Jesper greyið var niðurlútur þegar hann yfirgaf stóra fallega herrasetrið og hélt heim á leið. Aldrei áður hafði honum liðið svona illa, ekki einu sinni þegar gömlu hjónin foreldrar hans vildu ekki vakna af blundinum langa.
Þegar hann kom aftur heim að Snauðustöðum leit hann í kringum sig og klóraði sér í hárlubbann. Hárlubbinn var ber vegna þess að hann hafði misst lambhúshettuna sína þegar herra Einráður dró hann að útidyrunum og henti honum út á hlað.

,,Þvílík vandræði” hugsaði Jesper þegar hann labbaði framhjá brunarústinni á hlaðinu.
Askan minnti hann óþægilega á öll vandræðin frá deginum áður. Hann gekk yfir að fjárhúsinu, opnaði dyrnar og fór inn.

,,Já en hvernig stendur á þessu” sagði hann við sjálfan sig þegar hann sá að Enginn hafði sloppið út og látið sig hverfa.
Hann gekk að Öllum og klappaði honum á kollinn.

,,Fyrst Enginn er farinn ætla ég að leyfa þér að sleppa líka. Þá þarf hvorugur ykkar að fara í sláturhúsið í haust” tautaði Jesper við hrútlambið og galopnaði hurðina til að hleypa Öllum út.
Allir var frelsinu fegin og hoppaði og skoppaði út í buskann. Jesper labbaði að dyrunum á bænum og settist vonlaus niður í dyragættina.
Eftir stutta stund kom Viður gamli og nuddaði sér malandi utan í húsbónda sinn.

,,Heyrðu Viður” sagði Jesper og tók gamla köttinn upp og klóraði honum á bakvið eyrað.
,,Hvernig í ósköpunum sleppur þú alltaf út, sama hvar ég læsi þig inni?” spurði hann og leit spurnaraugum á köttinn.
Viður gamli svaraði engu heldur hélt áfram að mala.
Jesper setti köttinn aftur niður og hvíldi olnbogana á hnjánum og höfuðið í höndunum. Hann andvarpaði og kveið framtíðinni.
Lítið vissi hann um að rétt handan við hæðina á milli Snauðustaða og Snýtukots var hugsanlega lausn allra hans vandamála á leiðinni til hans og nálgaðist óðum.


Heima á Ríkabæ hafði líka mikið gengið á. Ebba, sem allajafna var svo róleg og stillt, hafði skammast rækilega í föður sínum þegar hann kom inn, eftir að hafa hent aumingja Jesper út á hlað. Hún hafði staðið við gluggann í viðhafnarstofu föður síns og horft á eftir Jesper labba niðurlútan í burtu og hverfa yfir hæðina.

,,Hvernig gastu farið svona með strákgreyið pabbi?” spurði hún föður sinn þegar hann kom aftur inn.
,,Oh það var nú ekki erfitt” sagði hann og glotti. Honum var svo sem alveg sama um þennan sveitalúða.
,,Þú hefðir nú getað verið svolítið kurteisari við hann” sagði hún og hugsaði um hvað Gunna hafði líka verið leiðinleg við Jesper.
,,Heyrðir þú ekki að strákgreyið, sem nýbúinn er að missa foreldra sína, var að reyna að segja okkur frá því sem hann greinilega missti af húsdýrum í gær?” hélt Ebba áfram, hún var sár yfir tillitsleysi þeirra beggja.

,,Geitin hans ellidauð, hesturinn hans í tunnu með salti, kötturinn hans búinn að éta hænurnar hans og féð hans á að teyma í sláturhús í haust” sagði hún og leit reiðilega á föður sinn.
,,Og þar að auki brann dráttarvélin hans” sagði hún og stappaði niður öðrum fætinum.
Herra Einráður starði á dóttur sína sem alltaf var svo róleg. Hann dauðskammaðist sín, þó hann kynni það varla, þegar hún hellti þessu svona miskunnarlaust yfir hann.
Stórbóndinn hafði alls ekki hugsað um þetta svona og leið afar illa vegna framkomu sinnar í garð Jespers.
,,Æi, hvaða vandræði” hugsaði hann og reisti við skrifborðið sem hann hafði velt um koll í öllum látunum.

,,Hvernig í ósköpunum endar þetta allt saman?” spurði hann sjálfan sig og horfði á yngri dóttur sína beygja sig niður við stofudyrnar.
Þar tók hún upp sparilambhúshettuna sem Jesper hafði greinilega misst í öllum látunum. Síðan rauk hún öskureið út og skellti hurðinni fast á eftir sér.
Hann hrökk við þegar hávær hringing kvað við frá veggnum á bak við skrifborðið. Hann leit í áttina að veggnum og kom auga á taltólið sem hann hafði fengið í vikunni áður, þetta tól var alveg nýtt og virtist ætla að komast í tísku.

,,Sími var það víst kallað, hið mesta þarfaþing” hugsaði herra Einráður og tók upp tólið. Hann bar það að eyranu.
,,Halló! halló!” kallaði hann og hlustaði.
Fyrst heyrðust skruðningar og læti en svo heyrðist kunnuleg rödd í tólinu.
,,Já halló! Er þetta hjá herra Einráði Féráðssyni Ríkisdal, stórbónda í Ráðríkusveit?” spurði röddin í tólinu.
Herra Einráður brosti stoltur þegar hann heyrði röddina í tólinu segja nafnið sitt. Hann var ánægður með móður sína, frú Ríkey Smart Ríkisdal. Það var hún sem hafði leyft eiginmanni sínum, herra Féráði Ríkisdal ríkisfjárhirði í borginni, að velja nafnið á einkasoninn.
,,Já það er hjá honum og það er ég sjálfur sem tala mamma mín” sagði herra Einráður glaður við að heyra í móður sinni.
,,Halló ráður litli!” kallaði frú Ríkey í símtólið, henni leyst ekkert á þetta tól.

,,Ég ætlaði bara að spyrja þig að því hvort þú vissir af sölu Voldugustaða?” spurði hún son sinn.
Frú Ríkey vissi að sonur hennar hafði fyrst ætlað að kaupa Voldugustaði í Nýríkusveit, sem er næsta sveit við Ráðríkusveit. En hann hafði orðið að hætta við vegna þess að einhver hafði verið á undan honum og boðið hærra í setrið, boð sem hann hafði ekki ráðið við.
,,Já en það eru þrjú eða fjögur ár síðan Voldugustaðir voru seldir mamma” sagði herra Einráður hissa á að hún skyldi vera að tala um það núna.
,,Já ég veit, en það var verið að ganga endanlega frá sölunni og afhenda afsal og lykla núna í gær. Það var einhver í sveitinni þarna hjá þér sem gekk frá þessu öllu” sagði hún svo.

Þau töluðu saman um allt mögulegt í langan tíma og síðan kvaddi herra Einráður móður sína.
,,Ég veit ekki um neina efnafjölskyldu hérna í Ráðríkusveit sem gæti verið að kaupa Voldugustaði” hugsaði hann með sér, hann var orðinn forvitinn.
,,Kannski að ég reyni að skjótast yfir í Nýríkusveit í vikunni til að athuga hvað sé á seiði” sagði hann við sjálfan sig.
Hann settist við skrifborðið sitt og reyndi að einbeita sér að lestri sýslublaðsins, kannski að eitthvað sé skrifað um þetta þar.

Ebbu leið illa þegar hún hafði skellt hurðinni á viðhafnarstofu föður síns. Hún hafði aldrei áður verið í svona æstu skapi.
Ebba hugsaði með sér að það hlyti að vera vegna þess að hún hafði aldrei áður skammast svona í föður sínum.
Hún leit á blauta lambhúshettuna sem Jesper hafði misst á stofugólfið þegar pabbi hennar dró hann fram og henti honum út á hlað.
Ebba fór með hettuna og setti hana á ofn inni hjá sér síðan hristi hún höfuðið.

,,Aumingja Jesper” hugsaði hún og fór svo aftur út.
Ebba labbaði út á hlað og leit yfir á álmuna hennar Gunnu.
,,Ég ætti kannski að athuga hvernig Gunnu líður, hún var svo æst þegar hún hljóp út” hugsaði Ebba og gekk í áttina að útidyrunum hennar Gunnu.
Um leið og hún ætlaði að opna hurðina kom eitthvað fljúgandi út um gluggann á efri hæðinni og lenti beint á Ebbu.
Henni dauðbrá og hún æpti upp yfir sig en sá strax að þetta var eitt af tískublöðunum sem systir hennar átti.
Gunna var enn í æstu skapi og æddi fram og aftur um herbergið sitt. Hún sem hafði næstum því verið sloppin í burtu.

,,Oh! Skollans lúðinn! Hvað ég er svekkt!” sagði hún við sjálfa sig og reif upp tímarit af rúminu sínu og grýtti því frá sér. Gunna horfði á eftir blaðinu fljúga beint út um opinn gluggann. Hún hljóp að glugganum þegar hún heyrði hátt óp fyrir utan.

,,Æ! Fyrirgefðu Ebba mín!” kallaði hún út um gluggann. Hún sá að tískublaðið hafði lent beint á yngri systur sinni.
,,Komdu upp og röbbum aðeins saman” sagði hún svo.
,,Voðalega ertu í vondu skapi Gunna mín” sagði Ebba þegar hún var komin inn til stóru systur sinnar.
,,Æ já, þessi skelfilegi lambhúshettulúði eyðilagði allt fyrir mér” sagði Gunna og gretti sig.
Ebba settist niður á rúmið og leit á systur sína.

,,Já en þú getur varla kennt aumingja Jesper um þetta allt. Hann greyið er jú sá sem missti allt sitt en ekki þú” sagði hún og reyndi að verja sveitalúðann. Gunna leit á litlu systur sína og hugsaði með sér að það væri auðvitað satt sem hún sagði. Þetta var auðvitað ekki Jesper að kenna en hún var bara svo vonsvikin.
,,Nei auðvitað er þetta ekki honum að kenna” sagði hún og velti því fyrir sér hvers vegna Ebba væri að verja sveitalúðann, lá þar eitthvað að baki.
,,Þú ert þó ekki skotin í sveitalúðanum Ebba?” spurði Gunna og komst allt í einu í gott skap aftur og byrjaði að hlæja.

,,Ég er ekkert skotin í honum” sagði Ebba og eldroðnaði.
,,Mér finnst bara að við ættum að gera eitthvað fyrir hann greyið” sagði hún og boraði tánum í gólfið.
,,Hvað ættum við svo sem að geta gert fyrir svona klaufabárð?” spurði Gunna og gretti sig framan í Ebbu. Ebba varð hugsi á svipinn.
,,Við getum tekið 3-4 hænur og 1 hana úr búinu hans pabba og gefið Jesper í staðin fyrir þær sem kötturinn hans át” sagði Ebba og hugsaði með sér að pabbi sinn mundi aldrei komast að því. Það voru yfir 600 hænur og að minnsta kosti 20 hanar í stóra hænsnabúinu þeirra. Gunna velti þessu fyrir sér og hristi svo höfuðið hlægjandi.

,,Ekki ætla ég að fara með hænur í eftirdragi um alla sveit eins og fáviti” sagði hún og hló hátt við tilhugsunina.
,,En þú mátt það ef þú vilt.
Þú mátt líka eiga þennann allslausa öreiga mín vegna” sagði hún skellti aftur uppúr.
Ebba fór út aftur og hugsaði með sér að eftir matinn ætlaði hún að stelast út í hænsnabú, taka nokkrar hænur og 1 hana og fara með til Jespers og gefa honum, hún hlakkaði til.

Framhald seinna: