Pabbi er draumóramaður.  Þú sérð það strax þegar þú gengur inn.  Falleg undarleg málverk þekja veggina ásamt hinum óteljandi bókum og skúlptúrum á hillum sem eru negldar handahófskennt á veggina, á flesta veggi nema inní eldhúsi, því fékk mamma fullkomlega að ráða, allt hvítt og kalt.  Lýsir persónuleikanum hennar vel.  Vinnustofan hans pabba er lítill verkfæraskúr útí garði og hann getur setið þar heilu dagana án þess að nokkur verði hans var.  Svo kemur hann út með enn eitt málverkið.  Á meðan pabbi er hugsjóna- og draumórakenndur er mamma raunsærri.  Það er alls ekki að ganga of langt að segja að hún sé köld viðmóts.  Hún er hávaxinn, dökkhærð, með skarpa andlitsdrætti og föla húð.  Það er fyndið, einhvernveginn þegar ég hugsa um mömmu ímynda ég mér alltaf lágvaxna, ljóshærða konu.  Einhverja líkari mér í útliti.  Mér finnst hún alltaf hálfpartinn líta niður á alla aðra.  Hún er fær lögfræðingur og veit það vel.  Ég reikna með að ég sé líkari pabba, á flestan hátt.  Ég er lágvaxin með ljóst, hrokkið hár.  Fölan húðlitinn hlýt ég að hafa erft frá mömmu því pabbi er alltaf eins og hann sé nýkominn frá sólarlöndum.  Flestir lýsa mér sem gufukenndri.  Það má vel vera.

    Bankað er harkalega á dyrnar.  Ég stekk upp einsog stálfjöður.  Mamma eða pabbi?
„Yrja Anna!“  Eva stendur handan dyranna, með hönd á mjöðm og lítt hamingjusaman svip.  Ég dæsi þungan. 
„Eva,“
„Af hverju svararðu mér ekki?!“  Vill hún fá að vita „ég gekk alla leiðina hingað,“ það er meira misréttið sem hún býr við.  Að ganga nokkrar götur er auðvitað hræðileg misþyrming.
„Heyrði ekki í símanum,“ lýg ég blákallt. 
„Þú varst búin að lofa mér að koma með til Daða,“  Daði er bekkjarbróðir okkar.  Æskuvinur minn, mömmur okkar bestu vinkonur.  Eva hefur nýverið fengið ómældan áhuga á Daða og eltir hann á röndum.  Ekki beint nýverið, hrifning hennar á Daða hefur staldrað lengur við en á neinum öðrum strák.  Má vera að hún sé komið til að vera. 
„Þú ætlaðir að tékka á hvað honum finnst um mig,“ tékka, asnalegt orð.  Þó að ég fyrirlíti íslensku þoli ég ekki þegar fólk notar slettur, veit ekki af hverju.  Athuga væri skárra.  Ég er nokkuð viss um að Daða finnist Eva fín, flestum finnst það.  „Þú lofaðir, Yrja,“ andlit Evu verður alltaf barnslegt þegar hún er einlæg. 
„Ég kemst ekki í dag,“ lýg ég.  Mig langar eiginlega bara að vera heima í rólegheitunum, hlusta á tónlist og gera ekki nokkurn skapaðan hlut.  Skreppa kannski niðrá kaffihús og lesa við gluggann á meðan ég gæði mér á þurru kaffinu sem Kaffibollinn býður uppá.
„Af hverju?“ 
„Herbergið mitt er einsog hryðjuverkamenn hafi hent sprengju þar og flúið svo,“  Evu stekkur ekki bros á vör. 
„Það er alltaf þannig, skil ekki hvað einn dagur til eða frá skipti nokkru,“ 
„Ég kem með þér á morgun,“  Eva dæsir, setur dökkbrúnt hárið á bakvið eyrun.  Virðist sætta sig við það.
„Fínt, við förum eftir skóla á morgun.“

    Það er sunnudagseftirmiðdegi.  Hversu stórkostlega vanmetnir dagar?  Ég tek sopa af kaffinu.  Af hverju þolir fólk ekki Sunnudaga?  Mér líkar sunnudagar.  Er ég sú eina sem hefur tekið eftir því að það rignir oftar á sunnudögum en flesta aðra daga vikunnar?  Eflaust, ég tek eftir svoleiðis hlutum.
„Veistu, eitt augað þitt er dekkra en hitt,“  kunnugleg rödd rífur mig uppúr ljúfum dagdraum. 
„Það boðar ógæfu,“ svara ég óþarflega hvasst en bæti það upp með glotti.  Böddi hlær.
„Vantar þig áfyllingu?“  Spyr hann og otar kaffikönnunni í átt að mér.  Ég hristi hausinn.
„Takk samt en er að reyna að setja mér einhver mörk, þetta er að fara útí óefni,“ svara ég biturlega.  Hann víkur frá og fer að afgreiða miðaldra konu og mann.  Böddi er bróðir Svanhildar.  Svanhildur var besta vinkona mín frá leikskóla og út sjöunda bekk, svo uxum við í sundur einsog gengur og gerist á þessum aldri.  Svo kynntist ég í beinu framhaldi Evu og má segja að við höfum verið óaðskiljanlegar síðan.  Hún dregur upp í mér allt aðra hlið heldur en hlédrægu Yrju.  Ekki að ég verði eitthvað alltof framhleypin heldur bara tala aðeins meira.  Ég sit upp á alltof háum barstólnum á Kaffibollanum og sýp svart kaffi.  Eflaust þætti mörgum það synd að eyða deginum svona en mér þykir það indælt.

    Mig langar ekki að foreldrar mínir skilji, virkilega ekki.  Jafnvel þó að þetta sé stundum frekar strembið og getur tekið vel á taugarnar þrái ég að þau geti unnið úr þessum vandamálum, þessum eilífa leiða.  Eða leiði er líklegast það sem er að stía þeim í sundur, samkvæmt sálgreiningum mínum allavega.  Líklegast er það nefnilega ekki framhjáhald eða einhver álíka svik, alls ekki, heldur er það einfaldlega tilbreytingaleysi.  Pabba finnst hann sóa lífinu í ekki neitt og það særir mömmu.  Þó að mér líki þetta litla öryggisnet mitt þá hefði ég nákvæmlega ekkert á móti því að reyna eitthvað nýtt.  Þú færð aðeins eitt líf og hví ekki að lifa því?  Eða einsog Oscar Wilde sagði:  „Að lifa er eitt það sjaldgæfasta í heiminum, flestir eru bara“.  Mér finnst þetta mjög rökrétt en um leið ákaflega sorglegt.  Eitt þrái ég þó fremur en annað.  Mig langar að lifa.  Lifa ekki allir?  Það held ég ekki, flestir eru bara, einsog Oscar Wilde benti á.  Það er svo ótrúlega sorglegt en um leið svo fáránlega satt.  Öll öndum við en þýðir það virkilega að við lifum?  Að lifa er svo miklu meira en bara að enda, ganga og ganga í skóla eða vinna.  Að lifa er að lifa einsog hver dagur sé þinn síðasti.  Gera allt sem þig langar til, því að við höfum óendanlega möguleika, við höfum getuna og tækifærin til að verða allt sem okkur langar.  Við erum gerð svo ótrúlega ólík einsog við erum mörg, við sækjumst eftir svo ólíkum hlutum í lífinu, fæstir bera sama draum eða sömu þrár svo það ætti ekki að vera svo torsótt að uppfylla vonir okkar og drauma.  Ekki satt?  Ég er eflaust bara einhver táningur í landi lengst útá hafi í tilvistarkreppu.  Enginn færi varla að taka mig alvarlega.  Pabbi segir að margt fullorðið fólk sé jafnvel óþroskaðra en börn og unglingar.  Guð hvað ég er hjartanlega sammála, það eitt að horfa með öðru auganu á raunveruleikaþætti lætur mig fyllast sorg yfir hversu hræðilega sumt fólk er vanþroskað.  Ljúgandi uppá allt og alla, haldandi framhjá o.s.frv. og það í sjónvarpi.  Það er bara alveg greinilegt að sumt fólk hefur ekki nokkurn skapaðan hlut á milli augnanna, hvað þá gott hjartalag.  Ég hef því krafist af Evu og öðrum vinkonum mínum að þær segi hlutina beint við mig í stað þess að baktala mig eða nöldra yfir einhverju sem ég hefði hæglega getað breytt án nokkurra málalenginga.  Þannig reyni ég að fyrirbyggja vandræði og vandamál.  Ég er svo hræðileg í að taka öllum bendingum eða þegar fólk er að ýja að einhverju, það nær bara alls ekki í gegn.  Ég þarf að vita nákvæmlega hverju er ætlast af mér.

    Hverju er samt ætlast til af mér?  Ég hef lesið of margar unglingavellur til að geta áttað mig á því.  Ég á að vera svo fjári fullkomin, horrengla með bústinn barm og að minnsta kosti einn og sextíu, með fullkominn líkama og fullkomnar tennur.  Eða með öðrum orðum, einsog barbídúkka.  Þetta er sorglegt hversu margir menn telja þetta sem draumastúlkuna, og það sem verra er, að hún leynist virkilega einhversstaðar þarna úti.  Ég þoli ekki að þurfa að standast útlitskröfur.  Það var svo miklu þægilegra fyrir svona tvöhundruð árum.  Þegar maður var bara gefin, burtséð frá hvernig þú leist út.  Það hefði gert allt svo miklu auðveldara fyrir tapaða baráttu einsog mig.  Auðvitað hefði það haft sínar slæmu hliðar, þú fæddist inní ákveðinn stað í þjófélaginu og ef þú varst neðarlega í fæðukeðjunni gastu gert afskaplega fátt til að hífa þig uppúr ræsinu.  Ræsið er kannski aðeins of djúpt í árina tekið en ég held að heildarmyndin sé nokkuð skýr, það hefur ekkert uppá sig að streitast á móti örlögunum.  Hvorki þá né í dag.

Þetta er annar kafli, og einsog með fyrri væri frábært ef þið gætuð sagt ykkar skoðun, jákvæða eða neikvæða, það væri mjög vel þegið, líka varðandi persónuna.
Já takk bara fyrir að lesa!