Ég trúi því ekki að ég hafi verið rekinn. Ég bara trúi því ekki. Hvernig getur hann bara rekið mig sisvona? Ég hef ekkert gert til að verðskulda þetta. Ekkert. Hvernig getur hann rekið mig? Bara af því að ég mætti einu sinni of seint. Ég meina, sko, ég missti af strætó í morgun, hvað á maður að gera annað en að koma of seint. Maður á engra kosta völ. Ég trúi því ekki að ég hafi verið rekinn.

Ég stend út á strætóstoppistöð. Enn og aftur, eins og í morgun þegar ég missti af strætó. Djöfuls óheppni, ég sem hef aldrei sofið yfir mig eða komið of seint. Sleit skóreim í morgun þegar ég var að fara út. Þurfti að finna nýjar skóreimar í flýti, en var greinilega ekki nógu fljótur.

Hvernig gat hann rekið mig? Er maðurinn gjörsamlega samviskulaus? Hann stóð við klukkuna þegar ég gekk inn og horfði stíft á mig. Ég sá strax að hann var ekki í góðu skapi því hrukkurnar á enni hans höfðu tvöfaldast og gráu augun skutu neistum. Ég brosti og bað hann að afsaka að ég skildi koma of seint, en hann sagði mér að hunskast út og ég skildi aldrei láta sjá mig aftur þarna. Síðan reif hann af mér appelsínugula hjálminn. Ef ég væri ekki stærri en hann, þá er ég viss um að hann hefði reynt að henda mér út.

Djöfull rignir. Hvernig stendur á því að það er alltaf rigning á haustin? Ég opna vasa á svörtu úlpunni minni og næ í tyggjópakka. Fæ mér tvær tyggjóplötur, þá hef ég eitthvað að gera á meðan ég bíð eftir strætó. Helvítis fíflið, ef hann hefði ekki tekið hjálminn þá væri ég þó með heyrnartól og gæti hlustað á tónlist.

Loksins kemur strætó. Gulur risa-volvo sem setti svo eftirminnilegan brag á morguninn. Ég tek fram strætómiða og geng út úr skýlinu. Ég stend við vegarkantinn en þegar strætó kemur aðvífandi þá þeytir hann upp úr pollum sem höfðu myndast þar, og fyrir vikið verð ég hundblautur. Þetta er ekki minn dagur.

Ég reyni að þurrka sem mest framan úr mér áður en ég stíg inn.

-Gúd morning, segir vagnstjórinn og ég heyri að það hlakkar í honum. Hann horfir á mig láta miðann í gjaldhirlsuna. Hann er frekar gamall, eins og flestir strætóbílstjórar. Hann klórar sér í gráu skeggi sem hylur mestan part höku hans og glottir svo að það skín í falskar tennurnar.

Ég brosi bara á móti og geng inn í vagninn. Finn mér sæti frekar aftarlega. Það eru ekki margir farþegar. Rétt fyrir framan mig situr kona með lítinn strák í sætinu við hlið sér. Hann brýst um fangi hennar og snýr sér að mér. Hann reynir að af sér hettunni á rauða gallanum sem hann er í. Gallinn hefur eflaust séð betri daga, því hann er á allnokkrum stöðum bættur og saumaður.

Hann horfir á mig og ég brosi til hans. Hann snýr sér að mömmu sinni aftur og togar í ljóst hár hennar. Hún losar hendi hans úr hárinu og reynir að fá hann til að sitja kyrran. En áhugi hans er vakinn og honum finnst hann þurfa að skoða mig nánar. Hann snýr sér aftur við. Starir á mig um stund.

Síðan snýr hann sér aftur að mömmu sinni og spyr stundarhátt.

-Mamma, afhveðju eð hann þona þkýtinn?
Mamman lítur á mig og roðnar. Síðan sussar hún á soninn.

-Æ, mamma, afhveðju?
-Suss, svona segir maður ekki.
-En mamma, þjáðu! Hann er þo þkýtinn.
-Já, ókei. Sittu nú kyrr og horfðu út um gluggann.

Drengurinn í rauða gallanum situr kyrr og gleymir sér við að telja bílana sem þjóta fram úr vagninum. Eftir nokkrar mínútur spyr hann svo móður sína.

-Mamma, eð Guð líka í bílunum?
-Já, elskan.
-Bjó hann þá til?
-Nei, það var einhver maður sem fann þá upp.
-En Sigga á leikðkólanum þagði að Guð hefði búið til allt?
-Já.
-Bjó hann samt ekki til bílana?
-Nei.
-Eð Guð þá nokkuð í bílunum?
-Jú, elskan, hann er alls staðar.
-Líka í bílunum?
-Já.

Síðan situr drengurinn og veltir þessari merkilegu uppgvötun fyrir sér. Ég get ekki annað en brosað, eins mikill guðleysingi og ég er, get ég ekki annað en dáðst að trú drengsins. Hve lífið var einfaldara þegar maður var lítill.

-En hvað eð Guð geymduð í bílunum?
-Ég veit það ekki.
-Í þkottinu?
-Ahverju í skottinu?
-Af því að það geyma glæpó dauðu kallanna.
-Af hverju segirðu það?
-Ég þá það í þjónvaðpinu með pabba.
-Nú, já, varstu að horfa á glæpamyndir í sjónvarpinu með pabba þínum?

Ég heyri að það hefur þykknað aðeins í ljóshærðu konunni. Hún er greinilega ekkert voðalega sátt við þær upplýsingar sem sonur hennar hefur veitt henni óafvitandi.

-Já, svarar sonurinn á innsoginu.

Blaut hús og tré með gulnuð laufblöð líða hjá hinum megin við rúðuna. Ég leyfi mér að halla aðeins aftur augum. Hvar í andskotanum á ég að fá vinnu núna? Það er eki eins og að verkavinnu sé að finna á hverju strái.

Eftir að hafa setið næstum tuttugu mínútur í vagninum kemur hann loks að Grensás. Ég þrýsti á stanz-hnappinn og stend á fætur. Vinka til litla stráksins og brosi. Hann verður eitthvað lítill í sér og felur sig á bakvið mömmu sína.

Ég geng út úr vagninum og út í rigninguna. Það er komin alger demba og ég verð rennandi blautur á örskotstundu. Ég er svo sem ekkert að svekkja mig á því, fyrst maður á annað borð býr hér í Reykjavík á maður það skilið að verða blautur endrum og eins. Ég tölti þess vegna í rólegheitunum niður í Hagkaup, haugkaup. Heill haugur af vörum sem hægt er að kaupa, Haugkaup.

Undarlegasti staður á hnettinum hlýtur að vera Hagkaup í Skeifunni. Húsið lítur út eins og gamalt fjós, er málað appelsínugult, svona til að það fari nú ekki framhjá neinum, eins og endurskinsmerki á skemmtistað. Inni er allt upplýst á sama hátt og í íþróttahöllum og frystihúsum. Kalt, sterílt ljós sem augun eru nokkra stunda að venjast. Starfsfólkið er af öllum mögulegum toga. Í raun eins og í fjölleikahúsi. Mest eru þetta þó eldri konur og dropp-áts úr menntaskóla. Konurnar eru í hjálpsamar og ljúfar á ömmulegan hátt, en ef að manni liggur á, getur seinagangur þeirra gert mann geðveikan. Menntaskóla-dropp-átin eru með svo öllu heiladauð að við þau er ekki ræðandi.

Ég geng inn í fjósabúðina. Stór auglýsing hangir við innganginn. Starfsfólk vantar. Ég atvinnulaus, en nei, held ekki. Frekar fer ég aftur að selja Herbalife.

Ég byrja á því að ganga inn í snyrtivörudeildina. Mig bráðvantar að finna raksápu. Það er ekkert óþægilegra, fyrir mann eins og mig, að raka sig án raksápu. Eftir smástund tek ég eftir því að slánalegur strákur í grænum hagkaupsslopp er að fylgjast með mér. En gerir það afskaplega illa. Hefur eflaust horft einum of oft á djeims bond myndir og leynilögguþætti í sjónvarpinu.

Ég held áfram inn í matvöruna. Dúlla mér við það að finna til það sem mig vantar. Reyndar gleymdi ég að taka með mér körfu. Venjulega myndi ég bara halda á öllu, en til að skemmta mér og djeims bond fyrir aftan mig, þá sting þessu litla sem ég þarf að kaupa inn undir úlpuna. Augasteinar djeims bonds stækka og hann sýpur hveljur. Ég leik mér að því að snúa snögglega við og arka hratt að honum, en beygja svo rétt áður en ég kem að honum inn í einhvern gang. Djeims greyið veit varla hvaðan á sig stendur veðrið og reynir eins og hann getur að halda andliti, en það er erfitt fyrir mann eins og hann, með allar þessar bólur.

Ég kaupi mér súkkulaðikex, hálfan lítra af kók og samloku fyrir utan raksápuna. Öllu treð ég vandlega inn á mig, helst á augljósan hátt, svo að bond, djeims bond geti verið alveg viss um að hann sé að elta stórglæpamann. Einnig tek ég fleiri hluti og þykist setja inn á mig en læt þá svo aftur frá mér þegar hann sér ekki til. Sannast sagna skemmti ég mér vel við þetta. Hann er svo hryllilega laumulegur að hann sker sig úr gestum og starfsfólki verslunarinnar. Þykist spjalla við aðra starfsmenn en getur ekki haft augun af mér á meðan. Þykist vera að raða kexi í kexganginum þegar ég er þar. En eitt má hann eiga, hann er svo rauðhærður að það er eins og hausinn á honum sé alelda.

Ég kem að afgreiðslukassaröðinni. Fer að hraðkassa, þar sem ég er ekki með fleiri hluti en tíu. Er reyndar smá röð þar, en yfirleitt gengur hún nokkuð fljótt fyrir sig. Á undan mér er gamall maður með hatt. Hann er svolítið hokinn og er lengi að hreyfa sig. Þegar verið er að afgreiða hann kemur í ljós að það vantar verð á einhverjar buxur sem hann er að reyna að kaupa. Hún horfir lengi á gamla manninn og spyr hann hvort hann geti ekki farið og fengið verðmiða hjá afgreiðslumanninum í herradeildinni. Hann horfir um stund á hana og leggur svo af stað. Hann gengur ákaflega hægt, inn að herradeildinni.

Á meðan leikur afgreiðslustúlkan sér að tyggjóinu sínu. Reynir að búa til könglóarvef úr því. Ég vona að festist í brún-fjólbláa oflitaða hári hennar. Hún horfir á mig. Það eru þykkar svartar línur í kringum augu hennar og augnhárin standa út, eins og að hún hafi sett í þau hárgel. Og hún er með stóra og ljóta bólu á hökunni. Það er alveg merkilegt með fólk sem fær bólur. Annað hvort drukknar það í bólum, eins og djeims bond sem stendur inn í barnadeild nún, eða þá það er með eina risastóra. Stórar bólur eru eins og svarthol. Þær soga til sín augun á manni og maður getur ekki hætt að horfa. Þá er skárra að vera með margar litlar.

Eftir drykklanga stund kemur loks sá gamli, lafmóður eftir hlaupin. Réttir afgreiðsludömunni miða og andvarpar. Ég get samt ekki hætt að stara á bóluna á hökunni á stelpunni.

Þegar kemur að mér týni ég samviskusamlega upp úr vösunum. Hálfur lítri af kók, kexpakki, rakfroða og samloka. Allt skannað inn í kassann hjá bólunni. Þegar allt er komið horfir bólan á mig og segir.

- Tvelf höndred end sixtí næn.

Ég tek fram þúsund krónur úr veskinu mín og sting hendinni í úlpuvasann og næ í klink. Rétt á meðan ég er að telja saman smáaurana þá beygir bólan sig fram yfir borðið og telur upp úr lúkunni á mér. Ég verð svo hissa að ég kem ekki upp orði.

-Ókei, þen its þörtí one krónurs for jú. Þeink jú, segir bólan skælbrosandi, eins og hún hafi rétt í þessu unnið í lottó.

Ég set vörurnar í poka og legg af stað út. En allt í einu kemur djeims bond aðvífandi, á harðahlaupum.

-Skjús mí, kud jú kom viþ mí, plís?

Ég sný mér að honum og kinka kolli. Hann leiðir mig inn á einhverja pínulitla skrifstofu og þar bíður maður í hvítri skyrtu og rauðu bindi. Hann er með merki í skyrtunni. Halldór, verslunarstjóri.

-Kud jú plís emtí jor pokkets?

Ég brosi og tæmi vasana. Hef lúmskt gaman að þessu.

-Ég sá hann láta heilan helling af vörum í vasana, segir djeims bond hissa þegar hann sér að allur eltingarleikurinn hefur verið til einskis.
-Já, en það er augljóslega ekkert í vösunum. Kannski er hann með einhverja leynivasa, spyr Halldór.
-Kud jú plís teik off jor jakket, spy djeims bond mig.

Ég fer úr úlpunni minni. Djeims bond þuklar á henni frma og aftur.

-Skjús mí, segi ég og þeir líta báðir upp frá úlpunni minni.
-Dú jú spík æslendik?

Djeims bond missir úlpuna mína. Verslunarstjórinn horfir á mig forviða.

-Já, svarar verslunarstjórinn hikandi.
-Já, hvers vegna er ég hér? Hvers vegna hafið þið dregið mig hingað inn og eruð að þukla á úlpunni minni, eins og ég sé einhver ótýndur glæpamaður? Ég er alls ekki sáttur við framkomu ykkar. Djeims bond hérna er búinn að elta mig alla búð og hefur verið mjög truflandi. Eins og þið sjáið þá hef ég ekki stolið neinu. Þetta er til háborinnar skammar.
-Já, en…, stamar djeims bond.

Ég þríf úlpuna mína af gólfinu og opna dyrnar. Sný mér við og segi eins ákveðið og ég get.

-Þetta er ekki það síðasta sem þið fáið að heyra frá mér!

Síðan skelli ég hurðinni á eftir mér. Ég get ekki annað en glott við tönn þegar ég er að ganga út. Mér tókst að hafa afskaplega gaman af þessu öllu saman.

Þegar ég er að ganga út úr fjósabúðinni mæti ég stráknum og mömmu hans úr strætó. Hann snýr sig næstum úr hálsliðnum og kallar til mömmu sinnar.

-Mamma, þjáðu. Þaðna eð þkýtni, þvaðti maðuðinn!

Ég brosi til hans og geng í burtu.