það var fáliðaður hópur sem stóð úti á hlaði við Snauðustaði í Ráðríkusveit. Litli bærinn hafði verið byggður að mestu úr torfi og grjóti fyrir um það bil 80 árum og var bæði skakkur og gisninn. Hópurinn samanstóð að mestu leyti af húsdýrum, ungi drengurinn sem yfir þeim stóð hafði gefið þeim hin ýmsu nöfn. Þrjár hænur sem hann kallaði Sillu, Villu og Millu og einn 20 vetra gamall hestur sem hann kallaði Grána gamla. Þar var líka einn gamall geithafur sem sem kallaður var Vindur, einn sísvangur köttur sem hét Viður og tvö hrútlömb sem hétu Allir og Enginn. Jesper tók af sér lambhúshettuna og klóraði sér í hárlubbann, sem bæði var óklipptur og úfinn.
Hann þurfti nú að ákveða hvort bregða skyldi búi og flytja til borgarinnar eða halda áfram búskap þrátt fyrir það að hann væri nú einn á báti. Foreldrar hans, sem urðu bráðkvaddir sömu nóttina, höfðu verið settir í trékassa og ofan í stóra holu í jörðinni sem svo var fyllt með mold. Hann skildi mest lítið í hvernig á öllu þessu stóð því hann hafði aldrei áður verið við jarðaför, hvað þá séð látið fólk. Þau gömlu höfðu sofið lengur en venjulega frameftir morgni þannig að Jesper fór til að vekja þau, en þau vildu bara ekki vakna. Það endaði með því að hann náði í Skjónu gömlu sem bjó á næsta bæ til að hjálpa við að vekja gömlu hjónin, það var þá sem öll lætin byrjuðu. Jesper skildi ekki alveg hvernig þau gömlu gætu nú verið þarna uppi í skýjunum hjá þeim sem kallaður var Guð. Hann hafði jú séð þau sett í trékassa og í holuna í jörðinni sem var svo mokað yfir.

Hann klóraði sér aftur í hárlubbann og leit til himins, sem var bjartur og heiður. Hann hugsaði um Guð og gömlu hjónin, hvar voru þau þegar skýin hverfa og heiðskýrt verður. Þrátt fyrir allt skildi hann þó að þau kæmu ekki aftur, það hafði frú Skjóna útskýrt. Jesper setti aftur á sig lambhúshettuna og reyndi að troða lubbanum undir, því næst klóraði hann sér rækilega í bossann. Hann beygði sig niður og tók upp bandið sem hann hafði fundið hangandi í kirkjubjöllunni. Hann setti bandið um hálsinn á gamla geithafrinum honum Vindi og batt svo endann á því við gamlan girðingarstaur á hlaðinu.

,,Ég leysi þig svo aftur þegar ég kem til baka” sagði Jesper við Vind. Hann hugsaði með sér að einn kynni hann ekki að hugsa um dýrin og bæinn, já og einn vildi hann ekki heldur vera. Kannski gæti hann fengið sér kaupakonu eða vinnumann, nú eða það sem Jesper hélt að væri það allra besta, að fá sér bara sína eigin konu. Konu sem hann átti bara einn, ja eða svona næstum því einn, húsdýrin máttu jú kannski eiga hana svolítið með honum. Jesper lét Sillu, Villu og Millu inn í hænsnakofann og lokaði Alla og Engan inni í fjárhúsinu. Það væri kannski best að skreppa í heimsókn til Skjónu gömlu því hún kunni ráð við öllu. Viður gamli kom labbandi í makindum og nuddaði sér upp við fæturna á Jesper og malaði.

,,Nei Viður þú kemur ekki með í þetta sinn, hún Skjóna gamla þolir ekki loðin dýr” sagði Jesper og rak við inn í hús og lokaði hurðinni á eftir. Hann lét svo dráttarvélina í skjól við hænsnakofann og henti varadekkinu upp í aukasætið. Aukasætið hafði pabbi gamli smíðaði til að geta fylgst með því að Jesper gerði nú engin mistök, Jesper hafði haldið að sætið væri til að taka með aukafarþega í kaupstaðaferð. Því næst lagði Jesper hnakkinn á Grána gamla og setti beislið uppí hann og reið af stað til Skjónu gömlu í Snýtukoti.
Framhald seinna!