Komið öll sæl!

Ég hef oft verið að velta fyrir mér, þegar ég er að lesa sögur eftir ykkur og aðra, um lengd smásagna fyrir netmiðla, eins og huga.is. Ég skrifa mikið og oftar en ekki langar og leiðinlegar sögur, en slíkar sögur, þe. langar, henta illa fyrir miðillinn. Sjálfur hef ég tekið upp á því að klippa þær í sundur og birta kaflana með stuttu millibili, svona eftir því hversu vel mér gengur að skrifa og fara yfir þá. Ég veit til þess að einhver ykkar gera þetta líka. Mér finnst þetta ágæt hugmynd, því að með þessu móti höldum við okkur við smásagnaformið hvað varðar lengd og eins gerum við lesendum okkar kleift að lesa ýtarlega yfir hvern kafla fyrir sig og gagnrýna þá.

Meira en önnur hver smásaga sem birtist hér er, að mínu mati, of stutt til að teljast sem smásaga. Smásögur eru bókmenntaform; ekki eitthvað sem menntaskólakennarar fundu upp til að fá nemendur sína til að vera meira skapandi; upprunni þess er á Sikiley. Nafngift sína, Novella, hefur smásagan þaðan. Smásagan er knappt form, yfirleitt 3-20 bls. á lengd og skv. nafngiftinni er markmið hennar að koma á óvart(Novella þýðir að koma á óvart!). Á Íslandi hefur viss misskilnings gætt, nóvellur hafa þær sögur verið kallaðar sem eru lengri en 35 bls. en ná samt ekki að vera skáldsögur, td. sagan Úngfrúin góða og húsið eftir Halldór Laxness.

Margar sögurnar sem birtast hér eru um margt mjög vel skrifaðar og ná jafnvel upp í nokkuð góðar ,,ritlistar-hæðir", en vantað upp á hvað varðar formið. Essayan er styttri ritsmíð, getur verið skálduð eða sönn og þarf ekki að koma á óvart. Er í raun mun frjálsara form heldur en smásagan. Svo er það náttúrulega örsagan sem er enn knappara form en smásagan, allt frá einni málsgrein að 3 bls.. Sem dæmi um smásögur bendi ég ykkur á að lesa The Sniper eftir Liam ?, Quite early one morning eftir Dylan Thomas, báðar sögurnar gríðarlega vel skrifaðar. Svo hafa að sjálfsögðu verið gefnar út mjög margar smásögur á íslensku, endalaus fjöldi smásagnasafna liggja á hverju bókasafni, svo nú er bara að drífa sig út og ná í nokkrar sögur til að lesa.

En svo kemur að lokum nokkrar spurningar til ykkar. Hugsið þið um formið þegar þið eruð að skrifa? Vitið þið hvernig sagan endar þegar þið byrjið að skrifa hana? Eru allar náttúru,-umhverfis- og persónulýsingar meðvitaðar(hvað á að sýna og hvað á að segja)?

Endilega svarið, helst fullum hálsi ;)