Háværar drunur rífa sundur loftið á Hverfisgötunni. Augnabliki seinna kemur uppspretta hávaðans keyrandi á fleygiferð upp eftir götunni. Gömul, hvít Toyota Corolla sem keyrt er upp Hverfisgötuna, í átt að Hlemmi. Á númeraplötunni má sjá grænan miða til merkis um að endurskoðunar er þörf, ryðblettir og drulla ber þess vott að ekkert hefur verið lagt í þrif á bílnum í lengri tíma. Eins fljótt og bíllinn kom inn í myndina er hann rokinn burtu aftur og hávaðinn minnkar. Í vaxandi fjarlægð má þó enn heyra drunurnar í bifreiðinni, drunur sem heyrast í sportbílum eða bílum með bilaða hljóðkúta. Þessi bíll er ekki sportbíll. Það er þó skrýtið að það skuli heyrast sama hljóð í þeim.

Inn í bílnum er einnig hægt að sjá að eigandinn leggur ekki mikið uppúr því að hafa bílinn snyrtilegan. Drykkjarílát á gólfinu, alls konar umbúðir á sætum og gólfi, fótbolti og íþróttataska í aftursætinu og nokkrar bækur í hillunni í afturrúðunni. Ökumaðurinn er einn í bílnum. Það er skrýtin lykt í bílnum, sambland af steikingarlykt, reykingarlykt og einhvers konar furuilmi sem berst frá ilmspjaldi sem hangir á baksýnisspeglinum. Hávaðinn frá útvarpinu yfirgnæfir vélardrunurnar.
Ökumaðurinn hristir til hausinn og trommar með höndunum á stýrið, syngur með laginu í útvarpinu. Hausahristingurinn og trommuslátturinn eru í takt við hvort annað en ekki í neinum takt við lagið í útvarpinu. Söngurinn er hávær og glaðlegur en langt frá því að vera góður og textakunnáttan ekki uppá marga fiska.

Á farþegasætinu við hliðina á ökumanninum liggja nokkur umslög sem búið er að rífa og opna. Þar eru einnig kvittanir fyrir nokkra greidda gíróseðla og svo glittir einnig í einn launaseðil. Eitthvað virðist fanga athygli ökumannsins núna því söngurinn hættir og bíllinn byrjar að hægja á sér. Að endingu stöðvast hann við gatnamót, það er rautt ljós. Bílstjórinn virðist mjög áhugasamur um götuna sem liggur upp af Hverfisgötunni og að Laugarveg. Hann lítur upp eftir henni eins og hann sé að leita að einhverju. Þetta er lítil einstefnugata. Það er ekki að sjá að þar séu margar verslanir en þó má sjá veggspjald á einum stað til merkis um að þar sé eitthvað á boðstólnum. Það er nóg um laus bílastæði við götuna.

Ljósin breyta um lit. Ökumaðurinn er enn með hugan að hliðargötunni en keyrir samt hægt af stað. Hann beygir ekki upp götuna heldur keyrir hægt áfram eftir Hverfisgötunni. Stuttu seinna beygir hann þó inn á bílastæðasvæði og leggur þar. Situr í smástund í bílnum og klárar að gaula með laginu. Stígur svo út úr bílnum og gengur að stöðumælinum. Gramsar í vösum sínum þangað til hann finnur eitthvað klink, stingur því í stöðumælinn. Stöðumælirinn gefur upp að hann hafi um það bil hálftíma til að ljúka erindi sínu. Hann kinkar kolli eins og til samþykkis og snýr sér svo við og byrjar að ganga í átt að fyrrnefndri hliðargötu.

Hann er mjög hávaxinn, eflaust um 190 cm, jafnvel meira. Hann er unglegur, sennilega ekki meira en 20 – 25 ára gamall. Hann er klæddur í gamla og snjáða íþróttaskó, gallabuxur og víða peysu. Peysan er blá, með merki einhvers félags framan á og víð til að reyna að klæða burt þá staðreynd að kílófjöldi drengsins er talsvert yfir kjörþyngdina. Stuttklipptur, dökkur lubbinn á hausnum á honum er snyrtilega greiddur til hliðar. Gleraugun á kúlunefinu gera sitt í að reyna að fela brúnu augun en tekst ekki. Þegar hann glottir koma spékopparnir í ljós, sem og lítil undirhaka.

Hann gengur greitt og heldur þétt uppað sér ljósgræna jakkanum sem hann er í utanyfir peysuna. Samt er ekki kalt úti. Það er skýjað, þannig að svo virðist sem rigningin sé alveg að fara að steypast niður. Samt er furðulega bjart yfir. Fersk rakalyktin liggur yfir öllu og það má finna léttan úða á kinn þegar gengið er eftir stéttinni.

Þegar hann kemur að gatnamótunum sem hann stoppaði við nokkrum andartökum áður tekur hann beygjuna rakleitt upp hliðargötuna. Hann heldur sem leið liggur að húsinu með veggspjaldinu og gengur inn um dyr þar. Á veggspjaldinu stendur „Skiptibúðin”.

Inni í búðinni má sjá margt. Þar eru hillur upp um alla veggi sem geyma ýmislegt, allt frá kvikmyndum á spólum og DVD-diskum, til bóka og geisladiska, plötur og ýmis konar tímarit. Lyktin inni í búðinni er sambland lyktinni af gömlum bókum og svitalykt. Skrýtna tóna leggur frá plötuspilaranum, einhvers konar klassískur sýrudjass, og við plötuspilarann stendur gamall maður með grátt skegg og hlustar af mikilli athygli. Inn á milli laumar hann frá sér athugasemdum til annars manns sem stendur hjá honum. Sá maður er talsvert grannur og með grátt hár. Hann er greinilega kominn af léttasta skeiðinu hvað aldur varðar, er snyrtilega klæddur, í flauelsbuxur og hvítri skyrtu og dökku vesti yfir. Hann stendur fyrir innan afgreiðsluborðið og þekkir vel til djassmannsins.

Fyrir utan þessa tvo eru inni í búðinni ungur maður með sítt hár og mikið skegg sem flettir í gegnum geisladiskarekkana af miklum áhuga, miðaldra maður sem skoðar gamlar bækur í rólegheitum og unglingspiltur, varla meira en 15-16 ára sem stendur við rekkann þar sem klámtímaritin eru og flettir þeim með galopin augun og heldur niðrí sér andanum af hrifningu.

Okkar maður hefur ekki áhuga á neinu af þessu. Hann arkar rakleiðis framhjá afgreiðsluborðinu, kinkar kolli til afgreiðslumannsins sem greinilega kannast við hann líka. Svo fer hann alveg í bakendabúðarinnar og smeygir sér leiftursnöggt bak við tjald sem er þar og lokar af bakherbergið.

Bakherbergið er lítið og þar er aðeins öðruvísi um að litast. Hillur eru upp um alla veggi og þar má sjá ógrynni af spóluhulstrum. Á hverju spóluhulstri má sjá fáklæddar og berar konur í alls kyns stellingum og með lostafullan svip á sér að reyna að fanga athygli kaupanda. Á borði í enda herbergisins og á gólfinu fyrir neðan hillurnar má einnig finna fleiri hulstur.

Þarna inni er einn maður að skoða sig um. Hann er lítill, sköllóttur, miðaldra náungi með mikla bjórvömb og í leðurjakka. Hann er kominn með 2 hulstur í hendurnar og er að skoða yfir eina hilluna. Söguhetjan lítur aðeins á hann en fer svo og tekur sér stöðu fyrir framan eina hilluna. Bankar létt með fingrunum í hvert hulstrið á fætur öðru en virkar samt áhugalítill um hulstrin en þeim mun áhugasamari um litla manninn. Sá finnur sér fljótlega enn eitt hulstrið og heldur svo sáttur með feng sinn út úr bakherberginu. Strákurinn lítur aðeins á eftir honum en tekur svo stefnuna á hurðarlausar dyr sem eru í einu horni bakherbergisins og opnar leiðina á bakherbergi bakherbergisins.

Innra bakherbergið er helmingi minna en bakherbergið sjálft. Þar má einnig sjá hillur og klámspólur fylla þær hillur. Það er þó ýmislegt öðruvísi við þessar spólur. Í stað þess að sjá bera kvenmannslíkama glenna sig er í staðinn að sjá bera karlmannslíkama í sömu stöðum, eða einhvers konar sambland af líkama karla og kvenna, í sömu persónunni. Inn á milli má reyndar finna kvenmannslíkama í dónalegum stellingum en það er samt ljóst að þarna er um allt öðru vísi klám að ræða en frammi.

Strákurinn ætlar að ganga inn í innra bakherbergið en hann tekur eftir því að þar er einhver fyrir að skoða spólur. Hann rétt sér í bakið á manninum. Maðurinn er allavega höfðinu lægri en strákurinn, klæddur í síðan, ljósbrúnan frakka og gráum sparilegum buxum. Svartir skórnir eru fínpússaðir og flottir og hann hefur gráan hatt á höfðinu, sem nær þó ekki að fela það að hann er með snjóthvítt hár. Strákurinn snýr sér snöggt við og fer aftur inn í bakherbergið. Röltir þar í rólegheitum að einni hillunni og þykist skoða það sem þar er boðið uppá.

Eftir að hafa rölt um allar hillurnar og potað í flest hulstrin er strákurinn tekinn að tvístíga. Hann lítur á úrið sitt og sér að hálftíminn er næstum liðinn. Hann lítur í átt að hurðalausu dyrunum. Ekkert bólar enn á gamla manninum sem virðist taka sér sinn duglega tíma í að velja sér dónaefni. Hann lítur aftur á úrið, dregur djúpt andann og fer svo aftur að dyrunum. Hann sér að gamli maðurinn er kominn með 2 spólur í hendurnar, „Young army men” og „Fresh Meat 5”

Hann tekur sér stöðu fyrir aftan gamla manninn og reynir að horfa yfir öxlina á honum á hilluna. Svo rýnir hann á hulstrin hvert af öðru. Allt í einu stoppar hann, hann hefur komið auga á eitthvað áhugavert. Sívaxandi bungan á buxum hans gefur það til kynna. Hann smeygir sér fram hjá gamla manninum og grípur spóluna. Gamli maðurinn snýr sér þá að honum og þeir horfa hvor á annan.

Þögnin þarna inni verður skyndilega mjög vandræðaleg. Strákurinn verður rauður í framan og kjálkinn fellur eilítið niður. Í smástund er eins og hann langi til að segja eitthvað, munnurinn hreyfist, en ekkert hljóð kemur frá honum. Gamli maðurinn er alveg jafn vandræðalegur, reynir í skyndi að lauma spóluhulstrunum sem hann heldur á aftur fyrir bak en það er orðið of seint. Svo lítur hann niður á hönd stráksins sem heldur á spóluhulstrinu sem hann var nýbúinn að taka. Strákurinn verður var við það, hendir hulstrinu frá sér aftur og í hilluna. Svo tekur hann á rás, út úr innra bakherberginu, út úr bakherberginu, út úr búðinni, bara út.

Hann arkar hröðum skrefum niður hliðargötuna, beygir til hægri og nánast hleypur eftir Hverfisgötunni í átt að bílastæðunum. Hann fálmar skjálfandi eftir bíllyklunum í vasanum og opnar bílinn. Svo sest hann inn. Í talsverða stund situr hann inn í bílnum, með báðar hendur á stýri, bíllyklana enn í annarri höndinni, höfuðið hangir og augun stara tómlega fram, munnurinn galopinn.

Hann hallar sér aftur í stólnum. Allt í einu byrjar hann að flissa. Flissið eykst og eykst þangað til hann er farinn að skellihlæja og berja á stýrið. Hristir hausinn. Um leið og hláturinn fer að minnka og hann kveikir á bílnum segir hann upphátt við sjálfan sig: „Ja, matarboðin hennar ömmu verða ekki eins eftir þetta!”