Ef að augnablik gætu verið fengin aftur, handfjötluð og endurskoðuð, þá væri allt svo miklu auðveldara. Trúin, lífið og ástin eins og leikur, hvert skref eins og dans, fyrirfram ákveðið og í takt við hrynjandi hversdagsins.

Það að lifa er eins og að syngja. Þú leyfir tónlistinni að fljóta taumlaust inn í eyru þín og reynir eftir bestu getu að syngja með. Kannski ertu heppinn og átt ekki í neinum erfiðleikum með jafnvel hæstu tóna, en kannski ertu óheppin og þér verður eitthvað misstíga í tónstiganum og þú hljómar falskur.

Eitt sinn mætti ég manni með hatt á förnum vegi. Maðurinn með hattinn hélt í hann með annarri hendi. Ég horfi lengi á manninn og velti fyrir mér hvers vegna hann héldi í hattinn, því þennan dag var frekar gott veður, hálfskýjað og, þótt ótrúlegt megi virðast, logn. Hann leit á mig undan gráum og þungum augabrúnum. Ég leit undan í hálfkæringi og langaði helst að hlæja að öllu saman, en eitthvað inni mér kallaði á mig og sagði mér að fylgjast vel með þessum manni. Því eftir slit og áreynslu margra áratuga hafði hann vit á að halda í sinn hatt, þrátt fyrir að úti væri logn. Enda kom á daginn, að stuttu seinna fór að hvessa.

Ég er ekki sá sem þú hélst að ég væri, heldur svíf ég á hvítum vængjum inni í hugarheimi míns eigins ímyndunarafls. Ég fel mig þér, þrátt fyrir að þú sért sá einstaklingur sem einna helst ættir að vita hver ég er.

Mig dreymdi fyrst þegar ég var átta ára. Mig dreymdi að hitta þig. Síðan þá hefur mynd af andliti þínu verið heftuð við huga minn og ég hef ekki litið þann dag án þess að hugsa um þennan draum. Trúirðu á örlög? Það geri ég. En samt reyni ég ekki að afsaka eigin vangetu með þeim. Ég fel mig ekki á baki barnalegra útskýringa, að allt hafi átt að gerast og hafi verið fyrir löngu ákveðið af einhverju svakalega yfirnáttúrulegu. Nei, ég held frekar að örlög séu eins og tvö mismunandi rafskaut, sem ómeðvitað leita út hvort að öðru. Plús og mínus, svart og hvítt.

Ég held enn augnablikadagbók í hausnum. Ég fletti af og til í minninu og brosi út í annað þegar ég finn eitthvað skemmtilegt.

Þar sem þú stendur, nákvæmlega núna, efast ég um að þú sért að hugsa um mig. Ég held nefnilega að þú hafir aldrei tekið eftir mér, en samt var alltaf eitthvað, -eitthvað sem erfitt er að henda reiður á, svona eins og að grípa fiðrildi, eitthvað sem sá til þess að við værum á sama stað á sömu tímum. Við horfðumst í augu, jafnvel lengi en samt var alltaf svo langt á milli okkar.

Það er frekar hvasst. Ég held í hattinn minn. Ég veit ekki af hverju. Skiptir það máli? Nei, ég hélt ekki. Þér er nokk sama. Kannski ef þú kemur auga á dánarfregn mína, þá hugsarðu til mín. En þú munt ekki spyrja sjálfa þig hvort að ég hafi verið með hatt.

Ég var eitt sinn staddur í Beira, sem er nokkuð stór borg í Mozambique. Ég var á gangi milli þriggja hárra blokka, yfir stórt torg. Þá fór að hellirigna. Regnið dundi á mér og ég reyndi að vera eins fljótur og ég gat að hlaupa í skjól, því ég vissi sem var að þrumur og eldingar voru ekki langt undan. Regnið féll í dágóða stund og nokkrum eldingum sló niður og þrumur gengu yfir. Síðan virtist vera að stytta upp svo að ég ætlaði að hlaupa af stað restina af leiðinni yfir torgið. En þegar ég var kominn hálfa vegu milli þess staðar þar sem ég var og yfir torgið skall svakaleg þruma á mér. Eldingu sló niður í hæstu blokkina af þessum þremur. Ég þrýsist niður í götuna. Andlit mitt lá í pollunum og lækjunum á götunni. En síðan stytti upp. Eiginlega furðu snöggt eftir þessa þrumu.

En hvernig stendur á því að ég er alltaf að hugsa um þig?

Þegar ég var lítill fór ég oft í sumarbústað með foreldrum mínum. Þau höfðu byggt bústaðinn þegar ég var þriggja ára. Við hlið hans var risastórt og ævafornt birkitré. Það óx í þremur greinum hátt upp yfir húsið og hvert einasta sumar mátti sjá skógarþresti sem höfðu gert sér hreiður í trénu. Ég lék mér oft þar. En eitt sumar, þegar við vorum að koma í okkar fyrstu vorferð hafði tréð sligast undan snjóþunga liðins vetrar og ein greinin brotnað og fallið á húsið. Húsið varð ekki fyrir skemmdum en af trénu var höggvin greinin og ber það enn sár þess.

Mig hefur oft dreymt þetta sár.

Ég veit ekki allt. Ég get ekki vitað allt. Ég er þó meðvitaður um það en ég vildi gjarnan vita miklu meira um þig. Þú stendur mér nærri án þess þó að vera eitthvað hangandi utan í mér. Það er meira eins og að þú hangir inni í mér.

Ég hef aldrei verið vatnshræddur. Vatn er umlykjandi og minnir mig á algera og hömlulausa nærveru þína. Spegilsléttar tjarnir endurspegla augu þín og regnið, -regnið sorgir þínar. Voru þær mínar sakir? Mér að kenna? Þú ert ekki hér til að svara mér.