Skjóna gamla sat á rúmstokknum og dundaði við rokkinn.
,,Ef stúlkukindinni tekst að fá drenginn með sér á staðinn þá er helmingur erfiðisins búinn” tautaði hún með sjálfri sér.
Hún velti því fyrir sér hvernig best væri að koma öllu öðru á sinn stað eða á rétta hillu.
Skjóna tók upp bréfið sem lá á rúminu og leit aftur í það, örugglega í sjötugasta skiptið frá því hún fékk það.

,,Þótti leitt að heyra þetta með gömlu hjónin” las hún.
,,Hvernig líður syni þeirra?” las hún áfram og gretti sig þegar henni varð hugsað til þess að hún skyldi ekki hafa tekið í taumana fyrr.

,,Þau gömlu á Snauðustöðum voru allt of varkár og óhagganleg í þessu sambandi” tautaði hún og leit aftur á bréfið í höndum sér.
,,Veit drengurinn ekkert ennþá?” stóð líka í bréfinu.
,,Ég fékk það staðfest í morgun að HANN, þú veist, ætlar sjálfur að koma þann 15. næsta mánaðar til að skoða aðstæður og vera viðstaddur” las gamla konan upphátt.

,,Hann sjálfur” tautaði Skjóna og brosti.
,,Það verður sko uppi fótur og fit þegar þetta fréttist” sagði hún við sjálfa sig og glotti það mikið að það skein í tannlausa gómana.
Hún hafði þegar látið þetta “leka” í fréttamann sem starfar við blaðaútgáfuna í höfuðborginni. Hún vissi að það yrði ekki langt að bíða þar til þetta kæmi í sýslublaðið í Ráðríkusveit sem og annarsstaðar.
Skjóna leit á undirskriftina í bréfinu og henni hlýnaði um hjartaræturnar.
,,Þín litla systir í kóngsins Kaupmannahöfn” las hún og hló.
,,Alltaf skal hún minna mig á að hún sé sú yngri, þó hún sé komin á sjötugsaldurinn” hugsaði Skjóna gamla.
Hún hugsaði með söknuði til fjölskyldu sinnar og vina sem hún hafði yfirgefið fyrir svo mörgum árum. Það hafði verið til þess eins að fylgja gömlu vinkonu sinni og uppeldissystur, móður hans Jespers, til þessa snauða lands.

Hérna hafði hún svo lifað á eins fábrotinn og einfaldan hátt og mögulegt var til þess að koma ekki upp um vinkonu sína. En hún hafði alltaf verið til staðar þegar móðir Jespers fékk heimþrá, varð leið eða ef eitthvað annað bjátaði á.
,,Svo endaði ég með tímanum sem einhverskonar milliliður fyrir móður Jespers og HANN” sagði gamla konan við sjálfa sig.
Skjóna hugsaði með velþóknun til hans því hann hafði séð til þess að hún skorti ekkert í fábreytileikanum.

En þegar Jesper litli fæddist fór næstum allt í klessu.
,,Með þessari fæðingu breytast allar aðstæður” sagði hann og heimtaði að öllu yrði breytt. Það var með herkjum að Skjónu tókst að telja hann á að leyfa þeim öllum að lifa í friði, eins lengi og hægt væri, að hans tími mundi koma.

Allt í einu heyrði hún umgang fyrir utan svo hún hætti þessum hugrenningum. Hún flýtti sér að stinga bréfinu undir dýnuna í rúminu sínu og stóð upp.
Út um gluggann sá hún hvar Ebba kom labbandi að dyrapallinum svo hún gekk fram til að taka á móti henni.

Ebba hafði verið létt í spori og farið hratt yfir. Alla leið yfir ásinn hafði hún hugsað um Jesper og það sem þau töluðu um. Mikið hlakkaði hún til næstu 30 daga, sem og framtíðarinnar. Hún kom fljótt að Snýtukoti. Þegar hún kom að dyrunum opnuðust þær og Skjóna gamla birtist forvitin á svip í dyragættinni.

,,Jæja stráið mitt, hvernig gekk með drenginn?” spurði sú gamla um leið og hún tók upp snjáðu tóbakdósina sína og fékk sér í nefið. Þegar hún leit á ungu stúlkuna sá hún strax að hún hefði ekki þurft að spyrja. Ebba ljómaði öll af gleði og ákafa.

,,Hann ætlar að koma með okkur með því skilyrði að ég kenni honum að dansa og vera innan um veislufólk og við ætlum að hittast á hverjum degi og æfa okkur og við ætlum að gifta okkur og og og…”
Ebba hreinlega bunaði þessu öllu út úr sér í einu.
Gamla kerlingin varð að hafa sig alla við til að skella ekki uppúr, hún ákvað að stoppa orðflauminn.
,,Hægan, hægan ljósið mitt” sagði hún og greip í axlir stúlkunnar.
,,Hann er sem sagt tilbúinn til að fara” tautaði hún og glotti með sjálfri sér.
,,Það var nú gott og blessað og vel af sér vikið lambið mitt” sagði hún og leit ánægð á ungu dömuna sem auðvitað vissi ekki hvað hún var á leiðinni út í, sú átti eftir að verða hissa.

,,Hvernig leyst honum á hænsnin sem þú gafst honum?” spurði Skjóna.
,,Ó, hann fékk þær bara alls ekki” sagði Ebba leið á svip.
,,Þær sluppu allar frá mér vegna þess að annað hrútlambið hans Jespers stangaði mig þegar ég var efst í hlíðinni, og ég datt og missti bandið sem hélt þeim” sagði Ebba og var næstum farin að gráta.
Gamla konan glotti þegar hún hugsaði til þess að í framtíðinni þyrftu þau tvö, Ebba og Jesper, að hafa áhyggjur af fleiru en fáeinum pútuskjátum.
,,Svona, svona týran mín” róaði sú gamla stúlkuna.
,,Þú skalt ekki hafa áhyggjur af þessu heldur einbeita þér að því sem þið hafið ákveðið, sem sagt skólaðu drenginn til” sagði hún og strauk burt tár sem birtist á kinn stúlkunnar.

,,Ég skal gefa þér ýmis ráð og leiðbeina þér með allt saman” sagði kerlingin svo og var hæstánægð með þróun allra mála.
,,Þú ert mikill happafengur fyrir hvern sem er gæskan” sagði hún og lét stúlkuna setjast niður á dyrapallinn.

Skjóna gamla fór inn og náði í tepott og tvo bolla. Hún rétti annan bollann til Ebbu og hellti svo te í fyrir báðar. Þegar Skjóna var sest niður, við hlið ungu stúlkunnar, byrjaði hún að segja Ebbu frá ýmsu sem gott væri fyrir Jesper að kunna. Ebba varð himinlifandi yfir allri kunnáttu gömlu konunnar og hafði orð á því.
,,Oh” svaraði sú gamla spurningu Ebbu.
,,Ég var viðstödd ýmsar stórhátíðir og mikla dansleiki á mínum yngri árum” sagði hún og leit dreymandi út í sveitina.

Ebba leit á gömlu konuna sem virtist hafa gleymt bæði stund og stað.
,,Áttu við að það hafi verið mikið um að dýrðir hérna í gamla daga?” spurði hún og ýtti við gömlu konunni sem hrökk upp úr draumaheimi liðinna tíma.
,,Nei, nei” hló sú gamla og gretti sig.
,,Þetta var áður en ég flutti til þessa lands, í gamla landinu mínu” sagði hún og saup á teinu.
,,Í kóngsins Kaupmannahöfn” sagði hún svo og fylltist stolti.
,,Þegar ég var lítið eitt eldri en þú var ég, ásamt móður hans Jespers, talin ein af fegurstu stúlkunum í allri Skandinavíu og þó víðar væri leitað” sagði hún og teygði upp gamlan og hrukkóttan hálsinn.
,,Við vorum umsetnar af voldugum herramönnum og áttum marga vonbiðla” söng í Skjónu gömlu og hún vaggaði fram og aftur með stjörnur í augunum.
,,En af öllu því vitlausasta þurfti móðir hans Jespers endilega að verða ástfangin af bóndadurg” fussaði Skjóna og gretti sig.
,,Það var í einu af ferðalögum okkar hingað að hún varð ástfangin af honum” tautaði gamla konan og það mátti greinilega heyra vonbrigðatón í röddinni.

,,Það var auðvitað faðir Jespers sem náði að heilla hana og þrátt fyrir fortölur mínar fór sem fór” sagði hún og leit á ungu stúlkuna sem hlustaði með athygli.
,,Áttu við að móðir hans Jespers hafi verið dönsk?” spurði Ebba.
,,Auðvitað týran mitt, hvaðan heldurðu að nafnið hans komi, Jesper er jú danskt nafn” sagði sú gamla og fylgdist vel með stúlkunni. Skjóna ákvað að ræða þetta ekki frekar núna því ekki mátti þessi skynsama stúlka komast að of miklu strax, og merkið vildi hún ekki ræða að sinni. Hún leiðbeindi Ebbu með ýmislegt gagnlegt í sambandi við þá kennslu sem stúlkan ætlaði að nota á Jesper.

Þær voru svo niðursokknar í samræðurnar að þær hrukku við þegar hestur hneggjaði beint fyrir framan þær. Ebba og Skjóna litu samtímis upp og sáu unga reiðilega stúlku horfa niður til þeirra.

Heima á Ríkabæ var mikið um að vera. Herra Einráður gekk fram og aftur um viðhafnarstofu sína og var reiðilegur á svip.
,,Hvað meinar stúlkan með því að láta sig hverfa sí svona” tautaði hann með sjálfum sér og blés frá sér miklum reyk sem hann hafði dregið að sér úr pípunni sinni.
,,Og hvar í ósköpunum er hún Ebba?” tautaði hann áfram. Taltólið hafði hringt aftur eftir matinn og hann hafði fengið að heyra nokkuð ótrúlega spennandi sem hann ætlaði að ræða við dætur sínar.

Hann hafði leitað hátt og lágt að þeim en þær virtust hafa gufað upp. Þegar hann svo fann Gunnu var hún þögul sem gröfin og setti bara nefið upp í loft.
,,Það er óþarfi að vera með svona fýlu út í mig” hafði hann sagt við eldri dóttur sína.
Hann grunaði að telpan væri enn sár vegna þess að hann hafði neitað henni um að giftast Jesper. Svo þegar hann hafði sagt Gunnu frá símtalinu hafði hún rokið út í hesthús og lagt á Lady, ljósrauðu hryssuna, og þotið upp hæðina og horfið þar yfir um.

Stórbóndinn hristi höfuðið og settist við skrifborðið. Sýslublaðið sem hafði komið með öðrum pósti um morguninn lá á borðinu og stóð stórum stöfum á forsíðunni.
,,HÁTÍÐARDANSLEIKUR AÐ VOLDUGUSTÖÐUM Í NÝRÍKUSVEIT” Herra Einráður flétti blaðinu og stoppaði í því miðju.
,,Voru seldir fyrir þremur árum en hann tekur fyrst við setrinu þann 15. næsta mánaðar” las Einráður í fjórða skiptið frá því um morguninn.
Hann var orðinn mjög forvitinn um hver það hafði verið sem bauð betur á sínum tíma í Voldugustaði en sjálfur Herra Einráður.
Hann hristi aftur höfuðið og setti upp í sig pípuna.
,,Þetta getur varla orðið mikil samkeppni” hugsaði hann og blés reyknum út í loftið.
,,Enginn getur skákað sjálfum stórbóndanum í Ríkabæ” sagði hann upphátt og naut þess að hlusta á sjálfan sig.

Gunna varð forviða þegar pabbi hennar hafði sagt henni frá þessu dularfulla símtali.
,,Almáttugur minn” hugsaði hún og byrjaði strax að leggja á ráðin um að komast inn í aðalinn.
,,Ef það er rétt að hann sé að koma, þá hljóta að koma fullt af einhverjum greifum og ýmsum öðrum aðalsmönnum” hugsaði hún og ákvað að fara strax að sækja Ebbu.
,,Það er eins gott að stoppa hana áður en hún gerir einhverja vitleysu með þessum heimska sveitalúða” tautaði hún við sjálfa sig á leiðinni út í hesthús.

Gunna var strax búin að ákveða að þær systur skyldu báðar krækja sér í mannsefni á hátíðardansleiknum.
,,Eins gott að einhver fátækur sveitadurgur sem ekkert á nema dauð heimilisdýr sé ekki fyrir” kallaði hún upphátt í eyra rauðu hryssunnar þar sem hún þeystist yfir ásinn frá Ríkabæ. Þegar hún var að þjóta yfir lækinn hjá Snýtukoti sá hún að það logaði á luktinni við dyrnar hjá Skjónu, hún hægði ferðina. Þegar hún kom nær sá hún hvar þær Skjóna og Ebba sátu niðursokknar í samræður á dyrapallinum.


,,Það var Ebbu líkt að gleyma stund og stað yfir einhverjum hlægilegum gamalmennasögum” hugsaði Gunna og reið nær. Hún heyrði Skjónu segja eitthvað um að hneigja sig fallega og kyssa á hendi.
,,Hvað ætli þessi gamla skrukka sé að bulla við hana litlu systur mína” hugsaði Gunna og sá að þær höfðu ekki enn tekið eftir henni.
,,Þessi gamla skata ætti ekki að vera að fylla unga stúlku af einhverju siðum sem hún þekkir ekkert til” tautaði hún með sjálfri sér.
Gunna var viss um að Skjóna gæti ekki vitað eitt eða neitt um hvað var að gerast utan sýslunnar. Hún vissi að sú gamla var búin að vera í Ráðríkusveit í minnsta kosti fjörtíu ár ef ekki lengur. Sennilega hefur hún verið lengur í sveitinni en allir aðrir, nema kannski foreldrar sveitalúðans. Hún hafði heyrt að faðir Jespers hafði fæðst hér en móðir sveitalúðans var aftur á móti fædd í útlöndum.
Hún hætti þessum hugsunum og lét hryssuna hneggja rétt fyrir framan dyrapallinn. Því næst hvessti Gunna augun og reyndi að vera eins reiðileg og hún gat þegar Skjóna og Ebba litu undrandi upp.
,,Þú átt að koma undir eins heim og tala við hann pabba” kallaði hún og leit beint á Ebbu sem þaut á fætur. Skjóna gamla staulaðist líka á fætur.
,,Er það ekki sjálf heimasætan á Ríkabæ” sönglaði hún og gretti sig framan í Gunnu.

,,Sjálf kaktusplantan, sem á sko eftir að bíta sig í botnlangann þegar hún kemst að því af hverju hún missti” tísti í þeirri gömlu og hún hristist af innbyrgðum hlátri. Gunna skildi ekki hvað sú gamla var að tuða.
,,Pabbi þarf að segja okkur frá svolitlu alveg æðislegu í sambandi við dansleikinn á Voldugustöðum” sagði hún og þóttist hvorki sjá né heyra í gömlu konunni.
,,Oh, ætli það verði ekki svona sitt lítið af hverju sem koma mun ykkur á óvart á dansleiknum þeim að tarna” hló gamla konan enn. Ebba leit á Skjónu og varð hugsandi á svip.
,,Hefur þú heyrt eitthvað um þennan nýja óðalseiganda sem á Voldugustaði?” spurði hún Skjónu.
,,Ojá blómarósin mín” söng gamla kerlingin og það hlakkaði í henni.
,,Þú skalt búa þig undir mesta ævintýri sem nokkur gæti lent í” sagði hún og tók í hendurnar á Ebbu og sveiflaði þeim eins og hún væri að kenna henni að dansa. Ebba hló og hreifst með gömlu konunni sem byrjaði að raula, hún sveiflaði sér með henni.

Gunna fylgdist með og það var farið að síga í hana.
,,Nei, hættið nú alveg” hrópaði hún og stökk ofan af hryssunni. Hún greip í handlegg systur sinnar og dró hana að sér.
,,Pabbi bíður eftir okkur” sagði hún og nú þurfti hún ekki að reyna neitt til að sýnast reið.

Gamla kerlingin skellihló og klappaði saman höndunum. Henni leið mjög vel yfir því að loksins var þessu tilbreytingarlausa lífi hérna bráðum að ljúka og tímabil hátíðahalda að byrja. Hún var líka sannfærð um að Ebba væri nákvæmlega sú stúlka sem passaði best á móti Jesper. Mikið hlakkaði hún til þess að sjá fyrir endann á þessu erfiða verkefni sem móðir Jespers hafði beðið hana fyrir.
,,Síðan mun ég geta aftur snúið á minn eigin stall, sem er talsvert hátt uppi” sagði hún við sjálfa sig og veifaði til stúlknanna sem hurfu fljótt út í myrkrið sem var að skella á.

Framhald seinna: