Heima í Snýtukoti var allt rólegt, eins og venjulega.
Skjóna gamla hafði fengið sendan stóran kassa, fyrr um daginn, frá litlu systur sinni í Kaupmannahöfn.
Nú sat gamla konan með kassann opinn og var að tína upp úr honum það sem hann hafði að geyma. Meðal annars var þar glæsilegur samkvæmiskjóll sem Skjóna hafði beðið sérstaklega um.
Þessi kjóll var orðinn gamall en allur enduruppgerður og yfirfarinn, hann hafði verið í sérstöku uppáhaldi hjá gömlu konunni um það leyti sem hún fór frá Kaupmannahöfn tvítug að aldri. Nú hafði litla systir hennar látið endurgera kjólinn þannig að hann hæfði eldri heimsdömu.

Skjóna hugsaði til þess tíma er hún hafði verið í þessum kjól síðast, það hafði verið í kynningarveislu litlu systur hennar. Það var þá sem hann Búbú, einn af aðdáendum Skjónu, hafði næstum játað Skjónu ást sína en Skjóna hafði fundið hvað var í vændum og flúið.
Í þá daga hafði Skjóna ekki verið tilbúin til að bindast og hún hafði hræðst þær tilfinningar sem hún hafði fundið fyrir til þessa unga manns, en í dag var hún til í hvað sem er.
Hún hlakkaði sérstaklega mikið til að hitta hann Búbú sem hafði nú þegar tekið við ráðsmannsstöðunni á Voldugustöðum í Nýríkusveit.

Í kassanum var líka ýmislegt glingur, til dæmis hálsfesti, eyrnalokkar og fingurskraut.
,,Mikið er orðið langt síðan ég skreytti mig síðast“ sagði gamla konan við sjálfa sig. Hún hlakkaði líka til að klæða sig upp í sitt fínasta púss.
Skjóna tók upp pinkil sem lá neðst í kassanum og velti því fyrir sér hvað gæti verið í honum.
,,Það var ekkert annað sem ég hafði beðið um” tautaði Skjóna og reif bréfið utan af.
Í ljós komu tveir stórir gullskreyttir rammar, einn ramminn var með fallegri mynd af 3 konum og 3 mönnum.

Gamla konan skellihló þegar hún sá þessa mynd, á myndinni blasti við henni þrjár af eftirsóttustu stúlkum Evrópu þeirra tíma. Á myndinni var Skjóna um tvítugt, litla systir hennar um 16 ára og hin gullfallega móðir Jespers einnig um tvítugt.
Með þeim á myndinni voru 3 ungir menn sem voru augljóslega ástfangnir hver af sinni stúlkunni. Það var Búbú sem brosti svo fallega til Skjónu að það var greinilegt að hann hafði verið meira ástfanginn af Skjónu en hún hafði nokkurn tímann gert sér grein fyrir, það sá hún þegar hún leit á myndina og henni hlýnaði um hjartaræturnar.
Þar var einnig ungi maðurinn sem síðar náði að fá og giftast sinni heitt elskuðu, eiginmaður litlu systur hennar Skjónu.
Þriðji maðurinn á myndinni var einhver sem Skjóna mundi lítið eftir. Hann hafði verið ungur greifi sem hafði gengið árangurslaust með grasið í skónum á eftir móður Jespers. Hann hafði horfið burt þegar hann sá að hann fengi ekki sína heitelskuðu og Skjóna vissi ekkert hvað um hann varð.
,,Þetta voru góðir tímar og mikið um veislur“ hló Skjóna gamla og stillti myndinni upp á gamla kommóðu sem stóð við rúmið hennar.

Því næst leit Skjóna á seinni myndina. Gamla konan fann fyrir sting í hjartanu þegar hún sá manneskjurnar tvær sem á myndinni voru, mikið þótti henni vænt um þau bæði. Á myndinni voru Hann sjálfur ásamt móður Jespers. Mikið voru þau fallegt ungt fólk, og svona mikið lík. Þessi mynd hafði verið tekin rétt áður en Hann tók við öllu saman og eftir það höfðu samverustundir þeirra allra orðið ansi fáar.
,,Það er best að Jesper litli fái þessa mynd” tautaði Skjóna og þerraði burt tár sem læðst hafði út.
,,Já það liggur beinast við að Jesper eignist myndina þar sem móðir hans er á henni ásamt honum sjálfum“ sagði gamla konan við sjálfa sig og leit aftur yfir myndina.
Hún tók eftir því að móðir Jespers bar merki í barminum, gamla konan vissi auðvitað að það var sama merkið og nú var í eigu drengsins.
Móðir Jespers hafði beðið Skjónu um að láta son sinn fá merkið eftir sinn dag vegna þess að merkið var ættargripur sem Jesper átti svo að láta ganga til barna sinna þegar þar að kæmi.

Allt í einu hrökk Skjóna við. Mikil háreysti og læti bárust utan af hlaði og virtist mikið ganga á.
Gamla konan flýtti sér út þar sem við blasti skondin sjón, ekki ólík þeirri sem Jesper hafði séð á hlaðinu á Snauðustöðum.
Enn einu sinni var það kötturinn hans Jespers sem var í aðalhlutverkinu.
Þarna við lækinn sem rann við hlaðið á Snýtukoti var meindýrið hann Viður gamli, kötturinn hans Jespers.
Kötturinn lá í hnipri á lækjarbakkanum og yfir honum stóðu tvö stór hrútlömb, það voru Allir og Enginn lömbin hans Jespers, og þau voru ansi reiðileg á að líta.

,,Í hvaða vandræði ertu nú búinn að koma þér kattarómynd?” tautaði Skjóna sem var ekkert alltof hrifin af svona loðboltum.
,,Varst þú að reyna að ná þér í ódýrt lambakjöt“ hló gamla konan og fylgdist með því sem fyrir augu bar.

Allt í einu heyrðist hátt jarm í Öllum, Enginn tók hraustlega undir og með það sama ráku þeir Við út í ána.

Skjóna gamla skellihló og klappaði saman höndunum til að reka lömbin frá læknum. Því næst bjargaði hún Við gamla upp úr læknum, hún tók af sér svuntuna og byrjaði að þurrka gamla fressið.
,,Réttast hefði verið að leyfa þér að synda smá stund , en sennilega hefðir þú fljótlega drukknað því þú ert nú engin gæsasteggur” hló sú gamla.
,,Og unglamb ertu ekki heldur greyið” sagði hún svo við köttinn og hló létt.

Þegar kötturinn var orðinn sæmilega þurr sleppti Skjóna honum og kötturinn þaut strax í áttina að hæðinni að Snauðustöðum. Þegar Skjóna var búin að ná báðum lömbunum og setja þau í girðingu við kálgarðinn sinn fór hún aftur inn.
Hún hafði ekki verið lengi inni þegar hún heyrði aftur einhvern umgang úti.
,,Nú nú, hvaða hvaða“ tautaði Skjóna og gekk aftur að hurðinni.
,,Er heimurinn að farast eða er lækurinn minn orðinn að ferðamannaparadís?” spurði gamla konan sjálfa sig og fór aftur út.
Þegar út kom sá hún að unga fólkið, þau Jesper og Ebba voru að koma yfir lækinn, hvort á sínum hestinum.
,,Hvaðan ber ykkur að augasteinarnir mínir?“ kallaði Skjóna til þeirra.

Jesper og Ebba veifuðu til Skjónu og stukku af hestunum.
,,Sæl Skjóna mín” sögðu þau bæði í kór.
,,Við vorum í lautarferð með herra Einráði og foreldrum hans og Gunnu“ sagði Jesper og ljómaði. Ebba brosti líka út undir eyru, hún greip í handlegg unnusta síns og leit á gömlu konuna.
,,Já afi og amma komu í heimsókn og pabbi ákvað að fara í smá lautarferð með þau, amma sendi mig til að ná í Jesper og pabbi varð að gera eins og amma vildi” bunaði Ebba út úr sér.

Þau sögðu síðan Skjónu frá öllu sem gerðist í lautarferðinni og hafði gamla konan gaman af því að heyra að drengurinn hennar skildi hafa svona góðan dag. Skjóna velti því fyrir sér hvort hún ætti að segja þeim eitthvað um merkið góða en ákvað að bíða með það.
,,Það er betra að ég segi Jesper einum frá því til að byrja með“ hugsaði Skjóna og greip inn í samræðurnar hjá unga fólkinu.
,,Það er orðið svo áliðið að þú ættir að drífa þig aftur heim djásnið mitt” sagði Skjóna við Ebbu.
,,Þú skalt taka báða hestana því Jesper getur gengið héðan“ sagði Skjóna og leit síðan til Jespers. ”Ég þarf að ræða aðeins við þig Jesper þannig að þú skalt verða eftir hérna“ hélt Skjóna áfram.

Unga fólkið samþykkti þetta og þau kvöddust. Ebba veifaði í kveðjuskyni áður en hún hvarf hinu megin við lækinn.
,,Komdu inn og fáðu mjólkurglas og köku á meðan við tölum saman” sagði Skjóna og lagði af stað inn í bæinn með drenginn á hælunum.
,,Ég var búin að baka skonsur og ég setti á þær ost sem ég var að gera“ sagði Skjóna þegar þau komu inn í eldhúsið. Hún lagði glas með mjólk í á borðið ásamt litlum disk með góðgætinu.
,,Ég er nú nýbúinn að borða og er eiginlega saddur” sagði Jesper vandræðanlega og honum varð hugsað til hörðu smákakanna sem Skjóna hafði gefið honum síðast.
En þegar Skjóna lagði diskinn á borðið, með ilmandi skonsu og osti, stóðst Jesper ekki mátið.
,,En ilmurinn er svo góður að ég verð að smakka“ sagði Jesper og gleypti í sig skonsuna, því næst bað hann um aðra. Gamla konan brosti og var ánægð með góða matarlyst drengsins.

,,Það er gott að þú hefur góða lyst og tekur hraustlega til matar þíns, ungur maður þarf að borða vel til að verða hraustur” sagði Skjóna og strauk hárlubbann á Jesper. Skjóna fór og náði í myndina sem hún hafði fengið senda og sýndi Jesper sem varð yfir sig hrifinn af fallegu fólkinu á myndinni.
,,Mikið er þetta glæsilegt og velklætt fólk“ hrópaði drengurinn og starði heillaður á myndina af móður sinni án þess að þekkja hana.
,,Er þetta fólk sem þú þekkir Skjóna?” spurði Jesper hrifinn.
,,Já ég þekki þau bæði“ svaraði gamla konan og brosti blíðlega til drengsins.
,,Þú þekkir líka konuna sem er á myndinni þó þú áttir þig greinilega ekki á því” hélt Skjóna áfram.

Jesper leit undrandi á gömlu konuna og síðan aftur á myndina af fallega fólkinu. Hann var alveg viss um að hann þekkti þessa fallegu konu ekki, ekki manninn heldur.
,,Nei Skjóna mín, ég er öruggur um að ég þekki þessa konu ekki“ sagði hann.
,,Ef ég hefði einhvern tímann hitt þessa konu þá hefði munað eftir henni, það er er viss um” hélt Jesper áfram.
Gamla konan brosti aftur til Jespers og benti á konuna, sem var svo falleg að Jesper var viss um að væri ekki til fallegri kona.
,,Þessi unga kona, sem er á myndinni, bar þig undir belti og ól þig í þennan heim gæskurinn“ sagði Skjóna og brosti.

Jesper starði á myndina af ungu konunni og leit svo hissa á Skjónu gömlu.
,,Já en Skjóna mín, það var nú hún móðir mín sem fæddi mig og ól mig upp” sagði Jesper vandræðalegur við gömlu konuna.
Hann áleit að sennilega þyrfti gamla konan að fá ný sjóngler, á myndinni var ung og falleg kona en móðir hans hafði verið ansi gömul og ærið grá.

Jesper þekkti ekki til ljósmynda og móðir hans hafði verið komin á efri ár þegar hann komst til vits.
,,Þessi unga kona er hún móðir þín“ sagði Skjóna og hló að kindarlegum svip drengsins.
,,Þessi mynd var að sjálfsögðu tekin þegar hún var ung, líklega á sama aldri og þú núna” hélt Skjóna áfram og strauk kinn drengsins. Jesper var alveg undrandi.
,,Áttu við að þessi fallega unga stúlka sé hún mamma þegar hún var ung?“ spurði Jesper.
,,Þetta verð ég að sýna Ebbu minni” hugsaði Jesper glaður og honum fannst sem hjartað ætlaði að springa af stolti.
,,Já molinn minn, þetta er móðir þín á sínum yngri árum“ svaraði gamla konan um leið og hún þerraði tár sem í annað sinn á stuttum tíma stálust fram.

,,Er þetta þá kannski hann pabbi?” spurði Jesper og benti á unga fallega manninn við hlið móður sinnar. Skjóna hló þegar henni varð hugsað til þess hversu mikill munur var á föður Jespers og þeim unga manni sem á myndinni var.
,,Nei, þetta er ekki hann faðir þinn“ svaraði Skjóna.
,,Þetta er hann sjálfur” hélt gamla konan áfram um leið og hún velti því fyrir sér hversu mikið hún ætti að segja drengnum að svo komnu.
,,Bara hluta núna“ sagði Skjóna við sjálfa sig.
,,Hann sjálfur?” spurði drengurinn hissa. Hann hafði einmitt heyrt herra Einráð og afa og ömmu hennar Ebbu tala um einhvern hann sjálfan. Ebba og Gunna höfðu líka talað um einhvern hann sjálfan.

,,Hver er eiginlega þessi hann sjálfur sem allir tala um?“ spurði Jesper forvitinn. Skjóna leit á Jesper og ákvað að segja honum allan sannleikann um hver það væri sem var á myndinni með móður hans.
,,Hann sjálfur er auðvitað Konungur okkar og verndari” sagði Skjóna og brosti. “Sjálfur Kristján Konungur Danaveldis” sönglaði gamla konan og virtist ætla að rifna af stolti.
,,Nú já“ sagði Jesper dálítið hissa.
,,Svo þetta er hann” hélt Jesper áfram og lét eins og að hann þekkti sjálfan Konunginn persónulega.
,,Hún mamma er búin að segja mér svo mikið af sögum um Stjána kóng, eins og hún kallaði hann, að mér finnst ég þekkja hann mjög vel“ sagði Jesper og hló.

Gamla konan brosti ánægð.
,,Það er gott að móðir þín sagði þér eitthvað frá honum” sagði hún við Jesper.
,,Eins og þú hefur greinilega heyrt að þá mun Konungurinn koma og verða viðstaddur hátíðardansleikinn á Voldugustöðum í Nýríkusveit í næsta mánuði“ sagði Skjóna með tilhlökkun í röddinni.
,,Að sjálfsögðu verður þú líka á staðnum ef ég hef skilið ungu dömuna þína rétt” sagði Skjóna og brosti til Jespers, sem brosti til baka.
,,Já hún ætlar að kenna mér ýmislegt gagnlegt svo ég geti farið í svona fína veislu og borið mig rétt að hlutunum eins og Ebba orðar það“ sagði Jesper hlæjandi og það skein af honum sönn tilhlökkun og hrifning.
,,En heyrðu Skjóna” byrjaði Jesper.
,,Er þetta merki, sem mamma er með á myndinni, það sama og ég á núna?“ spurði drengurinn um leið og hann benti á barmmerkið sem móðir hans bar á myndinni.

Gamla konan brosti.
,,Drengurinn er langt frá því að vera vitlaus” hugsaði Skjóna og kinkaði kolli til Jespers. Það var greinilegt að hann hafði lagt saman tvo og tvo með merkið.
,,Já þetta merki fékk hún afhent sem erfðagrip eftir móður sína, ömmu þína sálugu, og núna fékkst þú merkið vegna þess að þú ert eina barn móður þinnar“ sagði Skjóna um leið og hún rétti Jesper þriðju skonsuna, sem hann gleypti í sig með hraði.
,,En heyrðu Skjóna” sagði Jesper aftur þegar hann var búinn með gómsæta kökuna sem gamla konan bar fyrir hann.
,,Hvers vegna var tekin mynd af þeim saman, henni mömmu og Kónginum?“ spurði drengurinn og beið forvitinn eftir svari. Skjóna ákvað að segja Jesper ekki meira núna því að það gæti spillt öllu og það vildi hún ekki. Hún ákvað að segja honum það þegar allt væri komið á sinn stað og dansleikurinn búinn.
,,Það segi ég þér seinna” sagði hún og stóð upp.
,,Það er orðið svo áliðið og ég er orðin dálítið þreytt“ hélt Skjóna áfram.
,,Það er best að þú farir heim núna, en þú mátt auðvitað koma hingað aftur hvenær sem þú vilt” sagði Skjóna og gekk að útidyrunum.

Þau gengu út og Jesper þakkaði Skjónu fyrir góðgætið.
,,Já á meðan ég man“ sagði gamla konan allt í einu og greip í hendi drengsins.
,,Ég náði báðum lömbunum þínum og lét þau í girðingu hér við kálgarðinn minn” hélt Skjóna áfram. Síðan sagði hún Jesper frá öllu brölti kattarins og því að hann hafi hlaupið í áttina að Snauðustöðum þegar hún hafði þurrkað hann. Skjóna sagði að lömbin gætu verið í girðingunni þar til morguninn eftir.
,,Þakka þér fyrir allt Skjóna mín“ sagði Jesper og faðmaði Skjónu að sér. Síðan kvöddust þau og Jesper flýtti sér heim að Snauðustöðum.

Skjóna horfði á eftir honum og enn einu sinni þerraði hún tár af vanga sér.
,,Það mætti halda að ég sé að verða meir í ellinni” þeytti gamla konan út í loftið og snéri sér við og fór inn í Snýtukot. Síðan lagðist nóttin yfir allt.

Framhald seinna.