Ég ákvað að sýna nokkra daga úr dagbókum mínum. Ég byrja ekki á byrjuninni heldur í síðustu bókinni, ætla að skrifa þetta eins og kafla í stærri sögu.

21. nóvember 1998

Það er talið gott að skrifa niður hugsanir sínar og vandamál, því þá bælir maður þau ekki niður. Ég er ekki alltaf sammála þessu, en þar sem mér finnst ég alltaf vera ein og enginn skilji mig þá er alveg þess virði að reyna.

Stundum, reyndar mjög oft eru svo margar hugsanir sem skjótast upp í kollinn á mér samtímis að það getur gert hvern mann brjálaðann. Allt er í svo miklu messi núna. Mér finnst eins og ég ráði engu um líf mitt og það er hræðileg tilfinning. Mig langar ekki að horfa í spegil eftir 10 ár og vera í sömu sporum og ég er núna. Ég ræð næstum engu hvað ég vil verða í framtíðinni. Mamma vill að ég fari í Verzló og læri verkfræði og útskrifist sem verkfræðingur vegna þess að þá hef ég há byrjunarlaun og pabbi samþykkir vegna þess að það er svo “hagkvæmt”. Námsráðgjafinn segir að ég eigi að velja mér starfsgrein sem ég vil en þegar maður hefur verið borinn ofurefli í svo mörg ár og alltaf þurft að láta undan, þá veit ég ekki lengur hvað ég vil. Frá því að ég vakna og þangað til ég fer að sofa er ég svo til dauð. Ég hlakka ekki til neins og ég man ekki hvenær ég hló síðast innri hlátri. Reyndar er nú ekki alveg satt að ég hafi ekki tilfinningar, heldur sýni ég þær nær aldrei og byrgi allt inni. Ég vil ekki láta aðra vita hvernig ég hugsa, því ég er hrædd um að þeir eigi eftir að misskilja allt saman.

Þegar við stelpurnar hittumst og spjöllum saman finnst mér ég eiga ekki heima þar. Þær tala um föt, útlit og fleira sem ég hef lítinn sem engann áhuga á. Inn á milli koma þó samræður sem ég vekja athygli á eins og tónlist og menning annarra landa. Þá nýt ég mín sem ég þarfnast stundum þótt ég vilji ekki viðurkenna það, vegna þess að ég vil vera þannig að ég hjálpa öðrum fyrst og svo komi ég. Maður á ekki mikla sig heldur vera lítillátur. Stundum gleymir maður sjálfum sér og man ekki eftir sér fyrr en það er orðið og seint og maður brotnar niður. En hvernig og hvenær getur maður dregið mörkin á sjálfselsku og því sem maður verður að gera fyrir sjálfan sig til þess að brotna ekki niður?