Það er asnalegt að afsaka sig fyrir fram, en ég ætla samt að gera það. Ég VEIT að þetta er frekar fyrirsjáanlegt og ekki merkilegt plot hvað það varðar, en þetta er tveggja ára gömul stílæfing, sem mér þykir um margt vænna um en annað sem ég hef skrifað. Mig langar samt alltaf í komment og gagnrýni…


Stelpan í Hvíta Kjólnum.

Það er eins og heimurinn standi í stað. Blóðrauður himinninn virðist að því kominn að enda sína ævidaga og sólin að sökkva í hafið fyrir neðan, þaðan sem ég stend og fylgist með þessu sjónarspili úr enda garðsins. Ég sný mér við og legg kertið á leiði Oddnýjar. Síðustu geislar sólarinnar æpa kirkjugarðinn rauðan og gulan og litla kirkjan á hólnum baðar sig í þessum innhverfu litum sólarlagsins.
Ég hreiðra um kertið á leiðinu og seilist í jakkavasann eftir eldspýtunum en mér til nokkurar gremju rifjast það upp fyrir mér í sömu andrá að ég keypti þær aldrei. Jafnvel þótt að athöfnin í kringum það að kveikja á kertinu sé ekki eingöngu ætluð til þess að lýsa upp umhverfið ákveð ég samt að koma aftur eftir að sólin hefur algerlega sagt sitt síðasta og nóttin og myrkrið tekið völdin. Útundan mér verð ég var við dökkhærða stelpu í hvítum kjól sem krýpur á leiði spölkorn frá með höfuðið hneigt í bljúgri bæn. Ég fylgist aðeins með henni í laumi og þykir þetta myndræn sjón; kódak augnablik.
Þegar ég kem að bílnum sný ég mér við og hún er farin, stelpan í hvíta kjólnum, niður hæðina geri ég ráð fyrir og niður í litla þorpið undir fellinu.
Ég bruna áleiðis í átt að borginni, burt frá litla þorpinu í dalnum og fellinu sem litla kirkjan stendur á.

Saabinn höktir inn innkeyrsluna og drepur svo á sér af sjálfsdáðum í annað skiptið á leiðinni heim.
Inni í stofu situr mamma og prjónar rétt eins og hún hefur gert nánast frá því Oddný dó. Hún lítur á mig tómum augum þegar ég heilsa henni en svarar ekki frekar en venjulega. Ég geng yfir til hennar og klappa henni á rjómagulan kollinn, eins og hundi sem hefur hegðað sér vel. Lítið bros laumast yfir varirnar á henni en ég berst við að gera mér grein fyrir hve merkingarlaust það er. Smellirnir í prjónunum halda áfram, málmur í málm, því ekkert garn er lengur á milli prjónanna. Það er langt síðan ég gafst upp á því að reyna að setja eitthvað á milli. Ég sest í sófann gegnt stólnum hennar mömmu og sit þar til að hlusta á prjónana klingja í takt við stofuklukkuna uppi á arninum sem seinkar sér alltaf um tíu mínútur yfir ferli dagsins en virðist samt alltaf rétta sig af yfir nóttina, því alla morgna er hún aftur rétt.

~

Klukkan er farin að nálgast miðnætti þegar ég sný aftur upp í kirkjugarðinn á hæðinni. Ég vonast hálfpartinn til þess að þjóðsögurnar og munnmælin hermi rétt með að á miðnætti séu draugar á ferli í kirkjugörðunum, því í augnablikinu þrái ég fátt heitar en að sjá stóru systur mína sveifla síðu ljósu, hárinu aftur fyrir bak og hlæja svo klingjandi hlátri, þó ekki væri nema andartak á einhverju efnabrunaformi sem dulspekin segir svo mikið frá. Ég legg bílnum dálítið neðarlega í hæðinni og rölti í rólegheitinum upp í áttina að kirkjugarðinum. Það er stjörnubirta úti og tunglið myndar svona fallega sigð. Efst á þessum hól stendur svo kirkjan, upplýst á magnaðan hátt; hún verður hálfhimnesk að sjá í mánaskininu, litla sveitarkirkjan.
Ég krýp niður á leiðið og hagræði kertinu enn betur. Varlega ber ég eld að því og legsteinninn ljómar: Oddný Sigurlaugsdóttir f. 05.02. 1971 d. 10.08. 1990. Sitjandi á hækjum mér hrannast minningarnar upp eins og á færibandi. Ég man eftir hverju smáatriðinu á fætur öðru, litlum atburðum sem skreyttu líf okkar Oddnýjar saman: snjókarlinum fyrir framan stofugluggann, jólum og afmælum. Hvernig hún setti alltaf aðra höndina á mjöðmina þegar ég gerði eitthvað sem henni var illa við, og tók svo hárið aftur fyrir bak og hló fyrirgefandi hlátri. Ég man alltaf meira og meira.
Ég man líka eftir því þegar pabbi fór. Í kjölfar þess fékk mamma fyrsta kastið. Sat bara og sagði ekkert né gerði í tvo daga. Og ég man hvað Oddný var hrædd um mömmu. En svo rankaði sú gamla við sér og lét eins og ekkert hefði í skorist. Við efuðumst jafnvel um það að hún vissi af því sem hafði komið fyrir hana — ég man alltaf meira og
meira.

Dökkhærða stelpan í hvíta kjólnum stendur allt í einu við hliðina á mér. Ég hrekk við, enda hafði ég ekkert tekið eftir henni og flýti mér að þurrka mér í framan, þurrka blaut augun án þess að hún verði þess vör. Hún brosir bara að mér og heilsar. Feimnislega heilsa ég henni á móti. Spyrjandi bendir hún á leiðið fyrir framan mig: „Systir mín,“ svara ég henni, og hún samhryggist mér og sest við hliðina á mér. Við sitjum svona þegjandi í smá stund og horfum á kertið brenna upp myrkrið.
„Hvernig?“ spyr hún skyndilega, án þess að líta upp af kertaloganum.
„Hún var ofsalega veik,“ svara ég og lít á hana.
„Henni líður miklu betur núna,“ segir hún aftur án þess að hreyfa augun. Ég brosi og þakka henni hughreystina. Hún horfir upp til mín, tekur varlega í höndina á mér og kreistir hana. Ég finn að henni er ískalt en brosið breikkar bara og breikkar.

Það líður vika áður en ég fer aftur í kirkjugarðinn uppi á fjallinu. Litlir regndropar úða úr loftinu og mynda saman þoku sem leggst yfir litla fellið. Ég geng í hægðum mínum til Oddnýjar og hirði kertið sem er brunnið og snyrti leiðið eilítið. Stelpan í hvíta kjólnum er hvergi sjáanleg (þó að ég hafi lítið eitt verið að vonast til þess). Ég skoða mig aðeins um í garðinum, og leiðin í kring. Skyndilega átta ég mig á því að ég stend hjá leiðinu sem ég hafði fyrst séð hana, dökkhærðu stelpuna í hvíta kjólnum, kjrúpa við. Sigrún Arnardóttir. Miðað við dagsetningu sem ég les geri ég ráð fyrir því að þar liggi mamma hennar sem hafi dáið mjög ung.

Blái Saabinn minn þraukar enn eina ferðina aftur í bæinn og drepur á sér í innkeyrslunni heima. Ég hrópa inn að ég sé kominn heim en til baka berst hljóð í prjónunum að skeytast saman. Mér til undrunar finn ég mömmu ekki inni í stofu heldur í eldhúsinu þar sem hún situr með Morgunblaðið opið fyrir framan sig. Með olnbogana uppi á matarborðinu slær hún saman prjónunum eins og í geðshræringu og einungis af gamalli reynslu veit ég að hún er bara að prjóna. Af tilviljun verður mér litið í blaðið þegar ég tek það frá henni. Við mér blasir mynd af manni, nokkuð eldri en þegar ég sá hann síðast en greinilega pabbi með sama gráslegna yfirvaraskeggið og góðlátlegu augun. Mér bregður við það að lesa um hann minningargreinina. Þegar ég sný mér að mömmu er ég ekki frá því að votti fyrir köldum ánægjusvip földum innan um skarpa, lífsreynda andlitsdrættina.

~

Það er eins og litli kirkjugarðurinn á hólnum sé orðinn annað athvarf fyrir mig að leita til þegar heimurinn er orðinn of erfitt viðfangsefni. Ég sit á leiðinu hennar Oddnýjar og segi loftinu í kring um mig frá öllu þessu sem hefur dunið yfir mig undanfarna daga: að pabbi hafi fengið hjartaáfall og hin fjölskyldan hans hafi komið alveg af fjöllum þegar lögreglan spurði hvort búið væri að tilkynna okkur mömmu það, og að við hefðum fengið beiðni frá þeim um að mæta í jarðarförina. Ég segi líka frá því hvernig ég fór með mömmu í hjólastólnum og hvernig hún sló saman prjónunum sínum alla leiðina að kirkjunni þar sem athöfnin fór fram og hvernig lítið bros liðaðist um andlitið á henni þegar pabbi var látinn síga ofan í djúpa og molduga gröfina í stórum ríkumannlegum kirkjugarðinum; hún brosti! Ólíkt því þegar Oddný var jarðsett í þessum litla kirkjugarði þegar vart var hægt að heyra sjálfan sig hugsa fyrir öskrunum og ópunum í mömmu.
Allt í einu finn ég kaldar hendur strjúkast um axlirnar á mér. Ég hrekk við og horfist í augu við dökkhærðu stelpuna í hvíta kjólnum. Fyrir vikið líður mér hálf kjánalega yfir því að vera búinn að sitja þarna og tala við landið og loftið umhverfis mig; að segja trjánum í kring ævisöguna í fáum orðum, og hún búin að standa þarna — „Lengi?“ spyr ég hana. Hún kinkar vandræðalega kolli og svarar: „Nógu lengi til heyra mestan hluta þess sem þú sagðir.“
Ég fer ofurlítið hjá mér en ákveð að láta það hafa sem minnst áhrif á mig svo sjáanlegt sé og sest niður með augun grafin á legsteini Oddnýjar. Útundan mér fylgist ég samt með stelpunni krjúpa við hliðina á mér.
„Þótti þér vænt um hann? Pabba þinn?“ spyr hún og horfir fast á mig.
Ég teikna ofan í inngreypta stafina með augunum — Oddný Sigurlaugsdóttir — og þegi í smá stund.
„Ég veit það ekki,“ svara ég loks, sannleikanum samkvæmt. „Ég hef ekki séð hann í næstum 15 ár. Ég man að mér þótti vænst um hann af öllum sem ég þekkti þegar hann var ennþá heima, en eftir að hann fór…“
Hún horfir bara á mig dökkhærða stelpan í hvíta kjólnum.

Dauði pabba olli einhverri merkjanlegri umbreytingu á mömmu. Áreynslusvipurinn sem hefur einkennt prjónastarfið undanfarin ár er svotil horfinn af andliti hennar og í staðinn er að finna einhverja yfirnáttúrulega rósemi. Ég eyði orðið mun meiri tíma en áður í að reyna að tala við hana og fá hana aftur til veruleikans en þrátt fyrir þessa útlitstengdu breytingu virðist sálarlífið ennþá í nokkuð fastmótuðum skorðum. Hún er þó farin að ferðast talsvert um húsið og að finna hana sitjandi inni í stofu er ekki eins sjálfsagður hlutur og áður. Ég veit ekki alveg hvað hefur valdið þessum breytingum, hvort það hafi verið að loks hafi henni fundist að karlinum hafi hefnst fyrir það að yfirgefa okkur rétt áður en Oddný veiktist og koma ekki aftur þegar hann frétti af því heldur látið það eins og vind um eyru þjóta. Eða hvort það hafi létt svona yfir henni þegar hún vissi hvar hann var og hvar hann hafði alið manninn allan þennan tíma. Eða hvort hún hafi ekki gert sér neitt grein fyrir þessu með pabba yfirhöfuð og allt saman sé ein allsherjar tilviljun.

Hún situr á leiðinu sem ég sá hana fyrst við, þegar ég kem næst. Ég læt ekkert fyrir mér fara og fer bara og snyrti leiði systur minnar að venju. Ég er mættur með nýtt kerti og eldspýturnar í jakkavasanum. Það er líka komið myrkur þegar ég kem núna. Ég fylgist með henni klára að biðja og ganga lauslega frá. Síðan gengur hún yfir til mín með þessu yfirvegaða fasi sem hefur einkennt hana frá því ég sá hana fyrst og heilsar mér.
„Hver er þarna?“ spyr ég hana eftir að hafa svarað kveðjunni. Hún þegir bara og ég sé tár brjóta sér leið niður kinn hennar.
„Fyrirgefðu,“ held ég áfram, „ég ætlaði ekki að—“
Hún hristir bara hausinn eins og til bendingar um að mér sé samstundis fyrirgefið og þurrkar augun með handarbakinu. Svo sest hún hjá mér og starir á legsteininn á gröf Oddnýjar. Mér líður ofurlítið eins og ég hafi sagt eitthvað vitlaust en meira á svona kjánalegan máta en vitlausan; eins og ég hafi sagt eitthvað aulalegt frekar en særandi.
„Hún varð úti,“ uppljóstrar hún allt í einu.
„Hver,“ spyr ég, „ Mamma þín?“
Hún horfir ennþá stíft fram fyrir sig en svarar engu. Ég tek þá ákvörðun að láta hana bara segja söguna en vera ekki að gjamma alltaf inn í.
Hún bendir upp á heiðina yfir dalnum.
„Hún var á leiðinni þarna yfir…með—“ Hún þagnar og horfir yfir heiðina og í áttina að borginni sem logar bakvið fjöllin þó hún sjáist ekki. Bjarmann frá borgarljósunum má sjá alla þessa leið í náttmyrkrinu.
„—En hún bjargaði barninu,“ klárar hún svo setninguna.
Ég finn lítinn kökk myndast í hálsinum.
„Þeir fundu hana um morguninn með barnið vafið inn undir sig,“ segir hún svo og horfir, með minningarnar leiftrandi fyrir augum sér yfir hæðina gegnt fellinu sem kirkjugarðurinn stendur á.
Ég kyngi djúpt og legg lófann á kinn hennar. Með þumalputtanum þurrka ég svo tárin úr augunum.
„Ég fékk aldrei að kynnast henni,“ segir hún og horfir á mig með fastmótaðan sorgarsvipinn greyptan í kringum rauðþrútin augun:
„Ég fékk aldrei að kynnast henni!“

Þegar ég opna hurðina heima finn ég samstundis að eitthvað er að. Þögnin sem umlykur húsið er skuggaleg og verkar á mig eins og hnífur í gegnum hjartað. Blóðið frýs í æðunum eins og rautt ljós hafi orðið á vegi þess og ég hleyp herbergi úr herbergi í örvæntingafullri leit að mömmu — það vekur ugg hjá mér að heyra ekki í prjónunum. Loksins sé ég hana útum stofugluggann þar sem hún situr undir stóra trénu úti í garði. Ég stekk af stað til hennar og um leið tek ég eftir prjónunum, sem liggja í grasinu fyrir neðan lífvana hendur mömmu minnar sem situr og starir tómlegum augum á sjóndeildarhringinn — hún er dáin.

~

Ég lét jarða mömmu við hliðina á Oddný stóru systur minni; í garðinum við litlu kirkjuna á fellinu. Útförin var ekki umfangsmikil efnislega (sérstaklega samanborið við jarðsetninguna hans pabba) en fallegri en nokkur kirkjuleg athöfn sem ég hef upplifað. Sólin skein á meðan fólk týndist inn í kirkjuna, og snökkti svo lítilega á meðan presturinn minntist þess sem mamma mín hafði gengið í gegnum. Hún var svo borin út undir englasöng frænku minnar, og útí fyrstu snjókorn vetrarins – lítil flögusnjókorn sem svifu til jarðar eins og til að leggja sína hinstu blessun yfir mömmu og hennar veraldlega líf. Í gegnum þau braut svo sólin, sem hafði boðið okkur velkomin, leið, eins og til að undirstrika hversu himnesk þessi staður og þessi stund raunverulega voru.

Kertin lýsa upp leiðin þeirra beggja núna. Ég sit í myrkrinu með lappirnar í kross og hendur undir kinnum, og horfi á þau brenna. Skyndilega finn ég kalda hönd strjúkast yfir öxlina á mér.
„Þeim líður miklu betur núna,“ segir dökkhærða stelpan í hvíta kjólnum sem stendur fyrir aftan mig. Ég heilsa henni og hún sest við hliðina á mér.
„Ég var hérna og fylgdist með þessu í dag,“ segir hún eftir stutta þögn, eins og til síðbúinnar útskýringar á veru sinni þarna. Ég rétti úr bakinu og læt hendurnar síga niður á krosslagðar fæturnar. Hún tekur um þær og kreistir þær hughreistandi.
„Þeim líður báðum miklu betur núna,“ ítrekar hún með fullvissu röddu. Ég kinka bara kolli.

Við sitjum þarna þegjandi alla nóttina. Mild haustgolan leikur sér að okkur og trjánum í kirkjugarðinum, en aldrei grimmúðlega og aldrei nægilega til þess að annaðhvort okkar hreyfi sig. Það er því ekki fyrr en undir morgun að hún stendur upp og segist þurfa að fara. Ég kinka bara kolli og þakka henni fyrir að hafa setið hjá mér. Hún brosir til mín og gengur í burtu í átt að kirkjunni. Þegar hún stendur til móts við hvarfhorn kirkjunnar dettur mér allt í einu eitt í hug: „Heyrðu! Þú sagðir mér aldrei hvað þú hétir,“ kalla ég til hennar lágum rómi.
„Nei,“ svarar hún dularfullt í þann mund sem hún hverfur fyrir kirkjuna og skilur mig eftir vaðandi í ráðgátu. En ég hef hvorki orku né þrek í það að standa upp og elta hana, þannig að ég ákvað að það megi bíða betri tíma að ganga á eftir henni með þetta.

Ég sit þarna áfram þangað til að sólin skríður upp úr fjöllunum fyrir austan mig. Uppljómuð í blóðrauðum sólargeislunum sé ég hvar dökkhærð þorpsstelpa í bláum gallabuxum kemur trítlandi upp hlíðina í gegnum fölnað grasið. Mér virðist hún vera á aldur við mig þegar hún opnar kirkjugarðshliðið og læðist feimnislega framhjá mér í átt að leiðinu sem ég sá vinkonu mína í hvíta kjólnum við. Hún leggur blóm á það og signir sig, og krýpur svo niður og byrjar aðeins að róta í því. Knúinn áfram af einskærri forvitni geng ég hægt og rólega í átt til hennar og geri vart við mig með því að stíga á visnaða trjágrein sem liggur fyrir mér. Hún snýr sér við og býður brosandi góðan daginn. Ég svara því, og eins kurteislega og mér er unnt spyr ég hana svo hvernig hún þekki þá sem liggur þarna.
Hún fer dálítið hjá sér við þessa framhleypnu spurningu, en tekur sig fljótt aftur saman í andlitinu.
„Hún var mamma mín,“ svarar hún og horfir yfir til mín, sem stend steinrunninn fyrir aftan hana, en heldur svo áfram: „En ég þekkti hana aldrei — hún dó þegar ég var kornabarn.“
Hún bendir á fjallið gegnt okkur, sem slútir yfir litla þorpið í dalnum.
„Þarna,“ segir hún, „Hún var á leiðinni yfir heiðina þarna.“
Ég horfi ennþá fast á hana en hún starir aftur niður á leiðið:
„Ég fékk aldrei að kynnast henni!“
-I don't really come from outer space.