúll var ekki lengur í buxnavasanum sem hann átti að vera í. Þeir reyndu að kippa Bambúli af eldavélinni, en of seint; Bambúll greyið var orðinn að undarlegri, svartri klessu, og það var kviknað í eldavélinni. Í þetta skiptið var frú Kristín þó viðbúin og slökkti eldinn sjálf með slökkvitæki. Gorgeir Gnýr fór að gráta. Strákarnir fengu að fara heim. Á leiðinni heim snökti Gorgeir Gnýr: ,,Veistu hvað?” ,,Nei, hvað? (Týpískar íslenskar samræður.) ,,Ég held að Bambúll hafi verið seinasta moldvarpan á Íslandi.” Gunnar leit á vin sinn, hálfgrátandi líka. ,,Hva meinaru?” vældi hann. ,,Íslenska moldvörpukynið er þá dáið út,” sagði Gorgeir Gnýr alvarlegur. ,,Já, þannig,” sagði Gunnar og varð líka alveg grafalvarlegur. Þetta var líka alveg grafalvarlegt mál. ,,Æ, æ,” sögðu þeir síðan báðir í kór. ,,Úps.”

Þið ykkar sem hafið haldið út allaleið hingað, þið eruð alveg frábær, en ég mæli með því að þið lesið gáfulegri sögur næst. Hvernig fannst ykkur svo? (Endilega miðiði við það að ég var ellefu ára, ekki það að ég skammist mín eitthvað fyrir þessa SNILLD!!!) Hehehe… Kveðja frá mér…