Tíminn líður. Það eina sem ber þess vitni eru vísar klukkunnar sem hangir á veggnum, en þeir hreyfast hægt og örugglega hvern hringinn á fætur öðrum. Glöggir menn geta einnig séð að innihald flasknanna á hillunni lækkar í takt við hreyfingar í klukkunni. Aðrar vísbendingar er ekki hægt að finna um þá staðreynd að tíminn líði nokkuð á þessum stað.

Nú er innan við helmingur eftir af flöskunni sem hann er að drekka úr. Það er samt ekki orðið nóg. Hann lítur aftur yfir á borðið til þeirra. Hún kveikir sér í sígarettu en er greinilega að segja manninum einhverja sögu. Hún virðist skemmta sér betur en maðurinn.

Hún er mjög myndarleg, þrátt fyrir að bera það með sér að hún drekki aðeins meira en teljist hollt. Hún er á svipuðum aldri og hann, kannski aðeins yngri. Hún er meðalhá með dökkt, axlasítt hár, brún og lífleg augu og bros sem hægt væri að deyja fyrir, eða jafnvel drepa. Líkaminn er flottur. Þetta er ekki fyrirsætukroppur en hún ber sig þannig að hennar aðalkostir eru mest áberandi og gallarnir hverfa. Svo þokkafull þar sem hún sýnir stolt góðan hlut af þrýstnum barminum. Hún er alltaf kölluð Krissa. Hann veit ekk hvort það er stytting á Kristín, Kristjana eða einhverju öðru nafni. En honum finnst Krissa flott nafn.

Í kvöld ætlar hann að tala við hana. Eftir margar vikur ætlar hann loksins að láta verða af því. Hann ætlar að fá að heyra allar hennar sögur og fræðast um hana, t.d. fyrir hvað Krissa standi og allt annað sem honum dettur í hug. En ekki alveg strax. Fyrst þarf hann að drekka í sig nægan kjark. Hann þarf nokkra drykki í viðbót. Hann kveikir sér í sígarettu og pantar áfyllingu. Bak við hann heyrist hávær kvenmannshlátur og talsvert lægri karlmannshlátur. Hann glottir útí annað.

„Þvílíkur hlátur!”