Gunna vaknaði líka eldsnemma á þessum sólríka og yndislega degi, henni fannst dagurinn að minnsta kosti lofa öllu fögru.
Lítið vissi hún um öll ósköpin sem dunið höfðu yfir heima á Snauðustöðum.
Hún hoppaði framúr og opnaði fataskápinn sem þakti nær allan vegginn á móti rúminu. Hún ákvað að vanda fatavalið sérstaklega vel í tilefni dagsins. Það varð úr að hún fór í fallegan sólgulan kjól sem hún hafði fengið í vikunni áður.

,,Pantaður úr tískublaði” hugsaði hún glaðlega. Hún skoðaði sig í risastórum spegli sem herra Einráður hafði keypt í einni af ferðum sínum til útlanda, hann var mikið á ferðinni vegna stöðu sinnar sem stórbóndi.

,,Mikið er ég stórkostleg” sönglaði Gunna og snéri sér í hringi fyrir framan spegilinn. Þegar hún hafði dáðst að sér góða stund fór hún í gula flatbotna skó í stíl við kjólinn. Að lokum setti hún gula slaufu í hárið. Þegar allt þetta var búið hoppaði hún af stað til að láta föður sinn vita af tilvonandi uppákomu, sá átti eftir að verða hissa. Hún sönglaði hástöfum á leiðinni yfir hlaðið að Ríkabæ.
Þegar hún kom að útidyrunum og ætlaði inn sá hún hvar vonbiðill hennar kom labbandi yfir hæðina við herrasetrið.

,,Ó, ó, Jesper er að koma” sagði hún við sjálfa sig, hún flýtti sér inn.
Inni í viðhafnarstofunni á Ríkabæ stóð herra Einráður út við gluggann og horfði á þegar eldri dóttir hans kom hoppandi og skoppandi yfir hlaðið. Hann sá að stúlkan söng hástöfum og var glaðlegri en venjulega.

,,Hvaðan skyldi hún hafa þetta undarlega skap og uppreisnargjarna eðli” hugsaði hann með sér og gekk að stórum bókaskáp.
Úr skápnum tók hann nýjustu útgáfuna af sýslublaðinu. Hann settist með það við skrifborðið í horninu og lagði blaðið á borðið. Því næst kveikti hann sér í pípu, síðan leit hann hægt yfir stofuna.
Augun stoppuðu í heljarmiklum sófa út við hurðina, í sófanum sat yngri dóttir hans og saumaði í af miklum krafti.

,,Af hverju getur hún Gunna mín ekki verið svona róleg og iðin” hugsaði stórbóndinn sem var þó ánægður með báðar dætur sínar, þær höfðu báðar eitthvað gott til brunns að bera. Hann byrjaði að lesa blaðið þegar hurðin opnaðist, Gunna kom inn sönglandi og virtist hún hafa fundið heilan fjársjóð.

,,Hæ, elsku litla systir” sönglaði Gunna ákveðin í að ekkert skildi stoppa sig.
,,Hæ, elsku besti pabbi minn, er lífið ekki dásamlegt?” söng hún um leið og hún dansaði að skrifborði föður síns. Herra Einráður leit hissa uppúr blaðinu og starði á rjóða dóttur sína, þetta var annar tónn en daginn áður.
,,Huh, hvað hefur eiginlega hlaupið í þig stúlkukind? Hvaða læti eru þetta eiginlega?” spurði hann og horfði forvitinn á Gunnu.

Ebba skellihló og hætti að sauma á meðan hún virti systur sína fyrir sér.
,,Hún lítur út fyrir og lætur eins og að fallegur og ríkur draumaprins hafi beðið hennar” sagði hún og hélt áfram að hlæja, herra Einráður leit strangur á yngri dóttur sína og sussaði á hana.
,,Huh, hvaða vitleysa er þetta stelpa, haltu áfram með sauminn” sagði hann og reyndi að hljóma strangur.
Síðan leit hann á eldri dóttur sína sem stóð rjóð í kinnum og sælleg á svip fyrir framan skrifborðið hans.

,,Jæja Gunna, hvaða háreisti og læti eru þetta? Hvað er að gerast?” spurði hann og horfði ákveðinn á dóttur sína. Gunna tók nokkur létt dansspor fyrir framan skrifborðið og sönglaði kát, hún var viss um að ráða við aðstæður.

,,Ó pabbi, heyrir þú ekki hvað fuglarnir syngja skært og sérð þú ekki hvað sólin er björt. Ó elsku, elsku pabbi, ég er svo ástfangin og það af þeim eftirsóttasta og ríkasta í allri Ráðríkusveit, og þó víðar væri leitað.
Ég er svo hamingjusöm” söng hún og sveiflaði sér léttilega fyrir framan borðið.
,,Hún hlýtur að vera að grínast” hugsaði Ebba og hætti að hlæja þegar henni varð hugsað til samtals þeirra systra frá því deginum áður, um sveitalúðann.

,,Hvað segir þú er kominn einhver nýr og glæsilegur í sveitina? Ég hélt að þú værir búin að athuga þá alla” sagði Ebba við systur sína og byrjaði aftur að sauma. Herra Einráður kveikti aftur í pípunni og fussaði fyrirlitlega.
,,Hvaða vitleysa er þetta” hvæsti hann og var reiðilegur á svip.
,,Það er enginn nýr í Ráðríkusveit, og enginn hér er ríkari en ég” sagði hann og reigði sig allan, honum leyst ekkert á lætin í eldri heimasætunni.

,,Og einu piparsveinarnir hérna eru þeir Gaui gamli sem er um fimmtugt og Lúlli langbrók sem er sjötugur. Jú svo er það sveitalúðinn hann Jesper á Snauðustöðum, en hann er nú hvorki glæsilegur né ríkur þó hann sé svosem á réttum aldri” sagði Einráður.
Hann saug heljarmikinn reyk úr pípunni sinni, þá byrjuðu hundarnir tveir að gelta með miklum látum fyrir utan.
,,Nú nú, hvaða læti eru nú þetta, hver er að æsa hundana?” sagði Einráður um leið og hann blés frá sér reyknum.
Ebba leit upp og sagði að það væri einhver að koma þess vegna geltu hundarnir.
,,Ég veit, ég veit” sagði pabbi hennar og leit hugsandi á vandræðalega eldri dóttur sína, það var greinilegt að hún vissi eitthvað sem hin vissu ekki.
,,Athugaðu hver þetta er Gunna” sagði hann og byrjaði aftur að lesa sýslublaðið. Gunna hljóp að glugganum þó svo að hún vissi alveg upp á hár hver var að koma, hún var svolítið kvíðin framhaldinu.

,,Ó elsku pabbi, þetta er hann Jesper” sagði hún og leit áhyggjufull á föður sinn sem þóttist vera niðursokkinn í lestur.
,,Elsku besti pabbi minn vertu nú vænn og kurteis við hann” sagði hún og hljóp að skrifborðinu til föður síns.
Því næst snéri hún sér að yngri systur sinni, það var áhyggjutónn í röddinni.
,,Ebba, þú segir ekki orð, please!” sagði hún og leit bænaraugum á yngri heimasætuna á Ríkabæ.
Í sömu andrá var bankað klaufalega á sparidyrnar á herrasetrinu. Herra Einráður var ekkert of ánægður með dóttur sína en ákvað að sjá hvað mundi nú koma út úr þessu öllu saman.

,,Nú opnaðu þá telpukorn, láttu lúðann ekki setjast að á sparitröppunum hjá mér” sagði hann og hafði bara nokkuð gaman af vandræðasvipnum sem kominn var á Gunnu. Hún hljóp fram og opnaði fyrir Jesper. Gunna var næstum því farin að hlæja þegar hún sá útganginn á Jesper.
,,Halló Jesper, hvað segir þú gott? Takk fyrir síðast” sagði hún og hló.
Jesper tók af sér lambhúshettuna og varð vandræðanlegur þegar hann sá glettinn svipinn á tilvonandi unnustu sinni.
Hann reyndi að laga óstýrislátan hárlubbann sem hann hafði dýft ofan í lækinn við Snýtukot á leiðinni, svona rétt til að þvo lubbann pínulítið.

,,Hæ Gunna mín” sagði Jesper brosandi en vandræðalegur.
,,Ertu búin að ræða við herra Einráð um að þú viljir giftast mér?” spurði hann og vatt rennblauta lambhúshettuna. Hann hafði steingleymt að taka hana af sér þegar hann stakk hausnum í lækinn til að þvo hárið.
,,Nei ég er ekki búin að tala við hann, hann bíður inni í stofu eftir okkur, komdu inn” sagði Gunna og dró Jesper inn. Þau gengu inn í viðhafnarstofuna og Jesper heilsaði þeim sem inni voru.
,,Hæ Ebba, hæ ehe hérna, góðan dag herra Einráður” sagði Jesper og tvísteig vandræðalega á miðju stofugólfinu, það byrjaði að leka bleyta af honum á gólfið. Herra Einráður leit augnablik upp en brosti ekki.

,,Huh, góðan daginn strákur” tuðaði hann og leit aftur í blaðið, hann lét eins og að hann væri að lesa eitthvað mjög mikilvægt í blaðinu.
,,Ekki segja mér að þú sért hrifin af lúðanum!” sagði Ebba og gretti sig framan í Gunnu. Gunna sussaði á Ebbu.
,,Uss ekki nota þetta lúðaorð” sagði hún og leit í áttina að Jesper sem hafði heyrt síðasta orðið, þetta lúða eitthvað.

,,Ha, lúða?” spurði hann og hélt fyrst að þær væru að tala um hádegismatinn.
,,Verður lúða í matinn hjá ykkur?” spurði hann og varð ennþá lúðalegri en nokkru sinni áður.
Ebba og Gunna litu hvor á aðra og skellihlógu.
,,Nei, nei Jesper það verður engin lúða í matinn hjá okkur” sagði Gunna og reyndi að hætta að hlæja, það var betra að skemma ekkert.
,,Ætlar þú ekki að tala við hann pabba um eitthvað Jesper minn?” spurði hún svo og leit brosandi á hann. Jesper brosti og kinkaði kolli, hann var ekki vanur að vera svona innan um fólk og var hálffeiminn.

,,Jú Gunna mín það ætla ég að gera” sagði hann og snéri sér að herra Einráði sem leit enn fastar ofan í sýslublaðið. Það kom smáhik á Jesper síðan snéri hann sér aftur að Gunnu.
,,Heyrðu annars Gunna mín” sagði hann stressaður og vandræðanlegur.
,,Um hvað á ég að tala við hann pabba þinn?” spurði hann og klóraði sér í bossann sem snéri beint að herra Einráði. Stórbóndinn gretti sig þegar hann sá Jesper klóra sér.
,,Nú okkur auðvitað, þú veist” sagði Gunna og blikkaði Jesper.
,,Jaaaá” sagði hann og ætlaði að snúa sér aftur að herra Einráði en hætti við og leit aftur á Gunnu, mikið var hann stressaður.
,,Heyrðu Gunna hvað veit ég?” spurði hann og fann vatnsdropa renna inn í annað eyrað.
,,Sennilega afgangur frá læknum” hugsaði hann og stakk litla putta á eftir dropanum og snéri honum hratt, það er að segja puttanum. Gunna varð óþolinmóð á svipinn, hún vildi ljúka þessu af sem fyrst.
,,Láttu ekki svona Jesper. Auðvitað ætlaðir þú að ræða við pabba um að við ætlum að gifta okkur” hvíslaði hún.
Því næst snéri Gunna Jesper í hálfan hring og ýtti honum í áttina að skrifborðinu þar sem stórbóndinn sat niðursokkinn í blaðið.
,,Já” sagði Jesper og hló kjánalega yfir eigin gleymsku.
,,Auðvitað ætlaði ég að gera það” sagði hann brosandi. Hann snéri sér við og leit á herra Einráð. Jesper hafði aldrei áður verið svona nálægt stórbóndanum og honum fannst herra Einráður heldur ógnandi.

,,Hérna eh herra Einráður eh hérna má ég aðeins tala við þig?” spurði hann og vatt aftur lambhúshettuna.
Hettan var enn nokkuð blaut og láku nokkrir vatnsdropar á fínu persnesku mottuna sem lá yfir gólfinu.
Stórbóndinn leit valdsmannlega upp frá sýslublaðinu og horfði eins alvarlega á Jesper og hann gat, hann var um það bil að fara að hlæja að þessu öllu saman.
,,Já auðvitað” sagði hann og krosslagði hendurnar yfir brjóstkassann.
,,Auðvitað máttu tala við mig, ég er ekkert nema eyru og þetta ætti að verða athyglisvert” sagði hann og reyndi að vera alvarlegur.
Jesper byrjaði að skjálfa í hnjánum og romsaði út úr sér alveg óskiljanlegri setningu.
,,Úff, ehe, hérna ég er, ég meina, ehe” svo gafst hann upp og snéri sér að Gunnu sem reyndi að vera róleg.
,,Tala þú við hann Gunna” kvíslaði hann mjög vandræðalegur, Gunna hristi höfuðið brosandi.
,,Spurðu hann bara, hann bítur ekki” sagði hún og snéri Jesper aftur að skrifborðinu.
Síðan beygði hún sig að Ebbu.

,,Hann glefsar bara” hvíslaði hún að henni og þær hlógu báðar. Jesper gekk aftur að skrifborðinu þar sem stórbóndinn sat enn með krosslagðar hendur.
Herra Einráður fylgdist vel með öllu sem gerðist og skemmti sér ágætlega.
Þegar Jesper kom aftur að borðinu flýtti hann sér að leggjast niður á hnén svo ekki sæist hvað þau skulfu mikið.
Hann reyndi að byrja aftur á klaufalegri bónorðssetningu.
,,Hérna eh, hérna eh” stamaði hann en ákvað svo að láta það bara vaða. ,,Má ég eiga Gunnu? Mig langar í hana” gusaðist út úr honum í einum rykk.
Stórbóndinn hristist af innbyrgðum hlátri, en andlitið var grafalvarlegt þegar hann leit á Gunnu.

,,Gunna getur hann ekki ákveðið sig? Hvort vill hann þig eða hana?” spurði hann og leit svo aftur á Jesper sem enn var á hnjánum á gólfinu við hlið skrifborðsins, honum leið greinilega ekki vel.

,,Hana getur þú fengið úti í hænsnakofa, en Gunnu færð þú ekki” þrumaði Einráður og reyndi að vera alvarlegur sem þó var mjög erfitt.
Gunna, sem fylgst hafði vandlega með, kom hlaupandi með stóra skeifu sem náði yfir allt andlitið.
,,Já en elsku pabbi, þú getur ekki gert okkur þetta” kjökraði hún.
,,Við elskum hvort annað” hélt hún áfram kjökrandi.
Hún hugsaði með sér að best væri að ráða við pabba sinn með smá telpuvoli. Hann gefst alltaf upp þannig.
Herra Einráður leit upp og hugsaði með sér að í þetta sinn mundi hann ekki láta eftir óstýrilátri eldri dóttur sinni.
Hann saug aftur mikinn reyk úr pípunni sinni.

,,Huh” tuðaði hann og blés reyknum í stórum hringjum út í loftið.
,,Hvað ætli þið vitið um ást, hvítvoðungarnir?” sagði hann og leit á Gunnu sem kom alveg að skrifborðinu, hún beygði sig að föður sínum og leit bænaraugum á hann.
,,Já en elsku pabbi, Jesper er það skásta sem býðst” kvíslaði hún að honum.
,,Og svo er hann ríkur, er það ekki?” spurði hún upphátt og snéri sér að Jesper sem hafði staðið upp og farið afturfyrir Gunnu.

,,Ha, ríkur” sagði Jesper vandræðalegur.
Honum varð hugsað til dauðu dýrahræanna út um allt heima á Snauðustöðum, og brunarústarinnar á hlaðinu sem áður hafði verið þessi líka fína dráttarvél.
,,Ja, eh jú jú” sagði hann og brosti aðeins. Hann vissi ekki hvað hann átti að segja Gunnu mikið um ófarirnar heima við.
,,Ég á minnst tvær svona buxur” sagði hann og teygði úr sparibrókunum sem hann var í, hvernig gæti hann bjargað sér frá þessu, honum leið þó betur.

,,Nú og aukalopasokka og rosalega hlýjar lambhúshettur til skiptanna” söng hann glaður í bragði.
Hann hafði aftur náð gleði sinni.
Hann lyfti blautri sparilambhúshettunni, sem var orðin ansi teygð og undin, svona til að leggja áherslu á hettuúrvalið.

Ebba, sem hafði haldið áfram að sauma en fylgst samt vel með öllu af miklum áhuga, hristist af hlátri í stóra sófanum.
Hún hugsaði með sér að strákgreyið þyrfti kannski smá aðstoð í mannlegum samskiptum, svona til að losa hann við feimnina og klaufaskapinn.
Gunna greip blauta lambhúshettuna af Jesper og kastaði henni beint framan í Ebbu sem gretti sig á móti.
Því næst greip Gunna undir handlegginn á Jesper og dansaði með hann í hringi og hló.
,,Já en elsku Jesper minn, þú gleymir því allra allra mikilvægasta” sagði hún og snéri sér svo brosandi að pabba sínum. Hún hafði sko alveg gleymt þeirri hernaðaráætlun sinni að sigra hann með kjökri.
,,Hann á sko glæsilega dráttarvél sem er með einu varadekki, aukasæti og þremur gírum” sagði hún og leit sigri hrósandi á föður sinn sem bara gretti sig á móti henni.

,,Huh” tautaði hann áhugalaus og leit aftur niður á sýslublaðið.
,,Gírarnir eru alveg örugglega bara einn áfram og tveir aftur á bak, eins og Jesper sjálfur” kvíslaði hann svo lágt að aðeins Gunna heyrði og brosti hún bara að þessum brandara föður síns.
,,Nei og aftur nei” sagði hann hátt svo bergmálaði í stofunni.
,,Ég á þrjár nýjar dráttarvélar og mig vantar ekki eina eldgamla í viðbót. Ég segi nei” sagði hann valdmannslega og byrjaði aftur að lesa blaðið.
Gunna, sem aftur mundi eftir kjökuráætlun sinni, setti aftur upp stóra skeifu.
,,Já en pabbi, þú átt ekki að fá dráttarvélina” sagði hún og greip undir handlegginn á Jesper og dró hann að sér.
,,Jesper ætlar að giftast mér en ekki þér” sagði hún og brosti með sjálfri sér þegar hún hugsaði um það sem hún hafði sagt.

Ebba sem enn fylgdist með greip síðustu setninguna og skellihló, henni var líka skemmt.
,,Já mér þætti gaman að sjá hann Jesper reyna að giftast honum pabba” sagði hún og hélt um magann, hún missti myndina á gólfið.
,,Það væri sko saga yfir í næstu sýslu. Stórbrúðkaup!” valt upp úr henni og hún grét af hlátri.
Stórbóndanum var hinsvegar ekki eins vel skemmt þó honum fyndist þetta samt hálf skondið.
Hann leit strangur á yngri dóttur sína.
,,Þegi þú stelpa og haltu áfram með saumana” sagði hann og leit til skiptis á Gunnu og Jesper sem voru bæði jafn kindarleg á svipinn.

,,Á hverju ætlið þið svo sem að lifa? Peningunum mínum!!” spurði hann og stóð upp frá skrifborðinu.
Skeifan á Gunnu minnkaði aðeins.
,,Nei nei elsku pabbi” sagði hún og greip fastar í handlegginn á Jesper.
,,Segðu honum Jesper” sagði hún og hristi sveitalúðann svo blauti hárlubbinn skvettist í allar áttir.
Jesper greyinu dauðbrá við allan hamaganginn og reyndi að halda jafnvæginu, nú kom að því sem hann hafði kviðið mest.
,,Já, já Gunna mín” sagði hann og leit upp á stórbóndann sem var talsvert stærri en Jesper hafði haldið að maður gæti orðið.
Hann opnaði munninn en lokaði honum strax aftur og leit á Gunnu.
,,Heyrðu Gunna, hvað á ég að segja honum?” spurði hann með kringlótt augun, hann var aftur orðinn stressaður og honum leið frekar illa.

Gunna var orðin ansi óþolinmóð og það var farið að síga aðeins í hana.
,,Oh, Jesper voðalega ertu þunnur” sagði hún og sleppti takinu á handleggnum á honum.
,,Auðvitað áttu að segja pabba frá húsdýrunum okkar” sagði hún og gretti sig framan í Jesper. Jesper leit undan og dauðskammaðist sín.
,,Hvaða húsdýrum” hugsaði hann með sjálfum sér en ákvað svo að segja ekki nema svona hálfan sannleikann til að byrja með, eða í það minnsta að reyna að fegra ástandið að hluta.

,,Ja það kom fyrir dálítið slys í gærkvöldi og dráttarvélin brann ásamt aukasætinu og varadekkinu” sagði hann snöggt.
,,En við getum alveg lifað á húsdýrunum mínum” sagði hann og reyndi að hugsa um það hvernig hann ætti að útskýra afganginn.

,,Ég á tvö lömb sem eiga að fara í sláturhúsinu núna í haust, einn geithafur sem varð ellidauður í morgun, já og hann Gráni gamli, hann er með saltpoka í tunnu á bakvið útikamarinn” sagði Jesper og klóraði sér gætilega í botninn.
,,Jú og svo átti ég þrjár hænur, þær Sillu, Villu og Millu” sagði hann niðurlútur.
,,En kötturinn minn, hann Viður gamli, át þær í gær” sagði hann og leit á Gunnu sem var með galopinn munninn og góndi reiðilega á Jesper.

,,Það er samt allt í lagi því mér tókst að reka Við inn í hænsnakofann og læsa.
Ef hann kemur ekki með egg í staðin fyrir hænurnar þá étum við bara köttinn” flýtti Jesper sér að segja og fannst þetta bara vel sloppið og vel sagt hjá sér.

,,Étiði hvað?” þrumaði herra Einráður sem hafði hlustað á öll ósköpin með galopinn munninn eins og dóttir hans.
Gunna ætlaði varla að trúa eigin eyrum, gat þetta virkilega verið.
,,Heyrðu Jesper” sagði hún og greip aftur í handlegginn á honum og hristi hann eins og tuskubrúðu.
,,Ætlarðu að segja mér að öll húsdýrin mín séu steindauð?” hrópaði hún og tók ekki einu sinni eftir því að hún talaði eins og að hún sjálf hafði átt öll dýrin.
Jesper reyndi að róa Gunnu en leit beint á gólfið.
,,Jaaa” tautaði hann og horfði á einhvern ósýnilegan blett á stígvélinu sínu.
,,Þau eru kannski svolítið dauð, ja nema kötturinn” sagði hann og leit á Ebbu sem skellti enn einu sinni uppúr.
,,Miðað við framtíðar áætlanir þínar verður hann ekki langlífur heldur” sagði Ebba og horfði á eldri systur sína sem var eins og þrumuský í framan.

,,Heyrðu Jesper” greip Gunna frammí fyrir systur sinni þegar hún sá alla framtíðadrauma sína hrynja niður á golf og brotna þar í marga parta.
,,Ég hélt að þú hefðir sagt að þú ættir fullt af húsdýrum ásamt glæsilegri dráttarvél” þrumaði hún og stappaði niður fæti.
,,Svo kemur bara í ljós að dráttarvélin er bara kolamoli á hlaðinu hjá þér og öll húsdýrin ellidauð, niðursöltuð, étin hvort af öðru eða á leiðinni í sláturhús” hvæsti hún og var að springa af reiði og vonbrigðum.
Herra Eiráður, sem hafði sest aftur niður, leit vandræðalegur á eldri dóttur sína.
,,Svona, svona Gunna mín” sagði hann rólega og velti því fyrir sér hvað til bragðs ætti að taka því hann var ekki vanur svona miklum látum í dóttur sinni.

,,Þetta er kannski ekki svona slæmt” sagði hann og ákvað að gefa sveitalúðanum annað tækifæri til að skýra mál sitt betur.
,,Strákgreyið er að reyna sitt besta, leyfðu honum að klára að útskýra mál sitt” sagði hann svo og kinkaði kolli til Jespers sem hélt að það væri svona hálfgert samþykki fyrir þessum ráðahag, drengurinn brosti glaðlega.
,,Já Gunna mín” sagði Jesper sem var þegar búinn að búa til nýjar áætlanir um framtíðina, þetta gat alveg gengið upp.
,,Við getum alltaf selt köttinn og fyrir þá peninga keypt okkur nýja geit, þar sem Vindur er í Guðsríki” sagði hann og hugsaði með sér að Vindur gamli hafði örugglega verið ánægður með að hitta aftur gömlu hjónin þarna uppi.

,,Nú svo getur þú að sjálfsögðu líka prjónað sokka og lambhúshettur sem við getum selt og fengið okkur belju og hænur fyrir þá aura” sagði Jesper og var nú orðinn spenntur.
Gunna hafði hlustað agndofa og hún trúði varla eigin eyrum, hana langaði til að berja þennan heimska sveitalúða.
,,Ég hef nú aldrei heyrt annað eins” öskraði hún og ýtti Jesper frá sér.
,,Á ég nú líka að verða vinnukona, á mínu eigin heimili? Sjálf dóttir herra Einráðs stórbónda í Ráðríkusveit!” sagði hún stórhneyksluð og sótroðnaði af reiði.

Herra Einráður vissi ekki sitt rjúkandi ráð.
Hann vildi svo sannarlega ekki að dætur hans þyrftu að vinna fyrir sér, en honum fannst þetta kannski svolítið mátulegt á eldri dóttur sína.
,,Hún hættir þá kannski að hóta því að strjúka að heiman” hugsaði hann og ákvað að leika aðeins áfram.
,,Smá vinna hefur nú aldrei skaðað neinn Gunna mín” sagði hann og leit brosandi á dóttur sína sem hann hafði aldrei séð svona reiða á svipinn.

Gunna leit öskureið á föður sinn og Jesper til skiptis, ó hvað hún var reið.
,,Nei og aftur nei” þrumaði hún bandill, hún ætlaði ekki að vinna fyrir sér.
,,Þetta skal aldrei verða lúðinn þinn” hvæsti hún, síðan leit hún aftur á föður sinn og urraði af vonsku.
,,Og ef þér líst svona vel á þennan ráðahag, pabbi góður, þá skalt þú bara giftast lúðanum og fá dýrahræin og kolamolann sjálfur, ég er farin!” gargaði Gunna og hljóp út úr stofunni.

Hún fór út og yfir í sína álmu í vondu skapi.
Jesper horfði undrandi á eftir Gunnu.
,,Já en Gunna mín” ætlaði hann að byrja, en hún hafði þegar skellt á hann hurðinni.
,,Voðalega varð hún uppstökk. Það mætti halda að ég hafi sagt eitthvað vitlaust” sagði hann og leit á Ebbu.
Ebba hafði aftur byrjað að hlæja þegar stóra systir hennar hafði næstum klemmt nefið á Jesper á milli þegar hún rauk á dyr.
Jesper fékk nú allt í einu alveg nýja hugmynd og gekk til yngri dóttur herra Einráðs, hún virtist talsvert rólegri en eldri systir hennar.

,,Heyrðu Ebba hvað ert þú gömul?” spurði hann og tók sparilambhúshettuna sem Gunna hafði áður hent í Ebbu upp af gólfinu.
Ebba leit upp frá myndinni sem hún hafði verið að sauma í allan tímann og brosti til Jespers.
,,Ég verð sextán ára í næsta mánuði” sagði hún og var hissa á þessari spurningu.

Stórbóndinn leit líka upp frá blaðinu sem hann hafði byrjað að lesa aftur þegar Gunna hljóp út.
Hann var líka undrandi þegar hann heyrði þessa spurningu, en hann varð eins og gjósandi eldfjall þegar hann heyrði næstu spurningu Jespers.

,,Verður þú þá nógu gömul til að giftast?” spurði hann og hrökk við þegar hann heyrði skrifborð stórbóndans velta um koll.
Herra Einráður stökk á fætur og stikaði yfir gólfið í tveimur skrefum, honum var nóg boðið.

,,Það er kominn tími til að þú hypjir þig heim stráklúði” þrumaði hann og greip í öxlina á Jesper.
Stórbóndinn dró aumingja Jesper að útidyrunum og ýtti honum útfyrir og skellti hurðinni á eftir honum.

Framhald seinna: