Nokkrum dögum síðar kemur málarinn, enn sem fyrr, með strigapokann sinn. En í stað þess að draga upp stílabók, þá tekur hann upp nokkrar þykkar blaðaarkir. Síðan teygir hann sig eftir litlu vatnslitaboxi í pokann og setur á borðið. Hann kallar á Giorgio og biður hann um að koma með tvö glös og vatnskönnu. Síðan sest hann niður við borðið sitt.

Konan er úti á svölum. Einstaka sinnum gjóir hún augum að litla kaffihúsinu. Örfá ský sigla hægt yfir himininn en annars er þessi dagur eins og aðrir sumardagur, bjartur og heitur. Sölutjöldin iða af lífi og sölumennirnir kalla og hrópa hver ofan í öðrum og vona að tilboð þeirra nái að lokka til sín tilvonandi viðskiptavini.

Málarinn opnar vatnslitaboxið og tekur fram tvo pensla. Giorgio kemur með vatnið og glösin og leggur á borðið. Málarinn þakkar Giorgio fyrir og hellir vatni í bæði glösin. Síðan setur hann pensil í sitt glasið hvort. En Giorgio stendur enn hjá honum. Málarinn lítur upp til hans.

-Uhm…Pedro, þú fyrirgefur að ég skuli standa svona yfir þér en, segir Giorgio og teygir sig eftir sæti.-Jú, sérðu, fyrir nokkrum dögum þá skildirðu eftir munnþurrku sem þú hafðir teiknað á andlit Rósettu. Og hérna er hún. Ég var að velta fyrir mér hvort, að þér væri sama ef ég, hérna, hengdi þurrkuna upp á vegg?

Málarinn horfir um stund á Giorgio. Síðan brosir hann góðlátlega.

-Ekki vissi ég að nafn mitt væri svo þekkt, en gjörðu svo vel, kæri Giorgio, mín væri ánægjan eftir alla þína góðu þjónustu.
-Þakka þér fyrir, Pedro, þakka þér fyrir, segir Giorgio og grípur í hönd málarans. Síðan stendur þjónninn upp og gengur frá stólnum.
-En hérna, Giorgio, viltu ekki að ég skrifi undir þessa merkilegu munnþurrku?

Giorgio snarstoppar og snýr sér aftur að málaranum. Skellir síðan upp úr.

-Það þætti mér ægilega vænt um, svara hann en bætir síðan við lágt, -en þér að segja, og ég vona að þú reiðist mér ekki, þá hafa svo margir séð hana að ég held að flestir sem hingað koma vita hver teiknaði þessa mynd.

Málarinn skellir upp úr. Hann hlær um stund og fullvissar Giorgio um að það hafi verið í lagi. Síðan setur hann merki sitt á munnþurrkuna en snýr sér síðan að vatnslitunum.

Um hádegisbil kemur Giorgio aftur til málarans. Hann leggur disk með fisk og kartöflum og vínflösku á borðið. En þegar hann er að ganga í burtu stoppar málarinn hann.

-Hvernig eru augun á Rósettu á litinn, veistu það?

Giorgio hnykklar brýnnar og klórar sér í kollinum. Hann sest niður og setur hönd undir höfuð.

-Veistu, það er smá saga að segja frá því.
-Nú?
-Já, það er nefnilega smá saga og um margt undarleg.
-Endilega, ef þú ert ekki að flýta þér mikið, segðu mér hana rétt á meðan ég fæ mér að borða.
-Ekkert mál, en bíddu aðeins, ég ætla að ná mér í glas.

Giorgio rís á fætur og gengur eftir glasi. Hann er ekki lengi og hlammar sér í stólinn gegnt málaranum. Hann hellir síðan úr flöskunni í glas málarans og svo í sitt eigið.

-Hérna um árið, þegar við áttum enn í stríði, kom hingað ungur hermaður. Hann var ekki eins og við hinir, sem allir höfðum gert hosur okkar grænar fyrir Rósettu. En hún vildi ekkert með okkur hafa, sagði alltaf að hún þekkti okkur of vel, vissi alla okkar galla. En þessi ungi hermaður, var með ljóst hár og blá augu. Rósetta heillaðist af honum. Mér skilst, að þau hafi fyrst mætt hvort öðru í Garðinum, þar sem liljurnar vaxa. Og eitthvað undarlegt hafi gerst, eitthvað sem togaði þau hvort að öðru og fyrr en varði voru þau ástfanginn. En stríð eru svo undarlegt, þau kalla til sín mennina, hvern á fætur öðrum. Því fór sem fór, hann lofaði henni að hann skildi koma aftur en hann er enn ókominn og stríðinu lauk fyrir löngu. Þú spurðir um augnlit Rósettu, en þegar ég hitti hana fyrst, þá voru augu hennar sægræn og seiðandi. En svo segir sagan, að þegar ungi hermaðurinn kvaddi hana þá hafi annað auga hennar breytt lit og orðið brúnt.

Málarinn horfir um stund á Giorgio en segir ekki neitt. Maturinn á disknum hans er næstum ósnertur.

-Já, herra minn, þú segir mér nokkuð. En hvað varð um unga hermanninn?
-Það veit enginn. Hún Rósetta bíður á hverjum degi uppi á svölum eftir að hann komi aftur. Hún situr bara og bíður.

Málarinn kinkar kolli og horfir upp til Rósettu.

-Já, svona er lífið undarlegt.

Hann hefst nú við að borða matinn en kemst fljótlega í raun um að hann er orðinn kaldur. Málarinn ýtir disknum frá sér en fær sér sopa af víninu.

-Veit enginn neitt um þennan unga hermann? Hver hann var eða hvaðan hann kom?
-Nei, ekki svo ég viti til.

Giorgio stendur á fætur og tekur disk málarans og gengur með hann fram í eldhús. Málarinn heldur áfram að mála með vatnslitunum.
Svona líða dagarnir fram að hausti. Málarinn og Giorgio ræða saman á hverjum degi. Stundum fræðir Giorgio málarann um Rósettu, karlana í horninu eða fólkið sem býr við strætið. Stundum talar málarinn um listina, pólitík eða lífið, stundum jafnvel allt í einu. Alla daga sem sólin skín situr Rósetta úti á svölum og horfir til hafs.

En sumarið líður inn í haustið og málarinn fækkar komum sínum á litla kaffihúsið. Einn dag í lok september segir hann dapur við Giorgio.

-Kæri vinur, nú verð ég að kveðja. Veturinn siglir brátt inn á borgina og ekki get ég komið á hverjum degi með lest þegar hann herðir að. Ég, eins og aðrir, verð að vinna fyrir salti í grautinn og get ekki eytt dögunum lengur á kaffihúsi. Ég ætla því að gera upp reikninginn.
-Nei, Pedro, hafðu ekki áhyggjur af honum. Nærvera þín hefur verið okkur svo mikil blessun, viðskiptin hafa aukist svo um munar.
-Já,en…
-Ekkert ,,já, en”. Mundu bara eftir litla kaffihúsinu næsta sumar. Við verðum enn hér og bíðum eftir þér.

Síðan kveðjast málarinn og þjónninn.

Nokkrum dögum síðar gengur vetur í garð. Lífið við strætið heldur inn í veturinn og ekki líður á löngu þar til að viðskipti litla kaffihússins falla aftur í sitt gamla form. Gömlu karlarnir halda áfram uppteknum hætti og hittast á hverjum degi og spila.

Rétt fyrir jól opnast hurð litla kaffhússins upp á gátt. Ískaldur norðanvindur blæs inn. Í dyrunum stendur maður klæddur þykkum ullarfrakka með rauðan trefil um hálsinn og svarta húfu á hausnum. Hann heldur á stórum, flötum böggul vöfðum inn í rauðköflótt ullarteppi. Hann horfir yfir kaffihúsið og kallar síðan.

-Giorgio!

Giorgio sem er staddur inn í eldhúsi kemur fram.

-Giorgio, kæri vinur!

Dökkklæddi maðurinn tekur af sér húfuna. Undan húfunni kemur í ljós krullaður kollur málarans.

-Pedro, herra Pedro Malva! Svei mér þá! Hvað rekur þig hingað?
-Ja, það er nú saga að segja frá því, svarar málarinn og glottir.

Þjónninn og málarinn setjast niður og spjalla saman um stund.

-En segðu mér, Pedro, hvað ertu búinn að gera í vetur?
-Nú, mála, auðvitað. Annars fór ég um tíð til Parísar. Undarleg borg, Giorgio, undarleg borg.
-Já, er það?
-Já, undarleg borg.

Síðan verður málarinn skrýtinn í framan.

-En ég kom með smá gjöf handa þér.
-Handa mér?
-Já.

Málarinn réttir Giorgio böggulinn. Hann tekur varlega teppið af bögglinum. Í ljós kemur mynd af Rósettu uppi á svölunum.

-Ég er orðlaus, segir Giorgio.
-Já, myndin er alveg ágæt, ekkert æðisleg en alveg ágæt. Getur komið í staðinn fyrir munnþurrkuna.
-Ég er orðlaus, endurtekur Giorgio.

Þeir þegja um stund og Giorgio stendur og starir á gjöfina.

-Hérna, þú veist kannski ekki, kæri Pedro, nei, hvernig gætir þú hafa vitað það?
-Vitað hvað?
-Rósetta er farin. Horfinn á eftir unga hermanninum.
-Nú, kom hann eftir henni?
-Nei.
-Hvað þá? Fór hún til hans heima?

Giorgio horfir dapur á Pedro, en reynir svo að brosa.

-Já, það má segja það. Hún fékk bréf.
-Nei, þú segir ekki.
-Jú.
-Ja hérna.
-Já, hún fór sömu leið.
-Ja, segir málarinn og andvarpar, -svona getur lífið leikið mann grátt.

Málarinn og þjónninn spjalla saman um stund. Um lífið, listina og Rósettu. Loks um kvöldmat stendur málarinn upp og kveður Giorgio.
Þegar Giorgio lokar á eftir honum hurðinni horfir hann um stund á eftir honum hverfa út í kvöldmyrkrið. Síðan gengur hann að myndinni og finnur henni stað á einum vegg. Hann slekkur ljósin og minnir sjálfan sig á að koma með hamar og nagla á morgun.