Tánings drengur
 
Tánings drengur snaraði sér upp á hjólið
 
                Tánings drengur snaraði sér upp á hjólið sitt og steig það áfram upp brekkurnar heim til sín. Hann hét Vilhjálmur Páll, kallaður Villi, og var Antonsson. Táningur eða ekki táningur er kannski ekki mikilvægt en hann var áreiðanlega í kringum fjórtán ára og á leið heim úr skólanum. Fyrsti haustvindurinn skar í skilvingarvitin og skildi nefið eftir holt að innan og fékk Villa til þess að kveinka sér þegar hann hjólaði upp einu brekkuna í hverfinu. Aðrir krakkar annað hvort þutu fram úr honum í bílum foreldra sinna eða drógust aftur úr fótgangandi. Villa var sama, of mikill hluti skóladagsins fór í að bíða eftir að sleppa frá þeim til þess að byrja að sakna núna. Fyrir tveimur árum hefði hann kannski getað umborið þau en kynþroskinn virtist hafa eyðilagt samskipti hans við flesta. Hann velti því fyrir sér hvort að krakkarnir sæju og skildu eigin hegðun, hvort að þau vissu hversu mikið þau væru bara að lifa upp til væntinga staðalímynda unglingsins, hann væri allavega yfir það hafinn að... köldum og dökkum augum Villa var starsýnt á hvítan og gráan hól á götunni. Fjaðrir lágu á í kringum hræið og nokkrar blóðslettur skreyttu götuna. Hann hristi hausinn, því jafnvel þó að það væri gaman að kryfja fuglinn myndi móðir hans aldrei leyfa slíkt í sínum húsum. Hún var hvorki hrifin af lifandi dýrum né dauðum.
                Áfram hélt hann að heimili sínu sem að var ekki langt frá skólanum. Hann beygði inn tvær götur til viðbótar og renndi inn í hlað. Hann opnaði hurðina og hentist inn. Tösku og yfirhöfn skildi hann eftir í hrúgu í anddyrinu og skaust inn í herbergið sitt. Hann væri einn heima í allavega klukkutíma í viðbót og hann ætlaði nýta hann í internetið (á síðustu mínútu myndi hann skjótast fram og byrja að þrífa, svo að enginn yrði skammaður fyrir óhóflega tölvunotkun). Hann hlammaði sér fyrir framan skjáinn. Í hvert skipti sem að kveikti á þessum hlunki fannst honum ræsitíminn lengjast og hann trommaði óþolinmóður á rykfallinn kassann. Þegar Windows opnaðist loksins henti hann upp Firefox og heimasíðan sýndi Huga.is.
                „Fokking Fimbulfamb,“ muldraði hann og hellti sér inn í töfraland veraldarvefsins.
                Þessir töfrar urðu þó skammlífir því að eftir nokkrar mínútur dóu ljósin bæði í loftinu og á tölvunni. Flest tækin í húsinu dóu út og því fylgdi þessi undarlega náttúrulega þögn rafmagnsleysis. Villi leit út um gluggann pirraður og sá að engin ljós virtust vera kveikt í hverfinu. Hann andvarpaði og nældi sér í bók.
 
                „Hvernig var í skólanum?“ spurði mamma hans við kvöldverðarborðið. Villi muldraði eitthvað svar og pabbi hans rumdi.
                „Hey já, rafmagnið fór út í svona hálftíma eftir að ég kom heim,“ sagði Villi, „veit einhver hvað gerðist?“ Foreldrar hans einbeittu sér að matnum. Hann yppti öxlum. „Bara dónskapur þegar ég geri það.“
                „Ég vona að þú sért að standa þig betur í dönskunni en í fyrra,“ sagði faðir hans skyndilega og horfði fast á hann, „ég vill ekki sjá neitt fyrir neðan sjö í vor.“
                „Já en-“ Villi var orðinn langþreyttur á þessari umræðu, „ég er bara ekki góður í þessu ókei?“
                ,,Nei, það er ekki tilgangslaust,“ mótmælti móðir hans. Villi leit á hana pirraður.
                „Ég er tilneyddur til þess að læra eitthvað sem að ég hef engan áhuga á og er lélegur í. Tilgangslaust tungumál og eyðileggur metnað og líðan minn.“
                „Svona er þetta bara og þú verður að sætta þig við þetta,“ sagði pabbi hans ávítandi.
                „En það er ekki sanngjarnt, ég get ekki-“
                „Gott hjá þér, ég vissi að þú gætir skilið þetta. Einn daginn lærirðu að þetta var þér fyrir bestu.“ Villi yggldi sig líkt og svo oft áður yfir þessum samtölum, en núna var hann að furða sig á undarlegum setningum foreldra hans.
                „Hvað?“ spurði hann varlega en honum til ákveðins léttis var restin af matnum étin í hljóði og engum fleiri orðum skipst á þetta kvöldið.
 
                Morguninn eftir leið svo sem áfallalaus að mestu. Vilhjálmur Páll vaknar, klæðir sig, burstar tennurnar og hjólar í skólann. Gærdagurinn er móða líkt og svo oft og hann leiðir hugann lítið að honum. Þangað til í samfélagsfræði.
                „Nú, ég spyr aftur, getur einhver nefnt dæmi um kjarnafjölskyldu?“ spyr kennarinn aftur og er orðinn pirraður. Villi hrekkur upp úr svefndrukknum dagdraumum og reisir við höndina. Hann hafði lesið um þetta í gær, væntanlega sá eini í bekknum sem að gerði það. „Enginn?“
                „Jú,“ segir Villi, „Kjarnafjölskylda er afbrigði af fjölskyldu þegar, uh, foreldrar og börn.“
                „Þú, Kristín, last þú heima? Þá geturðu svarað. Nei? Villi?“ kennarinn horfði á Villa og virtist ögn vongóður.
                „Ég var að svara, þegar-“ En kennarinn bara hristi hausinn og gekk aftur fyrir borðið.
                ,,Hristir bara hausinn... EITT svona skipti í viðbót og ég læt ykkur ÖLL fá hundleiðinlegt hefti!“ Villi starði á hann agndofa.
                „Hérna heyrðu, ég svaraði!“ kallaði hann til kennarans. Kennarinn sat bara og las. „Heyrðu!“
                Villi starði yfir bekkinn sem að lá á grúfu yfir borðin sín, sumir að vinna aðrir að reyna að bæta upp fyrir lítinn nætursvefn.
                „Ef að þú ætlar að láta svona þá kvörtum við í skólastjórann, ekki satt?“ hótaði hann sár og beið eftir undirtektum bekkjarins. Það eina sem heyrðist var pár í blýöntum og pennum. Kennarinn leit ekki einu sinni upp. „Hérna er þetta einhver brandari?!“ Villi sópaði blöðum af kennaraborðinu.
                „SVARAÐU MÉR!“ skipaði hann en bekkurinn var hljóður. Hönd skaust á loft aftast í bekknum og kennarinn stóð upp. „Fínt, ég fer þá bara til skólastjórans. Ykkur finnst þetta kannski fyndið, en fyrst ég er ekki til þarf ég víst ekki að mæta í tíma.“ Hann snerist á hæli og strunsaði út úr stofunni með íburðar miklum hurðarskell. Þegar hann var kominn út á gang hallaði hann sér upp að hurðinni og bjóst við stríðnishlátri. Hann lá með eyrað við hurðina en það eina sem heyrðist var kennarinn að útskýra eitthvað í hálfum hljóðum. Villi gretti sig og hljóp af stað til skólastjórans. Skriftstofa hans var rétt hjá og... Villi hrasaði aftur á bak.
                „Fyrirgefðu...“ muldraði hann og gerði sér grein fyrir því að hann hafði rekist utan í húsvörðinn. Hann bjóst við afsökunarbeiðni á móti en fékk bara bakið á húsverðinum sem að staulaðist áfram ganginn. Villi gapti. „Ég sendi þér þá bara blóm.“ Hann stóð upp og hélt áfram til skólastjórans. Hurðinni var sparkað upp og Villi stökk inn bálreiður.
                „Hvað veist þú um þetta?!“ skipaði hann, „afhverju lætur fólk...“ Skólastjórinn sat þarna og las í lítilli bók. Áhugalaus svipurinn sýndi engar breytingar við skyndilega komu Villa sem að tók skref aftur.
                „Jæja þá,“ hvíslaði hann. Hann kreppti hnefann...
 
                „VÚÚÚÚ-HÚÚÚÚ!!!“ hrópaði Villi og hentist í gegnum Kringluna. Treflar flugu af fólki og innkaupakerrum var velt við en sá eini sem að virtist taka eftir einhverju var hinn ungi Vilhjálmur sem að hafði ekki skemmt sér svona síðan, tja, eiginlega nokkurn tíman. Hann henti ruslatunnum í rúður og hellti niður gosi á gólfin en hápunkturinn var þegar brjóstgóð ung kona nálgaðist hann í fylgd kærasta síns. Með sinn eigin barm einnig fullan hikaði Villi í eina sekúndu, bara eina, og svo glotti hann og hristi hausinn og tölvuleikirnir hrundu í gólfið fyrir neðan hann. „Ooo Vilhjálmur Páll, þú ert svo óþroskaður...“
 
                Villi skellti á eftir sér þegar hann gekk inn í húsið sitt.
                ,,Hvað er ég að spá?!“ flissaði hann, „ég gæti verið að brjótast inn á Hilton! Ég þarf ekkert að sofa í ónýta rúminu mínu, ég gæti...“ Samtal innan úr stofunni rauf hugsanir hans og hann skildi hvað hafði dregið hann hingað. Í daufu ljósi stofunnar sá hann skugga foreldra sinna. Villi gekk inn og skeytti ekki um þýfið sem að helltist á gólfið.
                „Mamma...“ sagði hann varlega en hans síðustu vonir heyrðu ekki í honum. Þau sátu þarna og spjölluðu og Villi vissi við hvern. „Pabbi... mamma... þetta er ekki ég...“ Áfram hélt samtalið.
                „Hættið,“ skipaði Villi og fann bringuna titra undan hraðandi hjartslætti, „þetta er ekki ég!“ Áfram horfðu þau á auðan stól í horninu og brostu að einhverju sem að ekki var sagt og ekki heyrt.
                „Þetta er ekki ég, þetta er ekki- HÆTTIÐ!“ Villi velti stofuborðinu um koll, „TAKIÐ EFTIR MÉR PLÍS!!!“ Mildur hlátur, svar, ósögð setning og annað svar. Villi hlammaði sér upp við vegginn og seig niður. Samtalið við hlið hans breyttist í bergmál í bakgrunninum og hann faldi andlitið í höndum sér. Hann var draugur núna, bara vofa í heimi sem að ímyndaði sér þægilegri hann. Allsgnægtir lágu fyrir honum eins og á hlaðborði, en Villi fann að hann skipti ekki máli. Hann fann að hann myndi aldrei aftur hafa áhrif, að enginn myndi bregðast við honum og breytast.
                „Fokk.“ Og sparkaði í sófann.
 
                Hann vissi ekki hversu lengi hann hafði legið þarna og reiknaði með að það væri enn nótt en myrkur var fyrir utan gluggana. Hann rétti úr stirðum og aumum liðum og sá eftir að hafa krumpast saman svona úti í horni.
                ,,Helvítis draumur,“ muldraði hann svefndrukkinn, „og heimskur ég, hefði átt að gerast einhvers konar ofurhetja og...“ Hann leit í kringum sig. Eitthvað hafði vakið hann. Með stýrurnar í augunum gekk hann inn í eldhús.
                ,,Halló?“ sagði hann forviða og starði á skæran, hvítan ferhyrning á stærð við hurð sem að stóð nú á einum eldhúsveggnum. Flöturinn lýsti og ljósið flæddi inn stigmagnandi.Hann greip í sleif sem að lá á eldhúsborðinu og fleygði í fyrirbærið. Sleifin hvarf inn og hann heyrði hana skella í gólfi hinu megin. Villi sleikti út um og stökk inn fyrir.
                „Halló sjálfur,“ svaraði gamall og feitlaginn maður með skalla. Hann var klæddur í látlaus jakkaföt, með tilheyrandi skyrtu og bindi, og passaði vel inn í grátt herbergið. Hann stóð við skrifborð úr viði og fyrir aftan það var rúllustóll. Óvænt eðli brutust upp í Villa sem að setti í sig í bardagastöðu. Það var þögn á milli þeirra í þó nokkurn tíma.
                „Svo,“ sagði Villi og bölvaði sjálfum sér fyrir hversu óstyrk röddin var, „talaðu.“ Maðurinn brosti.
                „Og hvað viltu að ég segi?“
                „Hvað...“ og Villi fann að hann vissi ekki hvað hann vildi vita, „bara, bara afhverju enginn tók eftir mér!“
                „Það átti enginn að taka eftir þér. Enginn hafði gert það og þangað til nýlega varstu alveg sáttur við það,“ sagði maðurinn og gekk að sleifinni sem að lá á gólfinu.
                „Átti enginn að taka eftir mér?“ spurði Villi og reyndi að koma þessum manni fyrir sér, hvort hann hefði nokkuð séð þennan litla, feita kall áður. Maðurinn andvarpaði.
                „Það er líklega engin þörf á að halda þessu leyndu lengur. Sestu niður, ég skal útskýra,“ byrjaði maðurinn og velti sleifinni um í lófunum sínum, en Villi settist ekki, „sjáðu til, þú þekkir til rannsókna á tvíburum er það ekki? Ég veit að þú gerir það. Eru þeir ekki besta leiðin til þess að reyna að finna breytur erfða og uppeldis?“
                „Jú...“ hætti Villi sér hikandi.
                „Rangt. Þeir eru ágætir til síns brúks en stundum þarf meira, svo mikið meira, og stundum er það á boðstólum. Hugsaðu um það að við fengjum fósturvísi og gætum margfaldað hann endalaust. Klónun, fullkomin klónun. Sjáðu fyrir þér að hægt sé að fylgjast með vexti fóstursins svo nákvæmlega að meðgangan yrði bara uppskrift. Heimsins nákvæmasta uppskrift. Og frá fæðingu væri allt í lífi mannsins svo nákvæmlega skráð niður að minnsta hreyfing golunnar væri ekki smáatriði.“ Villi gapti og hristi hausinn. „Jú sonur, þetta er mögulegt. Og afhverju ekki? Líffræðingar, sálfræðingar, verkfræðingar, forritarar... væri þetta ekki fullkomnun vísindanna að geta smíðað heilan heim, heilan einstakling, og huga hans?“
                „Ég skil ekki,“ sagði Villi og fann hvernig líkaminn seig niður við þessa lygi. Auðvitað skildi hann.
                „Erfðir og uppeldi. Það var megin punkturinn. Hvað veldur hegðun okkar. Eins og ég sagði þá var fyrst fylgst með og svo hermt eftir. Yrði hegðunin eins var spurningin.“
                „Og var hún það?“
                „Þú gætir svarað því,“ maðurinn benti á Villa, „þú ert viðfangsefnið, þú varst hugurinn sem að við könnuðum. Sem að við smíðuðum. Aftur, og aftur.“
                „Nei!“ hrópaði Villi, „ég er ekki einhver... planta, sem að þið getið ræktað að vild!“ Maðurinn lyfti annarri augnabrúninni hugsi.
                „Ekki? Jæja, þú skilur núna afhverju enginn tók eftir þér. Af því að þetta voru ekki einhverjir, og þú tókst ekki þátt í leiknum sem að smíðaður var handa þér.“
                „Vélmenni, þau voru öll... fáránlega góð gervigreind.“ Villi andvarpaði. Einhvernvegin hafði hann alltaf vitað þetta.
                „Fáránlega engin gervigreind. Skilurðu ekki?! Allur heimurinn sem að þú þekkir er bara vélar: fyrirfram ákveðin forrit sem að taka engum breytingum. Þú ert nákvæm eftirmynd þess sem að við fylgdumst með í upphafi og hermdum eftir öllu í hans heimi. Og viti menn, þið voruð nákvæmlega eins.“
                „Leikur, þú kallaðir þetta leik þegar þetta er... myndband eða dúkkuhús!“ honum hitnaði í framan og beraði tennurnar, „þið tókuð burt frá mér lífið!“
                „Þú lifir er það ekki? Þú lifðir og naust þess alveg ágætlega.“
                „Þetta var ekki líf! Þetta var bara ég að fara með línurnar á móti einhverjum dúkkum!“
                „Þú naust þess alveg ágætlega þangað til núna. Þangað til þú gerðir þér grein fyrir. Skildir.“ Villi starði í litlu brúnu augu mannsins sem að talaði eins og þetta væri hvert annað spjall. Homo Sapiens, hugsaði hann, maðurinn sem að skilur. En aldrei fyrr hafði hann efast um mennsku sína. „Myndirðu vilja taka þetta aftur? Myndirðu vilja að ég eyddi minninu þínu og leyfði þér að byrja þaðan sem að þú fórst síðast? Ég gæti það, þeir hafa mjög mikinn áhuga á því læknarnir. Við myndum spóla allt til baka þangað sem að við héldum að þú hefðir farið út af sporinu. Myndirðu vilja það?“
                „Nei! Ég yrði enn þá fangi ykk-“
                „Fínt. En gerðu þér grein fyrir þessu: Líf ykkar hefði verið eins. Þessi tilraun hefur sýnt fram á það svo oft.“ Villi velti þessu fyrir sér.
                „Þú talar ýmist um mig í fleirtölu og eintölu...“
                ,,Ah já, það er rétt. Þegar tveir hugar með nákvæmlega eins líkama eru til umræðu hvort er það allt sama manneskjan eða einhverjar mismunandi. Við höfum enn ekki náð að skilgreina...“
                „Svo hvað? Ertu þá með hyllu af fóstrum einhversstaðar? Vöruhús? Vöruhús af fóstrum sem að bíða eftir því að verða... ég.“
                „Þú talar eins og við höfum myrt þau, breytt í eitt af vélmennunum. Þau munu fá nákvæmlega sömu tækifæri og þú í að verða manneskja. Og mundu, við erum búin að sanna að það tekst í hvert skipti með þessum breytum. Ef eitthvað, þá höfum við veitt þér eilíft líf.“
                „Þau eru ekki manneskjur! Þið stelið manneskjunum í þeim með þessu! Hellið frumum í form og...“
                „Þá ert þú ekki heldur manneskja.“ Villi lygndi aftur augunum við þessi orð mannsins og kveinkaði sér.
                „Það er meira við manneskju en að vera lifandi, hún verður að, það eru... áhrif...“ Villi reyndi að koma orðunum frá sér en fann að hann var hættur að skilja þau. Maðurinn brosti góðlátlega.
                „Ætlarðu að hleypa mér út núna?“ spurði Villi eftir stundarkorns þögn.
                „Þú tekur ákvörðun um það,“ svaraði maðurinn, „þú ert jú þinn eigin hugur, ekki satt?“ Villi leit hann hornauga og svipaðist um eftir útgangi.
                „Hleyptu mér út.“ skipaði hann og hurð eins og slík sem að hafði fært hann hingað birtist á veggnum.
                „Heimurinn býður þín. Láttu hann ekki koma þér of mikið á óvart.“ Villi gekk að útganginum sjálflýsandi.
                „Tilraunin,“ sagði hann og sneri baki í manninn, „hvar, hvar fór ég út af sporinu?“
                „Út af spo- já, já það. Vertu viss um að við getum reiknað það út. Ein smá villa getur sett af stað mikil fiðrilda-áhrif. Það er eitt af því sem að okkur er ásett að rannsaka.“ Villi kinkaði kolli.
                „Bless,“ sagði hann og steig inn um gættina. Að baki honum ómaði setning sem sat föst í honum það sem eftir var ævinnar. Í hvert skipti sem að hann minntist hennar fór um hann gæsahúð:
                „Þetta er spurningin sem að ég hef beðið eftir.“