GJÖF GUÐANNA
Það ríkir fullkomin kyrrð yfir öllu. Lygnar öldur vagga blágrænum sjónum í friði og spekkt undir fagurbláum himni þar sem sólin skýn sínu skærasta. Og einhversstaðar á þessum friðsæla blágræna spegli sólarinnar flýtur lítil krukka úr leir. Í þessari litlu krukku er hönd. Höndin mín. Ég hjó hana af mér því hún misbauð mér.
Þannig er mál með vöxtum að ég bý á afskekktri lítillri eyju með fjölskyldu minni og ættbálki. Ég heiti M’Buku. Ég sinni minni skyldu í samfélaginu með því að veiða fisk til að fæða ættbálkinn og ef þörf krefur berst ég einnig gegn óvinum. En að mestu leyti veiði ég bara fisk. Það mun sonur minn einnig gera. Hann heitir Wabakka, í höfuðið á fornri ættbálkshetju nokkurri. Wabakka var sá fyrsti til að sigra tígrisdýraguðinn Ch’Gubra og varð höfðingi ættbálksins fyrir vikið. Ég vona að sonur minn eignist sama hugrekki og hæfni í spjótkasti og hinn forni Wabakka.

Dag einn tók ég son minn með mér í fjöruna því við ætluðum á veiðar. Ég hafði veiðispjótið mitt með mér en Wabakka var ekki orðinn nógu stór til þess að eiga eigið veiðispjót. Ég ætlaði að kenna honum að nota spjótið mitt þar til hann fengi sitt.
„Taktu nú eftir, Wabakka,“ sagði ég og sýndi honum spjótið mitt. „Þennan spjótsodd fann faðir föður föður míns. Það var fyrir langa langa löngu. Samt er hann ennþá flugbeyttur. Faðir minn sagði mér að þessi steinn væri gjöf frá guðunum svo að fjölskylda okkar gæti fært heiður til ættbálksins. Enginn annar veiðimaður í ættbálknum á annan eins grip og dag einn munt þú eignast hann. Nú mun ég sýna þér hvernig best er að veiða með spjóti.“
Ég óð lítið eitt í sjóinn og litaðist um eftir fiskum. Áður en langt var um liðið kom ég auga á fiskahjörð sem synti hjá, alls óvör því að brátt myndi einn þeirra verða mér að bráð. Án þess að hika þeytti ég spjótinu eins fast og ég gat í hjörðina sem tvístraðist samstundis og synti eins hratt og hún gat burt frá mér. En það var um seinan. Ég kyppti spjótinu upp og á því sat feitur bleikleitur fiskur, rekinn á hol, sprikklandi eins og hann ætti lífið að leysa, því sú var einmitt raunin.
Ég óð aftur í land með fiskinn í annarri höndinni og spjótið í hinni. „Nú skalt þú reyna,“ sagði ég og rétti honum spjótið. Hann tók við því feimnislega og mundaði það klunnalega og leit á mig spyrjandi augum. Ég sýndi honum hvernig best væri að halda á því og benti honum svo á að vaða út í sjóinn. Hann fylgdi því eftir, litaðist um með órólegan svip á sér og virtist ekki vita hverju hann væri að leita að.
„Leytaðu að fisknum Wabakka!“ kallaði ég til hans. Hann leit aftur til mín þessum spyrjandi augum. Svo virtist hann koma auga á eitthvað og fylgdi því eftir með spjótinu.
„Núna Wabakka! Núna!“ kallaði ég. Hann hikaði við en þeytti svo spjótinu. Í smástund fraus allt. Ég stóð grafkyrr og horfði á son minn. Sonur minn stóð grafkyrr og horfði á spjótið. Meira að segja öldurnar virtust falla saman og það sló dúnalogni yfir hafið. Í aðeins örstutta stund breyttist ólgandi hafsjórinn í fullkomnlega sléttan flöt sem endurvarpaði fullkominni spegilmynd af öllum alheiminum.
Svo hélt heimurinn áfram. Spjótið stóð beint upp úr vatninu og féll svo niður. Wabakka leit á mig. Ég kallaði: „Gríptu spjótið Wabakka! Gríptu spjótið!“ Wabakka glennti upp augun þegar hann skildi hvað væri að gerast. Hann óð eftir spjótinu en það sigldi burt frá honum. Ég hljóp í átt að honum en steig á oddhvassan stein í gáleysi og æpti. Wabakka leit á mig og svo aftur á spjótið en þá var það horfið. Gjöf guðanna var glötuð!
Ég haltraði það sem eftir var til Wabakka. „Hvar er spjótið!?“ æpti ég á hann. „Hvar er það drengur? Svaraðu mér! Hvar er það!?“En Wabakka gat ekki svarað mér. Hann vissi ekki hvar það var. Ég skymaðist um í örvæntingu minni í von um að finna spjótið en það var horfið. Ég leit á Wabakka. „Hvað ertu búinn að gera!?“ öskraði ég á hann. „Ertu búinn að týna spjóti fjölskydu okkar!?“
Wabakka leit á mig með tár í augunum og kjökraði: „Ég ætlaði ekki að – að týna því…“
„Ætlaðir ekki að týna því?!“ hreytti ég út úr mér og sló drenginn utan undir. Hann féll við og brast í grát. Ég kyppti honum á fætur og dró hann í fjöruna. Hann lagðist niður og grét. „Hættu þessu væli, strákaumingi!“ æpti ég á hann. „Þú smánar fjölskyldu þína og ættbálkinn!“
En hann hélt bara áfram að gráta. Ég virti drenginn fyrir mér. Hann var næstum því 100 tungla gamall og lá nú í sandinum og grét. Kannski var ég of harður við hann, kannski var það ekki honum að kenna að hann skyldi týna spjótinu. Kannski höfðu guðirnir ákveðið að kalla það aftur til sín, því þeir hefðu þurft á því að halda.
„Fyrirgefðu Wabakka,“ sagði ég loks. „Þetta er ekki þér að kenna. Guðirnir hafa viljað fá spjótið sitt aftur. Það er ekkert við því að gera.“
Hann þurrkaði burt tárin og leit á mig. Nú loks gat ég séð framan í hann. Hann var bólginn og blóðugur á vinstri vanganum þar sem ég hafði slegið hann og ég sá strax eftir því. Ég rétti honum höndina og leiddi hann aftur í þorpið.

Í þorpinu ráku konurnar upp stór augu þegar þær sáu útganginn á Wabakka. Hann var hættur að gráta en hann var enn bólgnari og gat varla séð út um vinstra augað. Móðir hans kom hlaupandi til mín og spurði hvað hefði gerst. Ég sagði henni að sækja prestinn frekar en að spyrja fánýtra spurninga. Ég skammaðist mín fyrir að slá drenginn. Hún faðmaði hann að sér og spurði hann hvort hann fyndi mikið til. Ég sá að hún myndi ekki sleppa honum frá sér þannig að ég hljóp eftir prestinum.
Ég fann prestinn í tjaldinu sínu og bað hann um að hjálpa syni mínum. Hann spurði mig hvað hefði gerst. Ég hikaði, ég var ekki viss hverju ég ætti að svara. Hann sá það greinilega á mér og sagði: „Hefur þú gert honum eitthvað, M’Buku?“ Ég leit á jörðina í skömm og kinkaði kolli. „Það er ekki gott,“ sagði hann. „Þú hefur drýgt ægilega synd, M’Buku. Hvað gerðirðu honum?“ Ég sagði honum alla söguna á meðan hann málaði sig með leirmálningunni sinni. Hún á að veita honum innsæi og visku.
Þegar ég lauk sögunni leit hann á mig og sagði: „Vissulega hefur þú syndgað, M’Buku. En það má enn bjarga heiðri þínum og heiðri ættbálksins.“ Án frekari orða þeyttist hann úr tjaldinu sínu og hljóp í mitt þorpið. Ég fylgdi á eftir, þó mun hægar, því ég vildi ekki þurfa að líta aftur á drenginn.

Prestinum tókst að lækna Wabakka og draga úr bólgunni en drengurinn var ennþá hræddur við mig. Hann hafði sennilega sagt móður sinni frá því hvað hefði gerst því allir þorpsbúarnir voru farnir að líta mig illu auga. Ég gat lítið veitt því ég þurfti að finna mér nýjan spjótsodd. Það var langt síðan ég hafði leitað að spjótsoddi, enda hafði ég einfaldlega notað spjót föður míns hingað til. Mér tókst aldrei að finna stein sem var nógu hvass fyrir minn smekk þannig að ég spurði prestinn ráða.
Presturinn sat lengi kyrr í tjaldinu sínu og hugsaði málið. Loks opnaði hann augun á ný og sagði við mig: „Það getur aðeins verið ein útskýring á því að þú finnir enga hentuga spjótsodda, M’Buku. Guðirnir eru enn reiðir þér fyrir að slá Wabakka. Þú verður að færa þeim friðarfórn við næsta fulla tungl.“
„En hvers konar friðarfórn get ég fært guðunum?“ spurði ég þá.
„Það er einfalt. Þú verður að losa þig við það sem misbýður guðunum mest, höndina sem þú slóst son þinn með.“
„Á ég að höggva af mér höndina? En hvernig á ég þá að veiða?“ spurði ég hissa.
„Þú verður bara að nota hina höndina, þó svo að þú sért ekki jafn fær í að nota hana.“ sagði presturinn og tók sér drátt af pípunni sinni.
Þar með var það ákveðið. Við næsta fulla tungl átti ég að höggva af mér höndina við mikla athöfn og sættast við guðina og ættbálkinn. Presturinn útskýrði fyrir mér nákvæmnlega hvernig málum yrði háttað og eftir örfáar nætur var tunglið fullt og athöfnin mátti hefjast.

Athöfnin fór svona fram: Í miðju þorpinu logaði mikill eldur og allir þorpsbúarnir sátu í hring í kringum hann. Við hliðina á eldinum sat hnullungur sem presturinn notaði oft sem altari við svona athafnir. Hjá honum var fata af vatni og tvær krukkur. Ég vissi að í annarri þeirra væri leirmálning prestsins en í hinni, stærri krukkunni var ég ekki viss hvað var í. Ég sat beint á móti altarinu, á hnjánum. Hinum megin við eldinn var tjald prestsins og um leið og hann steig út hóf þorpið að kveða við takt trommuleikaranna.
Presturinn var klæddur í fínustu skrautfjaðrir af páfugli sem hann hafði veitt sérstaklega fyrir þetta tilefni. Hann var einnig með ógurlega grímu fyrir andlitinu sem átti að tákna Gum’Batra, guð reiðinnar. Ég varð að sættast við hann til að endurheimta heiður minn. Presturinn hóf mikinn dans um áhorfendahringinn og ákallaði anda friðar og stríðs til að bera vitni gagnvart þessum atburði, þegar M’Buku skyldi sættast við son sinn, ættbálkinn og guðina.
Loks staðnæmdist hann fyrir framan mig og sagði mér að fylgja sér. Ég reis hægt á fætur og gekk sljóum sporum í átt að altarinu. Þar sagði hann mér að krjúpa. Ég kraup niður. Hann greip málningarkrukkuna, opnaði hana og klíndi leirnum framan í mig. Fólkið hélt áfram að kveða. Ég fann hvernig hjartað í mér sló hraðar og hraðar í takt við trommurnar.
Presturinn rétti mér skinnpoka og sagði mér að anda innihaldinu djúpt að mér. Ég stakk nefinu ofan í pokann og andaði. Þá fór um mig ótrúlegur kraftur og ég hélt ég gæti allt. Hjartað í mér sló hraðar og hraðar og ég var farinn að kippast til. Presturinn sagði mér að sitja kyrr, því stundin væri upp runnin. Ég kinkaði kolli og rétti fram hægri höndina. Hann lagði hana á altarið og dró fram öxi úr stein. Hann reiddi öxina á loft og bað Gum’Batra, guð reiðinnar að taka við þessari fórn og sættast við M’Buku. Svo lét hann öxina falla.
Það fór um mig ógurlegur sársauki og ég öskraði eins hátt og ég gat. Allir þorpsbúarnir öskruðu með og presturinn öskraði líka. Hann greip um handlegginn á mér og stakk stubbnum inn í bálköstinn til að brenna fyrir sárið. Ég öskraði eins og ég gat, sparkaði og vaggaði af sársauka. Hjartað mitt barðist um í brjósti mér. Ég froðufellti af sársauka. Það leið heil eilífð í hreinsunar-eldinum en svo stakk presturinn höndinni á mér í kalda vatnsfötuna. Ég tók andköf. Þá tók ég eftir því að það var allt orðið hljótt. Söngnum var lokið, trommurnar voru hættar, presturinn var hættur að öskra og horfði bara á mig. Presturinn batt um sárið mitt með vafningsvið og setti afhöggna höndina mína í krukku sem var full af einhverjum illa þefjandi vökva.
„Farðu nú M’Buku,“ sagði presturinn rólega. „Þú hefur verið tekinn í sátt. Á morgun mun ég varpa þessari krukku í hafið þar sem það verður gleypt af guðunum.“ Svo benti hann í átt að Ul’Daku, núverandi höfðingja ættbálksins og sagði mér að fara til hans. Ég stóð ringlaður upp og staulaði í átt að Ul’Daku. Ég leit útundan mér og sá Wabakka, sem sat stjarfur við hliðina á móður sinni, vinstra augað enn vel bólgið og horfði á mig með þessu spyrjandi augnaráði.
Ul’Daku stóð upp þegar ég var kominn til hans. Hann var klæddur tígrisdýrsfeldinum sem forfaðir hans, hinn forni Wabakka hafði tekið af tígrisdýraguðinum Ch’Gubra í sigurlaun. Hann opnaði arma sína fyrir mér. Ég féll í faðmlag með honum, hann hvíslaði til mín að allar mínar syndir væru nú fyrirgefnar. Við það fögnuðu allir og veisla var haldin mér til heiðurs, hinum endurheimta syni Ch’Tallana ættbálksins.
Ég sat við hægri hönd höfðingjans, sljór og veikburða og virti fyrir mér sárið. Í gegnum vafningsviðinn sá ég ekkert nema brunarústir. Ég gat lítið borðað og lítið drukkið, vildi helst fara heim og sofa svo tunglunum skipti. Ég leit á Wabakka og Wabakka leit á mig. Nú vorum við kvittir.

Nú eru um það bil tólf tungl síðan þetta atvik átti sér stað. Wabakka bjó til nýtt spjót handa mér og sjálfum sér og við æfum spjótkastið saman. Hann er orðinn mjög góður veiðimaður og sjálfur er ég ekki svo slæmur. Okkur semur vel saman en við minnumst aldrei á þennan atburð því hann vekur bara upp slæmar minningar. Og ég bý hér á eyjunni okkar í fullkomnum friði við bæði menn og guði vitandi að allar syndir mínar fljóta nú um á blágrænu hafinu undir heiðum himni þar sem þær angra engan.