Dagar líða og nætur koma og fara. Af og til rignir á mig.

Þegar ég var yngri var mér iðulega sagt að ég ætti aldrei að ljúga. Hvers vegna, spurði ég. Því að maður átti alltaf að segja satt, samt er sviður mig mest undan sannleikanum. Mig svíður því ég veit það nú að þú munt aldrei nokkurn tímann, aldrei, aldrei aftur sjá mig.

Í fyrsta skiptið, eða öllu heldur, mín fyrsta minning er þegar ég uppgvötvaði að hægt var að hugsa inni í sér, án þess að mynda orðin á tungunni. Ég stóð inni í parketlagðri stofu þar sem við bjuggum í Breiðholtinu og var himinlifandi yfir þessu öllu saman. Var ég kannski í fyrsta skipti að komast í samband við sjálfan mig, sálina eða minn innri mann? Seinna um daginn fór ég að pæla í hvar þessi hugsun færi fram. Ég reyndi að hugsa með fingrinum en náði í raun aldrei tökum á því. Var þá sálin ekki í fingrinum? En samt gat ég fundið til, fundið fyrir þér með fingrinum. Stundum fannst mér eins og þú værir til inni í fingrinum og jafnvel mér öllum.

Þegar ég veikist fæ ég alltaf sömu martröðina. Ég sé mann, mjög horaðan og hokinn; fæ stundum á tilfinninguna að þetta sé ég einhvern tímann í fortíðinni, eða jafnvel framtíðinni; á gangi við rætur mjög hás fjalls. Allt í einu hrynja grjótskriður úr fjallinu og á manninn. Þegar skriðurnar eru farnar hjá er hann allur götóttur eftir þær. Ég held jafnvel að oftast þegar mig dreymi þessa martröð, þá sé ég vakandi.

Þar sem ég stend hef ég ótrúlegt útsýni yfir borgina og út á sundin. Þarna hinum megin svífa fjöllin í fjólublárri móðu fjarskans. Fyrir neðan mig endalausar götur, bílar og fólk, allt í samanþjappað, eins og sandkastalaborgir leikskólabarna.
Þú ert þarna niðri einhvers staðar. Veist varla af mér.

Ég renni fingri niður eftir háls mér, reyni að finna slagæð. Púlsinn er enn sterkur.

Ég hef einu sinni beinbrotnað. Það gerðist með þeim hætti að hurð, þungri útidyrahurð var skellt á fingurberg baugfingurs og löngutangar. Fingurnir bólgnuðu upp og blánuðu og neglurnar rifnuðu og það blæddi. Kannski er ég þannig. Bólginn, blár, rifinn og mér blæður,-að innan.

Ég finn ekki lengur til. Ég finn ekki lengur fyrir sjálfum mér. Ég er hættur að hugsa. Loft og gluggar þjóta framhjá mér og malbikuð stéttin færist nær.

Ég finn ekki lengur til, því ég á mér ekkert líf.