Í hádegismatinn fengu þau dýrindis lúðu, dásamlegur fiskur.
Þau skemmtu sér öll vel á meðan að á máltíðinni stóð.
Herra Einráður sagði dætrum sínum meðal annars frá sölu Voldugustaða. Hann sagði þeim líka frá því að hann ætlaði kannski að skreppa þangað í næstu viku og reyna að komast að því hver þar réði ríkjum. Svo bar hann þeim einnig kveðju frá ömmu þeirra. Þegar stórbóndinn var farinn inn á skrifstofu sína með póstinn, sem hafði borist á meðan á máltíð stóð, horfði Ebba á stóru systur sína.

,,Þú verður að passa að pabbi komi ekki út á meðan ég tek hænsnin og fer með þau” sagði hún og leit bænaraugum á Gunnu.
,,Það er engin hætta á að hann komi út” sagði Gunna og brosti.
,,Stórbóndinn á Ríkabæ fer ekki út í hænsnakofa!” sagði Gunna hátt og skellihló.
Hún var komin í hið besta skap og löngu búin að gleyma eigin raunum.
Ebba læddist út í hænsnabúið. Eftir talsvert fjaðrafok og mikinn eltingarleik náði hún að klófesta fjórar hænur og einn skrautlegan hana. Hún batt band um hálsinn á fuglunum og teymdi þá út á hlað.
Þar stansaði hún og litaðist um en sá engan, nema hundana á bænum, svo hún lagði af stað með 5 fugla í bandi í átt að nýjum heimkynnum þeirra.
Þegar hún kom að læknum sem rann framhjá Snýtukoti, bænum hennar Skjónu gömlu, lenti hún í mestu vandræðum með hænsnin. Þau vildu bara alls ekki út í lækinn.
Á endanum varð hún hreinlega að draga þau út í og varð þá allt vitlaust.
Hænurnar rifu og slitu í böndin og flögruðu rennblautar fram og aftur og reyndu að sleppa.
Í hamaganginum datt Ebba aftur á bak og beint á rassinn í lækinn, en hænunum sleppti hún ekki.

Inni í Snýtukoti stóð gömul kerling á bakvið slitnar gamlar gardínur sem lokuðu næstum alveg fyrir gluggann.
Kerlingin horfði út á þá skrýtnustu uppákomu sem hún hafði nokkurn tíma séð, þó hafði hún nú séð margt skrýtið í gegnum árin hjá fjölskyldunni á Snauðustöðum.
Þarna kom ung stúlka yfir hæðina handan læksins með fimm hænsni í bandi. Þegar hún reyndi að draga skelkaða fuglana út í lækinn fór fyrst að verða gaman.
Kerlingin hristist af hlátri og klappaði saman höndunum af kátínu.

,,Hvað er að tarna? Hvað ætli telpukornið sé að fara með fuglana?” tautaði hún svo og fór út fyrir, það var glettni í góðlátlegu augnráði hennar.
,,Vantar þig hjálp” kallaði hún þegar hún sá stúlkuna detta með gusugangi á rassinn í lækinn.
Ebba leit upp á bakkann hinu megin og sá gömlu konuna hlæja svo að skein í tannlausa gómana.
,,Góðan daginn frú Skjóna” sagði Ebba og reyndi að draga til sín fuglana sem allir voru um það bil drukkna í læknum.
Skjóna gamla óð útí lækinn og dró stúlkuna upp úr og hjálpaði henni síðan að bjarga fuglunum.

,,Hænur synda ekki eins og endur eða gæsir” sagði hún og rétti stúlkunni gamlan dúk til að þurrka sér með.
,,Hvað í ósköpunum ert þú að fara með blessuð hænsnin?” spurði hún.
Ebba tók dúkinn og byrjaði að þurrka sig.
,,Ég ætla að gefa Jesper á Snauðustöðum þær” sagði hún hlýlega, þakklát fyrir hjálpina.
,,Kötturinn hans át þær sem hann átti og mig langaði að gefa honum þessar í staðinn” sagði hún svo.
Gamla kerlingin leit á stúlkuna. Hún velti fyrir sér hvort þetta væri ef til vill sú stúlka sem sem hún var að leita að og hentaði best í það hlutverk sem eftir var að fylla í.
Skjóna gamla hafði fengið það erfiða verk í hendur að uppfylla hinstu ósk gömlu hjónanna á Snauðustöðum. Þau höfðu komið í heimsókn stuttu fyrir andlát sitt og tekið af Skjónu gömlu loforð um að ganga frá öllu í sambandi við framtíð Jespers.
Einnig hafði hún lofað að fylgjast með því að hann lenti ekki í því að tapa öllu í hendurnar á einhverri daðurdrós því mikið var í húfi. Skjóna gamla leit aftur á Ebbu og ákvað að athuga málið nánar.

,,Hvers vegna hefur þú áhyggjur af þeim misheppnaða rugludalli?” tísti í henni, hún beið eftir viðbrögðum stúlkunnar.
,,Það væri nær að reyna að finna einhvern sem er ríkur og dugmikill” sagði hún og fylgdist með undrunarsvipnum sem kom á andlit ungu stúlkunnar.

,,Já en Jesper er alls ekki misheppnaður, bara svolítið óheppinn og rugludallur er hann ekki” sagði Ebba dálítið æst.
Hún leit á gömlu konuna sem hún hafði alltaf haldið að væri svo ágæt, en svo virðist hún vera bæði hvöss og snobbuð.
,,Og svo er ríkdæmi ekki endilega það sem allar ungar stúlkur dreyma um” sagði Ebba og hélt áfram að verja Jesper.
Gamla kerlingin tók upp snjáða dós og opnaði hana. Úr dósinni tók hún tóbak og fékk sér ærlega í nefið.

,,En er drengstaulinn á Snauðustöðum ekki einum of snauður fyrir unga stúlku nú til dags? Nú og bærinn hans er nú ekki beint til að hrópa húrra fyrir” sagði hún og glotti að hneykslunarsvipnum á stúlkunni.
,,Það er hægt að byggja upp mjög fallegt og vistlegt heimili ef unnið er saman af natni og elsku” sagði Ebba rjóð í vöngum.
,,Yfirleitt er það besta byrjunin í búskap ef einstaklingarnir elska hvorn annan” sagði Ebba svo og varð yfir sig hissa á eigin orðum. Gamla konan hló og gretti sig.

,,Það er auðheyrt á stúlkunni að hún er að átta sig á því að hún er eitthvað hrifin af Jesper” hugsaði hún.
,,Þú hefur ábyggilega lesið of mikið af ástarsögum” sagði Kerlingin og hló.
,,En það er hárrétt hjá þér að gott par getur byggt gott bú, og Jesper greyið er góður drengur þó hann sé svolítið seinheppinn og klæði sig undarlega” sagði Skjóna gamla og leit hissa á Ebbu sem hrópaði upp yfir sig.
,,Ó! Ég steingleymdi svolitlu!” hrópaði Ebba og greip fyrir munninn.
,,Elsku Skjóna mín! Viltu vera svo væn að passa hænsnin fyrir mig á meðan ég hleyp aðeins heim aftur?” hrópaði hún og rétti gömlu konunni böndin með fuglunum og rauk af stað.

Ebba hafði allt í einu munað eftir því að hún hafði steingleymt sparilambhúshettunni hans Jespers á ofninum í stofunni sinni. Hún hafði sett hana þar til að þurrka hana. Stúlkan hljóp eins og fætur toguðu aftur heim.
Þegar hún hafði náð í hettuna ætlaði hún út aftur en sá þá myndirnar þrjár sem hún var búin að klára að sauma. Hún ákvað að gefa Jesper eina, þá sem hún hafði ætlað sjálfri sér.
Hún greip myndina og hljóp út á hlað og var næstum því búin að velta Gunnu, sem kom á móti henni, um koll.

Gunna hafði séð Ebbu koma hlaupandi og æða inn í álmuna sína.
,,Ætli eitthvað hafi komið fyrir” hugsaði Gunna og hljóp yfir að álmuni hennar Ebbu og beint í fangið á henni þar sem hún kom æðandi út.
,,Oh, fyrirgefðu Gunna mín” sagði Ebba þegar hún mætti systur sinni.
,,Ég gleymdi bara lambhúshettunni hans Jespers” sagði hún svo. Gunna leit brosandi á Ebbu sem var undarlega rjóð á vanga.
,,Það eru aldeilis lætin út af einni undinni sparilambhúshettu” sagði hún og greip í handlegginn á systur sinni.

,,Þú misstir af bestu fréttunum sem borist hafa í langan tíma” sagði hún og hristi Ebbu æst á svip.
,,Nú hvað gæti verið svona spennandi?” spurði Ebba og reyndi að losna undan öllum hamaganginum í systur sinni.
Gunna greip í kjólinn sinn og dansaði í hringi fyrir framan systur sína.

,,Pabbi kom fram, rétt á eftir að þú fórst, með stórt og glæsilegt boðskort þar sem á stóð;
,,Yður er hér með boðið, ásamt dætrum, til hátíðar og kynningar dansleiks að Voldugustöðum í Nýríkusveit þann 15. næsta mánaðar. Þar mun hinn voldugi stórbóndi, Jóakim E.S. Per, taka við stórbýli sínu, kynna sig og skemmta gestum” sönglaði Gunna og dansaði áfram.
,,Hver veit nema þessi E.S. Per sé ungur piparsveinn” hélt Gunna áfram að söngla. Ebba hló þegar hún heyrði þetta, henni fannst dagsetningin frábær.

,,Heyrðu þetta verður á afmælisdaginn minn, þegar ég verð 16 ára” sagði hún og brosti. Henni fannst það ágætt að geta haldið uppá afmælið sitt á stórdansleik. Hún kvaddi hún systur sína og hélt aftur til Skjónu gömlu.

Gamla konan hafði dundað við að þurrka taugaveiklaðar rennblautar hænurnar á meðan stúlkan hljóp til baka.
,,Já en þakka þér kærlega Skjóna mín, ertu búin að þurrka þær fyrir mig” sagði Ebba og lét frá sér fallega útsaumaða myndina og lambhúshettuna.
,,Hvaða asi var þetta á þér að rjúka svona til baka hróið mitt” sagði gamla kerlingin og leit á það sem stúlkan lagði frá sér.
,,Ég gleymdi lambhúshettunni hans Jespers” sagði Ebba.

Síðan sagði hún Skjónu frá öllu sem skeð hafði. Skjóna hristist af hlátri og tárfelldi þegar hún heyrði um öll vandræði Jespers en varð svo hugsandi á svip þegar hún heyrði um viðmót Gunnu og stórbóndans.
,,Svo það ert bara þú sem hefur áhyggjur af Jesper lambið mitt” tautaði sú gamla.
,,þú ert svo sannarlega sú rétta fyrir það mikla hlutverk sem á eftir að fylla í” sagði kerlingin leyndardómsfull og tók undir handlegginn á Ebbu.

,,Þú mátt vita það að hann Jesper er sko meiri maður en nokkurn grunar þó hann sé svolítið klaufalegur” kvíslaði hún svo. Ebba skildi ekki helminginn af því sem gamla konan sagði en ákvað að segja henni líka frá dansleiknum.
,,Já og svo fengum við boðskort frá Voldugustöðum um að mæta á dansleik í næsta mánuði” sagði hún og brosti feimnislega.
,,Ég ætla að athuga hvort Jesper vilji ekki koma með okkur” sagði hún svo.

,,Hinkraðu augnablik” sagði gamla kerlingin og gekk inn í bæinn sinn. Eftir smástund kom hún aftur út. Í hendinni hafði hún vandlega vafinn pinkil sem hún rétti Ebbu.
,,Þetta keypti ég handa Jesper, hann getur notað þetta þegar þið farið á ballið” sagði hún.
,,Þú verður að lofa mér því að þú reynir allt sem þú getur til að fá hann með þér og þú verður að koma hérna við í bakaleiðinni og segja mér hvort hann samþykkti það” sagði Skjóna svo.

Síðan hjálpaði hún Ebbu að taka saman og rétti henni því næst bandið með fuglunum.
Ebba þakkaði Skjónu fyrir og lofaði að koma við á heimleiðinni síðan hélt hún aftur af stað til Jespers.

Skjóna gamla horfði á eftir stúlkunni og brosti ánægð.
,,Það fellur allt saman eins og flís við rass” tautaði hún og var ánægð með að þurfa ekki að gera meira í bili.

Framhald seinna: