Rigningin hamaðist á rúðunni eins og ég hefði gert henni eitthvað, rúðuþurrkurnar strituðu eins og verkamenn við moka vatninu burt, og höfðu vart undan. Enn einn rigningardagurinn og ekkert sem ég gat gert til að stöðva það, enda var það ekki í mínum verkahring. Allt var grátt og drungalegt, göturnar, fólkið, húsin, bílarnir og himininn sem bjó yfir ótal andlitum var greinilega í fýlu í dag, enda kannski ekkert skrítið. Allir bílarnir sem prumpuðu reyk útum púströrið og upp í himininn, allavega myndi ég skvetta vatni á fólk sem kæmi heim til mín til að reykja án þess að spyrja kóng eða prest. Ef allir myndu nú taka upp á því að ganga í og úr vinnunni, þá myndi sólin kannski láta sjá sig. En það þýðir ekkert að velta sér upp úr því, það er annað mikilvægara um að hugsa núna. Ég verð að láta kíkja á þetta sambandsleysi í miðstöðinni, ég sé ekkert út fyrir móðu, hún getur aldrei verið í lagi þegar ég þarf á henni að halda. Óþolandi. Nei sko, kemur ekki einn trimmhópurinn töltandi þarna niður gangstéttina, allar í eins jogginggalla og með gervibros á vör eins þær séu að leika í auglýsingu fyrir sjónvarpsmarkaðinn. Afhverju horfa þær svona skringilega á mig? Það getur ekki verið svona gaman að hlaupa útí rigningunni og koma svo heim hundblaut, með harðsperrur og asmakast, það hlýtur að vera til skemmtilegra hobbý. Skil ekki svona kerlingar. Hvað er nú þetta sem er þarna á umferðareyjunni, þetta er eins og dauður hundur eða eitthvað. Nei nú sé ég það, þetta bara svartur ruslapoki með grasi í, draslið hérna, gerir þessi unglingavinna aldrei neitt. Það er alveg ótrúlegt hvað þessir krakkar hangsa í þessari vinnu, mesta lagi er einn að vinna í einu og allir hinir að hvetja hann áfram. Ég verð að fara hætta að anda, móðan er búin að leggja allar rúðurnar undir sig, ég sem var að þurrka af þeim. Er þessi miðstöð alveg búin að gefa sig? Ég vissi að þessi bíll væri gallagripur, það á ekki að kaupa notaðan bíl, það er aldrei að vita hver hefur átt hann áður. Þeir ljúga mann fullan þessir bílasalar, þvílíkir glæpamenn. Segja hitt og þetta og eitthvað fræðimál sem enginn skilur og ná að pranga inn á manni svona drasli. Það var nú annað þegar ég átti hinn bílinn, ég hefði aldrei átt að selja hann. Hann leið um göturnar með bros á vör og vildi allt fyrir mann gera. Ég man fyrst þegar ég settist uppí hann, hvað hann tók vel á móti mér, ilmurinn af leðurklæðunum og hvernig sætið faðmaði mig að sér. Hvernig kurrið í vélinni talaði blíðlega til mín og leiddi mig áfram um götunar eins og einkabílstjóri. Hann var alltaf til taks og naut félagsskaps míns sama hvernig veður var jafnt á nóttu og degi. Og ef ég var í vondu skapi gat ég alltaf leitað til hans og talað við hann. Þessi bíll var sko greinilega með sál. Eitthvað annað en þessi skrjóður sem brussast áfram eins hryssa. Og drekkur bensín eins og alkóhólisti, eins og bensínið er dýrt nú til dags. Ég þarf að þurrka aftur móðuna af. Sem betur fer er rigningin að hætta sýnist mér, það skildi þó aldrei vera að það yrði þurrt yfir helgina, jafnvel sól. Kannski ætti ég að skreppa eitthvað útúr bænum, það er þó varla treystandi að fara á þessari bíldruslu. Annars væri ekki svo vitlaust að keyra eitthvað út í buskann og láta það ráðast hvar ég lendi. Ef ég þá kæmist eitthvað áfram í þessari umferð. Íslendingar kunna bara ekki að keyra, sjá allt þetta lið á fínu bílunum sínum og kann enga mannasiði, halda að það eigi heiminn, á álfelgunum sínum og með spojlerana upp í loftið eins og rassgatið. Svo eru bílarnir um það bil að hristast í sundur með þessar hljómflutningsgræjur í botni, er það nema furða að þau séu alltaf að keyra á og útaf. Hvað þyrfti ég annars að taka með mér? vantar mig eitthvað? kannski það sé rétt að koma við í búð áður en ég fer heim. Hringir síminn minn, hvar er hann? ætli hann hafi dottið á gólfið, er hann undir sætinu eða… Svakalega er þessi maður í bílnum við hliðina á mér með stórt nef, hann minnir nú svolítið á gamlan bekkjarfélaga minn, þessi maður er samt miklu feitari en sá sem var með mér í bekk. Hann horfir svo mikið á mig, með þessum líka skelfingar svip. Voðalega gengur umferðin hægt, það hreyfist varla nokkur bíll. Þetta gatnakerfi er ekki gert fyrir alla þessa umferð, það fara fleiri klukkutímar á viku að bíða einhversstaður undir stýri eftir að komast á áfangastað. Enda ekkert skrítið því allir á heimilinu eiga núna bíl, pabbinn á sér bíl, mamman á sér bíl og svo eiga börnin sitthvorn bílinn. Fólk er bara ekki í rónni fyrr en það hefur keypt sér glænýjan bíl og helst tvo, beint uppúr kassanum, og allt saman á himinháum lánum sem það ræður svo ekkert við að borga þegar þar að kemur. Endalaust verið að taka lán til þess að borga annað lán til þess að borga enn annað lán, endalaus vítahringur sem enginn veit hvernig endar. Er það nema furða að þjóðin sé ein taugahrúga. Það liggur við að ég fari að taka strætó eða kannski hjóla, nei ætli það, ég nenni því ekki, ég er ekki þessi íþróttatýpa. Ég gæti aldrei staðið í því að puða og strita eitthvað á hjóli, það er líka svo hallærislegt að vera að hjóla á mínum aldri. Ég man þegar ég var yngri að allir krakkarnir voru alltaf úti að hjóla á kvöldin, og ég hljóp á eftir þeim af því ég átti ekkert hjól. Svo þegar ég fékk lánað gamalt hjól sem afi átti, þá var ég strítt svo mikið af því það var ekkert flott eins allir hinir krakkarnir áttu. Ætli það sé til ennþá, það er örugglega orðið forngripur núna. Myndi örugglega pluma sig vel þjóðminjasafninu. Hvað er ég eiginlega búin að vera lengi stopp hérna. Mér finnst eins ég sé búin að vera á rauðu ljósi í allan dag. Er gatan lokuð eða hvað, eða er þetta enn eitt umferðarslysið. Það skildi þó aldrei verða, og ég þarf að húka hér langt fram eftir degi. Ég hef sko margt þarfara að gera en að bíða hér. Ætti ég að taka með mér svefnpoka, eða ætti ég frekar að gista á einhverju ferðahóteli útá landi. Ég hugsa að það sé nú betra. Edduhótelin, eru þau ekki útum allt land, ég ætti kannski að hringja og tékka á því, bara spurning hvert ég ætti að fara. Hvar er síminn minn, er ég ekki með hann? Ég vona að ég hafi ekki gleymt honum í vinnunni, bíddu var hann ekki að hringja áðan, af hverju finn ég hann ekki? Svakalega er orðið kalt hérna í bílnum, ég er að dofna upp hérna svei mér þá, allt þessari miðstöð að kenna. Bölvað drasl. Sírenuvæl, nú er eitthvað að gerast greinilega, ætli það sé kviknað í? Örugglega einhverjir unglingavinnukrakkar að fikta við að reykja inní einhverjum vinnuskúr, og hugsa ekkert um hvar þeir henda stubbunum. Þessir krakkar nú dags. Það kemur nær sírenuvælið, ætli þetta sé einhversstaðar hérna rétt hjá, ég sé nú engan reyk. Kannski er ekki kviknað í, kannski er þetta ekki slökkviliðsbíll, það hefur kannski orðið slys, bílslys. Ekki yrði ég nú hissa á því. Þarna kemur lögreglubíll á blússandi ferð með bláblikkandi ljósin og með sírenuna í botni. Það er aldeilis verið að flýta sér. Hann stefnir til mín, hvað er þetta, hef ég gert eitthvað af mér? Ég hef ekki gert flugu mein. Það er eins og ég sé eftirlýstur glæpamaður! Þarna kemur líka sjúkrabíll á fullri ferð og allt í botni, það hefur þá orðið slys. Þeir stoppa við bílinn minn. Ætli ég þurfi að færa mig? Ég skil þetta ekki, þeir eru allir komnir útúr bílunum og hlaupa til mín með sjúkrabörurnar. Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur, ég pantaði ekki þetta.
“OPNIÐI BÍLINN! FLJÓTT!”
Hvað er að gerast, ætla þeir að opna hurðina? Á mínum bíl. Afhverju? Nei ekki, hvað…
“VARLEGA, UPPÁ BÖRURNAR!”
Afhverju eru þeir að taka mig? Afhverju get ég ekki sagt neitt? Afhverju get ég ekki hreyft mig? Afhverju eru þeir að binda mig á sjúkrabörurnar? Hvaða blóð er þetta? Hvert eru þeir að fara með mig?
“AF STAÐ, UPPÁ SPÍTALA!”
Er ég dáin? Það getur ekki verið, þetta er einhver misskilningur, ég sem á eftir að gera svo margt…

“Í fréttum er þetta helst: Kona á fertugsaldri lést í hræðilegu bílslysi í dag þegar flutningabíll keyrði á bíl hennar á ofsahraða á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Hún lést samstundis. Konan var ein í bílnum. Ökumaður flutningabílsins slasaðist ekkert. Hún lætur eftir sig tvö uppkomin börn.”