Klukkan er sex um morgun og ég er ekki búinn að sofa í alla nótt. Það er líka frekar erfitt að sofa þegar maður er nýbúinn að uppgötva að maður er geðveikur. Eða er ég það? Ég er að minnsta kosti orðinn að fíkli. Að hugsa sér, ég af öllum orðinn að fíkli. Ég sem hef aldrei fundið fyrir þörf til neins, nema kannski að borða og anda en það telst ekki með. En það skiptir engu, aðalatriðið er að ég get ekki hætt þessu sama hvað ég reyni.
Þetta byrjaði allt í vinnunni minni fyrir nokkrum vikum. Ég var að fara með kassa af trópí niður í kjallara þegar að ég heyrði að einhver var að koma niður. Ég ákvað að fela mig og bregða henni.(ég segi henni því að það voru ekkert nema stelpur að vinna með mér) Þegar hún kom niður fylgdist ég með henni um stund og beið eftir rétta andartakinu. Þegar hún sneri baki í mig þá stökk ég fram og öskraði eins hátt og ég gat. Viðbrögðin hjá henni voru ótrúleg. Skerandi öskur sem yfirgnæfði mitt öskur léttilega. Ég öfundaði hana af því að geta gefið frá sér þvílíkt hljóð. Og svipurinn á henni. Náföl í framan, skalf eins og hrísla og augun galopin. Ég hafði aldrei verið eins hreykinn áður og ég vissi að núna gæti ég aldrei snúið aftur. Ég var hræðslufíkill. Þvílík unun sem fylgdi því að vita að manneskjan sem ég var að bregða héldi að ég hefði líf sitt á valdi mínu í smástund. Auðvitað fékk ég þrusuhögg í öxlina fyrir vikið en það var vel þess virði. Biðin og eftirvæntingin voru hluti af þessu öllu. Því lengri bið, því meiri eftirvænting og því meira fékk ég út úr þessu.
Ég laumaði mér stundum inn í vinnuna óséður og beið stundunum saman bara til að fá fullkomið tækifæri til að hræða líftóruna úr einhverjum. Ég hafði með mér grímur og skikkjur og alls konar dót til að magna upp hræðsluna. Í uppáhaldi hjá mér var samt þurrísinn. Vinur hans pabba vann í Ísaga sem framleiddi þurrís. Hann gaf mér smá og sýndi mér hvað var hægt að gera með honum. Ég setti hann í fötu fulla af vatni og síðan liðaðist kaldur reykurinn úr fötunni, niður á gólf og lét umhverfið líta út eins og í gamalli B mynd. Þá var fólk virkilega hrætt. En síðan varð ég leiður á að vera alltaf á sama staðnum. Ég færði mig í kirkjugarðana. Þar sá maður fólk sem var að syrgja ástvini sína og og aðra vini. Ég lét þau vera. Ég var illkvittinn en ég var ekki vondur. Ég einbeitti mér að fólkinu sem var bara að hangsa og hafði ekkert að gera. Ég hef aldrei á minni stuttu ævi séð fólk hlaupa svona hratt. Sumir þóttust ekki sjá mig en fóru síðan á harðaspretti í burtu en aðrir urðu stjarfir þar til ég byrjaði að ganga í átt til þeirra. Þvílík unun að hræða fólk.
Núna er ég að reyna að hætta þessu, en ég get það ekki. Ég hætti að bregða fólki í tvo daga og ég hef aldrei verið eins hræddur og þessa tvo daga. Ég geng alltaf með vasaljós á mér, bara til öryggis, ef að draugar skyldu nú hverfa við ljós. Ég er ekki sá eini sem er hræddur. Allir í kringum mig eru hræddir. Hræddir við mig. Þeir þora ekki að fara neitt með mér og vilja ekki hitta mig á kvöldin. En þetta eru bara þeir. Það er ekkert ég sem er geðveikur, það eru þeir. Það er að minnsta kosti það sem að ég held. En auðvitað er ég ekki viss. Það er bara eðlilegt að bíða í kirkjugörðum með grímu á sér um hánótt. Er það ekki?