Sigþrúður sat í stætisvagnaskýlinu og beið eftir vagninum. Klukkan var ekki nema 12:20 þannig að það voru allavega 15 mínútur í næsta vagn. Hún hneppti að sér kápunni, kuldinn var farinn að segja til sín. Hún var orðin allt of gömul til að vera að flakka svona um bæinn.
Jólailmur var í loftinu enda var Aðfangadagur og ekki við öðru að búast. Hún hélt fast um kassann í fanginu.
Brúðan sem var í kassanum var svo falleg að annað eins hafði hún ekki séð síðan árið 1930, þá fimm ára gömul þegar að faðir hennar hafði komið með brúðu til hennar af sjónum. Hún gat ekki staðist freistinguna. Hún opnaði kassann. Þessi brúða var ekki ólík þeirri sem hún fékk. Hún var með dökkt, hrokkið hár og dimmblá augu. Brúðan var ætluð dótturdóttur hennar sem var 5 ára. Sú litla hafði legið á Landspítalanum mestan hluta ævinnar. Þessi litla snót var hvers manns yndi. Hún lét veikindi sín ekki á sig fá heldur var alltaf glöð og kát og kom öllum í gott skap sem í návist hennar voru.

Sigþrúður tók upp veskið sitt, losaði teygjuna sem var utan á því og leitaði eftir 200 krónum. Það var nú ekki mikið í veskinu en nóg var það nú samt.

Nú var byrjað að rigna. Hún ætlaði að taka vagninn niður á Landspítala og heimsækja gullið sitt. Dökklæddur maður stóð við skýlið og reykti. Sigþrúður byrjaði að hósta, enda fór reykurinn í lungum á henni. Hún bað manninn vinsamlegast að reykja hinumegin við skýlið því að reykurinn færi svo í hana.
Maðurinn leit á hana, hann hlaut að vera ölvaður. Augu hans voru svo þrútin og svipurinn var sorglegur. Skyndilega fauk einhver reiði í hann og í æðiskasti sló hann til Sigþrúðar sem leiddi til þess að hún féll niður á blautt malbikið. Hún hélt rembingsfast um brúðuna á meðan að maðurinn tók veskið hennar en hún gat ekkert gert. Hann mætti taka allt, bara ekki brúðuna.
Hún reyndi að berjast á móti en þá varð allt svart.

Háværar sírenurnar heyrðust í margra mílna fjarlægð. Þarna lá gömul kona nærri dauða af lífi, alblóðug. Sjúkraflutningamaður þreifaði eftir púlsi en það var augljóst, konan var öll. Þeir óku í burtu með líkið og eftir var brúðan úti í rigningunni.

Stuttu seinna kom Sigþrúður aftur. Hún var föl að sjá, og klædd í hvítt.
Hún tók upp brúðuna, beið eftir vagninum og fór á brott.