Lúlli hafði alltaf verið þekktur sem nördinn í bekknum og honum hafði verið strítt síðan hann flutti í bæinn. Hann var lítill, með krullur, rauðhærður og með gleraugu sem litu út fyrir að getað náð CNN. Fyrir utan að líta ekki út eins og allir aðrir, sem var eins og glæpur í hverfinu sem hann bjó, þá var mamma hans fátæk og átti rétt fyrir leigunni um hver mánaðarmót og hvað þá fyrir nýjum fötum á hann og þess vegna var hann alltaf í stígvélunum sem voru þremur númerum of lítil og í lopapeysu sem afi hans heitinn gaf honum rétt áður en hann og pabbi hans fóru í sinn seinasta túr og komu aldrei aftur heim.

Venjulegur dagur var þannig hjá honum að hann labbaði krókaleið í skólann svo að enginn myndi taka eftir honum. Þegar hann var kominn í skólann þá var skólinn nær oftast byrjaður og var hann orðinn seinn sem seinna meir myndi koma honum í vandræði, en ekki hjá skólanum heldur hjá hinum krökkunum í bekknum. Ef það var leikfimi þá var hann brókaður og látinn fara í sturtu í fötunum. Krakkarnir létu hann í friði í frímínútunum en honum var sama því hann var hættur að finna fyrir því þegar þau stríddu honum. Þegar skólanum lauk fór hann á uppáhalds staðinn sinn sem eini staðurinn þar sem hann gat lokað sig frá heiminum og gleymt öllu. Það var bjarg þar hvít dúfa var með hreiðrið sitt og eyddi hann mörgum mínútum í því að horfa á hana. Þegar hann kom heim fór hann inn í herbergi og beið þess að Tobbi á efri hæðinni kæmi og gæfi honum eitthvað að borða. Þegar hann hafði lokið því að borða lokaði hann sig af þangað til mamma hans kom heim. Þá fór hann fram og kyssti hana góða nótt og fór að sofa.

Tobbi var gamall bóndi sem hafði flutt í bæinn eftir að konan hans dó og þá var hann aleinn á bænum og ákvað því að fara á eftirlaun og flytja í bæinn. Hann leigði efri hæðina á húsinu sem hann Lúlli bjó í og hafði mamma hans Lúlla beðið hann Tobba um að gefa Lúlla mat á kvöldin því að þyrfti að vinna lengi á hverju kvöldi. Tobbi var sá eini sem hann Lúlli talaði við því að hann hlustaði á hann og var ekki eins og aðrir fullorðnir sem sögðu honum að þegja ef hann sagði eitthvað. Þess vegna var hann besti vinur Lúlla.

Einn daginn þegar mamma hans kom heim og hann ætlaði að fara að kyssa hana þá sagði mamma hans honum frá því að hún hafði fengið bréf frá skólanum sem í stóð kvörtun um hvað hann mætti alltaf seint í skólann og var þess krafist að það yrði tekið á þessu máli. Hann horfði á mömmu sína og sá að hún var þreytt og vildi helst fá eitthvað svar strax en hann sagði ekki neitt. Innst inni langaði honum að segja henni frá skólanum og því hvernig honum liði en sjálfstraustið var orðið svo lítið að hann þorði því ekki. Hann kyssti hana og fór að því loknu aftur að herberginu sínu og grét sig í svefn.

Hann gat grátið þannig að enginn sá né heyrði til og hann notaði það oft þegar honum leið illa, þá hjúfraði hann sér upp við horn og grét. Þegar hann grét hugsaði oft um það hvernig það væri nú ef hann gæti horfið eins og galdramennirnir geta gert, hvernig lífið yrði ef enginn sæi hann. Allir í skólanum væru ekki að stríða honum, mamma hans þyrfti ekki að hafa áhyggjur um að hann kæmist á réttum tíma í skólann og hún þyrfti ekki að eiga alltaf pening fyrir leigu og öllu sem því fylgdi.

Í skólanum versnaði alltaf ástandið og hann hélt áfram að mæta seint í skólann. Nú var meira að segja farið að leggja hann í einelti í frímínútunum og það skrýtna var að enginn gerði neitt í því.

Einn daginn var Lúlli kominn á suðupunkt og þegar strákarnir voru að stríða honum lamdi hann frá sér og fyrir vikið var hann laminn þar til hann fékk glóðarauga og skurð á ennið. Hann þorði ekki aftur inn í stofuna því að hann var hræddur um að sjá framan í kennarann og þurfa að útskýra hvað kom fyrir hann og með því koma upp um eineltið sem hann vissi að myndi ekki batna þótt að upp um þau væri komið. Hann vissi að hann myndi nú vera laminn til óbóta ef hann klagaði.

Þannig að hann hljóp eins og fætur toguðu í átt heim til sín. Honum fannst hann ekki hafa neitt að tapa, heimurinn vildi hann ekki og hann vildi ekki heiminn. Hann fór því heim til sín og grét. Hann grét og grét þar til að hann ákvað að fara út á bjargið þar sem dúfan var. Í þetta sinn horfði hann lengi á dúfuna sem var svo friðsæl að sjá. Hún var með einn unga í hreiðrinu sem hún gaf reglulega að borða.

Nú var farið að rökkva og Lúlli var orðinn þreyttur og var við það að fara heim þegar fálki birtist og stefndi á fleygiferð á hreiðrið og tók ungann flaug á brott með hann. Dúfan var æf og Lúlli reyndi að hugga hana með því að tala við hana. Stuttu seinna af einhverjum óskiljanlegri ástæðu þá hoppaði dúfan á puttann á Lúlla og virtist með því taka hann í sátt. Lúlli hafði núna eignast nýjan vin og hann var yfir sig glaður. Hann hoppaði af kæti. Dúfan flaug burt af puttanum hans og hvarf upp í skýin. Lúlli hafði í sínu gleðikasti gleymt hvar hann var og labbaði því af stað en í þetta skipti var ekkert undir fótunum og hann flaug. Hann flaug í svolítinn tíma þar til jörðin kom og greip hann. Í sömu andrá og jörðin greip hann hvarf hún líka.

Nú var hann frjáls úr víti dapurleikans og kominn á betri stað, stað þar sem hann var ekki eins og allir aðrir en öllum var sama um það. Þarna átti hann fullt af vinum.
Lifi funk-listinn