Ég byrjaði að vinna í skáldsögu sem ég á svolítið erfitt með að fullmóta. Ég skrifaði þó einhverjar senur og hérna er ein af þeim. Þetta stendur reyndar svolítið sér að því leyti að þetta er í eina sinn í bókinni sem aðalpersónan reykir gras. Endilega segið mér hvað ykkur finnst, hið minnsta með like-takkanum skemmtilega.


-----


Ég veit að ég er hér. Ég stend og skima, hreyfist hægt og rólega framogtilbaka, til hægri, til vinstri, til hægri, til vinstri. Til hægri er rúm og til vinstri eru dyr. Þar á milli silast veggur. Er þetta? Er eitthvað meira en þetta?
„Hey. Hey. Gaur.“
Mér krossbregður. Hvað er þetta? Er heimurinn stærri en hann virðist vera?
„Hey. Gaur.“
Ég vagga til hægri og læt ekki staðar numið við að sjá rúmið. Ég vagga með erfiðismunum hundraðogáttatíu gráður og lít augum mann. Mér opnast víddir.
„Hey. Gaur.“
„Já, jó.“
„Hérna...hvað?“
„Æj, bara. Fyrirgefðu, en ertu nokkuð?“
„Er ég nokkuð hvað?“
„Bara. Ertu. Þú‘st. Skynjarðu? Hvað skynjarðu? Eða, þú‘st, þegar þú lítur heiminn og sérð hann, þennan vegg, þetta rúm, þessar dyr, mig, hvað sérðu? Er það sem þú sérð? Eru þessar dyr? Er ég? Mér finnst ég vera. Finnst þér þú vera? Þér finnst þú vera, er það ekki? En ég get ekki sannreynt það. Mig langar til þess en ég get það ekki. Mig langar til að skoða heiminn, skynja hann og skilja, en hvernig get ég það þegar ég veit ekki hvort hann er? En auðvitað er hann. Eða, þú‘st, hann kemur mér allavega reglubundið fyrir sjónir, hvað sem ég sé. Ég get fundið svör sem eiga við um heiminn. Þau eru kennd í skólum. Svo auðvitað er heimurinn að því leyti sem hann birtist mér. En hver getur gefið mér svörin um manninn? Þú ert mér ráðgáta, þó aðrir séu mér stærri ráðgátur. Bý ég yfir nægu innsæi til að geta giskað á hvað þú ert, einsog þú birtist mér? Ég get allavega ímyndað mér að þú sért ekki að hlusta á mig lengur.“
Ég þagna og snögglega kippist hann við.
„Vó. Ha?“
„Nákvæmlega. Pant Úrúgvæ.“


-----


Við spilum, við erum tæp tylft milljarðamæringa, við erum heilar þjóðir, hreyfandi fingurna  hratt í óðri keppni hvor við annan þarsem aðeins annar getur haft sigur, þó oftast hafi hvorugur sigurinn og leikar enda með 0-0 jafntefli. Mér leiðist markaleysið. Mér leiðist dofinn. Eftir enn eitt jafnteflið segi ég:
„Hey, ég ætla út. Rölti niðríbæ kannski. Þú flýtur ekkert með?“
„Ég flýt nóg hérna,“ svarar hann og hlær við.
„Ég skil þig,“ segi ég brosandi og held út. Þarna muntu fljóta til eilífðarnóns í dofnum höftum vímunnar, ef þú birtist mér rétt. Það er þó ekki mitt mál. Megirðu skemmta þér í dofnu hugarsprengingarástandi og hlæja þarsem kostur er. Kannski er meiri hamingja í því en þessari endalausu skilningsleit? Eða nálgast ég leitina á of niðurdrepandi hátt? Bjór ætti að kæta mig.