Gosdós rennur niður illa upplýsta götu. Fyrir utan gnauðið í vindinum og hljóðið frá dósinni er þögn. Það er enginn á ferli, ekki svona seint á kvöldin. Við götuna standa lágreistir trékofar trillukarla. Í þessum kofum geyma þeir veiðarfæri sín. Á milli tveggja þeirra má greina lítinn, mjósleginn skugga sem bærist úr takt við vindinn.

Skugginn hreyfir sig hægt, næstum varlega, kannski til að raska ekki ró næturinnar, kannski er hvert skref óttafullt. Á eftir skugganum læðist lítil vera. Hún stígur létt framhjá geislum ljósastaura en hvert skref virðist geta beygt þessa brothættu veru. Hún heldur uppvöðluðum böggul þétt upp að sér. Það tekur enginn eftir því þegar þessi litla vera skýst yfir götuna í átt að bryggjunni.

Vindur stendur af hafi og ber með sér salt og angan af þangi. Veran staldrar við augnablik og lítur í kringum sig. Síðan þýtur hún í átt að vegg stóra frystihússins. Þar sest hún loks niður, í skjóli við bláa ruslagáma. Hún leggur böggulinn í kjöltu sína og opnar hann. Inni í honum liggur útslitinn, ljósbrúnn bangsi. Veran brosir og faðmar bangsann að sér.

Hún talar í lágum róm, hvíslar næstum að bangsanum. Síðan hlær hún lágt. Veran og bangsinn sitja um stund við ruslagámana undir frystihúsveggnum. Það er enginn á ferli svona seint, en samt er veran stygg og var um sig. Hún kippist við þegar hún heyrir hund gelta einhvers staðar nálægt.

Það er kalt. Vindurinn feykir snjóföl niður af þaki frystihússins. Litlir snjósveipir dansa niður götuna. Veran vefur bangsanum aftur inn í böggulinn og stendur á fætur. Hún skelfur.

Hún lítur í kringum sig, eins og hún leiti að einhverju. Hún gengur síðan af stað í átt að bátunum og skipunum, þar sem þau liggja róleg við bryggjuna. Veran forðast ljósastaurana og heldur sig í skuggum vörubíla og brettastæðna. Um stund er hún kyrr og starir á eitt af skipunum. Þar eru kveikt ljós.

Hún fikrar sig nær skipinu. Það er rauðmálað og stórt miðað við hin skipin. Þegar hún er komin nógu nálægt heyrir hún tónlist óma innan úr því. Hún læðist hægt upp landganginn, passar sig á því að ekkert heyrist frá henni. Á skipinu angar allt af fisk og olíu.

Það hefur bætt í vindinn og enn kólnar. Andardráttur verunnar sést greinilega í ljósinu sem skín út um kýraugu skipsins. Hún tillir sér á tá og reynir að sjá innum þau. En hún nær ekki alla leið. Hún skelfur og reynir að berja hita í sig. Hún sest niður undir einu kýrauganu og blæs í lófana.

Allt í einu stendur yfir verunni stór, kringlóttur maður. Hann er gríðarlega feitur í hvítum bol og gráum buxum. Á bolnum eru brúnir blettir. Veran situr stjörf. Hann horfir á hana hissa. Hún stendur upp og ætlar að hlaupa í burtu en hann grípur í hana.

-Heyrðu, hvert ertu að fara, spyr hann. Hún getur ekki varist brosi þegar hún heyrir hann tala, því hann er jafn mjóróma og hann er feitur..

-Er þér ekki kalt? Viltu ekki koma inn og hlýja þér?
Veran kinkar kolli. Hann bendir henni á að elta sig inn. Hún gengur í humátt á eftir honum þegar hann gengur inn í skipið. Hann leiðir hana inn í matsalinn. Hann snýr sér við og virðir veruna fyrir sér. Hún er mjó og kinnfiskasogin. Ljóst hár hennar er fest aftur í tagl með blárri teygju. Hún er með stór og brún augu.

-Viltu fá heitt kakó og ristað brauð, spyr hann.

Hún kinkar kolli aftur og sest niður. Hann gengur inn í eldhús og fer að hita vatn. Hún horfir í kringum sig. Á veggjunum eru myndir af skipum. Hún leggur böggulinn frá sér á borðið.

Þegar hann kemur aftur er hún búinn að taka bangsann aftur í bögglinum og situr með hann í fanginu. Feiti maðurinn leggur kakóbolla og disk með ristuðu brauði fyrir framan hana. Hún lítur upp til hans þakklát en fer síðan að borða. Hann sest hinum megin við borðið og fylgist með henni. Þegar hún er búinn þurrkar hún sér um munninn með erminni.

-Takk fyrir mig, segir hún lágt.

Þau þegja um stund. Síðan stendur feiti maðurinn upp og tekur bollann og diskinn og fer með fram í eldhús. Hann raular lítið lag á meðan. Hún hvíslar eitthvað að bangsa.

Þegar hann kemur fram sest hann aftur niður.

-Hvað varstu að gera uppi á dekki, spyr hann.
-Ekkert, bara skoða, svarar hún.

Þau horfast í augu.

-Hver er þetta, spyr hann og bendir á bangsann.
-Simmi.
-Simmi já, flott nafn á bangsa.

Hún lítur af feita manninum á bangsann. Það vantar eitt auga á hann. Það týndist fyrir löngu síðan. Hann er með rauða slaufu um hálsinn.

-Hvar áttu heima?
-Hvergi.
-Ha! Áttu hvergi heima?
-Nei.

Feiti maðurinn horfir hugsi á hana.

-En einhver hlýtur að sakna þín, mamma eða pabbi?
-Nei.

Þau þegja saman um stund. Hún horfir á myndirnar en hann lítur í kringum sig. Síðan stendur hann upp og horfir úr um kýrauga.
-Og komstu bara alein?
-Já.

Hann snýr sér aftur að henni og brosir til hennar. Síðan tekur hann í hönd hennar.

-Langar þig til að sjá allt skipið?
-Já, já.

Hann leiðir hana fram á gang og sýnir henni stýrishúsið og vélarrúmið. Hann útskýrir fyrir henni hvað hlutirnir heita og hvað þeir gera. Hún gleymir tímanum og kuldanum. Síðan koma þau aftur upp á ganginn þar sem matsalurinn er. Hann leiðir hana framhjá matsalnum og inn að káetunum. Hann opnar eina hurð og leiðir hana inn. Síðan lokar hann hurðinni og læsir.

Nokkru seinna opnast hurðin aftur og hún hleypur fram á gang. Henni er illt, þar sem henni hafði aldrei áður verið illt. Það er blóðbragð í munninum á henni. Hún fer út og hraðar sér niður landganginn. Þegar hún er komin aftur á bryggjuna þá þrýstist allt í maganum á henni út og hún kastar upp. Hún reynir að hlaupa aftur af stað en er orðin svo þreytt. Hún heldur áfram og núna passar hún sig ekki á því að vera í skuggunum. Þegar hún kemur að frystihúsinu rennur hún á hálum blett og dettur á bakið. Í fallinu rekur hún höfuðið í.

Um morguninn, þegar fólkið sem vinnur frystihúsinu, kemur til vinnu sér það litlu stúlkuna. Það sér líka rauðan blett rétt fyrir aftan hægra eyrað. Guð minn almáttugur, segir það, aumingja stúlkan. Það sér enginn eineygðan bangsa með rauða slaufu.