Sundsprettur hressir og kætir

Það er engin í sundi klukkan sex að morgni nema ég og konan í afgreiðslunni. Það er frekar slitrótt samband milli okkar tveggja, hún hatar mig. Ég finn það svo hvernig hún ber í brjósti sér svo innilegt hatur í minn garð, hvernig svefndrukkin augu hennar sjá fyrir sér hendur sínar lykjast um hálsinn á mér og kæfa úr mér líftóruna, skítt með mannlegt eðli þegar fólk þykist vera knúið til að ónáða hana um miðja nótt.
ÉG er hættur að líta á hana. Hún er svo ofurraunveruleg að ég þarf ekki að bifa augnlokin á mér til þess að sjá nákvæmlega öll smáatriði, eins og lélega gerð persóna í tölvuleik sem gerir alltaf sama hlutinn á sama stað þegar þú kemst í nánd við hann.
,,Helvítis, djöfulsins fullkomna gerpið þitt” ég get svo svarið það að ég heyrði hana segja það eftir að ég var úr augsýn.
Það er takmarkalaust hvað þetta er mikið rugl, ég horfi á mig beran að ofan í speglinum, sólbrúnan vöðvastæltan kroppinn og geðslega, veltennta brosið með svo yfirvegaða andlitsdrætti að það var traustvekjandi til eilífðar, og augun viðkunnaleg en samt dularfull. ,,Góðan dag” sagði rödd sem tekið er mark á; mín ,,Helvítis djöfulsins fullkomna gerpið þitt.” samsinnti ég afgreiðslukonunni. Og ég leysti um beltið svo buxurnar féllu niður en augun voru límt á speglinum. Allsnakinn dáðist ég að viðbjóðnum, svo mikið sem ég hataði veröldina dáði veröldin mig. Og svo mikið sem veröldin dáði mig hataði ég sjálfa mig. Mig reis.
Eins mikið og ég veit vel að hugsanagangur minn er geðveikur, í þeirri tilraun minni að hafa fullkomna yfirsýn á sjálfum mér er alltaf eitt sjónarmið inn í mér sem öskrar að ég eigi best heima á kleppi, þá eru það hreinir smámunir miðað við hversu geðveikislegt það er þegar það rennur upp fyrir mér að þetta sé í annað skipti á tuttugu mínútum sem ég fer í sturtu. ÉG fróa mér.
Það er upplifun að stinga sér í kalda sundlaug í dimmu náttmyrkri, upplifun sem hættir að vera spennandi 62. morguninn í röð. Hvert andartak er lengra en hið fyrra, sú lykkja sem líf mitt hjakkast í er svo fyrirsjáanleg að ég er hættur að upplifa hana, það væri algjört “pain”, svo þegar vitundin er beygð þá virðist kenning Einsteins ekki eins fjarstæðukennd að tíminn sé afstæður. Því þegar ég svamla fram og til baka í bæjarpollinum þá fíla ég mig eins og álf í ævintýrum Tolkiens. Ódáin er ég, lifi að eilífu, tíminn líður svo hratt, árstíðir eru eins og mínútur fyrir mér en jafnframt líður tíminn svo hægt þegar hann virðist engan enda taka. Því eilífðin er úr seilingar fjarlægð fyrir mig, ég höndlana ekki, hún er stæða sem er algjörlega ófyrirsjáanleg, eins og núll, tekur upp á hlutum sem maður renndi ekki í grun um, þar er hið allra minnsta jafnframt hið allra lengsta. Maður getur orðið svoldið þreyttur á tilverunni eftir tíþúsund aldir ,þá verður veröldin manni kvöl sem virðist ekki bifast úr sporunum. En síðan kemur eitthvað uppá og hinn ódeyjanlegi deyr ,sjálfum sér að óvörum. Og þá er æviskeiðinu kippt úr samhengi við hina miklu ráðgátur eilífðarinnar, og það sem gaf lífinu áður blæbrigði hægfarsins er horfið líka með eilífðinni og maður sér hvernig minningin um lífslengdina minnkar stöðugt þar til eilífðin hefur kæft það niður í endalaust litla ögn miðað við sjálft sig.
Svona svoldið eins og mér leið þegar ég uppgvötaði að ég væri búin að synda þær fyrirfram ákveðnu sextíu ferðir sem synda átti. Ennþá meir undrandi var ég þegar ég uppgvötaði að líkaminn hafði upp á sitt einsdæmið án samráðs við mig farið í kjölfarið upp úr lauginni og í heita pottinn. Hér er ég. Blank Out. Síðan þar.
Hve lengi ég hafði setið í pottinum hafði ég ekki hugmynd um en nýkomna gamla kerlingin sem situr við hliðina á mér glápti á mig eins og hún væri í huganum að fussa yfir því hvort að helvítis ungviði væri farið að dópa sig á morgnanna í heita pottum landsins, sem hingað til hafði verið yfirráðatími og svæði gamlingjanna.
Ég blikka ekki augunum í nokkra stund og hreyfi síðan hausinn hægt í átt að henni… og hristi mig örlítið, titraði frekar og glennti svoleiðis augun að kona hélt greinileg að hér væri komin einn að þessum brjálæðingum sem maður efaðist um að væru til en frömdu samt allan þann hrylling sem skrifað er um í sérstæð sakamál í DV, allavega flýtti hún sér að standa upp og flýja út í laug. Ég velti því fyrir mér smá stund hvort hún hefði nokkuð rétt fyrir sér en ég nenni því hreinlega ekki að vera eitthvað bitur, nei takk. Kannski að þetta amnesiac sem kemur stundum fyrir sé ekki sem verst, bara ég fengi því stjórnað. Mér fannst búddha eiga við mig, að trúa er rugl það á ég sameiginlegt búddha en það var út fyrir allan þjófabálk þegar eina leiðin að nirvana var að trúa á trúaleysingja. Svo ég reyndi jóga, strangur agi skal haldin er leifar frá því tímabili ævi minnar, markmiðið er það sama; mitt og jógaiðkenda, fullkomin stjórn á sjálfum sér og umhverfinu, kafa að dýpstu rótum. En þegar ég sá það fyrir mér, þær hundruð kynslóða sem áttu þátt í að skapa hina fullkomnu aðferð þá sagði ég bæ. Inn í sjálfan mig liggur ekki þeirra leið, bara mín eigin. Kannski að þetta amnesiac sé gott. ,,Algleymi er orðið”, segir annarhreims rödd, ,,íslenskan er svarið”.
,,Greyið, skjóttu mig” var svarið. Potturinn er enn mannlaus.
Eins og að leggjast til hvílu, draumarnir eru blekking sem eru aðeins til að skýla hversu tómur þú ert, sumir bara verða alltaf að vera að. En sjálfsbjargarviðleitnin þröngvar inn á mig hugsunum, raskar ró minni : ,,það er ekki ráðlagt að gleyma sér á kafi í heita potti” skýtur hún að hæversklega ,,reyndar er það stórhættulegt”. Ég get ekki annað en samþykkt þessi rök, að deyja í dag samræmist ekki áætlunum mínu.
Og hluti hinnar stóru áætlunar minnar er að vera hinn fullkomni nemandi, og ef ég ætlaði ekki að raska áætluninni og fá í fyrsta skiptið í manna minnum s í kladda minn þá yrði ég að fara úr heita pottinum núna í snatri, annað gæti valdið kurri í minni annars trygglyndu hirð við skólann.
Ég veit ekki hvort kitlaði meira, það að vera storka tímanum og þar með örlögunum eða loftbólurnar í pottinum. Alla vega sýndist mér að ég væri að missa tökin og þess vegna vék ég frá völdum fyrir meira einbeittari hlið sjálfs míns.
Og það vantaði ekki að fyrr en varir stóð ég kappklæddur fyrir utan klefann, ég á leiðin í skólann.
Mikið hata ég þá leiksýningu….