Hún situr úti á svölum. Eins og alla daga. Horfir niður tígulsteinalagt stræti og út að hafi. Situr og bíður. Dökkt hár hennar bærist í heitri golunni og hún strýkur svitaperlur af enni sínu. Hún bíður, hátt fyrir ofan strætið, þar sem sölubásar og vagnar fullir af ávöxtum og olífum keppast við að heilla til sín húsmæður í innkaupaferðum.

Við strætið er lítið kaffihús. Þar situr málarinn í rauðri skyrtu og horfir á hana. Eins og hann hefur gert í allt sumar. Hann veit ekki hvað hún heitir og hún veit ekki af honum. En samt kemur hann á hverjum degi á litla kaffhúsið og situr úti, undir sóltjaldinu og horfir á konuna sem situr á svölunum.

Málarinn er þekktur í þessari borg fyrir myndir sínar. Hann er málar litríkar og bjartar myndir af konum og húsum, blómum og trjám. Allt sem fangar athygli hans. En hann málar ekki karlmenn.

Það er heitt. Málarinn hneppir frá efstu tölunum á skyrtunni og tekur upp bláan vasaklútt, til að þurrka sér í framan. Hann kallar á annan þjón kaffishússins og biður um vatnsglas með sítrónusneið. Úti á strætinu reyna húsmæðurnar að halda sig innan skugga marglitra sölutjaldanna og mennirnir breiða dagblöð yfir ávextina svo þeir eyðileggist ekki.

Uppi á svölum stendur konan upp og gengur inn. Eftir stendur svartur stálgrindarstóll, einn á svölunum. Hún kemur aftur út eftir skamma stund með vatnskönnu og glas. Könnuna setur hún niður við stólinn eftir að hún er sest og hefur fyllt glasið. Hún teigar ekki vatnið, heldur fær sér litla sopa.

Málarinn rennir augun upp eftir hunangslituðum fótleggjum hennar og dáist að straumlínulögum þeirra. Hún er í hvítum sumarkjól skreyttum með gulum blómum.

Loks kemur þjónninn með vatnsglasið. Hann setur það varlega niður, eins og hann vilji ekki styggja málarann, þar sem hann situr og starir á konuna. Málarinn lítur frá konunni á þjóninn og brosir kurteisislega. Þakkar fyrir sig lágt en lítur svo aftur upp á konuna.

Málarinn tekur af sér hornspangargleraugun og rennir fingrunum í gegnum þykkt, krullað hárið. Síðan nær hann í blýant sem hann geymir í hægri brjóstvasa jakka síns og teygir sig í munnþurrku.
Dagurinn líður og goluna lægir. Þegar sólin er við það að setjast gengur konan á svölunum inn og tekur svarta stálgrindarstólinn með sér. Hún lokar svalahurðinni á eftir sér.

Stuttu síðar stendur málarinn á fætur, tekur vöðlaðan peningaseðil úr vasanum og lætur á borðið en gengur síðan út af kaffihúsinu og niður strætið.

Daginn eftir kemur málarinn í grænum regnfrakka aftur á litla kaffihúsið. En í dag er hellirigning og konan situr ekki úti á svölum. Málarinn gengur inn og fær sér sæti við glugga sem snýr út að strætinu og húsi konunnar.

Inni á kaffihúsinu er hálfrökkvað og loftið reykmettað. Það sitja ekki margir þarna inni. Fyrir utan málarann og þjónana tvo, þá sitja þrír eldri menn út í horni, spila og reykja. Þeir eru allir í skyrtum og svörtum buxum, eins og það sé kirkjudagur, en grá hár þeirra er ógreidd, nema á þeim sem er sköllóttur.

Málarinn tekur upp litla stílabók og nokkur kol úr strigapoka sem hann kom með. Hann notar kolin til að teikna hús konunnar inn í stílabókina. Þannig líður allur dagurinn. Af og til kallar hann til þjónana og biður þá um að færa sér vatn eða eitthvað að borða. Þeir örfáu sem koma inn á kaffihúsið inn úr rigningunni undrast að sjá þennan fræga listamann á litlu kaffihúsi við þetta stræti. Kannski eiga þeir frekar von á að sjá hann á einhverju af stóru kaffihúsunum í miðbænum.

Loks kemur að því að málarinn stendur upp, gengur frá stílabókinni aftur í strigapokann og klæðir sig í græna regnfrakkann.

Enn kemur málarinn næsta dag. Hann er léttklæddur enda sólin hátt á himni og skín miskunnarlaust niður á strætið. Hann er með strigapokann og blístrar lítið lag þegar hann gengur inn á kaffihúsið. Í hægri hönd heldur hann á plómu sem hann er búinn að taka tvo bita af og safinn leikur yfir höndina. Þegar hann sest niður þá teigir hann sig í munnþurrku og reynir að þurrka klísturkenndan safan af. Síðan tekur hann upp stílabókina og kolin á ný og hefst handa við að teikna.

Konan situr úti á svölum. Málarinn situr um stund og virðir hana fyrir sér. Dökkt hárið flæðir niður á axlir. Hún er berfætt og hallar sér fram að handriði svalanna. Hún horfir niður eftir strætinu og út að hafinu.

Málarinn kippist við þegar annar þjónanna kemur til hans. Þetta er eldri þjónninn og hann er nokkuð mikill um sig en brosmildur. Hann stendur í svart-hvíta þjónabúningnum við hlið málarans og horfir upp til konunnar. Hann brosir og hlær lágt.

-Ah, Rósetta, segir hann, -yndi þessa strætis en samt einhvern veginn svo ósnertanleg, eins og stjarna.

Málarinn snýr sér að honum og horfir um stund á hann. Brún augu þjónsins eru álíka brosmild og hann sjálfur. Málarinn lítur aftur upp að konunni.

-Já, heitir hún Rósetta, spyr hann.
-Já, Rósetta.

Málarinn biður feita þjóninn um vín og súpu en snýr sér síðan aftur að því að teikna í stílabókina. Þjónninn gengur inn í eldhús og sækir það sem málarinn bað um. Þegar hann kemur aftur hefur andlit Rósettu birst í stílabókinni.

-Þú ert…þarna frægi málarinn, er það ekki?
-Nú, er ég frægur, spyr málarinn.
-Já, ertu ekki Pedro Malva?
-Jú.
-Hérna, ef þig vantar eitthvað meira, þá kallarðu bara á mig. Ég heiti Giorgio.

Síðan leggur hann súpudisk, glas og hvítvínsflösku á borðið hjá Pedro. Hann brosir og þakkar Giorgio fyrir. Á meðan hann gæðir sér á súpunni starir hann á Rósettu.

Hún stendur upp og kallar niður á strætið, til einhvers dökkhærðs, ungs drengs. Hún biður hann um að hlaupa fyrir sig og kaupa epli. Hann jánkar og hleypur af stað. Stuttu síðar, þegar málarinn er búinn með súpuna sína, kemur drengurinn aftur á harðahlaupum með poka fullan af eplum. Hann opnar rauða hurð og fer inn. Rósetta fer inn af svölunum en kemur út skömmu síðar með pokann.

Málarinn hallar sér aftur í sætinu og fylgist með Rósettu borða eplin. Þau eru græn og safarík, svo safarík að safinn rennur niður höku hennar. Hún skellir upp úr og skýst inn eftir þurrku.

Á strætinu er talsvert af fólki. Þar kallast á sölumenn og keppast um athygli húsmæðra. Í skugga sölutjaldanna standa þær í svörtum pilsum, með klúta um höfuðin og spjalla saman. Málarinn tekur ekkert eftir þessu fólki.

Inni á litla kaffihúsinu er nóg að gera. Þar sitja gömlu mennirnir á sínum fastastað, út í horni, spila og reykja. Í dag er meira að gera en í gær. Þjónarnir eru á hlaupum milli borða. Gestirnir eru af mismunandi toga, stúdentar og virðulegir menn, fyrirsætur og húsmæður og einn málari.

Hann heldur áfram að teikna Rósettu. Teiknar mynd af henni að borða epli á munnþurrkuna sína. Þannig líður dagurinn.
Þegar fer að kvölda stendur Rósetta upp, tekur svarta stálgrindarstólinn upp, gengur inn og lokar svalahurðinni.

Málarinn kallar þá á Giorgio. Feiti þjónninn kemur samstundis.
-Getur þú látið þetta á reikning fyrir mig? Þú átt eftir að sjá meira af mér í sumar, aftur á morgun og hinn.
-Jú, sjálfsagt, hr. Malva, ekkert mál.
-Þakka þér kærlega, Giorgio.
Eftir smástund bætir hann við.
-Pedro, notaðu frekar Pedro.

Síðan tekur málarinn saman stílabókina og kolin og heldur heim á leið. Eftir stendur feiti þjónninn, horfir á eftir málaranum og segir lágt við sjálfan sig.
-Ekkert mál, Pedro, ekkert mál.

Næstu dagar eru áþekkir þessum. Alltaf kemur málarinn með strigapokann sinn og teiknar í stílabókina alls kyns útfærslur af konunni uppi á svölunum. Giorgio reynir sitt besta til að sjá til þess að málarinn hafi það sem best, en sá kvittur hefur borist út á strætið að Pedro Malva, hinn frægi málari, eyði dögum sínum á litla kaffihúsinu. Gestum hefur smátt og smátt verið að fjölga.