Fyrstu sólargeislar morgunsins banka létt á glugga hergergis míns. Ég vakna, svíf hægt og rólega upp úr draumsvefni næturinnar, opna augun og lít nýjan dag. En ég er ekkert að flýta mér á fætur. Ég ligg frekar aðeins lengur, ligg undir hlýrri dúnsæng og loka aftur augunum. En geislarnir hafa náð fótfestu undir augnlokunum og þaðan eiga þeir greiða leið inn í huga minn. Hvert skúmaskot, þar sem áður draumar og næturstjörnur vöktu, fyllist af hlýju ljósi. Hvernig get ég annað en farið á fætur.

Í dag ætla ég að vera góður. Mamma var búin að lofa mér, í gær þegar ég spurði hana, að í dag mætti ég fara. Ganga í kringum vatnið. Ég klæði mig í, fyrst í sokkana og brúnu buxurnar en síðan í hvítan bol og ljósu peysuna sem amma prjónaði handa mér. Þá er bara að tölta inn á klósett og þvo sér í framan.

Mamma er vöknuð. Hún stendur niðri í eldhúsi í dökku vinnufötunum sínum og smyr handa mér nesti. Ég hleyp niður stigann, svo að það glymur í öllu húsinu og að venju skammar mamma mig fyrir en brosir. Ég hef heyrt þessar skammir milljón sinnum og hún hefur sagt þær milljón sinnum.

Ég er ekki lengi að borða morgunmat. Mamma var búin að setja á borðið smurt brauð og nýja mjólk. Pabbi er löngu vaknaður og er farinn út að sinna verkunum. En ég á frí í dag. Pabbi var búinn að lofa, þegar ég spurði hann í gær.

Mamma setur nestið í fínt box, með mynd af lítilli stelpu og strák með rauða húfu sitja við tré og borða nesti. Ég kyssi mömmu á kinnina og þakka fyrir mig. Síðan geng ég fram og klæði mig í skónna. Hún kemur á eftir mér með nestisboxið. Hún stendur yfir mér á meðan ég reima.

Þegar ég er að fara út togar hún í hárið á mér. Við erum bæði ljóshærð og stríðum hvort öðru með að toga í hárið hvort á öðru. Ég brosi og sný mér við til að kveðja mömmu en hún er farin inn úr dyrunum. Ég tek nestiboxið og læt það í bakpokan hans pabba. Hann er alltaf með bakpoka með sér þegar hann fer í göngutúrana sína. Bakpokinn er komin til ára sinna og farinn að láta á sjá, en það er góð lykt af honum.

Úti á hlaði er Kolur. Hann geltir þegar hann sér mig koma út og heilsar mér. Ég klappa honum á kollinn og bakvið eyrun. Hann sleikir á mér höndina og dillar skottinu. Við leggjum af stað.
Þegar við stöndum við bæjarhliðið snúum við okkur við og virðum fyrir okkur bæinn. Tvílyft steinhúsið er hvítmálað og þakið rautt. Útihúsin eru eins, nema fjárhúsið sem er ómálað. Við pabbi ætlum að mála það seinna í sumar, þegar tími gefst til. Bærinn stendur á nesi við Svartavatn. Það er smá gára á vatninu, sólargeislarnir dansa léttfætir vals og rúmbu ofan á hverri þeirra, leikur ljóss og skugga. Andamamma kennir ungum sínum fyrstu sundtökin. Ég horfi aftur heim, mamma stendur í útidyrunum og veifar til mín. Ég veifa til hennar á móti en sný mér síðan við.

Himinninn er heiður og fuglar syngja. Kolur skoppar ánægður við hliðina á mér. Ég blístra lítið lag með fuglunum og horfi á flugur og fiðrildi fljúga á milli gulra og fjólublárra sumarblóma, sem vaxa við veginn. Ég ætla ekki að fylgja honum lengi, því ekki langt frá hliðinu er stígur sem liggur niður að vatni og meðfram því öllu.

Þegar ég er kominn niður að vatni taka á móti mér nokkrir fjörugir silungar. Þeir stökkva allt hvað af tekur og ég veit að pabbi á eftir að veiða þá. Við förum einu sinni í viku og vitjum um net sem liggja úti í miðju vatni. Einu sinni fengum við risableikju í netin og pabbi var heillengi að ná henni inn. Hann sagði að hún væri ábyggilega að minnsta kosti fimmtán pund.
Ég held áfram en eftir smástund vill Kolur snúa aftur heim. Hann er ekki vanur að fara svo langt að heiman nema í fylgd pabba, þannig að ég leyfi honum það. Hann hleypur inn á milli birkitrjáa og finnur fljótlega stystu leið heim. Ég er eftir aleinn en mér finnst það allt í lagi. Mér finnst reyndar leiðinlegt að sjá eftir Kol, en leiðin liggur áfram ekki heim, þannig að ég verð að sætta mig við einveruna.

Eftir um klukkustundar göngu, úr bláum vogum og á milli grænna trjáa, kem ég að klettóttri hæð. Ég þarf að hafa mig allan við að klífa klettana en tekst þó að komast upp ómeiddur. Síðasti hamarinn var erfiður en mér tókst að ná toppnum. Reyndar hef ég hruflað á mér lófana.

Þarna uppi er gott útsýni yfir vatnið og sveitina í kring. Þarna stendur bærinn, einhvern veginn svo bjartur að það skín af honum. Allt um kring er skiptist á vatnið, birkitré og gróið land. Hinum megin við vatnið eru svo fleiri bæir. En enginn eins og bærinn minn.

Ég ákveð að hvíla mig um stund og athuga hvaða góðgæti mamma hefur látið í boxið. Ég opna það og djásnin koma í ljós, flatbrauð með kæfu og kleinur. Nóg hef ég af vatni.

Þegar ég stend á fætur tek ég eftir að einhver er niður í víkinni fyrir neðan klettinn og baðar sig í vatninu. Ég hef hægt um mig. Ég feta mig niður og fel mig í runna. Þetta er stelpa sem syndir þarna, nakin, í vatninu. Hún syndir um stund en snýr síðan aftur að landi. Þegar hún botnar loks stendur hún upp úr vatninu. Það perlast á hvítu hörundi hennar. Það stirnir af perlunum og í eitt augnablik finnst mér eins og hún hljóti að vera komin af fiskum, því hörund hennar er marglita og hreisturkennt. En þetta hljóta að vera sjónhverfingar vatns og ljóss.

Þegar hún tekur eftir mér brosir hún og biður mig um að rétta sér fötin sín. Mér verður heitt í andlitinu og skammast mín fyrir að hafa legið á gægjum. En hún segir að það sé allt í lagi, því hún hafi tekið eftir mér uppi klettinum og séð mig klífa niður.
Ég sæki fötin hennar og rétti henni þau, en án þess þó að líta á hana. Hún fer bara að hlæja.

-Hvað heitirðu svo?, spyr hún.
-Ég?
-Já, þú. Er það ekki venja að karlmenn kynni sig fyrir dömum áður en þeir fá að bera þær naktar augum?
-Jú, svara ég og laumast til að brosa.

Hún er búin að klæða sig. Dökkt hárið er þó enn rennandi blaut. Hún er í engum skóm eða sokkum.

-Ég heiti Hallgrímur Andri, segi ég og rétti henni höndina.
Hún horfir um stund á höndina á mér en fer svo að hlæja. Hlátur hennar er leikandi léttur og smitandi. Eftir smástund er ég farinn að brosa út í annað en veit í raun ekki alveg út af hverju. Augu hennar eru líkt og spegilsléttur vatnsflötur að vori og þau soga mig til sín. Eitthvað innra með mér bærist, eins og laufblað í haustvindi, og endurtekur lágt nafn mitt.

-Ég heiti Marín, svarar hún loks og tekur í hönd mína.
Við stöndum um stund og horfum saman á vatnið. Síðan segi ég henni af ferð minni og hún ákveður að fylgja mér. Sólin skín og það er komið logn. Vatnið er spegilslétt og eftir því sem sólin hækkar á lofti því heitara verður. Langt í burtu má greina hundgá, eflaust einhver smalinn að reka kýrnar heim í fjós.
Við göngum og spjöllum saman um alla heima og geima. Þegar sólin nær hæstu stöðu setjumst við niður í lítilli laut og skiptum með okkur nestinu. Allt um kring eru gul blóm og í vatninu má sjá þegar fiskarnir grípa flugur af vatnsyfirborðinu. Gönguferðin fram til þessa hefur verið sem leikur einn og tíminn flogið hjá, það er vart að ég hafi tekið eftir honum.

Þegar við stöndum aftur á fætur þá tek ég eftir að langt í burtu, norður fyrir, við sjóndeildarhringinn hafa safnast saman gráir skýjabakkar. Og ekki líður á löngu þar til að vind fer að hreyfa á ný. Innra með mér vona ég að ég nái heim áður en skýin nái hingað.

Við höldum áfram. Gangan sækist hægar nú vegna þess hve erfitt landið er yfirferðar. Núna þurfum við að ganga upp hæðir og hóla lagða dimmu hraungrýti því hérna rann hraun út vatnið fyrir mörgum árum síðan. Við ræðum ekki jafn mikið saman. Það koma langar þagnir. Hérna megin við vatnið er lítið um gróður, nema ef vera skyldi grár og mjúkur mosinn.

Loksins komumst við úr hrauninu og þá er eins og þungu fargi sé af okkur létt. Marín fer að brosa á ný og skellir upp úr út af engu. Ég get ekki annað en hlegið með henni. Hún staldrar við eitt augnablik og hreinsar fæturna í vatninu. Það myndast rauðir taumar í vatninu við fætur hennar.

Við reynum samt að halda áfram, en okkur sækist ferðin hægt vegna þess hve sárfætt Marín er orðin. Við þurfum að stoppa við og við á meðan hún jafnar sig. Alltaf nálgast skýjabakkarnir og það er orðið allhvasst.

Um miðjan eftirmiðdag stoppar Marín mig. Hún horfir á mig raunamædd. Ég veit sem er, að hún komist ekki lengra, vilji ekki lengra og ætli sér að kveðja mig. Ég var að vonast til að ekki mydni koma til þessa en slíkt verður víst ekki umflúið. Hún strýkur mér um vanga og segir.

-Þetta er búin að vera skemmtileg ganga með þér, vinur minn.
Síðan kveður hún mig og gengur í vatnið.

Ég horfi á það um stund en held síðan áfram. Í sama mund fer að rigna. Ég tók ekki með mér regnstakk í morgun, þannig að ég verð að sætta mig við að verða blautur. Veðrið sækir í sig kraft en sem betur fer, þá á ég ekki langt eftir. Ég er farinn að sjá heim. Sólin er að setjast en ég verð lítið var við það. Það dimmir snögglega hér við Svartavatn

Bæjarhúsin standa þarna, köld og einmana. Engin ljós standa tendruð í gluggunum og skuggar virðast alls staðar. Ég geng heim og tek eftir hversu margar sprungur eru komnar í útveggi húsanna. Í rigningunni gráta þau, eins og náttúran.

Ég geng inn, í þögn og myrkur. Læðist upp og leggst upp í rúm. Reyni að sofna innan um alla þessa skugga.

Nóttin er dregin yfir landið.