Óteljandi stjörnur fylla himinhvolfin. Blá ljósin vegvísir þeim sem til þeirra leita. Tunglið sigð ein en annars tekur við endalaust flauelsmjúkt myrkur geimsins. Mjúk mánabirtan leikur um hafflötinn og læðist inn í líf þeirra sem enn hafa ekki fallið í mjúka arma svefnsins. Tunglið speglast í rúðum bæjarins og fær þar bensínlitaðan geislabaug. Ró og friður færist mjúklega yfir þá sem leita á náðir svefnsins og tunglið leiðir þá inná brautir drauma þeirra stráðar stjörnum og vonum, draumar sem aldrei geta ræst.

Í þessum bæ sofa allir. Svefn þeirra yfirgnæfir sjávarniðinn, draumar þeirra yfirgnæfa veruleikann en yfirgefa hann svo. Svefn þeirra er djúpur og órofinn, slík er róin að vindurinn heldur niður í sér andanum til að geta fylgst með þessu litla þorpi við fjörðinn, girt af fjöllum. Draumar þeirra svo léttir og leikandi, slík er gleðin að öldurnar bíða glettnar við ströndina. Í nótt er friður.

Í einu húsi er maður. Maðurinn sefur ekki en hann fylgist með bænum, eins og vindurinn. Hann hefur hægt og hljótt um sig. Hljótt til að vekja ekki bæinn. Hljótt til að róin geti komið og rennt silkimjúkum höndum sínum yfir andlit hans og þá mun hann kannski, bara kannski, leyfa sér að sofna. Lengi hefur maðurinn vakað. Hann þekkir göngulag draumanna því hann hefur séð þá koma, koma yfir ófæra heiðina, koma fljúgandi yfir háu fjöllin. Yfir fjöllin sem virðast snerta himnafestinguna á daginn en halda uppi stjörnunum á nóttinni.

Hann hugsar ekkert. Hann hlustar. Hann hlustar á draumana koma sér fyrir í myrkum hugskotum. Hann heyrir hvernig draumarnir hvísla. Þeir fylla höfuð þeirra sofandi af vonum svo glæstum, vonum svo ferskum og vonum svo brothættum. Margt býr í myrkrinu og maðurinn hefur lært að þekkja það.

Þessa nótt sér hann einnig draumana koma yfir heiðina. Draumarnir hvísla, draumarnir lofa og draumarnir skera út í sofandi hjörtu. Maðurinn heyrir draumana hlæja og maðurinn sér þá dansa. Hann finnur hvernig það hlakkar í þeim yfir grunleysi fólksins.

En þessi nótt er engu lík. Maðurinn hefur beðið lengi en nú er biðin á enda komin. Hann tekur stafinn sinn útskorin í hönd og gengur út. Draumarnir hinkra við og líta til hans. Þeim hefur lengi staðið ógn af honum þar sem hann getur vakið alla. Þeir fylgjast með manninum. Hann gengur út úr húsinu og niður götuna. Maðurinn horfir með tinnusvörtum hauksaugum sínum á draumana og þeir óttast hann.

Maðurinn tekur stafinn og hefur hann til himins. Stjörnurnar losna af festingunni og hrapa til jarðar hver af annarri. Allar hrapa þær til mannsins og inní stafinn. Draumarnir fylgjast með hljóðir. Maðurinn lyftir augliti sínu til tunglsins. Tunglið litast rautt og hverfur svo inní augu hans. Það er ekkert nema endalaust myrkur núna. Myrkur svo svart að ljósið flýr og felur sig í hugskotum draumanna. Myrkur svo svart að ekkert heyrist, ekkert nema andardráttur hafsins.

Í myrkrinu eru tvö augu. Skín af þeim ljós svo rautt, rautt sem blóð lekur það yfir bæinn og fjöllin og hafið. Draumarnir sjá þetta ljós. Draumarnir hræðast ljósið því ef þeir líta dagsins ljós þá rættast þeir og hverfa. Maðurinn með hauksaugun svörtu flýgur af stað. Hann eltir draumana yfir heiðina ófæru.

Þegar maðurinn er kominn yfir heiðina stoppar hann. Hann horfir yfir hafið þar sem bátar vagga rólega á léttum bárum. Hann horfir yfir fjöllin sem snæviþökktum kollum sínum líta til himins, fjöllin sem gætu vel verið hásæti guða og gyðja. Hann horfir yfir dalinn þar sem bærinn sefur, horfir á kalda silfurtæra ánna sem silast letilega til sjávar, lífæð dalsins. Hann lítur til himins sem í kvöld er ekkert nema endalaust myrkur.

Hann heldur áfram. Draumarnir hrökklast undan manninum. Að lokum kemur hann að draumi svo stórum að augu hans ná ekki sjá fyrir enda hans. Draumurinn fyllir himinhvolfið og virðist hvergi neinn endi taka. Þetta er draumur draumanna. Maðurinn heldur uppi stafnum en draumurinn gefur sig ekki. Draumurinn reynir að koma sér fyrir í hugskotum mannsins en hann hugsar ekki, hann þarf ekki drauma.

Maðurinn tekur stafinn og lemur honum í himnafestinguna, festinguna sem draumurinn heldur í. Stafurinn brotnar og út koma óteljandi stjörnur og fylla himinhvolfið. Draumurinn festist að eilífu við festinguna. Maðurinn snýr sér við og segir.

-Ég er dómarinn, ég vel lífið eða dauðann. Ég er yfir allt hafinn og dæmi þá sem fyrir neðan mig eru. Þegar kemur að dómsdegi mun ég vega hjarta þitt á móti fjöður sannleikans. Ég er eilífðin. Ég er draumurinn, ég er allt sem þú hræðist en elskar í senn.