Á Grobbstöðum var gráðugi og feiti sveitastjórinn, ásamt Ruddu ráðskonu, að fara út í nýjan eðalvagn sem hafði verið sérstaklega keyptur fyrir þessa ferð.
Féð sem notað var til að kaupa vagninn hafði hann auðvitað tekið úr sveitasjóðnum en það þurfti enginn að vita.
Gráðugur hafði notað sjóði sveitarinnar að mestu leyti til eigin afnota og hann hafði ekki hugsað sér að greiða það til baka.

,,Hver ætti svo sem að fara að stinga nefinu í saumana á fjármálunum hjá mér” hugsaði Gráðugur eins og að hann ætti allt féð sjálfur.
Allir skattar sem hann innheimti, án miskunnar, notaði hann til að kaupa landeignir og bústofn til handa sjálfum sér.
Einnig hafði hann boðið ýmsum stórríkum vinum sínum úr borginni í veiðiferðir í veiðiám sveitarinnar og einnig erlendis þegar vel lá á honum.

Rudda ráðskona vissi þetta auðvitað en hún hafði oft fengið að njóta góðs af líka svo ekki færi hún að gera veður út af einhverjum smáaurum sem elskan hennar væri að eyða, jafnvel þó að hann ætti ekki peninginn sjálfur.
Ruddalega heimilisfólkið á Grobbstöðum var ferðbúið og þau lögðu einnig af stað til hátíðardansleiksins.


Á krossgötum við sýslumörkin hittust fjölmargir vagnar og var ákveðið að slá upp smá búðum, með hressingum og mat, á meðan beðið væri eftir að allir kæmu á staðinn.

Jesper var orðinn afar spenntur yfir öllu og honum leið eins og í ævintýri sem hann hafði heyrt í æsku hjá móður sinni.
Enginn af þeim sem komu þekktu drenginn, ekki heldur gráðugi sveitarstjórinn.
Gráðugur sá bara glæsilega stórbóndann og fylgdarlið hans sem var í fallegasta vagninum á staðnum.
Hann horfði gráðugur á glæsilegar dætur herra Einráðs og hugsaði með sér hversu mikið hann gæfi til að vera aftur á þeirra aldri, auðvitað mundi hann þá giftast til fjár inní fjölskyldu stórbóndans.

,,Góðan daginn gott fólk” sagði hann smjaðurslega við herra Einráð og gekk til þeirra.
Honum fannst betra að hafa stórbóndann á sínu bandi því að þeir tveir stóðu jú samfætis í virðingarstiganum, eða kannski var stórbóndinn ekki alveg eins mikilvægur og sjálfur sveitarstjórinn.
,,Þetta eru glæsilegar stúlkur sem þú átt þarna, og þetta er greinilega sonur yðar herra Einráður, eins glæsilegur og hann er” hélt sá feiti áfram og brosti enn smjaðurslegar til Jespers, sem hann þekkti ekki, í von um að þetta væri nóg að smjaðri í bili, hann kunni betur við að láta smjaðra fyrir sjálfum sér.

Sveitalúðinn! Sonur stórbóndans á Ríkabæ! Herra Einráður sótroðnaði. Hann vissi ekki hvernig hann átti að bregðast við svona fáránlegri staðhæfingu.
,,Nei, nei! Sagði Jesper vandræðanlegur og leit á Ebbu og Gunnu sem höfðu byrjað að hlæja, sveitarstjóranum til mikillar gremju.
,,Ég er nú ekki beint sonur stórbóndans herra Gráðugur” sagði drengurinn og brosti varlega.
,,Nú, þá hlýtur þú að vera ættingi hans.
Svona glæsilegur ungur maður hlýtur að vera ættingi herra Einráðs á Ríkabæ” hélt Gráðugur áfram og skildi ekkert í flissi heimasætanna.

,,Þetta er tilvonandi eiginmaður minn” sagði Ebba og það hlakkaði í henni við þá tilhugsun að gráðugi sveitarstjórinn þekkti Jesper ekki aftur. Hún tók undir handlegg drengsins sem var orðinn jafn vandræðanlegur og stórbóndinn sjálfur.
Einráður var ekki ánægður með að láta alla halda að sveitalúðinn væri um það bil að fara að giftast dóttur hans svo hann ræskti sig og leit strangur á dóttur sína.
,,Nú þá er hann auðvitað af ríkum og góðum ættum auðvitað” sagði sveitarstjórinn og brosti smeðjulega til Jespers sem vissi ekkert hvað hann átti að segja.

,,Þetta er Jesper af Snauðustöðum!” sagði stórbóndinn helst til hátt.
,,Og það stendur ekki til neitt brúðkaup á næstunni” hélt hann áfram þegar hann sá að gráðugi sveitarstjórinn leit vantrúa á sveitalúðann.
Gráðugur var fljótur að afsaka sig og flýtti sér á brott.
Hann kærði sig ekki um að umgangast svona almúga og best væri ef sveitalýðurinn héldi sig heima en væri ekki á leið á dansleik sem var eingöngu fyrir fyrirfólkið.

Tíminn leið og brátt voru allir mættir á svæðið. Fólk skemmti sér vel og allir voru glaðir við að hittast, sérstaklega við svona mikilvægar aðstæður.
Ebba og Jesper ákváðu að það væri best að bíða með að tala við Einráð um giftingu þar til á dansleiknum sjálfum.
Foreldrar herra Einráðs voru bæði afar hrifin af breytinguna sem hafði orðið á Jesper og gamla frúin brosti í laumi til Ebbu.
Hún hafði fengið að vita hvað til stæði og var bara ánægð með ráðahaginn, hvað sem sonur hennar segði ætlaði hún að standa með sonardóttur sinni.

Kristján, ungi póstberinn, hafði einnig komið með foreldrum sínum. Hann var fljótur að finna unga fólkið og það urðu fagnaðarfundir, sérstaklega með Gunnu og honum.
Það var greinilegt að Gunna var hætt við að krækja sér í mannsefni á dansleiknum og það sem meira var, hún var orðin ánægð með sveitalúðann líka eins glæsilegur og hann var orðinn.
Foreldrar Stjána voru ríkmannleg að sjá og féllu vel inn í þá hugmynd sem stórbóndinn hafði um tengdafólk.
En samt þekkti hann ekki ætt þeirra svo að ekki dugði að dætur hans færu að giftast frændunum ungu.
Hann ákvað samt að láta þessi mál ekki trufla sig þennan daginn heldur láta þetta bíða þar til að heim kæmi aftur.
Aðeins Jesper og Ebba tóku eftir því að Skjóna gamla var hvergi sjáanleg.


Skjóna gamla hafði farið á undan öllum af stað og hún beið ekki við krossgötuna heldur hélt áfram til Voldugustaða.
Þegar hún kom að herrasetrinu varð hún allt í einu afar kvíðin því sem framundan var. Hún var glæsileg á að líta og ekkert minnti lengur á gömlu kerlinguna í Snýtukoti sem barði unga frændur með gömlum kálblöðum á hlaðinu hjá sér.
Hún brosti með sjálfri sér þegar henni var hugsað til þessa atburðar.
,,Það verður ekki aftur snúið héðan af” sagði hún í hljóði og gekk inn í garðinn hjá Voldugustöðum.
Þegar þangað var komið var hún komin með mikinn hjartslátt af spennu. Hún gekk að fallegum bekk í garðinum og settist niður.

Gamla konan tók ekkert eftir því að til hliðar við hana birtist allt í einu gamall maður sem horfði dáleiddur á hana. Hún hrökk við þegar hann ávarpaði hana.
,,Ert þetta þú Skjóna mín? Mín dásamlega löngu týnda ástmær!” sagði Búbú gamli og kraup við hlið sinnar heitt elskuðu.
Hann trúði því varla að loks væru þau aftur saman, nú vonandi til frambúðar.
Gamli maðurinn þurrkaði burt tár sem flóðu niður kinnar Skjónu gömlu og tók síðan hendur hennar í sínar og kyssti þær.
,,Elsku Búbú minn!” sagði Skjóna upphátt eins og hún hafði þráð svo lengi að gera.
Þetta var í fyrsta skipti sem hún sagði “elsku” við Búbú og hjarta gamla mannsins söng af gleði við að heyra það.
Það var greinilegt að hún elskaði hann enn og nú fengi hún ekki að flýja aftur frá honum, hann mundi ekki leyfa það.
Gamla parið hjalaði við hvort annað og tjáði hvort öðru ást sína á þann máta að greinilegt var að þeim hafði aldrei verið annað ætlað en að eigast.

Tíminn leið og þau gleymdu sér við að ræða það sem framundað var. Skjóna sagði Búbú frá gráðuga sveitastjóranum og svikum hans við drenginn unga. Síðan sagði hún honum frá öllu sem á daga þeirra hafði drifið og endaði með að segja honum frá ætlunum konungsins með Jesper. Búbú brosti yfir því að vera loks búinn að fá þær upplýsingar sem honum hafði vantað og saman ákváðu þau örlög feita sveitastjórans, sem og þeirra sem við sögu höfðu komið.
Þau voru allt í einu trufluð af einni vinnukonunni sem tilkynnti þeim að fyrstu gestirnin væru að koma að Voldugustöðum.
Þau litu á hvort annað og brostu, ástin var greinileg í augum þeirra. Þau leiddust hamingjusöm þegar þau gengu inn til að undirbúa komu gestanna.

Það var ys og þys fyrir innan og þjónustulið var á fullu við að bera fram dýrindis veitingar sem gestirnir áttu að fá.
Ekkert skildi til sparað því það var jú konungurinn sjálfur sem hélt dansleikinn, ásamt hinum leyndardómsfulla óðalseiganda sem enginn vissi deili á.
Aldrei áður hafði eins mikið verið um að vera á landinu eins og núna, enda hafði ríkjandi konungur í Kaupmannahöfn ekki komið til landsins áður.
Búbú og Skjóna voru stolt yfir því að konungurinn skildi treysta þeim til að sjá um allt og þau voru ákveðin í að láta allt ganga vel. Gömlu ástarfuglunum hlakkaði samt mikið til að geta farið frá þessu umstangi og átt saman sínar eigin stundir.


Brátt voru Voldugustaðir í Nýríkusveit iðandi af lífi, óðalið var miðpunktur landsins þessa stundina. Allir voru glaðir og kliðurinn var mikill því fólk var líka forvitið, allir vildu komast að því hvort næsti maður þekkti dularfulla óðalseigandann svo mikið var spjallað.
Einnig voru flestir afar spenntir yfir því að fá að sjá konunginn, fæstir höfðu séð svo háttsettan mann áður.
Gráðugur sveitastjóri gekk um eins og hann ætti staðinn og lét eins og að hann þekkti sjálfan óðalseigandann, sem og konunginn sjálfan, persónulega.
,,Þér verðið auðvitað að bíða, eins og aðrir, þar til hann kemur” sagði hann grobbinn þegar hann var spurður um það hvort hann þekkti óðalseigandann.
Hann lét að sjálfsögðu ekki uppi að hann var sjálfur eins forvitinn og hinir.
,,Ég segi ekki neitt til að spilla ekki spennunni” sagði hann til að þykjast aðeins meiri í augum alls þessa glæsilega fólks sem saman var hér komið.

Herra Einráður brosti bara þegar hann heyrði hvernig sveitastjórinn lét en skipti sér ekki af því. Hann vissi að sveitastjórinn gæti engan veginn þekkt dularfulla stórbóndann sem keypti Voldugustaði, hvað þá konunginn sjálfan.
Auðvitað þekkti Einráður konunginn aðeins, en enginn þekkti hann í raun og veru persónulega nema Skjóna og Búbú.

Gamla fólkið naut þess að stjórna veislunni saman og þau voru glæsileg á að líta.
Enginn þekkti Skjónu, gömlu kerlinguna í Snýtukoti, sem var í gullfallegum kjólnum sem systir hennar hafði sent henni frá Kaupmannahöfn.
Einnig hafði hún sett upp ýmislegt skart sem tilheyrði hennar fyrra lífi við hirðina, það glitraði og stirndi á skartgripina sem hún bar tígulega.
Gamla konan gekk um á meðal hefðarfólksins eins og hún hefði aldrei gert neitt annað og hún naut þeirrar athygli sem hún fékk fyrir á fullu.
Aðeins Jesper og Ebba þekktu hana því Skjóna hafði talað við þau svo lítið bar á og kynnt þau fyrir Búbú gamla.
Unga fólkið kunni strax vel við gamla ráðsmanninn og það var gagnkvæmt. Búbú gamli gat sagt þeim frá ýmsu um hirðina í Kaupmannahöfn, og frá konungi sjálfum.

Gráðugi sveitastjórinn tók auðvitað eftir glæsilega gamla parinu sem greinilega virtist ráða öllu á óðalinu.
Hann ákvað enn og aftur að smjaðra, núna við þau gömlu til vonar og vara, aldrei að vita nema þau séu skyld þessum dularfulla herra sem átti Voldugustaði.
Hann gekk til þeirra þar sem þau voru að tala við unga fólkið og tróð sér að þeim og hann hreinlega hrinti Jesper frá til að komast að, hann var jú bara ótýndur sveitalúði sem hefði átt að halda sig í fjósinu.

,,Góðan og blessaðan daginn! Þetta er dásamlegur staður og þið eruð augljóslega yfir öllu hér, og líka glæsilegust!” sagði hann í eins smjaðurslegum tón og hann gat.
Skjóna kvæsti og var næstum því búin að ráðast á Gráðugan þegar hann hrinti drengnum hennar, en Búbú hélt aftur af henni.
,,Við megum ekki spilla réttri refsingu” hvíslaði hann að draumadísinni sinni sem róaðist strax niður við tilhugsunina um að taka sveitastjórann í gegn á réttri stundu.

Hún rétti fram hendina og sveitastjórinn tók samstundis í hana og beygði sig niður til að kyssa á hana.
Skjóna glotti og kippti að sér hendinni um leið þannig að Gráðugur kyssti bara út í loftið.
Jesper og Ebba skemmtu sér vel yfir því hvernig sveitarstjórinn smjaðraði fyrir Skjónu, sem hann auðvitað þekkti ekki svona glæsilega.
,,Þér afsakið, en það er ekki til siðs við hirðina að láta sleikja á sér hendurnar” sagði Skjóna við sveitastjórann sem var orðinn eldrauður af skömm út af kossinum sem hann sendi út í loftið. Hann skældi munninn í ljótu brosi sem var ekkert fallegra en það sem var á andliti Ruddu ráðskonu sem stóð illileg fyrir aftan feita karlinn sinn.
,,Hvernig vogar kerlingin sér að fara svona með ástina mína!” hugsaði Rudda og var að springa af reiði.
Auðvitað lét hún ekki á neinu bera því ekki vildi hún skemma neitt fyrir Gráðugum sem rétti aftur úr bognu bakinu.
Hann var vandræðanlegur en reyndi að sýnast áhyggjulaus þegar hann hélt áfram að smjaðra.
,,Eruð þér héðan úr Nýríkusveit?” spurði hann til að segja eitthvað.

Skjóna brann í skinninu hana langaði svo að segja eitthvað skammarlega niðurlægjandi við feita sveitastjórann en henni tókst að passa sig.
Hún reigði sig alla og gerði sig eins tignarlega og hún gat um leið og hún tók utan um herðar Jespers með annarri hendinni og um Ebbu með hinni.
,,Nei, ég er úr Ráðríkusveit” sagði hún og glotti að undrunarsvip þess feita. Hann reyndi að hugsa hratt en gat ekki enn áttað sig á neinu stórsetri sem svona vel búin og glæsileg kona gat verið frá úr sinni sveit.
,,Sennilega skyld herra Einráði á Ríkabæ” hugsaði hann en þorði ekki að láta uppi að hann þekkti ekki alla í Ráðríkusveit, þar sem hann var jú sveitastjóri þar og átti auðvitað að þekkja alla.

Hann horfði illum augum á sveitalúðann sem var kominn undir verndarvæng glæsilegu frúarinnar og hugsaði honum þegjandi þörfina. Gráðugur og Rudda stungu saman nefjum og ákváðu að fylgjast vel með og taka strákaulann í gegn við fyrsta tækifæri. Þau þoldu ekki að sveitalúðinn fengi meiri athygli en þau sjálf, sjálft sveitastjóraparið frá Grobbstöðum.
Gráðugur sveitastjóri var viss um að hann gæti lækkað rostann í þessu pakki þegar kóngurinn kæmi.
,,Mér var nú jú boðið sérstaklega í veisluna og það ögugglega til að heiðra mig fyrir vel unnin störf sem sveitastjóri” hugsaði hann og ekkert var fjarri honum en sú staðreynd að óheiðarlegri sveitastjóri var vandfundinn.

Framhald seinna.