“Hann var tekinn í sundur,” sagði Katrín. “Eins og biluð vél. Í brotajárn”
“Vitum við hver hann var?” Pétur var áhyggjufullur, þreytulegur. Ætli hann hafi sofið í nótt, frekar en ég?
“Nei, ekki enn. Allar tennur voru dregnar, út ein í einu, og muldar niður, sjálfsagt með einhvers konar töng. Fingurnir eru illa sundurskornir, hver og einn, og tærnar voru kramdar með töng líka. Þær sem ekki voru skornar af.”
“Engir persónulegir munir?” spurði ég.
“Ekkert sem við höfum fundið, nema eitthvað sem gæti verið hálfur eyrnalokkur. Rauður glersteinn í koparumgjörð.”
“Engin föt?”
“Nei, engin föt. Reyndar vantar meira en bara föt,” sagði Katrín.
“Hvað meinarðu?” spurði ég.
“Við fundum eitt lík, 52 kíló. Við fundum ýmsa líkamsparta og innyfli, 23 kíló. Allt blóð var sigið niður, en það er sjálfsagt ein fimm kíló í viðbót. Samtals gróflega reiknað slétt 80 kíló. Þetta var karlmaður, einn áttatíu og tveir á hæð, milli þrítugs og fimmtugs myndi ég segja, segjum kringum fertugt, tiltölulega vel á sig kominn líkamlega. En hjartalaus.”
“Ekkert hjarta?” spurði ég.
“Ekkert hjarta. Við fundum mest alla lifrina, tvö nýru á víð og dreif, magi og þarmar skornir að endilöngu, ristill, milta, lungun á sínum stað – eiginlega það eina sem var enn á sínum stað – tungan og bæði augun þar sem hjartað hefði átt að vera, mest allur heilinn á gólfinu, en samt rúmt kíló í allt – vantar ekkert, ekkert að ráði. Ekkert nema hjartað.”
“En kynfærin?” Pétur var fölur, en samt greinilega með á nótunum.
Katrín brosti til hans, brosið var vingjarnlegt og viðurkennandi en samt kalt. “Kynfærin voru á sínum stað. Skorin, eins og nánast allt annað, en ekki skorin af. Penis var langskorinn, nánast í tvennt, skrótum opnað og testikúlus lateralis í sneiðum, testikúlus sinisteris í tvennu lagi. En samhangandi.”
Pétur horfði á mig, síðan á Katrínu.
“Viltu segja þetta á íslensku?” spurði ég.
“Ókey. Tittlingurinn var skorinn í tvennt, langsum. Pungurinn opinn, hægra eista sneitt í sneiðar en vinstra eista skorið í tvennt. Samt hékk allt á sínum vefjum og trefjum, það tók smá stund að púsla því saman, en ekkert hafði dottið á gólfið. Skorið í tætlur en ekki skorið af.”
“Mjög athyglisvert!” heyrist skyndilega kallað. Í dyrunum stendur maður, breiður og sver, í jakkafötum með eldrautt bindi, stuttklipptur og með þetta óþolandi bros sem aðeins sálfræðingar komast upp með án þess að enda í spennitreyju.
Rauða bindið strunsaði inn í herbergið, geislandi af eigin ánægju. “Hann var að leita, vinur okkar. Þetta er ekki kynferðislegs eðlis, þetta snýst ekki um peninga eða völd, ekki um hræðslu eða hatur, þetta snýst einfaldlega um leitina að sjálfinu! Að sálinni! Að hjartanu!”
Menn sem geta borið fram upphrópunarmerki eru ekki heilir á geðsmunum, að mínu viti.
“Þú vilt sem sagt meina að hann hafi verið að leita að sjálfum sér? Í líkama einhvers annars?” spurði ég.
“Að hverju var hann að leita? Ég veit það ekki,” sagði rauðbindið og hallað sér fram þar til ég gat ekki komist hjá því að horfa á nasahárin titrandi af æsingi. “En hann fann það ekki! Hann er ekki búinn! Hann kemur aftur!”
“Má ég kynna, prófessor Antoníus Álfsson, geðlækni á Sogi.” Rauðbindi beygði sig eins og skrípaleikari í kvikmynd, við Pétur gátum ekki annað en hneigt höfuðin á móti ef ekki til annars en að hann sæi ekki hvað við áttum erfitt með að halda niðri í okkur hlátrinum.
“Antoníus, þetta eru þeir Pétur Guðbergsson aðstoðarfulltrúi í fíkniefnalögreglunni, og Björgúlfur Svansson, rannsóknarlögreglufulltrúi,” sagði Katrín og átti greinilega erfitt með titlana.
“Ég er oftast kallaður Bjöggi, gleður mig að kynnast þér,” sagði ég og stóð upp, rétti fram hægri loppuna eins og manni er skylt við svona kringumstæður.
“Anton, sömuleiðis,” sagði rauðbindi og ég get svarið að hann smellti saman hælum um leið og hann greip hramminn á mér og hristi hann miskunnarlaust.
“Pétur, kallaður Pétur, gleður mig að kynnast þér,” sagði Pétur, aldrei vöflur á þeim manni. “Hvað varstu að segja, að hann sé ekki búinn, að hann komi aftur? Hvernig sérðu það?”
“Fyrst, má ég spyrja, hvers vegna fíkniefnalögreglan? Enginn hefur minnst á fíkniefni við mig.”
“Engin ólögleg fíkniefni, eftir því sem við vitum best, en ég var yfirmaður á vakt þegar símtalið barst. Við erum ekki það mörg sem getum sinnt svona málum, það er ekki gott að það falli á einn einstakling. Enda tökum við ekki deildaskiptinguna of alvarlega,” sagði Pétur. Bjúrókratinn sjálfur, hann á eftir að ná langt. Fínt mál, sama er mér.
“Gott, gott,” sagði Anton rauðbindi þótt ég ætti sjálfur erfitt með að sjá hvað honum gæti þótt gott við þetta allt saman. “Sem sagt, setjum okkur í spor gerræðismannsins. Hann sker, hann brýtur, hann gramsar, en eyðileggur hann? Nei, hann eyðileggur að vísu sumt – til að koma í veg fyrir að líkið þekkist. Fingurgómar skornir í ræmur, ógjörningur að raða saman. Tennurnar dregnar út og kramdar. En annars ekkert skemmt, aðeins tekið og skoðað. Allt nema hjartað. Hjartað var tekið, og hvað segir það okkur?” Rauðbindi horfði á okkur sigri hrósandi, og ég fékk það mjög á tilfinninguna að hann væri alveg við það að leiða okkur í allan sannleikann.
“Hvað býr í hjartanu?” Ég hafði rétt fyrir mér. “Tilfinningarnar. Sálin, ef maður trúir á svoleiðis. En engu að síður, gerræðismaðurinn leitar en finnur ekki, hann tekur það eitt sem gæti borið í sér það sem hann leitar að.”
“Hvernig veistu að hann hafi leitað en ekki fundið?” spurði Pétur. “Líkið er allt sundurskorið, saxað í spað. Kannski fann hann einmitt það sem hann var að leita að í hjartanu?”
“En hjartað er bara svo augljóst. Fórnarlambið var enn á lífi þegar tungan var skorin úr, þegar augun voru tekin.” Rauðbindi leit til Katrínar, sem kinkaði kolli. “Augun og tungan voru sett þar sem hjartað átti að vera. Þetta gerist snemma. Augun og tungan eru tekin snemma, fórnarlambið er enn á lífi, gerræðismaðurinn er að leita og hann byrjar á að leita á augljósu stöðunum. Hvað gerir þig, þig?” spurði rauðbindi skyndilega og rak fingurinn undir nefið á mér.
“Ég skil ekki,“ sagði ég.
“Pétur,” sagði rauðbindi, “hvar finnum við Bjögga. Er hann í augunum? Í tungunni? Í heilanum? Í hjartanu? Svo virðist sem gerræðismaðurinn hafi opnað heilabú fórnarlambsins áður en það lést. Þegar hann fjarlægði hjartað gat líkamlegt líf ekki haldið áfram. En gerræðismaðurinn hélt áfram að leita. Hann setti tungu og augu í hjartastað, hann opnaði nánast hvert einasta líffæri og lim, leitaði alls staðar, en án þess að eyðileggja, nema tennur og fingurgóma. Og tók hjartað með sér. Flestir fjöldamorðingjar sem misþyrma líkum ráðast fyrst að kynfærunum og fjarlægja þau yfirleitt. En ekki okkar maður. Kynfærin eru tákn líkamans, líkamlegs valds, heilinn er tákn hugans, huglægs valds. Hjartað, og verkfæri hjartans, augun og tungan, eru tákn tilfinningalegs valds. Okkar vinur er að berjast gegn tilfinningum!”
Eða leita að tilfinningum, hugsaði ég.