Ég lá í rúminu og var rétt að festa svefn þegar allt í einu birtist andlit fyrir sjónum mínum, andlit sem ég gæti aldrei fyrir mitt litla líf þekkt aftur og þaðan af síður lýst fyrir ykkur. Samt man ég að þetta andlit var ekki vinsamlegt. Það bara var þarna allt í einu og sagði lágt: “Þúve passi!”

Ég var allt í einu glaðvakandi, með ónot innanum mig allan og ögn hraðan hjartslátt. Fyrst skimaði ég í kringum mig í hálfrokknu herberginu en áttaði mig svo á því að þetta hafði ekki verið að gerast í raun og veru, heldur einhvers konar draumur á milli svefns og vöku. Eða… var það ekki? Jú, auðvitað, en samt eitthvað svo raunverulegt. Nú fór ég að spá í hvað andlitið hafi verið að segja. “Þúve passi.” Hvaða tungumál var þetta?
Eftir heilmiklar vangaveltur og samanburð í huganum við öll þau mál sem ég þekkti til, áttaði ég mig á því að þetta var nú bara okkar ástkæra ylhýra. Og hvað var sagt? Jú, “þú verður að passa þig.” Það var nú allt og sumt.

Ég brosti í rökkrinu, ánægður með sjálfan mig og ætlaði bara að sofna. Ég hélt samt ósjálfrátt áfram að hugsa um þessi orð á meðan ég sveif rólega inn í svefninn og skyndilega var ný hugsun komin fram sem vakti mig aftur: Hvað ef þetta var nú fyrirboði? Var kannski verið að vara mig við einhverju? Og þá hverju? Á hverju átti ég þá að passa mig? Eða hverjum? Einhverjum sem ég þekkti, eða? Ég var farinn að ímynda mér allskyns fáránlegar uppákomur þarsem ég var að sjálfsögðu í aðalhlutverki og mótleikararnir ýmist hinir og þessir dauðir hlutir, dýr eða fólk sem ég þekki. Mamma að stinga úr mér augun, vinirnir að reyna að drekkja mér og ég veit ekki hvað og hvað.

Þannig þenkjandi lá ég mestalla nóttina, hugurinn logandi í allskyns skelfilegum ímyndunum, uns klukkan var orðin fjögur, en þá var ég orðinn þyrstur. Ég fór fram á bað og skjálfhentur lét ég renna vatn í tannburstaglasið. Á meðan ég drakk horfði ég á sjálfan mig í speglinum og smám saman rann af mér þessi skelfing sem hafði heltekið mig. “Er ekki allt í lagi með þig?” sagði ég upphátt, “þig dreymir einn örstuttan draum og verður viti þínu fjær af hræðslu.” Brosandi hristi ég höfuðið og fór aftur inn í rúm. Í þetta sinn tókst mér að sofna og ég svaf draumlausum svefni það sem eftir lifði nætur.

Morguninn eftir fór ég í vinnuna, svolítið syfjaður, en annars allt í lagi. Eftir vinnu kom ég við í búð á leiðinni heim. Þegar ég ætlaði að ganga út á bílastæðið var ég rétt búinn að æða í veg fyrir bíl sem ók framhjá. Ökumaðurinn þeytti flautuna og fórnaði höndum, eftir stóð ég, eldrauður í framan og með dúndrandi hjartslátt. Þegar mesti skrekkurinn var liðinn hjá og ég sestur inn í bílinn minn, sagði ég upphátt: “var þetta kannski það sem verið var að meina með viðvöruninni í nótt?” Þar með varð mér ljóst að ég var alls ekki laus við drauminn úr huga mér, heldur spratt hann nú fram af endurnýjuðum krafti.

Á leiðinni heim ók ég eins og gömul kerling, var helst ekki að fara uppúr þriðja gír, aðrir ökumenn flautuðu og létu öllum illum látum, þannig að ég varð enn hræddari, þetta var orðið ansi slæmt, ég var farinn að svitna af stressi og hræðslu…

Loks var ég kominn að blokkinni minni, en nú tók við nýtt vandamál. Skammt frá var hópur af unglingum, kannski mundu þeir gera aðsúg að mér eins og það er kallað í fréttum, kannski yrði gengið í skrokk á mér og ég skilinn eftir í blóði mínu á stéttinni fyrir utan heimili mitt. Ég ákvað að bíða inni í bílnum eftir að hópurinn færi, en eftir tíu mínútur var enn ekkert fararsnið á krökkunum. Þeir voru auk þess farnir að gefa mér gætur, ég hef örugglega verið fáránlegur, sitjandi í bílnum heillengi, gjóandi augunum í allar áttir. Loks herti ég upp hugann og steig út úr bílnum, titrandi af hræðslu, en samt búinn að sætta mig við örlög mín. Mér til mikillar undrunar komu unglingarnir ekki og börðu mig til óbóta, virtust ekki sýna mér neinn áhuga.

Þegar ég kom inn í íbúðina hlammaði ég mér sveittur og skjálfandi í stól og fól andlitið í höndum mér. “Hvað er að gerast með mig?” spurði ég sjálfan mig. Mér datt í hug að hringja í einhvern og fá ráð en datt enginn í hug, var orðinn alveg tómur í hausnum, utan eina hugsun: Það kemur eitthvað fyrir mig ef ég fer út eða hef samband við einhvern, ég… það….kemur eitthvað fyrir…. slæmt. Ég þori ekki… áhætta… slæmt.
Nú sit ég bara við tölvuna og bíð þess sem verða vill. Ég ætti að geta dregið fram lífið hér í íbúðinni í nokkrar vikur, jafnvel tvo mánuði, þrjá.
Hvað svo?