Hún horfir á hringinn, glitrandi demantinn í miðjunni og gullið er umlukir steininn. Allt í einu hendir hún hringnum frá sér og horfir á hann falla niður á parketið. Hljómurinn við fall hringsins ómar í eyrum hennar. Augun eru brostin og sál hennar í molum. Hugurinn er á barmi taugaáfalls og ósjálfrátt leitar hann til atburðanna fyrr um kvöldið.

Matarboðið hafði verið skipulagt í meira en viku og þótt hún hefði mikla ánægju af því að hitta allt fólkið, þá var hún með áhyggjur, sem voru blanda af áhyggjum að annaðhvort myndi boðið misheppnast eða eitthvað myndi aftra því að þau gætu tilkynnt trúlofun þeirra, því hún hafði átt svo mörg misheppnuð sambönd að baki. En svo lét hún þessar hugsanir hverfa úr huga sér því nú hafði hún hitt draumaprinsinn, svo blíður, svo góður, svo skemmtilegur en umfram allt þá kom hann svo vel fram við hana, eins og hún væri drottning og þá leið henni unaðslega. Nú loksins átti lífið að vera gott, það var komið að henni.

Um kvöldið birtust vinir og kunningjar og loks kom hann, brosandi að vanda og færði henni blómvönd. Hjartað í henni ætlaði að springa af ást og fögnuði. Þau kysstust í dyragættinni en fóru svo inn til að blanda geði við gestina.

Boðið gekk mjög vel. Allir virtust skemmta sér vel og það var alltaf gaman að rekast á fólk sem maður hitti sjaldan til að skiptast á fréttum og slúðri. En nú leið að því að þau ætluðu að koma öllum að óvörum með því að tilkynna trúlofun þeirra. En þegar hún skyggndist yfir herbergið þá sá hún hann hvergi svo hún fór að leita að honum. Við þvottahúsdyrnar stoppaði hún snögglega, því hún heyrði kunnuglegar raddir. Þetta var rödd hans og bestu vinkonu hennar að tjá ást sína til hvors annars, en vildu halda því leyndu, því það væri svo rómantískt. Með skjálfandi fætur náði hún að komast inn á baðherbergið til að reyna að ná taki á tilfinningum sínum og taka sig saman í andlitinu. Hún flýtti sér fram og tilkynnti gestunum að upp hefði komið smá mál og því miður yrðu þau að fara. Hún sá undrunarsvip hans er hann hafði loksins komið sér út úr þvottahúsinu en hún reyndi að leiða hann, og þá manneskju er hún hafði talið vera bestu vinkonu sína, fram hjá sér. Hún bað þau vinsamlegast að fara líka en áður en hún lokaði útidyrahurðinni sagði hún með ískaldri röddu: “Og ég vona að ykkur hafi fundist þvottahúsvistin ánægjuleg”. Hún sá undrunarsvip þeirra beggja blandna hræðslu, en hún vildi ekki heyra neinar útskýringar frá þeim núna svo hún skellti hurðinni á þau.

Nú var allt svo svart. Heimurinn hennar hafði nú hrunið og hún sá ekkert, enga framtíð. Hún stóð upp, tók hringinn með annarri hendinni en var með rauðvínsglas í hinni. Hún gekk út á svalirnar og horfði niður. Þetta sýndist ekki vera svo langt niður, þótt þetta væri á áttundu hæð. Þarna niðri var sundlaug. Hún hafði alltaf hatað þessa sundlaug, því það notaði hana hvort eð er enginn, og hún var alltaf grútskítug, svo það var enginn tilgangur með henni. Hún kláraði úr rauðvínsglasinu, henti því aftur fyrir sig og heyrði brothljóðin, en henni var alveg sama. Henni var sama um allt. Hún horfði niður fyrir svalahandriðið og lét hringinn með demantinum í miðjunni, sem hann hafði gefið henni til marks um ást hans til hennar, allt svikin loforð, falla í sundlaugina. Hún heyrði skvamphljóðið er hringurinn féll í laugina og skrítin tilfinning fór um hana.

Nú stóð hún uppi á svalarhandriðinu. Hana langaði svo að láta sig falla. Hún fann vindinn þjóta í gegnum sig og löngunin um að láta sig falla var yfirþyrmandi…
En hún gat það ekki, hafði ekki kjarkinn. Hún fór aftur inn, gekk á glerbrotunum og fann sársaukann nísta fætur hennar, en henni var alveg sama. Hún lagðist upp í rúmið og óskaði þess að næsti dagur yrði aðeins betri.