Þegar maður leitar, þá finnur maður. Sjáðu til dæmis mig, þegar ég leit í spegil í gær þá sá ég einhvern hálfvita en svo þegar ég kíkti betur bakvið jaxlana þá sá ég mig. Ég var þarna, hérna, ég finn það með tungunni, ég er … ég er …
Er tungan á mér orðin einhvers konar eilíen beiíng sem hefur sjálfstætt líf og segir heilanum á mér hvað hann á að gera, höndunum hvar þær eiga að skera?
Lárviðarlauf og sveskjur, steikt hægt á pönnu, en samt seigt enda ekkert unglamb.
Þetta er fyndið, hér er ég og þegar ég hugsa um mig og þegar ég reyni að finna mig þá lít ég í eigin barm, ég horfi mér í hjartastað, og ég hugsa, er ég þarna? En þegar þú horfir á mig þá sérð þú dúkkuandlit, rass með gati, og ég hugsa, er þetta ég? Tvær loðnar kinnar og gat á milli?
Þær voru ekki alltaf loðnar. Ég man eftir blautri tungu milli kinnanna. Það kitlaði, ókei, skeggrótin rispaði, óvei, en ég gaf þér því ég hélt að þú myndir þiggja. Ég hélt að þú myndir sjá mig. Leiðin að hjartanu er gegnum magann, kannski líka neðanfrá?
Ég á engan líkama lengur. Þú tókst hann. Nei, þú tókst hann ekki. Þú notaðir hann og skildir hann eftir notaðan, engum til gagns. Ég horfi niður og sé tær. Eru þetta mínar tær? Hvar stendur það að ég eigi þær? Ég er ekki með þinglýst eignarhald að eignum milli efri hluta líkama og neðri hluta fótleggja. Ég á ekkert í því. Þetta er ekki mitt, þetta var þitt.
Skilurðu ekki, þú máttir fá það! Þú máttir eiga mig! En þú varðst að taka mig allan. Ekki bara rassinn, ekki bara lærin, ekki bara gatið milli kinnanna, ekki bara tittlinginn sem í ungæði gat ekki annað en staðið, það næsta sem þú komst hjartanu var að klípa í geirvörturnar á mér. Geirvörtur sem voru nánast ósýnilegar!
Þú plataðir mig, þú leiddir mig í gildru, þú notaðir hungur mitt, þorsta minn. Þú stalst af mér líkama mínum, þú hæddir hjarta mitt, þú neitaðir mér um það eitt sem ég þráði. Ég hefði gefið þér allt annað, ég gaf þér allt, ég gaf þér líf mitt, limi mína, tilveru mína. Og fékk brund í staðinn.