BALTASAR


Gamallri og fúinni tréhurðinni var hrundið upp og inn gekk fótgönguliðinn með sverðið á lofti. Hann virti hrörlegan kofann fyrir sér. Eina lýsingin í dimmu herberginu kom utan úr dyragættinni og lýsti upp fátæklegar innréttingar hússins. Á miðju gólfinu stóð óheflað tréborð og þrír samskonar stólar í kring. Andspænis dyrunum var lítill sótsvartur arinn, og við hægri hlið hans lítill stafli af eldivið. Til hægri lágu dyr að öðru herbergi en annars var ekkert athyglisvert innan í húsinu.
Fötgönguliðinn, Baltasar að nafni, var klæddur hringabrynju með einfaldan járnhjálm á höfði, sverð sér í hægri hönd. Hávaxinn, dökkhærður, með mikinn hár- og skeggvöxt og stingandi græn augu sem stóðu undan þykkum augabrúnunum. Það marraði í fúnu trégólfinu þegar hann gekk inn og stefndi í átt að svefnherbergisdyrunum.
Þremur skrefum áður en hann kom að dyrunum rauk stór og mikill maður út um þær með öxi að vopni og hjó að Baltasari. Baltasar vék sér fljótlega undan og hjó manninn í bakið svo hann féll fram og ofan á borðið sem gaf undan þunga hans og hrundi. Blóð lak úr sárinu meðan árásarmaðurinn reyndi að staulast á fætur en hann hneig fljótt aftur og hreyfðist ekki meir. Þetta var vöðvastæltur maður, ljóshærður og loðinn, klæddur fátæklegum skinnklæðum og ullarefni, sem nú var þakið blóði.
Baltasar virti líkið fyrir sér. Þessi fátæki maður hafði fórnað lífi sínu til að reyna að verja þær litlu eigur sem hann átti, sama hversu litlar líkur hans væru gegn herþjálfuðum málaliða eins og Baltasari. Baltasar fann fyrir lotningu fyrir þessum manni sem var tilbúinn að kljást við sig með einfalda skógaröxi að vopni í stað þess að láta slátra sér eins og ótal öðrum bændum á undan sér. Kannski var það frekar heimska heldur en hugrekki, hugsaði Baltasar og glotti.
Þá heyrði hann kjökur innan úr svefnherberginu, herberginu sem bóndinn hafði komið æðandi úr. Kvenmannskjökur. Baltasar steig hæg skref í átt að dyrunum og leit inn. Fyrir utan fátæklegu og skítugu fletin og litla náttborðið með olíulampanum var lítið áhugavert í herberginu, fyrir utan að sjálfsögðu kjökrandi konuna, grátandi smábarnið sem hún hjúfraði að sér og unga drenginn sem hélt utan um móður sína með tárin í augunum. Konan og drengurinn litu á Baltasar með óttaglampa í augunum. En í augum drengsins var meira en ótti. Þar var hatur, þar var fyrirlitning. Þar var hefndarþorsti. Drengurinn stóð hægt upp og gekk til Baltasars.
„Láttu mömmu mína í friði!“ kjökraði strákurinn með ekka í hálsinum. Baltasar brá. Þessi drengur, sem gat ekki verið nema níu vetra gamall var tilbúinn til að deyja fyrir móður sína. Fífldirfska var greinilega ættgeng. Baltasar gat ekki nema brosað að drengnum. Lítill og ljóshærður, klæddur í ullarserk með tárin streymandi niður kinnarnar og samt var þessi litli drengur tilbúinn að hóta morðóðum ræningja. Hann var einn í einlægni sinni og fífldirfsku tilbúinn til þess að kljást við þennan ógurlega og hrottalega morðingja sem var nýbúinn að myrða föður hans án þess að svo mikið sem blikka.
„Þú ert hugrakkur, litli minn,“ sagði Baltasar. „Snautaðu nú út meðan ég ræði við mömmu þína eða ég ríf úr þér garnirnar og kyrki þig með þeim!“
Strákurinn horfði beint í augun á óvininum. „Nei,“ sagði hann ákveðinn. „Þú lætur mömmu mína í friði!“
Baltasar hvessti augun á drenginn og urraði lítið. Drengnum brá sýnilega en hann bifaðist ekki. „Þú ert mjög hugrakkur. Fyrir það veiti ég þér snöggan og kvalarlausan dauða,“ sagði hann, sveiflaði sverðinu og hjó höfuðið af stráknum. Höfuðið litla skall utan í vinstri vegginn og féll á gólfið þar sem innihald þess seitlaðist út. Blóðpollur líkamans og höfuðsins runnu saman við fætur Baltasars og hann gekk lengra inn í herbergið.
Konan grét hástöfum núna og barnið öskraði af óróa. Baltasar reif í upphandlegg konunnar og reyndi að toga hana á fætur en hún öskraði og streittist á móti. „Svona nú!“ sagði Baltasar og hló. „Ég hlýt nú að eiga einhver verðlaun skilin eftir öll þessi dráp!“ Konan engdist um, sparkaði, kýldi og beit eins og óður köttur. En hún var lítil og aum, vannærð og þreytt, sennilega næstum nýbúin að eignast barnið sem hún reyndi ennþá að verja.
Baltasar fleygði henni á eitt fletið og slíðraði sverðið sitt. Barnið féll á gólfið þar sem það orgaði af hræðslu og sársauka. Hann kastaði sér ofan á konuna sem barðist enn um án afláts. Hann hélt henni niðri og setti sig í stellingar. Hann teygði sig niður til þess að losa um beltið sitt. Þá sá hún sér færi og sló hann í hægra augað og klóraði hann til blóðs. Baltasar æpti af sársauka og kýldi hana á kjaftinn.
„Þetta færðu borgað, hlevítis tíkin þín!“ öskraði hann, dró fram hnífinn sinn og skar hana í andlitið. Hún öskraði enn meir. Hann stakk hana, einu sinn í hálsinn og svo brjóstið, aftur og aftur. „Hafðu þetta, helvítis druslan þín!“ öskraði hann og stakk hana og skar hana. Blóð spýttist úr brjósti konunnar og yfir hann allan. Hann gat ekkert séð í hægra auganu og varla því vinstra heldur fyrir blóði og sársauka. Hann skar og stakk, skar og stakk, aftur og aftur, hraðar og hraðar, fastar og fastar.
Loks rann æðið af honum og hann kastaði mæðunni. Hann var uppgefinn af heift, alþakinn blóði og gat ekkert séð með hægra auganu. Hann þurrkaði af sér svitann, blóðið og tárin í skítugum rúmklæðunum, slíðraði hnífinn og skjögraðist út. Þegar hann kom út tók grár og dimmur himininn við honum og grænar hæðir allt í kring. Hann sá mann í herklæðum koma gangandi til sín, klæddan sams konar búningi og hann sjálfur.
Þegar hermaðurinn var kominn nær heilsaði hann honum og sagði: „Við höfum lagt þetta svæði undir okkur. Höfðinginn vill að við snúum aftur í herbúðirnar.“
Baltasar kinkaði kolli og svaraði: „Ágætt. Ég er búinn að fá nóg af því að drepa í dag.“
Hinn hermaðurinn virti hann fyrir sér: „Það er naumast að sjá á þér útganginn! Drapstu heila hersveit einn þíns liðs eða hvað?“
Baltasar leit á félaga sinn og hugsaði sig um. Loks gekk hann af stað í átt að búðunum og sagði: „Bara ef svo væri.“