Ég vaknaði daginn eftir í mínu eigin rúmi, og þreifaði fyrir mér inni í herberginu til að fullvissa um mig að ég væri raunverulega þar. Þetta var óþægilegt. Var þetta draumur? Ég neitaði að trúa öðru og fór fram úr. Þegar ég opnaði hurðina fram á gang varð mér litið á rúmið hans Breka; það var vel um búið, rétt eins og þegar ég lagðist í það í gær. Um mig hríslaðist ónotatilfinning. Það var eins og enginn hefði sofið í því síðustu nótt. Ég hlaut að hafa fært mig yfir í mitt rúm um nóttina, og mamma svo búið um rúmið hans Breka í morgun. Annað gat ekki verið. Eða dreymdi mig kannski að ég hafi fært mig yfir í rúmið hans Breka? Ég bægði þessum hugsunum frá mér, klæddi mig í buxur og fór fram. Inni í eldhúsi blasti við mér furðuleg sjón; mamma sat við eldhúsborðið í náttsloppnuum, með kaffibolla í hönd, og þóttist lesa blaðið. Pabbi, hins vegar, var í skyrtu og nýrakaður. Hann stóð við eldavélina og steikti egg og beikon. „Góðan daginn,“ sagði hann og brosti til mín. Ég svaraði því sama, en fékk ekkert nema muldur frá mömmu. Hún leit ekki einu sinni upp frá blaðinu. Ég settist gegnt henni við borðið, og um leið lagði pabbi disk fyrir mig á borðið. Egg, beikon og bakaðar baunir; uppáhaldið mitt. Djúsglas fylgdi fljótlega sömu leið, og ég gat hafist handa við átið. Ég kláraði fyrsta skammtinn og svo annan. Þegar ég var hálfnaður með þann þriðja varð mér flökurt, og ég ýtti disknum frá mér. „Kláraðu nú matinn þinn, Breki.“ Ég hrökk við og leit á mömmu. Ég hafði setið við borðið í rúman hálftíma og þetta var það fyrsta sem hún sagði. Breki? Hún fann örugglega fyrir augnaráði mínu, og leit upp. „Æj, fyrirgefðu, elskan. Þú veist, þetta er búið að vera hálfskrítið. Ég er pínu ringluð.“ Ég leit niður á diskinn og tók hann upp. Ég henti afganginum í ruslið, setti diskinn í uppþvottavélina og fór inn í herbergið mitt. Ég lagðist upp í rúmið mitt og opnaði tölvuna. Sálfræðingurinn sem ég var sendur til vegna dauða Breka sagði mér að gott gæti verið að reyna að skrifa niður góðar minningar sem við Breki áttum saman; það gæti hjálpað mér í gegnum sorgina. Fyrsta minningin sem kom mér upp í huga var nokkura ára gömul. Ég var líklega átta ára. Ég var með nokkrum vinum mínum úti á grasfletinum að spila fótbolta þegar sá, sem allir krakkar hverfisins hræddust, gekk að okkur. Hann hét Frikki og var nokkrum árum eldri en við. Með honum í för var Beta, kærastan hans. Hún var með svart, sítt hár og svo marga lokka í andlitinu að enginn vissi hve margir þeir voru í raun. Sú saga gekk um hverfið að hún væri með lokk fyrir hvern kærasta sem hún hafði átt. Vinur minn Dóri minntist eitt sinn á þetta við Frikka í skólanum. Þegar við sáum Dóra svo, mörgum dögum síðar, var hann blár og marinn í andlitinu, og studdist við hækju. Ég veit ekki um neinn sem minntist á lokkafjölda Betu aftur í návist Frikka.

Frikki var rauðhærður, freknóttur og feitur. Hann var alltaf í sömu fötunum, og enginn vissi neitt meira en það um hann. Mér fannst hann alltaf vera þetta dæmigerða kvikmyndahrekkjusvín, og þegar hann tók af okkur boltann þennan daginn urðum við allir þessi dæmigerðu fórnarlömb kvikmyndahrekkjusvínsins. Við vorum allir hræddir við hann, en reyndum þó að fá hann til að gefa okkur boltann aftur. Beta stóð fyrir aftan hann og puffaði sígarettu á meðan Frikki lét misgáfuleg orð fljúga. „Litlu krakkaskítar, þið fáið boltann aldrei aftur.“ Hann tók svissneskan vasahníf upp úr vasanum og gerði sig líklegan til að stinga gat á boltann. Ég er ekki alveg viss hvernig næstu atburðir áttu sér í raun stað, en í minningunni kom Breki fljúgandi aftan að Frikka og lenti með fæturna á öxlum hans, svo hann féll kylliflatur fram fyrir sig. Hann missti boltann, sem ég tók upp, og við hlupum í burtu. Strákarnir hlupu allir heim til sín, og það var ekki fyrr en ég var kominn út á götu sem ég leit við. Þá sá ég Breka standa upp og hlaupa í áttina að mér. Þegar Breki hljóp vissi ég að ég þyrfti að gera slíkt hið sama. Við stoppuðum ekki fyrr en við vorum komnir heim og búnir að læsa útidyrahurðinni, sem var annars aldrei læst. Ég lét mig renna í sitjandi stöðu, með bakið að hurðinni, en Breki féll á fjóra fætur og engdist um. Ég færði mig varlega nær honum, og þegar hann féll á bakið leit ég á vinstri handlegg hans. Aldrei á ævi minni hafði ég séð neitt svo óreglulegt og ólíkt sínu eðlilega formi. Handarbakið var sem límt við framhandlegginn og fingurnir minntu mig á margkvíslaða grein gamallar trjáhríslu. Breki kastaði upp á teppalagt gólfið, en ég sá aldrei eitt einasta tár renna úr augnkrókum hans. Ég held að Breki hafi misst meðvitund um leið og pabbi kom að okkur. Hann keyrði Breka upp á sjúkrahús, þar sem hann þurfti að vera í, að mér fannst, alltof marga daga. Við sáum Frikka ekki oft eftir þetta atvik. Einhvers staðar heyrði ég að hann hefði verið sendur á heimili fyrir vandræðaunglinga, og annars staðar heyrði ég að hann hefði flúið að heiman. Það skipti mig engu máli hvor sagan var sönn; það gladdi mig að vera laus við Frikka úr mínu lífi.

Ég lokaði tölvunni og lagði hana frá mér á náttborðið. Hvernig átti þetta að hjálpa mér að vinna úr sorginni? Að rifja upp minningar mínar af Breka ýtti einungis undir sorgartilfinninguna. En þetta gæti ef til vill hjálpað mér síðar meir. Ég fór fram úr rúminu, rölti fram í stofu og settist fyrir framan sjónvarpið. Eins og um hádegisbil flesta virka daga var ekkert gott í sjónvarpinu. Lélegir spjallþættir og enn verri raunveruleikaþættir. Mér datt þó ekkert betra í hug til að drepa tímann með, svo ég leyfði raunveruleikasjónvarpi af verstu gerð að lifa á skjánum. Breki hefði snúið sér við í gröfinni ef hann vissi hvað ég væri að gera. Og svona leið dagurinn; stöku ferðir inn í eldhús, sem höfðu sjaldan annað í för með sér en stutt innlit í ískápinn, og aðrar á klósettið. Pabbi steikti hamborgara í kvöldmatinn. Þrátt fyrir að hamborgarar hafi verið í uppáhaldi hjá mér hafði ég litla matarlyst, og mamma, að því er virtist, enn minni. Eftir kvöldmatinn settist ég fyrir framan tölvuna, þar sem ég sat í nokkra klukkutíma áður en þreytan fór að gera vart um sig. Ég slökkti á tölvunni og lagðist upp í rúm. Draumur, eða hvað það nú hafði verið, síðustu nætur sat mér enn í mér. Hvað hafði þetta eiginlega verið? Ég greip mér bók úr bókahillu okkar bræða, eitthvað sem ég hafði ekki gert í langan tíma, og kom mér vel fyrir undir minni eigin sæng. Eftir nokkurra síðna lestur fann ég að augnlokin voru farin að þyngjast, svo ég lagði bókina á náttborðið. Ég var við það að sofna, en varð þá litið á rúmið hans Breka. Ætti ég, aftur? Ég staulaðist fram úr rúminu og, án þess að vita hvers vegna, lagðist ég í rúm bróður míns; undir sængina hans. Á meðan svefninn náði mér á sitt vald var eitthvað sem sagði mér að þessi nótt yrði enn óþægilegri en sú síðasta.

Ég hrökk upp þegar ég vaknaði. Ég var standandi, inni í herberginu mínu. Þetta var allavega skárra en víðáttan endalausa. En nú hlaut ég að hafa gengið í svefni. Hvað hafði þá gerst í gær? Mér sortnaði fyrir augum, svo ég studdi mig við náttborðið hans Breka til að ná áttum. Ég gaf frá mér þungt andvarp og settist á óumbúið rúm bróður míns. Hvað var í gangi? Ég fann þorstann sækja að, og ákvað að fara fram að fá mér vatnssopa. Þegar ég ætlaði að opna hurðina fram á gang heyrði ég hvísl fyrir aftan mig. „Hey, hvað ertu að gera?“ Mér brá og ég leit við. Í rúminu mínu lá… ég? Ég stirðnaði upp og starði á… sjálfan mig, liggjandi í rúminu… mínu? Ég reyndi að segja eitthvað, en kom engu upp. Ég tók eitt skref aftur á bak, enn orðlaus. Aftur var hvíslað: „Er ekki allt í lagi, Breki?“


Ha?

Ég?

Breki?


Svo varð allt svart.