Ég trúi ekki að þú sért farin.  Það sem ég trúi ekki og er jafnvel verra en að þú sért farin, er að ég hafi nýtt tímann okkar saman svona illa.  Ég hunsaði þig kannski heilu dagana.  Svaraði með einu atkvæði, neitað að knúsa þig og hreytti í þig orðum sem ég sé innilega eftir í dag.  Ég sé eftir að hafa ekki talað meira við þig, fengið að kynnast þér betur sem manneskju, ekki bara mömmu.  Ég vissi kannski alveg hvenær þú átt afmæli, hvenær þú kynntist pabba og alla svona  augljósa hluti.  Hluti sem ég veit um mjög margt fólk sem skipta mig litlu.  Ég vissi hinsvegar aldrei hver þú varst sem persóna, hvernig þér leið á unglingsárunum.  Hvað þig langaði að verða, hvort þér hefði tekist allt sem þú ætlaðir þér, hvort þú hafir verið hamingjusöm.  Þú varst alltaf til staðar fyrir mig, leyfðir mér að vera í friði þegar ég þurfti og hlustaðir á mig þegar ég þurfti að ausa úr reiðibrunnum mínum, og þú varst auðveldasta fórnalambið.
         Okkur kom kannski ekki alltaf vel saman, ég geri mér grein fyrir því.  En það var kannski stórum hluta mér sjálfri að kenna, ég hleypti þér ekki að mér, einangraði mig og hélt að ég þyrfti enga foreldra til að segja mér fyrir verkum.  Ég talaði lítið við þig undir venjulegum kringumstæðum, sagði þér aldrei hvað ég væri að hugsa og hvað mig langaði.  Það leit vafalaust út fyrir það að ég væri alltaf fúl, en svo var ekki, ég einfaldlega vildi ekki að þið skiptuð ykkur að mér.
         Þó að ég sjái eftir miklu þykir mér leiðinlegra en margt að hafa ekki hleypt þér að mér og leyft þér að kynnast hinni raunverulegu Öddu Maríu Eiríksdóttur.  Ég sagði þér aldrei að ég væri samkynhneigð, er það?  Ég kynnti þig aldrei fyrir fyrstu kærustunni minni, er það?  Ég leyfði mér aldrei að hjúfra mig að þér og gráta yfir fyrstu alvöru sambandsslitunum mínum, er það?  Ég lokaði á þig, dæmdi fyrir mistökin sem þú gerðir mér einusinni.  Ég sýndi þér aldrei húðflúrið sem ég fékk mér gegnt ykkar leyfi.  Ég sagði þér aldrei frá því þegar ég sveik bestu vinkonu mína.  Eða skiptið sem ég prufaði hass fyrst.  Eða skiptið sem ég barði kærustuna mína fyrir að hlúga að mér í fráhvörfunum.  Ég sagði þér aldrei að ég misnotaði hass yfir langt tímabil snemma á unglingsárunum.  Ég sagði þér aldrei að ég hafði aldrei sett Menntaskólann í Reykjavík í fyrsta sæti á framhaldsskólaumsókninni minni, heldur setti ég MH og þessvegna gekk ég í MH ekki MR, ekki útaf því að ég var með of lágar einkunnir fyrir MR.  Ég sagði þér aldrei að ég var kosin sem formaður nemendaráðs í tíundabekk.  Eða að ég var kosin „bjartasta vonin“ á síðustu árshátíðinni minni í grunnskóla.  Ég sagði þér aldrei að ég var hæst í bekknum í myndmennt með hreina tíu.  Ég sagði þér aldrei að ég tók prjónapeysuna þína í leyfisleysi og hjúfraði mig að henni á nóttunni, ímyndandi mér að þetta værir þú.  Því þótt þú kannski fékkst aldrei að vita það þá elskaði ég þig alveg afskaplega mikið, og það komu svo margir tímar sem mig langaði að kyngja stoltinu og rækta samband okkar.  Ég öfundaði stelpurnar í drasl sem sögðu mömmu sína bestu vinkonu sína líka.  Ég leyfði þér aldrei að vera stolt af mér, ég hleypti þér ekki inn.  Mér til varnar voru unglingsárin mögulega verstu tímar sem ég hef upplifað, pabbi var nýfarinn, ég var búin að átta mig á því að ég væri samkynhneigð og kynntist dópinu, nýrri útgönguleið frá veruleikanum.
         Ég sé eftir að hafa ekki komið um leið og ég frétti að þú værir veik, heldur viku seinna.  Ég kom of seint, og fékk ekki einusinni að segja hvað mér þætti þetta leiðinlegt. 
Mamma, ég elska þig.