Reykjavík - mobilepolis

Fólkið starir á mig í gegnum rúðurnar á bílunum sem þjóta fram hjá hjá mér hársbreidd í burtu, í sexföldum röðum æða þeir fram hjá á virkilega óhugnalegum hraða sem þrýstir loftinu að mér svo hárið bærist örlítið. Tonn eftir tonn af járni á hraða sem margfaldar fallþunga þess gerir Miklubrautina algerlega ómannvæna.
Enda skáskýtur þessi litlu líf augunum á mig þar sem þau ríghalda í stýrið og velta fyrir sér hvað maðurinn sé að gera við gangbrautina, hinum megin sé ekkert nema mýrin, hvaða volaða sál á sér ekki einu sinni athvarf í bifreið og neyðist því að hætta sér yfir bílbrautin sem svo ranglega var kölluð gangbraut?
Þegar rauða ljósið skellur á stöðvast flotinn, með semingi þó, og ég tipla út á götuna. Leiðin er vörðuð bílófreskjum sem eru í viðbragðsstöðu, mæna á mig með kveiktum ljósum og urra. Ég finn hvernig heitt malbikið undir fótum mér andvarpar af feiginleika yfir hvíldinni, það er ekki svo oft sem stöðugur flaumurinn gefur hinni svokölluðu gangbraut grið í augnablik frá brennandi gúmmíinu, það gengur í bylgjum undir mér eins og aumt hold og ég finn hvernig æðarslátturinn dynur í þunnu laginu af manngerðu bergi sem leið lá út í Vesturbæ. Og ekki furða, hversu mörg tonn á mínútu skyldi leggjast á einn einasta fersentimetra?
Ég hrekk í kút, græni kallin hefur guðslifandi fegin forðað sér og skilið mig eftir einann eftir út á miðri götunni sem auðvelda bráð, hinu veiku verða eftir sagði Darwin, Og svo sannarlega er ég veikur, lítill og vanmáttugur gagnvart stórmennunum sem ríkja sem meistara yfir sínum illtömdu jepplingum. Og ekki líður á löngu fyrr en það byrjar að gella í þeim, þeir grátbiðja um fórn og stíga bensíngjöfina til að urra á mig, hjálpi mér, nú á hver sínum fótum fjör að launa, ég skil að þolinmæðin sé rétt á þrotum og þeir geisast á stað á samri stundu og ég næ föstu landi aftur.
Anda léttar.

Einhverra hluta vegna þá liggur engin vegur út á BSÍ, umferðamiðstöð Íslands, slóðinn sem rúturnar feta liggur hinum megin við mýrina og tengist ekki Miklubrautinn fyrr en kvartkílómeter ofar. Svo ég á engra annarra kosta völ en að halda yfir votlendið, túnblettinn sem er meira vatn en tún, ekki það að ég fýsti svo sem það mikið í malbikið en einhvernveginn hafði ég það á tilfinningunni að þrátt fyrir allt ætti það mun frekar heima í miðborg Reykjavíkur en þessi heiði. Gæsirnar sem gustu upp í oddaflug þegar ég kom aðsvífandi bjuggu eflaust á verðmætara landi en afi minn og amma í Vogum. Og fara svo til sólarlandanna á veturna ekki ólíkt ömmu minni og afa í Þingholtinu. Þær fljúga rétt yfir höfuðleðrið á mér í þann mund sem flugvélin flýgur rétt yfir þakleðrið á húsunum rétt fyrir aftan. Dynurinn er dynur í eyrum mér er ljóðræn útgáfa af skugganum sem sækir yfir mig á samri stundu. Og finn smá regnúða á hörund mitt eitt augnblik. Eða er eldsneytistankurinn í fokkerinnum kannski bara að gefa sig? Spurning.
Stansa þegar ég er við það að stíga ofan í poll, og er bara stans þar sem mér er engrar undankomu auðið fyrir pollum allstaðar að. Hyggst snúa við en kemst að því mér til undrunar að þar varnar einnig enn einn pollurinn mér veginn. Þeir virðast sækja að mér úr öllum áttum, finn hvernig ég sekk varlega ofan í grasið sem greinilega er aðeins örþunn skurn yfir hyldýpi hafsins.
Svo ég verð votur, ekki mikið mál þannig, allavegna ekki í fyrsta skiptið. Og ég tek skref sjálfsöruggur eftir að hafa tekið þá ákvörðun að láta blauta sokka ekkert á mig fá. En mér til skelfingar er það ekki vatn sem laumar sér ofan í skóna hjá mér heldur eitthvað skelfilega kalt og slímugt sem sækir sífellt að, bókstaflega ætlar að gleypa mig.
Lít niður fyrir mig undrandi og sé ekki betur en ég hafi stigið ofan í poll af kvikasilfri, gráum, glansandi og fljótandi þung málmi. Lít í kringum og sé að pollarnig glitra í öllum regnboganslitum nema vatnsbláum og er við það að panika þegar ég uppgötva að Vatnsmýrin er uppfull af geislavirkum úrgangi.
Og fótum þeim er ég áður hafði átt fjör að launa svíkja mig nú svo ég renn á hausinn og verð gegnvotur frá toppi til táar af olíubrákinni. Því þetta er ekki geislavirkur úrgangur heldur bara svona ósköp saklaus olíu mengun. Og ekki að undra, þegar ég rís upp sé ég umferðaþyngstu breiðgötu bæjarins blasa við og aðrar minni wannabe götur allt í kring, og í eyrum mínum suðar enn þá í flugvélinni sem er búinn að tylla sér rétt fyrir aftan mig.
Bitur heiti ég því að keyra aldrei bíl, og hleyp beinustu leið ofan í pollanna og yfir á malbikið hinum megin þar sem ég ætla að ganga meðfram bílunum síðasta spölinn frekar en að vera hérna í klósettinu þeirra.

Þungt hugsi horfi ég á nátturufegurðina, olíu leifar sem sem eiga ættir sínar að rekja lengst ofan í jörðina hans Saddam Husseins, og innflutt túngrasið og sáttmála drottins: ljósbrotinn regbogann, eða allavegan litlu bræður hans sem eiga heima hérna í milljóna tali í hverjum polli.
Hvað skyldi Vatnsmýrin geta tekið við mikilli olíu? Hugsa ég. Heil mikilli! Hugsa ég þakklátur.
Því þegar gibbonapamannkynið mun uppgvöta olíuauðlindirnar hér í Vatnsmýrinni þrettán milljón árum eftir að núverandi mannkyn verður útdautt munu gibbonapaíslendingarnir verða forríkir. Og þá verður gibbonapaHannes Hólmsteinn og gibbonaapaafi og amma í Þingholtunum ábyggilega glöð.

Þegar ég loksins næ á BSÍ planið sé ég í forundran engin merki um SBK rútu. Hvað er klukkan hugsa ég mig um og þreifa utan á gallabuxunum mínum en mun þá að géessemm síminn er ofan í tösku. Tíminn er læstur ofan í pennaveskinu mínu ofan í tösku og þegar ég frelsa hann kemst ég að því að í stað þess að láta sér leiðast í prísund sinn var klukkan orðin tuttugu mínútur í þrjú. Ekki nema tíumínútur síðan rútan átti að fara og hún er þegar farinn. Og fyrirhugaður klukkutíma blundur fýkur í veður og vind. Ég sem er ekki búin að sofa síðan á þriðjudaginn. Og í dag er fimmtudagur! Þegar maður á sér ekkert athvarf í bænum verður maður bara vaka þar til skólinn byrjaði morguninn eftir busaballið. Og ég sé fram á enn meira ráf um um Reykjavík, milli svefns og vöku, þar til næsta rúta fer klukka sex. Þetta yrði þolraun.
En ég tók þann pól í hæðina að ég gæti sosum brotið odd af oflæti mínu og farið að sofa á bekkjunum inn í umferðarmiðstöð, í smástund allavegna.

Í svefnrofunum sé ég sjúkrabíl þeysast vælandi út um gluggan. Síðasta hugsun mín var sú hvaða aumingja, örvæntingarfulla sál hefði hætt sér út á Miklubrautina núna.



Hér lýkur fyrri hluta sögunnar.