Á sama tíma og gráðugt og ruddalegt heimilisfólkið á Grobbstöðum lagði á ráðin um að eignast allan heiminn, lagði Jesper af stað frá Snauðustöðum til Skjónu í Snýtukoti.
Hann var að fara til að ná í lömbin sín og til að tala örlítið við gömlu konuna sem hafði verið honum svo góð.

,,Ég veit ekki hvernig allt væri ef hennar Skjónu hefði ekki notið við“ sagði Jesper við sjálfan sig.
Hann hugsaði til þess að gamla konan hafði alla tíð verið til staðar og hún virtist alltaf birtast þegar hennar mest var þörf.

Jesper gekk hratt upp á ásinn á milli Snauðustaða og Snýtukots. Þegar Jesper var að fara leggja af stað niður hinu megin sá hann einhvern reiðmann koma á mikilli hraðferð frá Grobbstöðum.
Jesper varð dauðskelkaður. Það fyrsta sem honum datt í hug var að þetta væri kannski gráðugi sveitastjórinn á Grobbstöðum og Jesper langaði ekki til að hitta þann vonda karl.
Jesper ætlaði að snúa sér við og hlaupa til baka, en þá sá hann að þessi aðkomumaður var talsvert mikið minni og glæsilegri en feiti sveitastjórinn.
Hann hætti því við að flýja og beið komu þess ókunna.

Ungi póstberinn var feginn því að Grobbstaðir voru að baki. Hann vissi að það voru bara þrír bæir í viðbót eftir í þessari ferð og á þeim bæjum voru allir í góðu lagi, eftir því sem hann best vissi. Hann hafði fengið að heyra sitt lítið af hverju um alla íbúanna í Ráðríkusveit.
Honum hafði verið sagt það vegna þess að hann átti eftir að bera út póstinn í sveitinni það sem eftir lifði sumars. Nú var hann að nálgast Snýtukot og Snauðustaði, ef hann hafði lært leiðina rétt.
Allt í einu tók hann eftir ungum dreng, líklega á sama aldri og hann sjálfur.
Póstberinn lyfti hendinni og veifaði til drengsins sem veifaði á móti.

,,Góðan daginn” kallaði póstberinn brosandi til hins.
,,Góðan daginn“ svaraði Jesper varlega, hann vissi ekki nema að sá ókunni gæti verið á snærum illa sveitastjórans.
Ungi póstberinn stoppaði gæðinginn hjá Jesper og hoppaði af baki.
,,Ég er nýi póstberinn í Ráðríkusveit” sagði ungi maðurinn glaðlega og rétti Jesper höndina.
,,Ég heiti Jesper og ég er frá Snauðustöðum“ svaraði Jesper um leið og hann tók í útrétta hendi póstberans.
Jesper leið strax betur og honum leyst bara vel á unga póstberann.
Drengirnir settust niður og töluðu saman um allt á milli himins og jarðar. Þeim kom ljómandi vel saman og þeir virtust eiga ýmislegt sameiginlegt og þeir skemmtu sér bara nokkuð vel.

Meðal annars kom í ljós að mæður þeirra voru báðar frá Kaupmannahöfn og feður þeirra voru báðir frá þessu landi, að vísu annar úr borginni en hinn úr sveitinni.
Allt í einu hrukku drengirnir við og þeir spruttu samtímis á fætur.
Hátt og skerandi neyðaróp barst þeim frá Snýtukoti, sem var beint fyrir neðan þá. Drengirnir hlupu af stað til að athuga hvað gengi eiginlega á.

Skjóna gamla hafði farið snemma á fætur eins og venjulega.
Henni fannst best að vinna sín venjulegu verk snemma dags.
,,Morgunstund gefur gull í mund” var hún vön að söngla.
Gamla konan hafði gengið út til að ná í grænmeti úr kálgarðinum sínum til að hafa með hádegismatnum. Þegar hún kom að kálgarðinum sá hún að allt grænmetið var horfið og garðurinn var allur á tjá og tundri.
Gamla kerlingin öskraði svo hátt að það bergmálaði í dalnum. Mikið var hún reið, og vonsvikin eftir allt erfiðið við að rækta kálið. Hún sá að girðingin sem hafði haldið lömbunum hans Jespers lá á jörðinni og bæði lömbin voru horfin.

,,Bannsett hrútlömbin hafa etið allt grænmetið mitt!” hrópaði gamla konan sárreið.
,,Ég skal sjóða ykkur í súpu ef ég næ ykkur!” hrópaði hún og snéri sér við og ætlaði að fara aftur inn. Um leið og hún snéri sér við, komu drengirnir tveir á hraða spretti fyrir hornið og hlupu beint í fangið á gömlu kerlingunni.
Þau kútveltust og Skjóna gargaði upp.

,,Hver er það sem ræðst á gamla konu í hennar eigin garði!” hrópaði hún og greip tætt kálblöð og byrjaði að berja árásarmennina með þeim.
,,Hættu! Hættu Skjóna mín!.
Þetta er bara ég, Jesper, og nýji póstberinn er með mér!” kallaði Jesper upp og reyndi að verjast höggunum frá Skjónu.
Gamla konan róaðist aftur niður og náði aftur stjórn á sér þegar hún áttaði sig á að þetta voru engir stigamenn.

Hún skýrði út fyrir drengjunum hvað hafði gerst og síðan bauð hún þeim inn í kökur og te. Skjóna gamla spurði unga póstberann spjörunum úr um ætt hans og varð heldur betur himinlifandi eftir því sem hún heyrði meira.
,,Hættu nú alveg að lesa” skellihló hún og klappaði saman höndunum.
,,Þið drengir eruð skyldir” sagði hún og brosti ánægjulega til þeirra. Þeir störðu á gömlu konuna og Jesper varð sannfærður um að hún hefði fengið höfuðhögg við áreksturinn úti á hlaði.
,,Jú sjáið til” byrjaði Skjóna útskýringu sína.
,,Afi þinn Jesper og afi þinn ungi maður voru náfrændur og það eru ýmsar dularfullar blóðblöndur í ykkur báðum” sagði hún og brosti að undrunarsvip drengjanna.

Hún reyndi að útskýra þetta fyrir þeim en það var erfitt vegna þess að hún vildi ekki segja þeim hvernig málin voru í raun og veru því það gæti eyðilagt eitthvað, og það mátti engan veginn. Gamla konan spurði svo póstberann unga um gamla frænda hans, hann Búbú. Hún sat dreymandi á svip og hlustaði á drenginn segja þeim frá gamla manninum sem honum þótti greinilega mjög vænt um.

Áður en varði var dagurinn floginn frá og það byrjaði að skyggja. Gamla konan gaf drengjunum að borða góða máltíð, án sallats og káls. Því næst fóru þeir af stað yfir að Ríkabæ sem var síðasti bærinn í ferð póstberans þennan daginn, ungi póstberinn teymdi Mosa hestinn sinn. Þeir skemmtu sér vel á leiðinni og Jesper sagði Kristjáni, en svo hét ungi póstberinn, frá öllu sem á dagana hafði drifið. Hann sagði Kristjáni líka frá því að hann ætti unnustu sem héti Ebba og að hún ætti einmitt heima á Ríkabæ. Auðvitað fékk póstberinn að heyra um Gunnu og bónorðsferðina sem Jesper var ekki lengur sár yfir. Loks komu þeir yfir hæðina við Ríkabæ og bærinn blasti við í allri sinni dýrð.

Á Ríkabæ var kvöldmatur að enda og stórbóndinn reis upp frá borðinu.
,,Hvað í ósköpunum ætli hafi komið fyrir gamla póstberann? Hann átti að vera löngu kominn en ekkert hefur sést til hans enn” sagði hann annars hugar og gekk að glugganum.
Þá sá hann hvar drengirnir tveir komu yfir hæðina og hann glotti við.
,,Er ekki sveitalúðinn að koma og það með einhvern í eftirdragi” sagði hann og dró upp pípuna sína. Ebba stökk á fætur og hljóp að glugganum. Gunna fylgdi einnig með því hún varð forvitin um alla sem komu og hún ekki þekkti.
,,Þú ættir að venja þig af því að nota þetta skelfilega nafn á drenginn Ráður minn” sagði frú Ríkey við son sinn um leið og hún byrjaði á að taka saman af borðinu. Hún var vön að gera þetta heima hjá þeim í borginni þó að þau hefðu vinnufólk til þessara verka.
Sonur hennar brosti bara til hennar og horfði á eftir dætrum sínum hlaupa fram til að heilsa gestkomendum.
,,Það er einhver á okkar aldri sýndist mér” heyrði hann Gunnu segja um leið og þær hurfu fram.

Ebba og Gunna opnuðu aðaldyrnar og fóru út á hlað til að heilsa drengjunum sem komu einmitt í sömu mund að hlaðinu.
,,Halló Jesper minn” byrjaði Ebba og heilsaði væntanlegum bónda sínum. Drengirnir gengu til systranna og Jesper varð glaður við að sjá ungu stúlkuna sem hann varð alltaf meir og meir ástfanginn af. Hann heilsaði og dró Kristján fram fyrir sig.
,,Þetta er Kristján frændi minn frá borginni” sagði hann stoltur og kynnti fyrir þeim hinn nýfundna frænda.
Kristján leit á ungu stúlkurnar og varð yfir sig hrifinn. Þetta voru hreinustu fegurðardísir.
,,Komdu sæll Kristján” sagði yngri systirin og rétti honum hendina. Gunna starði á þennan flotta borgardreng og varð undireins “skotin” í honum.

,,Svo þetta eru fallegu heimasæturnar á Ríkabæ, og endilega kallið mig Stjána” sagði Kristján og brosti fallega um leið og hann tók í útrétta hendina á Ebbu. Síðan rétti hann hendina til Gunnu og brosti enn breiðar. Gunna roðnaði eins og lítil stúlka sem hafði verið staðin að einhverju sem ekki mátti. Hún varð sárreið út í sjálfa sig fyrir að hitna svona allri en tók samt í hendina á Stjána og reyndi að brosa til baka. Hún var nú samt ákveðin í að þetta “skot” væri eitthvað sem hún yrði að kæfa strax því hún ætlaði að ná sér í ríkan aðalsmann á hátíðardansleiknum, því ríkari því betra hugsaði hún.
,,Þetta er dásamlegur staður hérna” sagði Stjáni og leit ekki af eldri heimasætunni sem hann var viss um að væri sér ætluð af örlögunum. Hann var sannfærður um að hann hafi líka séð einhvern neista í augum hennar þegar hann heilsaði henni.

,,Já bærinn er yndislegur, pabbi lét byggja hann fyrir nokkrum árum því hann gat ekki keypt Voldugustaði í Nýríkusveit” sagði Ebba og tók undir hendina á Jesper. Jesper kynnti þau og sagði stúlkunum deili á Stjána. Hann sagði þeim líka frá því að ráðsmaðurinn á Voldugustöðum væri frændi Stjána og sennilega líka frændi sinn. Stúlkurnar urðu yfir sig hrifnar en hvor á sinn hátt þó. Ebba varð hrifin af því að Jesper skyldi eiga þennan frænda að en Gunna varð hrifin þegar hún heyrði um Voldugustaði.
,,Hvað segir þú? Voldugustaðir, þekkir þú kannski nýja eigandann?” spurði Gunna og leit á unga póstberann.

Hann hló bara að því að vera spurður að þessu í annað skiptið á sama deginum. Stjáni útskýrði síðan að hann væri aðeins skyldur ráðsmanninum og að hann vissi engin deili á þeim sem hafði keypt Voldugustaði. Hann sagði stúlkunum að hann mundi koma í sveitina á hverjum degi allt sumarið og að þau gætu kannski gert eitthvað skemmtilegt saman. Þar sem Ríkibær væri síðasti bærinn í póstleiðinni, gæti hann alltaf klárað að bera út póstinn og endað hjá þeim. Ebbu og Jesper fannst þetta frábær hugmynd en Gunna var efins, ástarmálin hjá henni hefðu verið helst til kjánaleg uppá síðkastið. Hún tók þó undir til að vera með. Þau ákváðu að hittast og gera eitthvað skemmtilegt á hverjum degi. Stjáni lét stúlkurnar fá póstinn og síðan kvaddi hann, skutlaði sér á Mosa og hvarf. Gunna horfði á eftir honum og andvarpaði, því þarf allt að vera svona flókið hugsaði hún. Hún ætlaði sér sko ekki að verða of ástfangin af þessum glæsilega póstbera.

,,Ég fer með póstinn til pabba, ertu að koma Ebba?” sagði hún og tosaði í systur sína sem var að hjala við sveitalúðann. Gunna ætlaði sko ekki að leyfa þeim að vera of mikið saman án þess að einhver væri til staðar til að gæta þess að ekkert ósæmilegt gerðist hjá þeim. Ebba og Jesper kvöddust og stúlkurnar hurfu inn fyrir en Jesper gekk af stað í átt að heimili sínu.

Gunna afhenti föður sínum póstinn og sagði honum frá Kristjáni frænda Jespers og gamla frú Ríkey brosti þegar hún sá merki þess að unga stúlkan hafði greinilega orðin fyrir einhverjum áhrifum af því að hitta unga manninn.

Tíminn leið nú hratt og gömlu hjónin fóru heim til borgarinnar eftir dásamlega viku í sveitinni með syni sínum og sonardætrum. Veðrið hafði verið nokkuð hagstætt og þau höfðu öll farið í nokkrar nestisferðir, ásamt Jesper og Stjána. Þrátt fyrir nokkrar skemmtilegar uppákomur og smá klaufaskap var frú Ríkey varð alltaf meir og meir sannfærð um að Ebba og Jesper væru kjörin fyrir hvort annað. Það var líka greinilega eitthvað merkilegt að byggjast upp hjá Kristjáni frænda Jespers og Gunnu.
Gunna var orðin ansi veik á svellinu hvað unga póstberann varðaði og reyndi allt hvað hún gat til að önug við hann til að fela tilfinningarnar sem hún fann kvikna til hans.

Herra Einráður gat ekkert annað gert en að fylgjast með litlu stúlkunum verða meira og meira hrifnar af drengjunum. Hann gat að vísu ekki neitað því að eftir því sem hann kynntist þeim frændum betur kunni hann betur og betur við þá, en þeir voru ekki nógu ríkir og háttsettir fyrir dætur hans, sjálfar heimasæturnar á Ríkabæ!

Það dróg alltaf nær og nær deginum stóra og tilhlökkunin var mikil hjá öllum. Stúlkurnar höfðu fengið nýja kjóla senda frá ömmu þeirra sem frú Ríkey hafði keypt eftir nýjustu tísku í höfuðborginni. Jesper átti auðvitað ný fín föt sem Skjóna gamla hafði keypt og Kristján, sem auðvitað ætlaði líka á hátíðardansleikinn, átti nokkuð meira af fatnaði en Jesper greyið.
Ebba og Jesper héldu áfram að hittast á hverjum degi og Jesper lærði alltaf meira og meira. Hann var orðinn glæsilegri en nokkrum sinnum því að Ebba hafði klippt hann og svo hafði Skjóna gamla keypt talsvert af nýjum fatnaði á hann sem hún hafði náð í til borgarinnar. Jesper hafði einnig lært að dansa og ýmislegt sem unga heimasætan, ásamt gömlu kerlingunni, taldi að hann þyrfti á að halda fyrir dansleikinn.

Skjóna gamla var yfir sig hrifin af því hve auðveldlega drengurinn náði öllu og það var greinilegt að hann hafði mjög gott af því að vera með unga fólkinu til að læra af því. Hún hafði meðal annars beðið unga póstberann um að hjálpa frænda sínum með því að segja honum allt um það sem væri í gangi í borginni þannig að Jesper fengi einhverja hugmynd um hvað væri að gerast utan sveitarinnar.

Gamla kerlingin hafði ráðið lögfræðing til að ganga frá öllu því mikilvægasta fyrir hana í sambandi við dansleikinn, og það var ekkert smáræði. Það erfiðasta var að reyna að fá allt til að smella saman og það í réttri röð.
,,Fyrst er að ausa reiði minni yfir feita sveitastjórann og hans hyski, síðan að stinga orðum að fína herranum á Ríkabæ” tuðaði sú gamla í hvert skipti sem henni varð hugsað til stóra dagsins.
Hún vonaði bara að þetta yrði ekki of mikið fyrir unga drenginn, en gott var að hann hafði hana Ebbu.
,,Svo virðist sem kaktusspíran hún Gunna ætli að fá ágætan bita líka” hugsaði Skjóna gamla sem hafði auðvitað líka frétt af því að unga fólkið væri alla daga saman.
Hún hafði líka fengið það upp úr unga póstberanum að hann ætlaði sér að biðja um hönd eldri heimasætunnar á hátíðardansleiknum. Reyndar hafði Jesper líka samþykkt að biðja líka um hönd Ebbu um leið og Stjáni bæri fram bónorðið til Gunnu.
Jesper var hálf feginn því hann vildi helst ekki mæta stórbóndanum einn.

Í Nýríkusveit bar þess allt merki að stóri dagurinn var að nálgast. Voldugustaðir voru orðnir glæsilegri en nokkurt annað herrasetur á landinu og lokafrágangur var á fullu.

Búbú gamli hafði haldið öllum við verkið og nú deginum áður en hátíðardansleikurinn átti að vera var hér um bil allt til reiðu. Hann hafði fengið þær upplýsingar að konungurinn væri væntanlegur til landsins þá um kvöldið og til Voldugustaða snemma morgunninn eftir.
Gamli ráðsmaðurinn var feginn að lokastundin var á næstu grösum því hann var óþreyjufullur eftir því að hitta sína elskulegu Skjónu. Hann var viss um að hann mundi ná henni aftur, og nú fengi hún ekki að stinga af.
,,Enda orðin of gömul til að hlaupa að heiman núna” sagði gamli maðurinn við sjálfan sig og glotti. Hann gekk um herrasetrið og athugaði hvort ekki væri allt eins og það átti að vera og síðan bað hann vinnufólkið um að byrja á að skreyta fyrir dansleikinn. Hér var ekkert því til fyrirstöðu að dansleikurinn gæti hafist á réttum tíma daginn eftir.

Á Ríkabæ gekk auðvitað líka mikið á og allt var á tjá og tundri. Ungu stúlkurnar höfðu pakkað niður öllu því helsta.
,,Við erum ekki að fara til Kína í mánuð” sagði herra Einráður við dætur sínar þegar hann sá allan farangurinn sem þær höfðu pakkað niður. Stórbóndinn brosti góðlátlega til dætra sinna og andvarpaði. Hann hafði þurft að samþykkja það að sveitalúðinn færi með þeim á dansleikinn. Einnig hafði hann tekið eftir því að sennilega voru báðar dætur hans búnar að ákveða sig með að ganga að eiga ungu frændurna. Hann ætlaði samt ekki að gefa þær frá sér baráttulaust, þær skildu fá að hitta einhverja af þeim glæsilegu ríku herramönnum sem á dansleikinn kæmu.
,,Meira að segja Gunna virðist vera búin að gleyma því að hún ætlaði að gifta sig vel” hugsaði nokkuð snobbaður stórbóndinn og andvarpaði aftur.
Auðvitað vildi hann bara það allra besta til handa dætrum sínum, og það voru ekki snauðir frændur sem ekkert áttu. Hann hætti þessum hugrenningum og ákvað að láta þetta eiga sig þar til eftir dansleikinn eins og móðir hans hafði ráðlagt honum að gera.

Framhald seinna.