Hún gekk í snjónum sem náði henni upp að hnjám. Hún stefndi eitthvað út í óvissuna, burt frá þéttbýlinu, burt frá því sem hún hataði og var að losa sig við. Reyndar var smá efi í hjarta hennar en sársaukinn og fortíðin bældu efann niður. Fótgangandi hafði hún nú verið um háfltíma og var þegar orðin villt í hrauninu. Hún skammaðist sín. Orðin \“að flýja sjálfsábyrgð\” glumdu í eyrum hennar. Samt héldu fæturnir áfram út í óvissuna, uns örmagna lagðist hún í brekku eina skammt frá. Augun leituðu til himins og hún starði á stjörnurnar. Hún minntist þess er hann sagði við hana \“augun þín eru eins og tindrandi stjörnur\”. Hún elskaði orð hans en nú höfðu þau orð þagnað.
Hún horfði í kringum sig. Allt var hvítt, svo langt sem augað eygði og fönnin minnti hana á hreinleikann.
Lítið tár féll úr augum hennar og með því braust fortíðin fram á sjónarsviðið og minnti hana á barnæsku sína.

Öskrin fylltu höfuð hennar, en þetta voru ekki hennar eigin öskur, heldur öskur foreldra hennar, annað hvort á hana eða á hvort annað. Næstum því daglega er hún opnaði herbergishurðina sína til að fara í skólann, heyrði hún þessi öskur. Þessi öskur er splundruðu sál hennar í þúsund mola, en á yfirborðinu sáust engin viðbrögð. Hún minntist enn undrun sinni á því hvernig þau höfðu alltaf tíma til að rífast og öskra, því þau voru alltaf að flýta sér í vinnuna og oftast tóku þau ekki einu sinni eftir henni. Það fannst henni best. Á leiðinni í skólann sökk hún sér niður í dagdrauma. Þar var hún glöð og allir góðir og glaðir. Mamma og pabbi rifust aldrei og voru alltaf góð við hana.
Þegar hún kom í skólann byrjaði annar kafli dagsins; að vera eins og allir aðrir í hegðun og gjörðum. Oftast gekk það ágætlega og hún fékk að vera með í leikjunum, en stundum komu tímar þar sem hún húkti úti í horni með löngunaraugum um að fá að vera með. Kennararnir voru samt verstir. Hún átti það til að sökkva sér niður í dagdrauma í kennslustundum þegar henni fannst kennararnir hafa talað of mikið en greinilega voru þeir ekki á sama máli og of þurfti hún að heyra skammir þar sem bekkurinn glotti með illskulegri ánægju barnsins. Stundum átti hún það til að hlaupa út úr tíma og hljóp þá bak við ákveðið hús þar sem hún talaði við Guð. Þar reyndi hún að finna styrk en oftast þvarr hann, ef einhver var, þegar hún kom heim og fékk að heyra fleiri skammir og yfirlýsingar um ömurleik hennar.

Kuldinn nísti líkama hennar og hún óskaði að hún hefði tekið teppi með sér, en rödd innra með henni sagði að þetta væri bara mátulegt á hana. Hún reyndi að ýta hugsunum um kuldann frá sér og fortíðin kom með næsta skammt.

Nú var hún stödd í unglingadeild grunnskólans. Nú hafði margt breyst. Guð hafði verið þurrkaður út því hann hafði aldrei svarað henni. Og nú gerði hún allt til þess að vekja athygli á sjálfri sér, og margar urðu skáveifurnar, allt til þess að fólk myndi taka eftir henni. Þegar athyglin beindist að henni, fannst henni hún vera sérstök. Þessi tilfinning var þess virði að gera allt til að halda dauðahaldi í hana með öllum ráðum.
En þegar heim var komið breyttist hún í litla barnið sem reyndi að komast sem fyrst í skjól fyrir heiminum. Hún venjulega strunsaði í átt að herberginu sínu og reyndi sem minnst að hafa einhver samskipti við fjöldskylduna. Herbergið hennar var eini staðurinn þar sem henni leið vel. Allar tilfinningar hennar fengu þarna útrás og oft rakti hún raunir sínar fyrir sér, því eini vinur hennar sem raunverulega treysti var hún sjálf. Í herberginu var hún bara hún sjálf, viðkvæm, döpur, sár, reið.. eiginlega bara þetta allt saman. Sú manneskja sem hún sýndi heiminum var andstæða innri manneskju hennar. Sjálfsálitið hafði aldrei verið mikið en fór sífellt þverrandi, og allt hatrið sem hún bar í brjósti sér beindist að henni sjálfri. Oft kom henni til hugar að strjúka að heiman, en það sem kom í veg fyrir það var að hún vissi viðbrögð foreldra hennar þegar hún þyrfti að snúa aftur heim. Það myndi ekki vera eins og í bíómyndunum, þar sem mamman og pabbinn taka á móti barninu fagnandi með tárin í augunum, heldur myndu foreldrar hennar sjá til þess að hún myndi iðrast þessa næsta allt sitt líf. Dagdraumarnir voru nú það eina sem héldu henni gangandi gegnum dagana. Þar var fólkið orðið nær raunveruleikanum og mamma og pabbi löngu horfin af sjónarsviðinu, því hún hafði misst alla trú á þeim.

Nú var þreytan byrjuð að segja til sín og hana langaði til að sofna, en hún streyttist við og ákvað fyrst að klára uppgjör sitt við fortíðina.

Fyrir tveimur árum hitti hún manninn sem breytti lífi hennar. Hann var svo.. svo einstakur, alveg ólíkur öllum er hún hafði áður kynnst. Eftir nokkra mánuði hófu þau búskap saman og þá fyrst fannst henni lífið hafa tilgang. Loksins skein sólin í hjarta hennar og dagarnir urðu dásamlegir. Já, fyrstu 6 mánuðurnir voru draumi líkast. Hann var svo sérstakur, feiminn en samt með sjálfstæða hugsun og lá aldrei á skoðunum sínum. Hún dáðist að honum í laumi og reyndi að gera allt fyrir hann til að honum liði vel. Og oft var hann svo góður, en því hafði hún aldrei almennilega kynnst fyrr. En smám saman byrjaði allt að breytast. Hann fór að fá ofbeldisköst og hún fór að óttast hann. Orð hans byrjuðu að særa hana djúpt, og þótt hún hafði fyrirgefið honum á yfirborðinu, þá beið sál hennar varanlegan skaða. Smátt og smátt gerðist hún þræll ástarinnar. Hún vildi gera allt til þess að sambandið yrði eins og áður. Þegar hann særði hana með orðum, þá faldi hún sorg sína og reyndi að blíðka hann. Hún hlýddi hverri skipun hans bara til þess að hann færi ekki frá sér, því einmanaleikinn var orðinn hennar mesti ótti. Þegar hann lagði hendur á hana, reyndi hún að bæla niður grátinn og setti upp eðlileg svipbriði eins og ekkert hafði í skorist og reyndi síðan með öllum ráðum að sefa hann. Hann sagðist eiga hana og hún réði engu, og þótt innri rödd hennar hrópaði að hún skyldi ekki afsala sér til hans, þá hlýddi hún honum án þess að segja neitt, því þá sagði hann orðin sem hún þráði að heyra og hélt henni gangandi. En einn daginn sagðist hann ekki elska hana lengur og fór, og þá hrundi heimur hennar. Þunglyndið yfirtók huga og sál eins og flóðbylgja sem drekkir því sem verður á vegi hennar. Smám saman fjarlægðist hún vini og samfélag og að lokum gleypti myrkrið hana. Hjartað brast, sálinni blæddi út og örvæntingin yfirtók allt. Hún dó að innan og þá vissi hún hvað þurfti að gera.

Hún horfði á skjálfandi hendur sínar og leit síðan upp til stjarnanna. Nú myndi hún loks ná á sinn leiðarenda, og með þessa setningu í huganum lokaði hún augunum í síðasta sinn.